09. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Ísland hentar vel til býflugnaræktar

Að halda býflugur er fremur nýleg búgrein á Íslandi og ekki margir sem stunda hana en þó hafa nær 100 manns látið heillast og eru félagar í Býi, Býflugnaræktendafélagi Íslands. Þar eru tveir læknar fremstir í flokki og manna fróðastir um býflugnarækt. Egill Rafn Sigurgeirsson heilsugæslulæknir hefur gegnt formennsku í félaginu frá stofnun þess árið 2000 og haldið námskeið í býflugnarækt fyrir nýliða í greininni og Torbjörn Andersen heimilislæknir hefur setið í stjórn félagsins og haldið utan um ýmsa þætti starfsins.


Hér er það blaðamaðurinn sem heldur á nokkur hundruð býflugum og hefði ekki trúað því að óreyndu
að slíkt ætti fyrir honum að liggja.


Reyndar hafði blaðamaður Læknablaðsins aldrei velt fyrir sér býflugnarækt og var satt að segja ekki sérlega upprifinn af hugmyndinni um að komast í návígi við þúsundir slíkra sem gættu bús og barna af mikilli einurð. Upphaflega var bent á Gísla Vigfússon svæfingalækni sem býflugnaræktanda og viðmælanda. Hann kvaðst vera byrjandi í greininni og enginn sérfræðingur á þessu sviði.

„Talaðu við Egil eða Torbjörn. Þeir vita manna mest um býflugur á Íslandi.“

Torbjörn varð vel við beiðni um samtal um býflugnarækt en setti það skilyrði að blaðamaður fylgdi honum í eftirlitsferð austur í Grímsnes þar sem hann væri með 28 bú og þyrfti að hyggja að þeim.

„Þá geturðu líka séð býflugurnar vinna, skoðað búin og tekið myndir af þessu öllu saman í návígi.“

Hvað eru þetta sirka margar býflugur?

„Það eru svona 20-50.000 í hverju búi.”  

Er ég semsagt að fara að skoða 800.000 býflugur í návígi?

„Já, svona gróft áætlað.”

Hmmm, já það verður áreiðanlega mjög skemmtilegt.

Óþarfi að greina frá því að blaðamaður þjáðist af fóbíu fyrir randaflugum í æsku og komst ekki yfir þann ótta fyrr en hann horfðist í augu við reiðan geitung og áttaði sig á því að hann var í rauninni mjög lítill og ástæðulaust að óttast kvikindið.


Hver fluga fer í allt að 10 ferðir eftir blómasafa á hverjum degi að sögn Torbjörns. Þær fara inn um
rifu neðst á búinu, kassanum, og finna síðan rétta staðinn til að losa sig við farminn. Magnið í hverri
ferð er örlítið en mörg þúsund flugur í 10 ferðum á dag skila talsverðu dagsverki.


Sérstaða hunangsbýflugunnar

Á leiðinni austur í Grímsnes útskýrir Torbjörn síðan hver reginmunur er á humlum, geitungum og hunangsbýflugum því þó þetta séu vissulega allt fljúgandi skordýr er lífshlaup þeirra gerólíkt.

„Humlurnar eru þessar stóru svörtu og gulu hlussur sem fara á kreik á vorin eftir vetrardvala. Þetta eru drottningar sem leita sér að holu til að gera bú sitt í og hefja þar varp og koma sér upp vinnuflugum sem safna blómasafa til að fóðra lirfurnar yfir sumartímann. Humlan safnar ekki vetrarforða þar sem allar vinnuflugurnar drepast á haustin og drottningarnar eru þær einu sem lifa af veturinn. Geitungar eru ræningjar og alætur, þeir safna ekki blómasafa en eru hrifnir af öllu sætu og sækja því meira í mat og drykk hjá mannfólkinu.

Síðan er hunangsbýflugan alveg sér á báti, lífshættir hennar og atferli er mjög sérstakt. Í búinu er fullkomin verkaskipting og hver einasta fluga er hluti af heild þannig að líta má á búið sem eina lífveru þar sem afkoman er undir því komin að allir einstaklingarnir sinni sínu hlutverki. Yfir veturinn hættir ungviðaframleiðslan og hitastigið lækkar mikið. Þernurnar mynda klasa utan um drottninguna og halda um það bil 25 stiga hita í kjarna klasans. Ekki er um raunverulegt dvalaástand að ræða. Búið er því tilbúið að hefja hunangssöfnun um leið og hitastigið úti hækkar og fyrstu plöntur blómgast að vorinu.“

Hrifning Torbjörns á býflugum er smitandi og ég er næstum því farinn að hlakka til að hitta þessar vinnusömu og einbeittu flugur eftir ökuferðina austur í Grímsnes. Þó er ein spurning sem liggur í loftinu og mikilvægt að fá svar við:

Stinga þær?

„Já. En bara ef þú truflar þær í vinnunni. Ef þú gætir þess að koma búinu ekki í uppnám láta þær þig alveg í friði. Þetta eru fremur gæfar flugur og ekki mjög árásargjarnar. Það er nokkuð þægilegt að umgangast þær.“

Hefur þú verið stunginn?

„Já ótal sinnum. Svo oft reyndar að ég fékk ofnæmi fyrir býflugnaeitri. Ég hef verið í afnæmingu undanfarin 5 ár en án þess gæti ég ekki stundað býflugnarækt. Býflugnaeitur er ansi sterkt og virðist kveikja mjög hressilega á ónæmiskerfi líkamans. Það er ekki óalgengt að býflugnabændur fái ofnæmi fyrir stungunum.“

Torbjörn er fæddur og uppalinn í Noregi og kom hingað til Íslands árið 1987 til náms í læknisfræði við læknadeild HÍ.

„Á þeim tíma voru nokkur pláss frátekin í læknadeildinni  fyrir norska stúdenta og ég var einn af þeim. Eftir að hafa lokið námi og starfað hér í tvö ár flutti ég með fjölskylduna mína til Björgvinjar og þar bjuggum við í 11 ár. Á þeim tíma lauk ég sérnámi í heimilislækningum en árið 2008 fluttumst við aftur hingað.“

Torbjörn er einn 12 heimilislækna í Reykjavík sem starfa sjálfstætt en hann tók við samlagi af Ólafi Ingibjörnssyni. „Ég kann vel við þetta fyrirkomulag og veit að margir kollegar mínir vildu gjarnan starfa sjálfstætt líka.“

Hann dregur enga dul á að býflugnaræktin á hug hans allan. „Ég gæti ekki búið hér á Íslandi ef ekki væri hægt að halda býflugur. Staðreyndin er hins vegar sú að Ísland er mjög vel fallið til býflugnaræktar. Örðugleikar margra við að halda búunum lifandi yfir veturinn stafa fyrst og fremst af kunnáttuleysi og takmarkaðri þekkingu fremur en ytri aðstæðum. Maður þarf líka að fylgjast vel með náttúrunni yfir sumartímann, frá því snemma á vorin og fram á haustið, því býflugurnar leita í þær plöntur sem eru í blómgun á hverjum tíma. Þetta gerir mann svo vakandi fyrir lífríkinu í náttúrunni, veðrinu og öllu því sem hefur áhrif á starf býflugnanna.“
Hænast ekki að eigandanum

Torbjörn ólst upp við býflugnarækt á æskuheimili sínu í Noregi og heillaðist mjög af þessu.

„Áhugi minn á líffræði og náttúrufræði ýtti undir þetta og reyndar er mjög mikilvægt fyrir býflugnaræktendur að skilja líffræði býflugnanna og kynna sér hana því hún er mjög frábrugðin því sem við þekkjum. Býflugur eru mjög ólíkar spendýrum sem lífverur og það er ekki hægt að komast langt í býflugnarækt á innsæinu einu saman. Það verður að lesa sér til og kynna sér vandlega hvernig býflugnabúin eru byggð upp, á hverju þau þrífast og hvað getur valdið hruni og dauða búsins.“

Þetta má sennilega skilja þannig að býflugur hænist ekki að eigandanum. Það myndast ekki tengsl þar á milli eins og við hefðbundið húsdýrahald. Torbjörn hlær að þessari hugmynd. „Nei, þær þekkja mig ekki frekar en þig. Þær hafa engan áhuga á öðru en því sem þær eru að gera. En það er heillandi að fylgjast með því hvernig búið starfar sem ein heild og ræktandinn getur aðstoðað búið við að ná sem bestum afköstum með því að fylgjast vel með og grípa inn í á réttum tímapunkti.“

Yfir sumartímann fylgir því talsverð viðvera að halda býflugur. Torbjörn kveðst hyggja að búunum nánast daglega þegar starfsemi þeirra er í hámarki því inngripin verða að gerast á hárréttum tíma. „Búin ná hámarksstærð á mjög skömmum tíma og þá gerist það sem við köllum sverm. Það er þegar gamla drottningin tekur sig upp með hluta af vinnuflugunum og yfirgefur búið og stofnar nýtt bú. Við tekur ung drottning sem er tilbúin að hefja varp og halda áfram með gamla búið. Hún fær því afskaplega ríkulegan heimanmund, heilt bú í fullri starfsemi og ef allt gengur að óskum heldur það áfram eins og ekkert hafi í skorist. Svermurinn með gömlu drottninguna í fararbroddi kemur sér fyrir annars staðar, stofnar nýtt bú sem er mjög áhættusamt. Býflugnaræktin snýst að töluverðu leyti um þetta. Að fjölga búunum með því að grípa inn í þetta ferli og ná sverminum áður en hann yfirgefur búið og koma honum fyrir í nýju búi. Það er slæmt að missa sverminn út úr búinu. Býflugnasvermur samanstendur af um 20.000 býflugum og ef maður missir hann kemur það niður á hunangssöfnuninni. Slíkir svermar eru mjög líklegir til að deyja vegna þess að þeir finna ekki hentugan bústað í íslenskri náttúru. Maður þarf því stöðugt að fylgjast með og vera mjög vakandi fyrir því á hvaða þroskastigi býsamfélagið er statt.“

Það kemur blaðamanni á óvart að ekki er nauðsynlegt að eiga land til að halda býflugur. Fimmtán af búunum sem Torbjörn heldur í Grímsnesinu eru í landi Skógræktar Árnesinga en einnig er hann með 13 bú við sumarbústað sinn og fjögur við Hafravatn í nágrenni Reykjavíkur. Búin í Grímsnesinu eru hluti af verkefni sem Torbjörn og Egill hafa umsjón með og felst í því að koma upp nýjum búum til að selja byrjendum í greininni. Til þessa hafa öll ný bú verið flutt inn erlendis frá en nú á semsagt að gera tilraun til að verða sjálfbær að nokkru leyti.

„Ég byrjaði með 5 bú í Elliðaárdalnum rétt hjá Árbæjarsafninu en gafst upp á því vegna þess að flugurnar drápust af eitrinu sem fólk lætur úða garða sína með. Ég hef aldrei fengið kvartanir vegna flugnanna enda gera þær engum neitt.“
  Torbjörn heldur hér á ramma með vaxköku þar sem flugurnar geyma lirfur og hunang í sex-
  trendum klefum. Þegar klefinn er fullur er honum lokað með vaxi.


Hunang er heilnæmur orkugjafi

Tilgangur býflugnaræktar hérlendis snýst aðallega um hunangið, fæðu guðanna, þessa merkilegu afurð sem um aldir var öflugur gjaldmiðill, heilnæmur orkugjafi úr ríki náttúrunnar, sneisafullt af næringarefnum og hefur auk þess ýmsa aðra eiginleika sem nýttir hafa verið um aldir.

„Hunang er í rauninni eini sykurinn sem maður ætti að láta inn fyrir sínar varir. Hvítur sykur er eitur, iðnaðarvara sem í mínum augum er ekki mannamatur. Hvert bú gefur af sér 10-50 kíló af hunangi á ári. Þetta er munaðarvara og verðlagið er eftir því en vissulega má fá ágætt hunang í verslunum á lægra verði en það íslenska. Ég myndi þó ráðleggja fólki að sneiða hjá hunangi sem upprunnið er í Asíulöndum og sérstaklega Kína, en þar er framleiðslan byggð á því að fóðra flugurnar á sykurlegi sem þær breyta í falskt hunang, allt önnur afurð en það hunang sem fæst úr blómasafa í óspilltri náttúru.“

Torbjörn er ómyrkur í máli þegar talið berst að heilnæmu mataræði og heilbrigðum lífsháttum. „Þetta er ekkert flókið en vefst samt alveg ótrúlega fyrir mörgum. Fólk innbyrðir gríðarlegt magn af sykri og þá sérstaklega frúktósa sem er algengasta sætuefnið í gosdrykkjum og iðnaðarframleiddum matvælum. Frúktósi er erfitt efni fyrir mannslíkamann að vinna úr í miklu magni og lifrin brýtur hann niður á svipaðan hátt og alkóhól og breytir honum í fitu. Hunang aftur á móti samanstendur af mörgum mismunandi sykrungum og inniheldur auk þess fjölmörg önnur verðmæt næringarefni. Sjálfur borða ég bláber og hunang á hverjum degi og verður gott af.“

Hunang var um aldir notað sem bakteríudrepandi smyrsl fyrir sýkt sár fyrir uppgötvun pensilíns. „Hunangið er enn notað í þessu skyni og gefur góða raun við ákveðnar sýkingar. Þá hafa einnig verið rannsökuð mjög ítarlega bakteríudrepandi áhrif propolis eða troðkíttis sem býflugurnar safna og nota til að verja búin gegn örverum. Það er enn ein afurðin sem býflugurnar gefa af sér en svo má ekki gleyma vaxinu sem notað hefur verið um aldir í smyrsli, til kertagerðar, sem vatnsvörn á leður og léreft  auk ýmis annars gagns sem hafa má af því.“

Á heimleiðinni hefur afstaða blaðamannsins snúist svo kirfilega að hann spyr að lokum hvað kosti að koma sér upp býflugnabúi.

„Það er hægt að byrja fyrir 150-200.000 krónur ef allt er talið. Það er þó ekki hægt að fá keypt bú nema fara fyrst á námskeið enda er ævintýrið dæmt til að misheppnast án þess. En með réttum undirbúningi er engin ástæða til að búast við öðru en góðum árangri.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica