07/08. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknablaðið 100 ára. "Samstarfið við danska læknafélagið réði úrslitum" - segir Örn Bjarnason sem var ritstjóri Læknablaðsins frá 1976-1993

Örn tók við blaðinu er það var komið í nokkurt öngstræti en ásamt öflugum hópi samstarfsfólks leiddi hann það útúr þrengingum og hóf til öflugri vegs með aukinni útgáfutíðni, útgáfu Fréttabréfs lækna og mikilvægu frumkvöðlastarfi við útgáfu íðorðasafns lækna.


„Starfsandinn á skrifstofu læknafélaganna og Læknablaðsins var einstaklega góður og við nutum
algjörs trausts stjórnar beggja félaganna sem skiptu sér aldrei af ritstjórn blaðsins,“ segir Örn
Bjarnason sem var ritstjóri Læknablaðsins frá 1976-1993.

„Það má miða upphaf afskipta minna af Læknablaðinu við árið 1975 þegar Tómas Árni Jónasson þáverandi formaður Læknafélags Íslands kom að máli við mig og spurði hvort ég væri tilleiðanlegur að taka að mér ritstjórn blaðsins,“ segir Örn Bjarnason í upphafi samtals okkar.

Örn er skipulagður í frásögn sinni og greinilega þaulvanur að fást við heimildir og gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi nákvæmni í slíkri upprifjun.

„Ég var þá nýfluttur til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum og hafði nóg að gera í nýju starfi í heilbrigðisráðuneytinu en útgáfa Læknablaðsins var komin í nokkurt fjárhagslegt óefni, aðallega vegna óðaverðbólgu, og illa gekk að innheimta auglýsingareikninga. Það hentaði auglýsendum vel að draga greiðslur sem lengst, oft mánuðum saman, þar sem upphæðin rýrnaði að raungildi með hverjum degi bókstaflega. Fyrirkomulag lyfjainnflutnings var þá með allt öðrum hætti en síðar varð, umboðin voru öll í höndum Dana og lyfin flutt inn þaðan. Við þessu var í raun lítið hægt að gera og engin lausn í sjónmáli.“

Þrennt skipti sköpum


„Ritstjórn Læknablaðsins var á þessum tíma skipt á milli tveggja, annar ritstjórinn sinnti fræðilegu efni og hinn sá um félagslega hlutann, báðir læknar. Þá var Arinbjörn Kolbeinsson ritstjóri félagslega hlutans og hafði lengi staðið í eldlínu félagsstarfa fyrir Læknafélagið. Hann vildi hætta og Tómas Árni lagði að mér að taka við af honum. Ég sagði að hið fyrsta sem gera þyrfti væri að ráða blaðamann í hlutastarf og úr varð að minni tillögu að Sigurjón heitinn Jóhannsson var ráðinn til starfans. Sigurjón var skólabróðir minn frá Menntaskólanum á Akureyri og við höfðum séð um útgáfu á Carminu, ársriti MA, og vissum því hvernig prentsmiðjur litu út að innan. Skömmu seinna hætti Páll Ásmundsson sem verið hafði ritstjóri fræðilega hlutans og við tók af honum Bjarni Þjóðleifsson. Við Bjarni lögðum síðan upp áætlun hvernig mætti styrkja fjárhag blaðsins en jafnframt hófum við undirbúning að útgáfu íðorðasafns lækna. Það voru því ýmsar hugmyndir á lofti á þessum tíma en þó skipti algjörum sköpum fyrir framtíð Læknablaðsins að samstarf náðist við útgáfufélag danska læknafélagsins.“

Örn var ritstjóri Læknablaðsins í 17 ár. Aðspurður um hvað hann telji mestu skipta um þróun blaðsins á þessu tímabili nefnir hann þrennt. „Í fyrsta lagi hertum við jafnt og þétt kröfurnar um gæði þeirra greina sem birtust í blaðinu. Við áttum gott samstarf við ritstjórnir hinna norrænu læknablaðanna og lærðum mikið af þeim, sérstaklega Dönunum, og þetta samstarf var annar mikilvægasti þátturinn í þróun blaðsins. Fyrri ritstjórnir Læknablaðsins höfðu ekki verið í neinum tengslum við erlenda kollega og útgáfa blaðsins var að sumu leyti komin í öngstræti, bæði fjárhagslega og efnislega, þegar þessar breytingar voru gerðar. Þetta var skemmtilegur tími því sum hinna norrænu læknablaðanna voru einnig að ganga í gegnum ýmsar breytingar og umræður á sameiginlegum fundum voru bæði líflegar og gagnlegar. Samskiptin við norrænu blöðin hafa síðan verið sjálfsagður hluti af starfseminni þó að rúm 20 ár séu síðan vinnsla blaðsins fluttist alfarið hingað heim aftur. Í þriðja lagi skipti vinnan við íðorðasafnið algjörlega sköpum fyrir blaðið og gerði okkur kleift að fylgja eftir þeirri stefnu að allur texti blaðsins skyldi vera á íslensku.“Örn í Iðnó á 100 ára afmæli blaðsins. Vinstra megin við hann er
Sigurbjörn Sveinsson fyrrum formaður LÍ. 
Mynd: Arnaldur Halldórsson.

Danska læknafélagið sá um prentun blaðsins

En aftur til upphafs afskipta Arnar af Læknablaðinu og hvernig það kom til að prentun blaðsins var flutt til Kaupmannahafnar.

„Povl Riis, ritstjóri danska læknablaðsins á þeim tíma og samtals í 33 ár, var náinn vinur Tómasar Árna og danska læknafélagið var að gera róttækar breytingar á útgáfumálum sínum. Þeir höfðu um árabil verið í samstarfi við prentsmiðju sem ekki svaraði kröfum tímans varðandi búnað og tækni, sem var reyndar okkar vandi að verulegu leyti líka, og Danirnir leystu sinn vanda með því að stofna útgáfufélag, ráða prentara og framkvæmdastjóra útgáfunnar og gera beina samninga við lyfjafyrirtæki um auglýsingar. Sumarið 1978 var haldinn í fyrsta sinni hér á landi fundur ritstjóra norrænu læknablaðanna og þá skýrði Riis okkur frá því hvernig þeir hefðu leyst sín mál. Hann stakk upp á því að við kæmum í samstarf við þá með því að þeir sæju um prentun blaðsins og auglýsingasöfnun. Við ákváðum að láta reyna á þetta og árið eftir er síðan tekið upp formlegt samstarf þar sem við í upphafi sendum þeim handritin, þeir sáu um setninguna, prentunina, útveguðu auglýsingarnar, og tekjuafgangurinn, sem var talsverður, rann til okkar. Menn höfðu náttúrulega ýmsar efasemdir um þetta og fannst ávísun á vandræði að láta Danina sjá um innslátt á fræðigreinum á íslensku. Þeir höfðu þá séð um setningu og prentun á doktorsritgerðum fyrir Finna svo ég hafði ekki stórar áhyggjur af þessu, enda létu þeir búa til mjög fallegt íslenskt letur sem blaðið var prentað með. Við mættum mjög miklum velvilja Dananna í þessu samstarfi og þegar við þurftum að hækka auglýsingaverðið um 20% þrátt fyrir aðeins 2% verðbólgu í Danaveldi brugðust lyfjafyrirtækin vel við. Það má einnig nefna í þessu samhengi að stuðningur lyfjafyrirtækjanna gerði einnig útgáfu Íðorðasafnsins fjárhagslega mögulega fyrir Læknafélagið.“

Fyrstu misserin voru samskiptin við Danina nokkuð tímafrek og þung í vöfum en það breyttist þegar Læknablaðið eignaðist sína fyrstu tölvu og texti blaðsins var settur hér heima og sendur út á tölvudiski. „Þá fór þetta að ganga betur og vinnsluferlið komst í nokkuð fastar skorður. Þetta var eins og raðskipaframleiðsla. Við lögðum kjölinn að nokkrum í senn, söfnuðum greinunum saman, sendum þær út á disklingum, og yfirleitt vorum við með nægt efni í tvö til þrjú blöð, – en allt upp í átta – svo þegar fjórar til fimm greinar voru tilbúnar, þá var hægt að hleypa einu blaði af stokkunum. Svo höfðum við Íslendinga á okkur snærum í Kaupmannahöfn sem lásu prófarkir fyrir okkur en við létum þó alltaf senda okkur lokapróförk fyrir prentun.“

Útgáfa á Fréttabréfi lækna


Vandinn við þetta fyrirkomulag var augljóslega sá að ekki var hægt að birta fréttir af félagsstarfi Læknafélagsins þegar blaðið var unnið svo langt fram í tímann. Lausnin fólst í því að skilja að þessa tvo hluta og því hófst útgáfa Fréttabréfs lækna sem kom út mánaðarlega í 10 ár (1983-1993) af þeim 13 sem prentun Læknablaðsins fór fram í Kaupmannahöfn. Jóhannes Tómasson blaðamaður hafði þá unnið við Læknablaðið í nokkur ár í hlutastarfi en hann tók að sér ritstjórn Fréttabréfsins.

„Það voru ýmsar hræringar og skipulagsbreytingar á þessum árum sem allar sneru að því að gera þetta einfaldara og skilvirkara. Þórður Harðarson varð ritstjóri ásamt okkur Bjarna frá 1978-1983, en ég var ábyrgðarmaður blaðsins frá 1979. Þegar Bjarni hætti ritstjórn 1983 gerðum við nokkrar breytingar á ritstjórnarfyrirkomulaginu; fjölguðum í ritstjórninni í fjóra, ég var ábyrgðarmaður og Jóhannes Tómasson var ráðinn ritstjórnarfulltrúi í fullu starfi. Ég lagði áherslu á að fá með mér í ritstjórnina menn af spítölunum og úr ýmsum greinum læknisfræðinnar og allir höfðu ritstjórnarlegar skyldur gagnvart efninu. Þetta voru alltaf mjög góðir og áhugasamir menn.“

Örn rifjar upp hvernig það bar til að Birna Þórðardóttir kom til starfa fyrir blaðið en hún var um árabil ritstjórnarfulltrúi. „Birna vann á skrifstofu Læknafélagsins og við fengum hana til að innheimta útistandandi reikninga sem voru allmargir og okkur gekk lítið að rukka. Birna var fylgin sér og náði að innheimta alla reikningana á tveimur mánuðum og þá var hún í rauninni orðin verklaus. Við sáum að þarna var hörkustarfskraftur og réðum hana að blaðinu og sáum ekki eftir því. Í fyrstu sá hún um auglýsingarnar og vann efni í fréttabréfið en varð síðar ritstjórnarfulltrúi.“

Skrifstofur Læknafélagsins voru á þessum árum í Domus Medica og var þar nokkuð þröngt um starfsfólkið. „Starfsaðstaða Læknablaðsins var í öðrum endanum á fundarherbergi Læknafélagsins og það fór ekki hjá því að hluti af vinnunni færi fram heima hjá manni. Ég var með samning við konuna um borðstofuborðið. Ég hafði það til afnota alla virka daga gegn því að hreinsa það á föstudögum svo hægt væri að borða við það um helgar. Þetta gekk ágætlega. Starfsandinn á skrifstofu læknafélaganna og Læknablaðsins var einstaklega góður og við nutum algjörs trausts stjórnar beggja félaganna sem skiptu sér aldrei af ritstjórn blaðsins.“

Hér staldrar Örn við og verður íbygginn á svipinn. „Það var að vísu gerð tilraun til þess að selja Læknablaðið og útgáfufyrirtæki í Reykjavík gerði tilboð í það. Einhverjum þótti þetta álitlegur kostur en stjórnir félaganna höfnuðu þessu enda hefði það verið mesta óráð.“

Samstarf við höfunda og auknar kröfur um gæði greina

Ásamt meðritstjórum sínum lagði Örn áherslu á gæði þeirra greina sem birtar voru í Læknablaðinu og mikið starf var unnið við að hefja ritrýni og meðhöndlun greina á sem hæstan stall. „Þegar ég kom að blaðinu var þetta nokkuð snúið þar sem reglur um útgáfu sérfræðileyfa til handa læknum sem hlotið höfðu II. einkunn voru þannig að þeir þurftu að skrifa sérfræðiritgerð til að færa sönnur á þekkingu sína og Læknablaðinu bar skylda til að birta. Þegar ég tók við lágu fyrir nokkrar greinar af þessum toga sem voru vægast sagt ekki birtingarhæfar og við hreyfðum því fljótt að þessa skyldu blaðsins yrði að fella niður. Það fór gríðarleg vinna í að gera þessar greinar birtingarhæfar en samhliða unnum við að því að fá reglugerð heilbrigðisráðuneytisins breytt og birtingarskyldu blaðsins fellda niður, sem tókst á endanum. Við höfðum líka fylgst vel með því sem var að gerast erlendis og gerðum okkar ítrasta til að tileinka okkur bestu aðferðir við ritrýni og allir sem við leituðum til með ritrýni greina brugðust fljótt og vel við. Ég hafði heyrt af því að í hinum harða heimi samkeppninnar erlendis kæmi fyrir að ritrýnar tefðu birtingu greina vegna eigin skrifa en það urðum við aldrei varir við hér heima. Nálægðin á sér nefnilega ekki síður jákvæðar hliðar en neikvæðar. Sumir voru þó ekki alls kostar sáttir við kröfur blaðsins um að allur texti greina skyldi vera á góðri íslensku. Þýðingar einstakra orða stóðu stundum í sumum höfundum en það leystist alltaf farsællega á endanum. Við lögðum áherslu á að samhliða auknum kröfum um gæði greinanna þá unnum við með og leiðbeindum höfundunum um hvernig best væri að ganga frá greinunum. Ritrýnarnir sinntu því hlutverki mjög vel og þetta leiddi til þess að yfirleitt birtust allar greinar á endanum í blaðinu. Stundum kom þó fyrir að greinar voru þess eðlis að við ráðlögðum höfundi að leita frekar eftir birtingu annars staðar, en það var eðlilegt og kom ekki til árekstra þess vegna.“

Áherslan á íslenskar þýðingar allra fræðiorða er birtast í Læknablaðinu átti sér sínar spaugilegu hliðar. „Ég fékk eitt sinn bréf frá íslenskum lækni búsettum erlendis; hann var öskureiður yfir því að hann væri hreinlega hættur að skilja Læknablaðið, því hann þekkti ekki öll þessi íslensku nýyrði. En þetta var ekki nein stefnubreyting sem við innleiddum. Guðmundur Hannesson, stofnandi og fyrsti ritstjóri Læknablaðsins lagði þessa línu strax í upphafi. Hann þýddi sjálfur og gaf út fyrsta orðasafn læknisfræðiheita á íslensku og Læknablaðið hefur alltaf fylgt þessari stefnu. Okkar innlegg fólst í því að hefja á þessum árum skipulega íðorðasmíð ásamt útgáfu íðorðasafns og að sjálfsögðu nýttum við okkur það við ritstjórn Læknablaðsins. Mörg nýyrðanna sem urðu til á þessum tíma birtust síðan í fyrsta sinn á prenti í Læknablaðinu. Þetta hélst allt í hendur og hefur alltaf gert. Fleiri faggreinar hafa unnið mikið og gott starf á þessum vettvangi; ég nefni bara verkfræðinga og bílgreinasambandið sem hafa gefið út ítarleg íðorðasöfn. Íðorðafræðin er merkileg grein útaf fyrir sig og þar gilda mjög ákveðnar reglur. Við nutum þess að hafa Magnús Snædal málfræðing sem okkar sérfræðing í þessu efni um árabil. Hann ritstýrði íðorðasafninu og samstarfið við hann var algerlega snurðulaust. Hann var hæglátur en ákveðinn og þegar hann var búinn að lýsa skoðun sinni á orðanefndarfundum var málið yfirleitt útrætt.“

Hvað útlit blaðsins varðar segir Örn að engar róttækar breytingar hafi verið gerðar í hans ritstjórnartíð. „Við héldum okkur við sömu blaðstærð  allan tímann og gerðum litlar breytingar á uppsetningu efnis þó vissulega hafi eitt og annað smálegt breyst í gegnum árin. Ég held að okkur hafi tekist með þessu brölti öllu saman að skila blaðinu í sómasamlegu ástandi af okkur og blaðið hefur alltaf verið í stöðugri framþróun. Læknablaðið í dag er betra blað en það var fyrir 25 árum og það er eðlilegt. Þannig á að það að vera.“ Þetta vefsvæði byggir á Eplica