02. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Horft um öxl eða litið fram á veginn. Magdalena Ásgeirsdóttir

Áramót eru í eðli sínu tímamót. Maður staldrar við og fer yfir atburði líðandi árs og strengir jafnvel áramótaheit, sem skiljanlega taka mið af eigin draumum og væntingum.

Annáll ársins 2013 hvað heilbrigðismálin varðar einkennist af fjárhagslegu svelti, samdrætti, atgervisflótta, uppsögnum jafnvel heilla fagstétta, tepptum bráðadeildum vegna langveikra, úreltum tækjabúnaði og svo mætti lengi telja. En að sögn ráðamanna hefur ekkert af þessu komið niður á gæðum þjónustunnar eða öryggi sjúklinga. Trúi því hver sem vill. Dúsan kom svo í lok árs þegar samþykkt voru aukafjárlög til heilbrigðismála upp á 4 milljarða. Landspítalinn og FSA fá 3,3 milljarða og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni rúmlega 600 milljónir.

Þá er að horfa fram á veginn. Hvað mun árið 2014 bera í skauti sér? Áramótaheit til handa heilbrigðiskerfinu mega sín lítils, en maður getur átt sér draum.

Mun aukafjárveitingin bæta ástandið? Í hvaða verkefni á að deila þessum fjármunum? Verða þeir notaðir til að „lokka“ að starfsfólk til vinnu eða fara þeir til tækjakaupa.

Mun okkur takast að bæta starfsskilyrði heilbrigðisstarfsfólks? Þar eru unglæknarnir mér efst í huga en brýnt er að þeir kæri sig um að vinna á Íslandi í framtíðinni.

Höfum við læknar og annað fagfólk einhverja möguleika á að hafa áhrif á þróun heilbrigðismála? Er yfirhöfuð á okkur hlustað? Yfirvöld eru einstaklega lunkin við að sniðganga sérfræðinga og annað fagfólk þegar kemur að heilbrigðismálum (og reyndar fleiri málaflokkum svo sem náttúruvernd vs raforkuframleiðsla). Nýlegt dæmi eru lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða nr. 60 25. júní 2012. Vísa ég í því sambandi í ritstjórnargrein Þorbjörns Jónssonar formanns LÍ í Læknablaðinu 2012.

Endurhæfing er mér hugleikin, enda starfsvettvangur minn. Hugtakið endurhæfing, bæði orðið og innihald endurhæfingar, virðist mér vera óljóst, bæði í huga almennings og jafnvel heilbrigðisstarfsfólks. Endurhæfing virðist hálfgert olnbogabarn, tilheyrir hvorki bráðaþjónustu né hjúkrun, sem gjarnan ber hæst í umræðunni um heilbrigðismál.

Skilgreining alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á endurhæfingu: Endurhæfing miðar að því að einstaklingur nái aftur eins góðri líkamlegri, andlegri og félagslegri færni og unnt er. Hún felur í sér öll þau úrræði sem miða að því að draga úr áhrifum fötlunar og hindrunum sem fötlunin veldur. Hún felur líka í sér þau úrræði sem gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þjóðfélagsþegnar. Það má svo skipta endurhæfingu til dæmis í læknisfræðilega endurhæfingu og starfsendurhæfingu. Skilin þarna á milli virðast stundum óskýr en að baki liggur alltaf færniskerðing sem oftast á rætur í heilsubresti eða fötlun. Endurhæfing, eins og aðrar greinar læknisfræði, byggir á fræðilegum grunni og styðst við klínískar leiðbeiningar. Engar íslenskar leiðbeiningar eru til í mínu fagi, það er lungnaendurhæfingu, en stuðst er við sameiginlega yfirlýsingu ATS/ERS. Á mínum vinnustað, Reykjalundi, er unnið í þverfaglegum teymum og er þar tekið mið af ICF-alþjóðlega flokkunarkerfinu um færni, fötlun og heilsu (sjá skafl.is). Grundvöllurinn fyrir árangri í endurhæfingu er skýr og raunsæ markmiðssetning og samvinna meðferðaraðila í samráði við skjólstæðinginn. Árangurinn er svo mælanlegur með aukinni færni, virkni, þátttöku (í víðum skilningi þess orðs) og auknum lífsgæðum.

Ég treysti læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki til að standa vörð um menntun og fagmennsku sinnar stéttar, en það dugar þó því miður ekki til að reka heilbrigðisþjónustu af þeim gæðum sem við Íslendingar höfum væntingar um.

Í anda endurhæfingar bind ég vonir við að núverandi stjórnvöld sjái sóma sinn í því að hafa samráð við heilbrigðisstarfsfólk við markmiðssetningu og uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma en eins kjörtímabils.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica