02. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Lögfræði 8. pistill. Aðgangur að sjúkraskrám

Um aðgang að sjúkraskrám gilda ákvæði laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Nokkrar breytingar voru gerðar á ákvæðunum með lögum nr. 6/2014, sem gengu í gildi fyrir örfáum dögum. Þær þrengja kæruheimildir sjúklinga vegna synjunar á aðgangi að sjúkraskrám.

Lög um sjúkraskrár geyma orðskýringar og skipta tvær máli í þessari umfjöllun. Ábyrgðaraðili sjúkraskráa er heilbrigðisstofnun eða starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna þar sem sjúkraskrár eru færðar. Ábyrgðaraðili sjúkraskráa felur umsjónaraðila sjúkraskráa að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laganna. Umsjónaraðilinn skal vera læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður, ef lækni er ekki til að dreifa. Starfi heilbrigðisstarfsmaður einn á stofu, telst hann umsjónaraðili þeirra sjúkraskráa sem hann færir.

Meginreglan um aðgang að sjúkraskrám samkvæmt lögum um sjúkraskrár er skýr: Aðgangur að sjúkraskrám er óheimill nema til hans standi sérstök lagaheimild. Lögin heimila eftirtöldum aðgang að sjúkraskrám.

Aðgangur heilbrigðisstarfsmanna að sjúkraskrám er bundinn við að starfsmaðurinn komi að meðferð sjúklingsins og þurfi vegna hennar að komast í sjúkraskrána. Sjúklingur eða umboðsmaður hans getur bannað að tiltekinn starfsmaður eða starfsmenn, þar með taldir nemar í starfsnámi, hafi aðgang að sjúkraskrá. Sé talið nauðsynlegt vegna meðferðar sjúklings að þessir aðilar hafi aðgang að sjúkraskránni, ber að upplýsa sjúkling um að bannið geti jafngilt því að hann hafni meðferð, sbr. lög um réttindi sjúklinga. Aðgangur að því sem sjúklingur skilgreinir sem sérstaklega viðkvæmar sjúkraskrárupplýsingar er ætíð takmarkaður við heilbrigðisstarfsmenn sem nauðsynlega þurfa upplýsingarnar vegna meðferðar sjúklingsins. Aðgangur að slíkum upplýsingum skal að jafnaði takmarkaður við heilbrigðisstarfsmenn sem starfa innan einingarinnar þar sem meðferð er veitt. Aðgangur annarra heilbrigðisstarfsmanna að slíkum upplýsingum er óheimill nema með samþykki sjúklings, nema aðgangurinn teljist nauðsynlegur vegna öryggis heilbrigðisstarfsmanna.

Sjúklingur eða umboðsmaður hans á rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit sjúkraskrárinnar ef eftir því er leitað. Ef um er að ræða sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum, skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf, áður en þær eru sýndar sjúklingi eða umboðsmanni hans. Ef þessi þriðji aðili er látinn eða horfinn eða neitar aðgangi af ómálefnalegum ástæðum, má vísa málinu til landlæknis, sem getur ákveðið að sjúklingi eða umboðsmanni hans skuli engu að síður veittur aðgangur að þessum upplýsingum, í heild eða að hluta.

Sé talið að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að veita honum aðgang að sjúkraskrá í heild eða að hluta eða afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit af henni, skal umsjónaraðili sjúkraskráa leiðbeina um rétt til að bera synjunina undir embætti landlæknis. Þessi málsmeðferð er nýmæli því fyrir gildistöku laga nr. 6/2014 gilti að þá skyldi án tafar framsenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar og landlæknir afgreiða erindið innan átta vikna. Ákvarðanir landlæknis um þetta voru kæranlegar til ráðherra. Eftir breytingu með lögum nr. 6/2014 gildir að ef umsjónaraðili sjúkraskráa synjar um aðgang að sjúkraskrá eða neitar að afhenda afrit hennar leiðbeinir hann um kærurétt til landlæknis. Ákvörðun landlæknis um aðganginn er endanleg á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.

Umsjónaraðila sjúkraskráa er heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og afrit hennar, sé þess óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðganginn skal hafa hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir aðganginum og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Ef umsjónaraðilinn synjar um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal hann leiðbeina um rétt til að bera synjunina undir embætti landlæknis. Ákvörðun landlæknis í þessum tilvikum er einnig endanleg á stjórnsýslustigi.

Heilbrigðisyfirvöld sem fá til umfjöllunar kvörtun eða kæru sjúklings eða umboðsmanns hans eiga rétt til aðgangs að sjúkraskrá viðkomandi með sama hætti og sjúklingurinn sjálfur.

Loks heimila lögin um sjúkraskrá aðgang að sjúkraskrám vegna gæðaþróunar og gæðaeftirlits með heilbrigðisþjónustu og meðferð innan heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns. Þá er heimilt að veita starfsmönnum sem vinna að þjónustu við tölvu- og upplýsingakerfi nauðsynlegan aðgang að sjúkraskrárkerfi til að sinna vinnslu, uppfærslu og viðhaldi kerfisins og skulu þessir starfsmenn undirgangast sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn. Þessi síðastnefndi aðgangur tæknimanna er nýmæli samkvæmt lögum nr. 6/2014.

Eins og áður er getið þarf lagaheimild til aðgangs að sjúkraskrá. Hér að framan hefur verið rakið hverjir eiga aðgang að sjúkraskrá samkvæmt lögum um sjúkraskrár. Víða í öðrum lögum er heimild til slíks aðgang, svo sem í lögræðislögum, lögum um Ríkisendurskoðun, lögum um almannatryggingar, lögum um sjúkratryggingar, lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði og lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Í lögum um réttindi sjúklinga er fjallað um aðgang að sjúkraskrá vegna vísindarannsókna og fyrirmæli um að um þann aðgang verður að skrá hverju sinni í sjúkraskránna.

Ekki verður skilið við þetta viðfangsefni öðru vísi en að geta þess að samkvæmt lögum um sjúkraskrár á sjúklingur rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskráa um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hans, hvar og hvenær upplýsinga var aflað og í hvaða tilgangi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica