05. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr fórum Læknablaðsins 1915-2014. Tölublöðin árið 1944

Það eru 70 ár síðan lýðveldisárið 1944 lagðist yfir byggðir og ból. Það ár gaf Læknafélag Reykjavíkur bara út á prent tvö tölublöð af Læknablaðinu, merkt nr. 9 og 10, og tilheyra 29. árgangi blaðsins, fyrri tölublöðin í röðinni komu út 1943.

Aðalritstjóri blaðsins við upphaf 29. árgangs var Ólafur Geirsson, og meðritstjórar Kristinn Stefánsson og Óli P. Hjaltested, en síðar Björn Sigurðsson og Jóhannes Björnsson. Efnið eru margvíslegar greinar um íslenska læknisfræði: berkla, mislinga, bólusetningu gegn kíghósta, ilsig, bjúg, utanlegsþykkt og víruslungnabólgu. Hæst ber nákvæma og átakanlega lýsingu Ólafs Ó. Lárussonar héraðslæknis á tréspíraeitruninni sem varð níu manns að bana á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 1943.


Í blaðinu eru líka minningargreinar, tíðindi af félagsmálum (öll fundargerð aðalfundar 1943 birt) og stuttar fréttir úr erlendum læknaritum. Athygli vekja afar persónugreinanleg yfirlit og frásagnir sem lög og reglur hafa alveg bannað nú heilum mannsaldri síðar. Dæmi um þetta eru Nokkurar Sjúkrasögur eftir Jóhann Sæmundsson í 9. tölublaði. Þar eru rakin fjögur sjaldgæf sjúkratilfelli. Sjúklingar eru nefndir með fangamarki sínu og fæðingardagur þeirra og ár eru tilgreind. Tilfellin eru 1) Atropoa cerebri, 2) Myotonia acquisita, 3) Athyreoidosis, og 4) Silicosis.

Í þremur greinum í þessum árgangi takast þeir á Árni Pjetursson trúnaðarlæknir Reykjavíkurborgar og Vilmundur Jónsson landlæknir: Læknisafstaða, Læknablaðið 1943; 29: 73-80, Bágborin afstaða, 29: 122-7, Herfileg afstaða, 29: 138-44. Tilefnið er að í Heilbrigðisskýrslum fyrir árið 1940 birtir landlæknir tvö embættisbréf sem hann hefur sent dómsmálaráðuneytinu og fjalla um „ástandsmálin“. Fyrra bréfið ber titilinn: Um saurlifnað í Reykjavík og stúlkubörn á glapstigum. Árni skrifar: Það skal virt honum til vorkunnar, er hann velur þetta orð, „saurlifnaður“, að þau orð, sem á íslenzku eru látin tákna „prosituion“ (skækju-, hóru-, vændiskvenna-, pút- og saurlifnaður) eru orðin nokkuð gömul í málinu og hafa því fengið ókvæðismerkingu. Þau geta því ekki talizt heppileg sem fræðiorð; … Ég mun í þessari grein nota orðið „blíðusala“. .. Árni rekur rökstuðning Vilmundar sem leitar ýmissa heimilda til að sýna fram á að siðferði hafi hnignað á stríðsárunum svo stórfellt að grípa þurfi til róttækra ráðstafana. Langfyrirferðarmestar í því efni eru skýrslur lögreglu sem virðast hafa verið ámóta ítarlegar og flóknustu mataruppskriftir, ef til vill við hæfi að kalla þær smásmugulegar í takt við innihaldið. Árni heldur áfram: Í framhaldi af þessu telur landlæknir sjálfsagt „að lögreglunni sé gert kleift að nota heimildir þær, sem fyrir eru í lögum um íhlutun um framferði kvenna, sem hafa beinlínis skækjulifnað að atvinnu“ og ráðleggur „að lögreglan safnaði saman þeim tugum þess háttar vændiskvenna, sem henni er kunnugt um, og flytti þær á vinnuhæli“ o.s.frv. Þetta er ráðlegging landlæknis til ríkisstjórnarinnar. – Vilmundur svarar og hæðir Árna og spottar og vitnar til orða Vilhjálms Stefánssonar um Ísland (1939): Strictly speaking there is no prostitution. 
–… hann lætur svo sem bréf mín snúist um vandamál almenns saurlifnaðar, og helzt á 
heimsmælikvarða, í  stað þess, sem er, að þau snúast eingöngu um hin einstæðu kynferðisvandamál vor með sérstöku tiliti til barna og unglinga, einog nú er ásatt í hinni umkomulausu höfuðborg vorri, umsetinni og ofurseldri ágangi erlends herðliðs tveggja stórvelda, „með einhverju því hrikalegast hlutfallsraski“ á milli karla og kvenna, „ sem sögur fara af,“ svo ég viðhafi orð Á.P. sjálfs. Allar greinarnar þrjár eru hreinn fjársjóður þegar kemur að því að skoða hugmyndir manna, skoðanir, orðfæri og menningarheim.



„Ástandinu“ hafa verið gerð skil með ýmsum hætti í 70 ár. Þarna er Læknablaðið með grundvallarheimildir þar sem fulltrúar læknastéttarinnar takast hraustlega á í tölusettum liðum og lesendur sjá inn í tíðarandann frá því árið 1944 sem logaði skært og bar í sér bæði hreinleika og andúð gagnvart því sem taldist óeðli. Bara nafnið eitt og sér, óeðli, gerir ráð fyrir að til sé í þessum heimi eitt rétt eðli, og svo annað sem er andhverfa þess.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica