10. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 6. pistill. Skynsamleg notkun lyfja

Forðalyf eru venjulega þróuð í tvenns konar tilgangi. Til að gefa megi lyfið sjaldnar og til að draga úr aukaverkunum. Í flestum tilfellum er miðað við að hæfilegt sé að gefa lyfið einu sinni á dag sem getur bætt meðferðarheldni. Forðalyf eins og Ritalin Uno, Concerta og Methylphenidate Sandoz eru hönnuð til að takast inn að morgni og endast allan daginn. Einstaka sjúklingar þola illa að taka allan dagsskammtinn að morgni og það má leysa með því að skipta dagsskammtinum milli morguns og hádegis. Að bæta við þriðja skammtinum síðdegis er tæplega réttlætanlegt og útheimtir sérstakar skýringar.

Hvenær sólarhrings?

Dægursveiflulyfjafræði (chronopharmacology, chronotherapeutics) fjallar um það hvenær sólarhrings best er að gefa tiltekið lyf til að fá besta verkun og minnst af aukaverkunum. Vitað er að verkanir, lyfjahvörf og aukaverkanir margra lyfja eru háðar dægursveiflu. Þar kemur margt til og má nefna dægursveiflu í tjáningu viðtaka, hormónastarfsemi, frásogi, tjáningu ensíma, nýrnastarfsemi og fleira. Það getur skipt miklu fyrir árangur meðferðar og aukaverkanir hvenær dags sum lyf eru gefin og má þar nefna sem dæmi svefnlyf, örvandi lyf, barkstera, sum krabbameinslyf og kalsíumgangaloka. Stundum er hægt að fletta þessum upplýsingum upp í handbókum en stundum þarf að prófa sig áfram. Ein aukaverkun af rangri tímasetningu á töku örvandi lyfja er svefnleysi og í kjölfarið óþörf notkun svefnlyfja.

Sérlyfjaskráin

Líta má á Sérlyfjaskrána sem eins konar klínískar leiðbeiningar. Hana er að finna á aðgengilegu formi á vef Lyfjastofnunar og fletta má upp í henni á ýmsan hátt. Hægt er að fletta upp eftir samheiti, sérheiti eða ATC-flokki og hægt er að fá upp lista yfir lyf með sambærilega verkun. Í samantekt um eiginleika (SmPC) eru upplýsingar sem eru vandlega unnar og yfirfarnar af sérfræðingum hjá Lyfjastofnun eða Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og þessum upplýsingum á að vera hægt að treysta. Heilbrigðisstarfsmenn sem vinna með lyf eru hvattir til að nýta sér Sérlyfjaskrána til hins ýtrasta.

Lyf með svipaða verkun

Stundum eru gefin saman tvö eða jafnvel fleiri lyf með sambærilega verkun. Í mörgum tilfellum er ávinningurinn vafasamur. Stundum er röksemdafærslan sú að verkun annars lyfsins komi fljótt og standi stutt en verkun hins lyfsins standi lengur. Þetta er oftast byggt á hæpnum grunni. Svipað má segja um það þegar gefin eru tvö lyf með svipaða verkun í þeim tilgangi að draga úr hættu á þolmyndun og/eða ávana. Sem dæmi um þetta síðasta má taka róandi-, kvíðastillandi- og svefnlyf (ATC-flokkana N05B og N05C). Öll þessi lyf hafa í raun svipaða verkun á boðefni og viðtaka í miðtaugakerfinu og telja má víst að ávanabinding og þolmyndun gerist með sama hætti.

Vélskömmtun, skammtaöskjur
og meðferðarsamband

Vélskömmtun lyfja getur verið góð lausn fyrir vissa sjúklinga, einkum aldraða, fatlaða eða aðra sem eiga erfitt með daglegar athafnir. Sama gildir um afgreiðslu í skammtaöskjur. Þegar skömmtunarlyfseðill er gefinn út gildir hann í eitt ár nema annað sé tekið fram og mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir því. Nokkuð hefur borið á því að meðferðarsambandi sé ábótavant og skömmtun jafnvel endurnýjuð ár eftir ár án þess að ástand sjúklings sé kannað á fullnægjandi hátt. Einnig er nokkuð um að ávanabindandi lyf séu afgreidd samtímis í skömmtun og með stökum lyfseðlum en slíkt getur verið vísbending um lyfjafíkn eða sölu lyfja. Sum lyf á ekki að nota nema í takmarkaðan tíma en fyrir kemur  að þau eru sett í vélskömmtun eða ávísað endurtekið í langan tíma. Á sumum hjúkrunarheimilum hefur verið ráðist í átak til að taka á þessu og má nefna að sjúklingum fækkaði úr 987 einstaklingum árið 2011 í 833 árið 2013 sem skráðir voru í vélskömmtun fyrir zópíklón.

Gleymast sjúklingar á lyfjum?

Þekkt eru fjölmörg dæmi um að sjúklingar „gleymast“ á lyfjum. Þetta gerist meðal annars á þann hátt að lyf er gefið í sjúkrahúslegu, eftir rannsókn eða aðgerð. Sjúklingurinn er síðan útskrifaður á lyfinu til hálfs eða heils árs og að þeim tíma liðnum er lyfjaávísunin endurnýjuð án þess að fari fram endurskoðun á þörf fyrir lyfið. Þetta getur einnig gerst með ýmsum öðrum hætti. Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk sé vakandi fyrir þessu, heildarendurskoðun lyfjagjafa sé gerð reglulega en með því móti er hægt að spara fjármuni og forða sjúklingum frá ýmis konar óþægindum.

Töflur muldar

Sumir sjúklingar eiga erfitt með að gleypa töflur og hylki og stundum er hægt að mylja töflur eða opna hylki til að auðvelda inntöku. Þetta má þó alls ekki gera nema viðkomandi hafi öruggar upplýsingar um að það megi. Þegar um er að ræða forða-lyf eða lyf sem eru varin fyrir magasýru má sjaldan meðhöndla töflur og hylki á þennan hátt, að öðrum kosti getur slík meðferð á lyfjunum leitt til þess að lyfið missi virkni sína, tapi forðavirkninni eða fram komi aukaverkanir til dæmis frá vélinda eða maga. Upplýsingar um þetta er oftast að finna í Sérlyfjaskrá.

Lyf eru öflug tæki til lækninga en geta verið hættuleg ef þau eru ekki notuð af skynsemi.

Embætti landlæknis hlutast yfirleitt ekki til um meðferð einstakra sjúklinga en veitir upplýsingar og fræðslu eins og gert er í þessum pistlum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica