11. tbl. 100. árg. 2014
Ritstjórnargrein
Samkeppnissjóðir Vísinda- og tækniráðs og rannsóknir í heilbrigðis- og lífvísindum
Framfarir í læknisfræði og skyldum greinum byggja á samfellu í virðisaukandi keðju grunnvísinda, klínískra rannsókna og hagnýtingu þeirrar þekkingar sem skapast. Þetta endurspeglast svo í auknum skilningi á sjúkdómum, betri greiningu og nýjum meðferðarúrræðum. Til að viðhalda þessari keðju er mikilvægt að styrkja rannsóknainnviði sem nauðsynlegir eru til að halda úti öflugum grunnrannsóknum.
Vísinda- og tækniráð var stofnað í núverandi mynd með lögum frá Alþingi árið 2003. Ráðið mótar stefnu til þriggja ára í senn og hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum stjórnvalda. Útdeiling á fé úr samkeppnissjóðum byggir á jafningjamati sem er besta leiðin til að efla vísindi og hagnýtingu þekkingar. Um þetta eru langflestir sammála, bæði vísindamenn og stjórnmálamenn.
Í Vísinda- og tækniráði sitja vísindamenn og 6 ráðherrar, meðal annars mennta- og menningarmálaráðherra og forsætisráðherra, sem er formaður ráðsins. Frá upphafi hefur Vísinda- og tækniráð lagt fram metnaðarfullar vísindastefnur þar sem mikilvægi samkeppnissjóða hefur verið í öndvegi. Þrátt fyrir að Vísinda- og tækniráð sé fjölskipað ráðherrum með öllu því pólitíska valdi sem því fylgir, hefur stefnu ráðsins aldrei verið framfylgt eins og lagt er upp með. Sérstaklega hefur gengið illa að efna loforð um að efla samkeppnissjóðina.
Þann 29. ágúst 2014 var kynnt á Rannsóknaþingi Vísinda- og tækniráðs ný úttekt á íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi sem gerð var af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að beiðni íslenskra stjórnvalda. Skýrslan sem ber heitið „Peer review of the Icelandic Research and In-novation System: Time to take responsibility and act!“ er mjög opinská um aðstæður í íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi. Þar vegur einna þyngst gagnrýni á íslensk stjórnvöld fyrir langvarandi aðgerðaleysi í málefnum vísinda og nýsköpunar þar sem kallað er eftir pólitískri ábyrgð og aðgerðum á grunni þeirrar stefnumörkunarvinnu sem unnin er á vegum Vísinda- og tækniráðs. Skýrslan bendir á marga veika punkta í íslenska kerfinu, meðal annars að samkeppnissjóðir séu of veikir með of lágt hlutfall af heildarfjármagni sem rennur hér til vísinda og að styrkupphæðir úr þeim séu of lágar. Í skýrslunni er jafnframt tekið fram að vísindamenn og stjórnmálamenn viti nákvæmlega hvað er að og hverjar lausnirnar séu.
Nú virðast stjórnvöld vera að taka við sér því í nýrri og metnaðarfullri aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014-2016 er stefnt að því að auka framlag til samkeppnissjóða um 2,8 milljarða. Þar af er 800 milljóna króna aukning nú þegar sýnileg í fjárlögum fyrir 2015. Þetta er afar ánægjulegt og mun án efa styrkja rannsókna-umhverfið, ekki síst hjá þeim sem stunda rannsóknir í heilbrigðis- og lífvísindum.
Samkeppnissjóðir Vísinda- og tækniráðs hafa nú sem áður verið öflugustu rannsóknasjóðirnir á Íslandi og hafa vísindamenn í líf- og læknisfræði sótt í þessa sjóði með góðum árangri. Helstu sjóðirnir eru Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður og Innviðasjóður (áður Tækjasjóður). Umræða um eflingu sjóðanna hefur að mestu snúist um Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð en minna um Innviðasjóð þrátt fyrir augljóst mikilvægi hans. Innviðasjóður veitir styrki til uppbyggingar á kjarnaeiningum (core facilites) þar með talið kaupum á rannsóknatækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði ásamt öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framgang og framfarir í rannsóknum. Rannsóknastofnanir á Íslandi hafa litla sem enga fjármuni til að byggja upp rannsóknainnviði fyrir grunnrannsóknir og treysta því á Innviðasjóð. Hlutverk sjóðsins hefur verið útvíkkað en áður veitti sjóðurinn eingöngu styrki til tækjakaupa. Framlög til Innviðasjóðs hafa þó ekkert aukist í áratug og hefur verðgildi hans í raun rýrnað til muna þrátt fyrir að hlutverk sjóðsins hafi verið víkkað og því brýnt að framlög til sjóðsins verði efld á næstu misserum.
Við Lífvísindasetur Háskóla Íslands hafa verið byggðar upp öflugar kjarnaeiningar (lifvisindi.hi.is/core-facilities) með styrkjum úr Innviðasjóði og samstilltu átaki fjölda rannsóknahópa frá mismunandi stofnunum. Þessar kjarnaeiningar miða að því að koma upp sameiginlegri aðstöðu þvert á greinar innan lífvísinda og þvert á stofnanir og búa þannig til frjótt umhverfi og óheft aðgengi vísindamanna að bestu mögulegri aðstöðu hverju sinni. Þessar kjarnaeiningar hafa nú þegar sannað gildi sitt og og leitt til öflugri rannsókna, aukinna samskipta vísindamanna og hagræðingu í kringum aðferðafræði, tækjakaup og rekstur. Meðal kjarnaeininga Lífvísindaseturs er smásjáreining, frumuflæðieining, frumuræktunareining, genatjáningareining, sviperfða/-utangena-eining og svipgerðargreiningarsetur. Þessar einingar eru staðsettar á ólíkum stöðum eins og á Landspítala, í Læknagarði, í Öskju, á Keldum og í Háskólanum í Reykjavík.
Öflugir rannsóknainnviðir eru gríðarlega mikilvægir og gera aðgengi vísindamanna að bestu mögulegu aðstöðu greiða, óháð því hvaða stofnun menn tilheyra. Til að rannsóknainnviðir sem þessir geti náð að blómstra og eflast er nauðsynlegt að hlúð verði að Innviðasjóði og hann efldur til muna á næstu misserum.