04. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Minnisstæðir læknar - Friðrik Einarsson (1909-2001). Ólafur Jónsson

Andrés Kolbeinsson tók myndina sem hér fylgir með árið 1958 á annarri af tveimur skurðstofum Landspítalans. Fyrir miðju einbeitir Friðrik Einarsson sér við skurðaðgerð. Honum til hægri handar er Árni Björnsson, síðar yfirlæknir lýtalækningadeildar, en á vinstri hönd er Jósef Ólafsson, síðar lyflæknir á St Jósefsspítala í Hafnarfirði. Valtýr Bjarnason yfirlæknir snýr baki í myndavélina en hann var um þessar mundir eini sérmenntaði svæfingalæknir spítalans. Ekki er kunnugt um nöfn annarra sem sjást á myndinni. Yfir þessari mynd er falleg birta og friður, næstum helgi, þar sem lampinn fyrir ofan myndar eins og geislabaug um þessa athöfn.


Aðgerð á Landspítala 1958. Ljósm. Andrés Kolbeinsson. Eigandi Ljósmyndasafn
Reykjavíkur.

Á þessum árum var hvíti liturinn ríkjandi á skurðstofum. Sloppar voru hvítir, svo og húfur, andlitsmaskar og línið sem dúkað var með umhverfis aðgerðarsvæðið. Þetta var allt þvegið og dauðhreinsað og notað margsinnis því einnota hlutir höfðu ekki rutt sér til rúms að ráði. Sama er að segja um ýmislegt, svo sem barkaslöngur sem notaðar voru við svæfingar. Aðalsvæfingalyfið var eter.

Auk handverkfæra sinna höfðu skurðlæknar sog- og rafmagnsbrennslutæki til að létta sér störfin. Svæfingavélar voru mjög einfaldar og tengdar stórum súrefnis- og glaðloftskútum sem skipta þurfti út með ákveðnu millibili því súrefnislagnir voru ekki um spítalann. Engir vaktarar voru til og eina hjálpartækið við svæfingar var blóðþrýstingsmælir á handlegg.

Loftræsting var í því fólgin að opnaður var gluggi væri þungt loft eða heitt. Á sumrin leituðu flugur stundum inn um gluggann og var þá reynt að hafa hraðar hendur til að drepa þær svo þær kæmust ekki í aðgerðarsvæðið.

Friðrik var lengi ötull skurðlæknir á handlækningadeild Landspítalans. Hann stundaði framhalds- og sérfræðinám í Danmörku á árunum 1937-1945 og var þar öll heimsstyrjaldarárin. Á þessum árum var sérhæfing innan skurðlækninganna ekki eins mikil og síðar varð. Þurftu því skurðlæknar að hafa á valdi sínu kunnáttu til þess að gera aðgerðir á hinum ýmsu líffærum líkamans. Síðari árin lagði Friðrik einkum stund á þvagfæraskurðlækningar.



Friðrik Einarsson læknir.

Friðrik segir nokkuð frá sérfræðináminu í æviminningum sínum Læknir í þrem löndum. Danskir læknar höfðu margir stundað sérfræðinám í Þýskalandi þar sem prússneskur andi ríkti á spítölum og innleiddu þeir svo þann sið í heimalandi sínu. Þar var stéttaskipting mikil og yfirlæknar margir ráðríkir og valdamiklir. Ef til vill hefur þetta mótað hann að einhverju leyti því mörgum þótti hann nokkuð formlegur og stífur í framkomu og stundum höstugur, svo sem á skurðstofum. Hann segir að sér hafi ekki alltaf tekist að hemja skap sitt en það hafi lagast er tímar liðu. Hann var aftur á móti hinn alúðlegasti þegar persónulegri kynni tókust.

Öll reglusemi var honum afar mikilvæg og hann lagði mikla áherslu á stundvísi. Þannig var hann alltaf mættur á réttum tíma þegar skurðaðgerðir eða stofugangar skyldu hefjast. Þegar hann varð yfirlæknir skurðlækningadeildar Borgarspítalans, en sú deild tók til starfa árið 1968, hafði hann stuttan morgunfund með samstarfsmönnum þar sem farið var yfir verkefni dagsins, sagt frá nýjum sjúklingum og skurðaðgerðum á liðinni vakt. Hann sat við endann á löngu borði og hafði vasaúr fyrir framan sig og hóf fundinn á tilsettum tíma.

Mörg tilsvör Friðriks og athugasemdir þóttu hnyttin en gátu þó stundum verið sérkennileg eða dálítið meinleg. Þau voru höfð eftir honum árum saman af þeim sem til þekktu og svo er raunar enn, og var þá reynt að líkja eftir málrómi hans. Hér fylgir að lokum stutt saga: Einhverju sinni kom ungur læknir of seint á morgunfundinn. Friðrik bauð honum góðan daginn, gerði síðan stutt hlé og sagði: „Þessir morgunfundir hefjast stundvíslega klukkan núll átta núll núll“ og síðan með vaxandi áherslu og hækkandi rómi „OG NÚLL!“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica