02. tbl. 100. árg. 2014

Ritstjórnargrein

Að bæta horfur og meðferð sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein

Helgi Birgisson sérfræðingur í ristil- og endaþarmsskurðlækningum við Akademíska sjúkrahúsið í Uppsölum og dósent við læknadeild háskólans þar.

doi: 10.17992/lbl.2014.02.530

Í þessu tölublaði Læknablaðsins er birt yfirlitsgrein um krabbamein í ristli og endaþarmi, höfundar hafa gert efninu góð skil, en þurft að stikla á stóru þar sem efnið er víðfemt og flókið. Í leiðaranum mun ég minnast á þá tvo þætti sem mest geta bætt horfur og meðferð þessa sjúklingahóps á Íslandi en það er skimun og gæðaskráning.

Staðfest er að skimun eftir blóði í hægðum eða með bugaristilspeglun lækkar dánartíðni af völdum sjúkdómsins. Sú aðferð sem er nákvæmust til greiningar á ristilsepum og krabbameini er ristilspeglun. Skimun með ristilspeglun er hins vegar kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið og umfangsmikil fyrir einstaklinginn sem í um helmingi tilfella mætir því ekki til skimunar.

Til þess að auka skimunarhlutfallið ætti að bjóða upp á fleiri tegundir skimunar þannig að einstaklingurinn geti valið þá aðferð sem hentar honum best og bætast þá við skimunaraðferðir eins og leit að blóði í hægðum, bugaristilspeglun eða sneiðmynd af ristli ásamt endaþarmsspeglun. Erfiðara getur reynst að skipuleggja slíka skimun en þó er líklegra að hún sé vænlegri til árangurs ef ná á til allra í þjóðfélaginu.

Læknar á Íslandi hafa lengi barist fyrir því að koma á skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini samanber samantekt starfshóps á vegum Landlæknisembættisins árið 20011 og grein í Læknablaðinu árið 2006.2

Þó að það hafi ekki enn verið sýnt í verki er vilji fyrir því hjá heilbrigðisyfirvöldum að koma á laggirnar skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini, samanber drög að heilbrigðisáætlun fram til ársins 2020.3

Eins og staðan er í dag er skimun einungis framkvæmd hjá einstaklingum sem sjálfir óska þess eða samkvæmt læknisráði. Betra væri ef heilbrigðisyfirvöld væru ábyrg fyrir skipulagðri skimun og ættu þau þegar í stað að byrja slíka undirbúningsvinnu. Eðlilegast væri að leitarstöð Krabbameinsfélagsins myndi halda utan um leitina og má lesa í stefnumótun félagsins fyrir árin 2010-2014 skýran vilja til að beita sér fyrir því.4

Ef nefna á einhvern einn þátt sem hefur bætt meðferð sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein hér í Svíþjóð þá er það gæðaskráning. Slík skráning hefur verið við lýði á landsvísu frá 1995 fyrir endaþarmskrabbamein en fyrir ristilkrabbamein hófst skráningin í nokkrum landshlutum 1997 en frá 2007 hefur hún verið sameiginleg fyrir alla Svíþjóð.

Í stuttu máli má segja að markmið gæðaskráningarinnar sé að öðlast yfirsýn yfir læknismeðferð sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein og meta árangur meðferðar en þessir þættir geta leitt til bættrar meðferðar og myndað gagnagrunn sem nota má til rannsókna og við gerð klínískra leiðbeininga.5

Árlega eru unnar skýrslur úr gæðaskránni, bæði fyrir allt landið og fyrir hvert hinna 6 landsvæða innan Svíþjóðar sem standa að skráningunni. Við útkomu skýrslunnar eru haldnir fundir þar sem öllum læknum sem standa að meðferð þessara sjúklinga er boðið til að meta niðurstöður og koma sér saman um bætta meðferð og skráningu á sjúkdómnum.

Á hverju ári eru valdar vissar breytur úr skránni og unnin úr þeim stigagjöf, þannig að viðkomandi landshluti eða sjúkrahús getur metið gæði og árangur sinnar meðferðar og borið saman við allt landið eða sjúkrahús af sömu stærðargráðu. Dæmi um slíkar breytur eru fjöldi skoðaðra eitla, staðbundin endurkoma krabbameins eftir þrjú ár og biðtími frá aðgerð til upphafs krabbameinslyfjameðferðar.

Viðkomandi sjúkrahús geta þannig einbeitt sér að því að bæta þá liði í meðferðinni sem ekki standast þær kröfur sem gerðar eru, og um leið haldið áfram með óbreytta meðferð þar sem gæðakröfur standast.

Skráningin hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar á þessum árum og er orðin mun nákvæmari og þar með viðameiri. Meginþungi skráningarinnar hefur hingað til snúið að starfi skurðlækna og meinafræðinga en mun nú einnig gera meiri kröfur til myndgreiningar- og krabbameinslækna.

Gæðaskráning á krabbameinsmeðferð á Íslandi myndi án efa leiða í ljós bæði jákvæða og neikvæða þætti og þar með gera læknum kleift að auka gæði meðferðarinnar á markvissari hátt.

Heimildir

  1. landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item15747/Skimun-fyrir-krabbameini-i-ristli-og-endatharmi--Samantekt-starfshops-landlaeknis- - janúar 2014.
  2. Bretthauer M, Ekbom A, Malila N, Stefánsson T, Fischer A, Hoff G. Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Samvinna milli stjórnmálamanna og vísindamanna er nauðsynleg. Læknablaðið 2006; 92: 519-22.
  3. velferdarraduneyti.is/media/frettatengt2012/Drog_ad_heilbrigdisaaetlun.pdf – bls. 17, janúar 2014.
  4. krabb.is/Assets/ ýmislegt /20100428stefnumotun185245kl1020medkapu.pdf - bls. 25, janúar 2014.
  5. cancercentrum.se/sv/Kvalitetsregister/ - janúar 2014.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica