09. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknablaðið 100 ára. „Við vildum að Læknablaðið stæðist samanburð við alþjóðleg fræðirit“ - segir Vilhjálmur Rafnsson, ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins 1993-2005

Áfram skal haldið við að taka hús á ritstjórum Læknablaðsins í gegnum tíðina. Eins og fram kom í máli Arnar Bjarnasonar í síðasta blaði lét hann af starfi ritstjóra Læknablaðsins árið 1993. Nokkru áður hafði hann veitt nýjan mann í ritstjórnina sem tók við keflinu af Erni. Sá heitir Vilhjálmur Rafnsson. Hann var ritstjóri í 12 ár en starfar sem forstöðumaður heilbrigðis- og faraldsfræðisviðs læknadeildar Háskóla Íslands. Hann hefur aðsetur í Stapa sem áður hýsti Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut og þangað sótti blaðamaður hann heim.

Vilhjálmur segist muna hvernig störf hans fyrir blaðið hófust.

„Ég hafði skrifað töluvert í blaðið, þar á meðal komment á fræðilegar greinar þar sem ég gagnrýndi oft framsetningu þeirra. Þetta var nýjung í Læknablaðinu, menn hrukku dálítið við en Örn hafði gaman af þessu og bauð mér að setjast í ritstjórn. Það var gjarnan þannig með menn sem voru virkir í skrifum í blaðið að þeim var boðið að vera með. Það æxlaðist svo til að ég tók við af Erni sem ábyrgðarmaður og ritstjóri árið 1993.“


Vilhjálmur á skrifstofu sinni í Háskóla Íslands. Mynd: Hávar Sigurjónsson.

Galopinn vettvangur

Vilhjálmur tók þátt í að flytja prentun blaðsins aftur heim frá Danmörku en það var gert í ritstjóratíð Vilhjálms.

„Já, það var mikilvægt skref í endurreisn blaðsins að færa prentunina til Danmerkur á sínum tíma. En þegar komið var fram yfir 1990 var þetta fyrirkomulag orðið dýrt og erfitt viðureignar. Við leituðum tilboða í prentun hérlendis og héldum svo áfram að leita leiða til að hafa framleiðsluna sem ódýrasta. Tekjur blaðsins voru fyrst og fremst auglýsingatekjur, en áskriftartekjur voru einnig nokkrar. Ég flutti á hverjum aðalfundi Læknafélags Íslands skýrslu um útgáfu blaðsins og afkoman fór stöðugt batnandi. Blaðið skilaði töluverðum hagnaði á þessum árum og læknafélögin þénuðu ágætlega á þessari útgáfu.

Ritstjórnarvinnan var ólaunuð en undir lokin var farið að greiða mér laun fyrir að vera ábyrgðarmaður blaðsins og ritstjóri. En það náði aldrei að svara til þeirrar vinnu sem lögð var í starfið.

Á þessum árum voru í ritstjórninni prófessorar og verðandi prófessorar, -nestorar í læknisfræði sem margir höfðu töluverða reynslu af því að birta greinar á alþjóðlegum vettvangi. Við vildum að Læknablaðið stæðist samanburð við alþjóðleg fræðirit. Þess vegna hafði verið settur upp ritrýnisferill sem varð ákveðnari með tímanum. Við gerðum til dæmis strangar kröfur um að ritrýndar greinar sem birtust segðu frá nýjum rannsóknum lækna. Ef menn vildu segja tíðindi úr heimi læknisfræðinnar voru greinar þeirra ekki ritrýndar og birtust í umræðuhluta blaðsins. Þar var galopinn vettvangur fyrir skoðanaskipti lækna um alla skapaða hluti.

Við tókum upp þann sið að panta ritstjórnargreinar frá læknum. Þær tengdust annaðhvort einhverri fræðigrein í blaðinu eða fjölluðu um mál sem var í gangi í samfélaginu og varðaði heilbrigðismál. Þær voru ekki ritrýndar, enda var ekki um að ræða fræðigreinar heldur frekar heilsupólitískar og túlkuðu þá sjónarmið lækna.“

Námskeið um ritrýni

„Ritrýniferillinn var okkur mikilvægur og við Birna Þórðardóttir ritstjórnarfulltrúi fórum til Englands þar sem við sóttum námskeið á vegum breska læknablaðsins um það hvernig ritstjórn og starfsmenn ættu að haga sér við ritrýnina. Ég man að ritstjórinn sem stóð fyrir þessu námskeiði fjallaði um það í blaði sínu og sagði það hafa komið sér á óvart að hitta lækna og prófessora héðan og þaðan úr heiminum sem unnu að því í frístundum, nánast í sjálfboðavinnu, að gefa út fræðirit sem möluðu gull fyrir eigendur sína, lækna- og sérgreinafélögin.

Á þessu námskeiði var meðal annars rætt talsvert um það hvernig ný blöð kæmust inn í skráningarkerfin, gagnagrunnana sem voru náttúrlega mjög mikilvægir fyrir öll fræðileg læknablöð. Læknablaðið hafði áður verið á Medline en dottið út, kannski vegna þess að gæðin höfðu minnkað eða við ekki sinnt skráningu nógu vel. En þarna fengum við hugmyndir um það hvernig við gætum komist aftur þangað inn. Sá ferill tók allmörg ár og þegar við komumst inn á Medline opnuðust ýmis önnur gagnakerfi fyrir greinum úr blaðinu. Þetta er mikilvægt, til dæmis í ljósi þess að Háskóli Íslands gerir kröfur um að menn skrái greinar sínar inn í hátt metna gagnagrunna.

Við þurftum að gera nokkrar atrennur að Medline/Pubmed. Við vorum frá undarlegu málsvæði og allt sem ekki var á ensku var litið hornauga. Þó voru systurblöð okkar á Norðurlöndum þarna inni. Lykillinn að því að komast inn var að geta sýnt fram á að ritrýniferillinn væri í samræmi við góðar reglur vísindalegra blaða, svo sem að hluti ferilsins færi fram utan ritstjórnar, það væri ekki bara sú fámenna klíka sem tæki ákvarðanir um hvaða greinar mættu birtast.

– Því fylgir væntanlega töluverð vinna að viðhalda þessu.

„Já, það þurfti að fylgjast vel með því að ritrýnin virkaði rétt. Við þurftum að vanda valið á ritrýnum og fylgjast með því að þeir ynnu vinnu sína hratt og vel. Það gat verið dálítið snúið því margir eru viðkvæmir fyrir gagnrýni eins og gengur. Sumir ritrýnar gátu verið dálitlir hrossabrestir og þá varð að sía frá verstu ummælin áður en höfundur fékk að sjá þau. Við urðum að taka tillit til þess að fræðigreinarnar byggðust oftar en ekki á margra mánaða og jafnvel ára vinnu og yfirlegu. Þess vegna skipti máli að ritrýnin sem höfundar fengju væri málefnaleg og meiddi þá ekki. Þetta getur verið töluverður línudans því ritrýnirinn er valinn af ritstjórn og hún getur ekki gengið framhjá því sem hann segir.“

Leitin að hlutlausum ritrýni

Um ritrýni læknablaða er farið eftir reglum sem settar hafa verið fram af svonefndum Vancouver-hópi en í honum sitja ritstjórar þekktustu læknablaða í heimi.

„Já, alþjóðleg samtök ritstjórna fræðirita hafa gert þessar vinnureglur að sínum. Í þeim er mikil áhersla lögð á að ritrýnar séu óháðir efninu sem þeir fjalla um. Þess vegna þarf að gæta að því við val á ritrýnum að efni greinar stangist ekki á við hagsmuni þeirra eða yfirlýstar skoðanir.

Það sama gildir um ritstjórnina, hún verður að hafa siðferðisþrek til þess að segja sig frá málum sem hún er tengd. Þetta kom oft fyrir, því ritstjórnarmenn voru sjálfir virkir í rannsóknum og skrifum. Einnig gat verið snúið í fámennum sérgreinum að finna ritrýna sem ekki tengdust höfundum eða efni greina. Við leituðum stundum eftir ritrýnum sem starfa í útlöndum en það var að sjálfsögðu háð því að viðkomandi gæti lesið og skrifað íslensku.

Sem betur fer er mikið af íslenskum læknum sem starfa erlendis og margir þeirra eru með reynslu af því að birta greinar í erlendum fræðiritum. Þeir þekkja því ritrýniferilinn vel, sem er nauðsynlegt fyrir ritrýni. Ritrýnirinn fær ekki borgað og það eina sem hann fær fyrir ómakið er að aðrir lesa yfir hans eigin greinar. Hann gerir þetta fyrir fræðasamfélagið í því skyni að bæta skrifin og rannsóknirnar. Þetta er ekki til að bekkjast við fólk heldur leiða vísindin fram á við. Oft koma ritrýnar auga á eitthvað sem höfundar eru blindir fyrir.

Ýmsir hafa illan bifur á þessari ritrýni og hún hefur stöðugt verið til umræðu meðal vísindamanna. En þótt hún sé oft gagnrýnd þá er ekkert annað til sem er betra. Það eru gerðar miklar rannsóknir á ritrýni. Er hún „blinduð“ sem kallað er eða veit ritrýnirinn hver höfundurinn er? Það hafa líka verið gerðar tilraunir með opið ritrýniferli þar sem höfundurinn veit hver ritrýnirinn er og í sumum blöðum er farið að birta ritrýnina með greininni. Þá þurfa menn að hemja tilfinningar sínar af því þeir vita af birtingu.

Við fórum ekki út í þessar aðferðir. Við reyndum að blinda ritrýni eins og framast var kostur en litum stöku sinnum framhjá því að menn þekktust. Vissulega gat efni greinarinnar komið upp um höfunda en þá reyndum við að fá ritrýna úr skyldri grein. Sameining spítalanna gerði þetta óneitanlega erfiðara því þótt ekki sé langt á milli Fossvogs og Hringbrautar skapaði sá spölur ákveðinn aðskilnað sem gat komið sér vel.“


Myndina tók Arnaldur Halldórsson haustið 2004 í 90 ára afmælisfagnaði Læknablaðsins á
ritstjórnarskrifstofunni í Hlíðasmára 8 í Kópavogi. Kristinn Tómasson, Vilhjálmur og Sigurður Thorlacius.

Heiðarleiki í vísindum

Í Vancouver-reglunum er sérstaklega tekið fram að ritrýnar eigi að vera heiðarlegir, þeir megi ekki stela hugmyndum úr þeim greinum sem þeir fá til yfirlestrar. Þetta kann að hljóma undarlega en áhersla á þetta hefur vaxið töluvert á síðustu árum.

„Já, þetta er sérstakur kafli sem við þurfum að huga að hér á Íslandi. Svindl í vísindum, bæði þjófnaður á texta og greinum og hreinar falsanir á niðurstöðum, eiga sér því miður stundum stað. Ég kom heim úr námi um 1980 og hafði þá kynnst eftirlits- og siðanefndum sem settar höfðu verið á legg í öðrum löndum. Hér á landi var þá hvorki til Vísindasiðanefnd né Persónuvernd en þær komu til sögunnar á næstu árum. Við vorum því nokkrum árum á eftir nágrannaþjóðum okkar hvað þetta varðar. Við vorum svo fá og saklaus. Fyrsta siðanefndin sem ég fékk til að lesa yfir rannsóknaráætlun var Vísindasiðanefnd hjúkrunarfræðinga. Svo byrjaði landlæknir með siðanefnd en loks kom ráðuneytið til skjalanna og setti Vísindasiðanefnd á stofn.

En við erum samt vanbúin til að mæta því ef upp koma grunsemdir um misferli eða svindl í vísindum. Nágrannaþjóðir okkar hafa sett upp nefndir til að taka á slíkum málum og þær fylgja ákveðnu kerfi við að rannsaka þau og taka á þeim. Þessar nefndir hafa oft þurft að bregðast við, því þótt vísindin hafi það markmið að leita sannleikans er alltaf hætta á að einhverjir vilji brjóta gegn reglunum, stytta sér leið. Það sem veldur er oft sú kvöð sem margir vísindamenn finna fyrir að þeir verða að birta sem mest og í sem bestum blöðum. Þess vegna hafa stærstu málin komið upp í frægustu blöðunum.“

Læknablaðið mikilvægur æfingaritvöllur

– En hvernig gekk að fá lækna til að starfa í ritstjórninni?

„Það var aldrei erfitt að fá menn til að starfa í ritnefnd. Þegar ég kom til starfa var búið að leggja af þann sið að LÍ og LR skipuðu fulltrúa sína í ritstjórn. Ritstjórnin endurnýjaði sig sjálf og það gekk mjög vel. Við reyndum að hafa það að leiðarljósi að menn væru reyndir í fræðilegum skrifum. Ég man að í ritstjórninni sátu prófessorar í lyflækningum og skurðlækningum og fleiri. Þeir og aðrir í ritstjórn hvöttu lækna til að skrifa fræðigreinar og gerðust oft meðhöfundar yngri manna, enda var Læknablaðið og er mikilvægur æfingaritvöllur fyrir fræðimenn. Við fengum margar greinar sendar til birtingar sem við sáum svo nokkru síðar á ensku í útlendum fræðiritum. Strangt til tekið áttu höfundar að fá leyfi fyrir slíkri tvíbirtingu en við tókum sjaldnast hart á því.

Margt af því sem verið er að rannsaka á Íslandi á að koma fyrir augu íslenskra lesenda á íslensku. Þetta eru rannsóknir á íslensku fólki á Íslandi, en vissulega hafa þær oft skírskotanir til annarra þjóða og hópa, enda sjúkdómarnir þeir sömu og hrjá aðra. Þess vegna á reynsla sem við getum lýst erindi til annarra og því sjálfsagt að þær birtist á alþjóðlegum vettvangi, á ensku. Læknablaðið hefur lengi birt enskan útdrátt en við héldum þeirri hefð að birta greinar á íslensku. Um það hefur verið stöðug umræða, hvort ekki væri best að birta bara allt á ensku. Ég tek ekki undir það vegna þess að þá missa menn ákveðna skírskotun til íslensks almennings og íslenska fræðasviðsins. Læknar og aðrir vísindamenn þurfa að geta talað saman á íslensku og notað íslensk hugtök um flókin atriði. Sjúklingarnir eiga líka fullan rétt á því. Þess vegna er Læknablaðið mikilvægt.“

Samskipti blaðs og eigenda

Samskipti eigenda og ritstjóra blaða geta verið stormasöm eins og við Vilhjálmur vitum báðir. Eins og lesendum Læknablaðsins er flestum kunnugt var viðskilnaður Vilhjálms ekki eins og hann hefði sjálfur kosið, en hann segist aldrei hafa orðið fyrir neinum þrýstingi frá eigendum blaðsins, forystumönnum læknafélaganna, fyrr en það mál kom upp sem varð til þess að Vilhjálmur lét af störfum.

„Það varð aldrei ósamkomulag milli okkar og félaganna og stjórnir félaganna höfðu engin afskipti af efni blaðsins meðan ég var ritstjóri. Það voru og eru alltaf mjög sterk fjárhagsleg tengsl bæði við félögin og auglýsendur. Sú krafa er gerð til ritstjórnarinnar að hún sé sjálfstæð gagnvart þeim sem kaupa sér pláss í blaðinu fyrir auglýsingar. Ég  skrifaði oft ritstjórnargreinar um nauðsynina á sjálfstæði blaðsins gagnvart eigendum sínum og ytra umhverfi, þar á meðal auglýsendum og höfundum fræðigreina. Þetta var mikilvægt og alþjóðleg samtök læknablaða héldu sjálfstæði blaðanna mjög á lofti.

Stundum í tíð fyrri stjórna LÍ kom fram hörð gagnrýni á stjórnir félaganna eða einstaka stjórnarmenn en ég fékk aldrei neina gagnrýni fyrir að birta hana. Blaðið var galopið fyrir skoðunum lækna og annarra sem vildu tjá sig í umræðuhlutanum. Það var prinsipp að neita aldrei slíku. Það var ekki markmiðið að hafa allt opið fyrir skítkast eða árásir á einstaklinga eða hópa lækna. Það fór hins vegar stundum yfir þau mörk að einhverju leyti.“

Kári vildi mig burt

„Aðdragandinn að því að ég hætti sem ábyrgðarmaður og ritstjóri var í stuttu máli sá að Kári Stefánsson læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var óánægður með skrif Jóhanns Tómassonar læknis um sig í Læknablaðinu. Eftir að þetta mál þróaðist sögðu hinir ritstjórnarmennirnir mér að það sem vekti fyrir Kára væri að losna við mig úr ritstjórnarstólnum, það hefði hann sagt þeim berum orðum. Ég sé enga ástæðu til að efast um að þeir hafi haft þetta rétt eftir honum.

Þegar búið var að ræða skrif Jóhanns svo vikum skipti varð ljós sú krafa Kára að rafrænni útgáfu Læknablaðsins yrði breytt og að hann fengi afsökunarbeiðni frá ritstjórninni, að öðrum kosti yrði ég látinn fara. Þetta endaði með því að rafrænu útgáfunni var breytt og Kári fékk sína afsökunarbeiðni frá eigendum blaðsins. Hann fékk aldrei formlega afsökunarbeiðni frá ritstjórninni, enda bar hún enga ábyrgð á birtingu greinar Jóhanns. Hún var rituð undir fullu nafni og ég tók ákvörðun um að birta hana. Hafi einhverjum fundist hún hafa að geyma meiðyrði lá beint við að kæra Jóhann fyrir þau. Það var ekki gert heldur vorum við Jóhann báðir klagaðir til siðanefndar læknafélaganna. Þessu lauk með því að stjórnir LÍ og LR fóru að öllum óskum Kára og skipuðu nýja ritstjórn. Þetta er dæmi um það þegar fólk sem hvorki er í ritstjórn né eigendur blaðsins óskar eftir ákveðnum úrlausnum í blaðinu og fer bæði á fjörurnar við ritstjórnina, ábyrgðarmanninn og eigendurna um að breyta skipan ritstjórnar.

Þetta er ekkert einsdæmi í sögu læknablaða og ekkert skrýtið að það komi líka upp hér á landi. Eigandinn er sá sem ræður og rekur ritstjórann og ritstjórnina. Það er svo samningsatriði milli ritstjórnarinnar og eigendanna hversu mikið frjálsræði sú fyrrnefnda hefur til að ritstýra blaðinu, bæði hvað varðar birtingar og annað.“

Erfitt fyrir stjórnirnar

„Á þessum árum voru menn að birta greinar um sín hugðarefni og voru stundum ansi heitir. Ég man til þess að fólk hafi reiðst okkur oftar en í þetta sinn. Ég er ekki endilega viss um það að þessi umræddu skrif Jóhanns Tómassonar hafi verið þau svæsnustu eða grófustu sem birtust á mínum ritstjóraferli. Við birtum oft greinar þar sem mönnum var líkt við eitthvað neikvætt, úlfa í sauðargæru og þess háttar.

Svo held ég að siðanefnd hafi verið viðkvæmari en dómstólar fyrir stóryrðum. Hún er sérstakur kafli í því hvernig ég hætti. Kári óskaði eftir því við stjórnir LÍ og LR að vísa máli mínu til hennar. Svo hótaði Kári að kæra stjórnir LÍ og LR til siðanefndarinnar ef þær ekki færu eftir óskum hans, en það held ég að stjórnunum hafi þótt fremur óþægileg staða að lenda í, að siðanefndinni væri falið að fella úrskurð um aðgerðir eða aðgerðarleysi þeirra.

Þetta held ég að hafi verið erfiðast fyrir stjórnirnar, meðal annars í ljósi þess að siðanefndin flýtti sér ekki í vinnu sinni, það tók hana þrjú ár að kveða upp úrskurð í mínu máli og það var sýknun. Ég skil alveg að stjórnarmönnum hefði fundist erfitt að starfa með þetta mál hangandi yfir sér árum saman. Það er óþægileg staða og þetta var sterkasta vopn Kára. Þess vegna getur maður velt því fyrir sér hvernig samskipti stjórnanna við Kára hafi verið svona yfirleitt, hvort þær hafi getað beitt sér af hlutleysi gagnvart honum. En það er önnur saga,“ segir Vilhjálmur Rafnsson að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica