01. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Glæsileg dagskrá Læknadaga 2014
Læknadagar 2014 eru framundan með viðamikilli og fjölbreyttri dagskrá. Gunnar Bjarni Ragnarsson sérfræðingur í krabbameinslækningum er framkvæmdastjóri Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands og stýrir sínum fyrstu Læknadögum, en hann tók við keflinu af Örnu Guðmundsdóttur í fyrra.
„Áhuginn á Læknadögum er mikill og hann fer vaxandi,“ segir Gunnar
Bjarni Ragnarsson framkvæmdastjóri Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands.
Gunnar Bjarni segir að þrátt fyrir sívaxandi umfang Læknadaga, þétta 5 daga dagskrá frá morgni til kvölds, taki hann við svo góðu búi að ekki sé hægt að kvarta. „Arna Guðmundsdóttir og Margrét Aðalsteinsdóttir ásamt stjórn Fræðslustofnunar hafa komið þessari fræðsluhátíð okkar lækna í slíkt fyrirmyndarhorf að það er ánægjulegt að taka við Læknadögunum. Ég nýt krafta Margrétar áfram við skipulagið og undirbúninginn og margir hafa verið í stjórninni í nokkur ár sem er mikilvægt til að reynsla þeirra nýtist áfram. Við höfum átt í farsælli samvinnu við Iceland Travel um framkvæmd ráðstefnunnar og að lokum má ekki gleyma því að læknar á Íslandi gera ráðstefnuna mögulega með framlagi sínu.“
Umsóknir um málþing og fyrirlestra hafa aldrei verið fleiri en í ár svo úr vöndu var að ráða að sögn Gunnars Bjarna. „Við fengum fjölda mjög góðra umsókna um erindi, svo dagskráin er að okkar mati bæði fjölbreytt og mjög vönduð. Þetta sýnir hve áhuginn á Læknadögum er mikill og hann fer vaxandi. Við finnum ekki fyrir kreppu í þessu starfi. Markmið okkar er að dagskráin höfði til sem flestra lækna, svo að allir finni þar eitthvað við sitt hæfi, en hinn félagslegi þáttur Læknadaganna er ekki síður mikilvægur en sá faglegi, enda er þetta fyrir marga eina tækifærið á árinu til að hitta kollega í öðrum sérgreinum og kynnast því sem er efst á baugi á þeirra sviði.“
Næring í víðustu samhengi
Hefð hefur skapast fyrir því að helga fyrsta dag Læknadaganna ákveðnu þema og í ár er fjallað um næringu í sem víðustu samhengi. „Tvö stór málþing eru tileinkuð efninu og er yfirskrift hins fyrra Nútímamataræði og kúrar. Hið síðara er titlað: Þegar almennu ráðleggingarnar duga ekki og á þeim báðum fjalla læknar og næringarfræðingar um lífsstíl og áhrif mataræðis á heilsufar og sjúkdóma. Þá verður athyglisverður hádegisverðarfundur um ræktun matjurta í þéttbýli. Annar hádegisfundur sem vekja má athygli á er fyrirlestur undir nafninu Hvernig á að halda góðan fyrirlestur? en þar gefst gott tækifæri til að kynnast aðferðum við góða framsögu.“
Opnunarhátíð Læknadaganna með ávarpi og skemmtiatriði fer fram kl. 16.10 og segir Gunnar að nokkur leynd hvíli yfir skemmtiatriði dagsins. „Það er enn í undirbúningi en ég get þó upplýst að ástir og örlög koma þar eitthvað við sögu enda finnst okkur mörgum sem ástalíf innan heilbrigðiskerfisins hafi gleymst að miklu leyti á þessum síðustu og verstu tímum.“
Gunnari Bjarna vefst skiljanlega tunga um tönn þegar hann er beðinn að nefna nokkra helstu fyrirlestra og málþing Læknadaga. „Það er eiginlega ekki hægt að gera upp á milli þeirra og helst vildi ég telja upp alla dagskrána. En til að gefa hugmynd um fjölbreytnina má nefna tvö málþing um mismunandi krabbamein og meðferðir þeirra, vinnubúðir um faralds- og líftölufræði fyrir klíníska lækna, málþing um langvinna streitu, afleiðingar höfuðhögga meðal íslenskra ungmenna, gigt og verkjameðferð, meðferð sprautufíkla, nýjungar í augnlækningum, meðferð og greining geðhvarfa og geðklofa, staðgöngumæðrun, kjaramál lækna, líðan og heilsa lækna, og er þá aðeins fátt eitt nefnt af því sem er í boði.“
Holsjárspeglun í beinni útsendingu
Forvitnileg nýjung felst í því að sýnd verður holsjárskoðun í „beinni“ útsendingu frá speglunareiningu meltingarsjúkdómadeildar Landspítalans og verða framkvæmdar tvær holsjárskoðanir á vélinda, maga og skeifugörn annars vegar og ristli hins vegar. Í framhaldinu af því verður svo málþing um skimun ristilkrabbameina, Tíðni ristilkrabbameina eykst svo líkja má við faraldur. Sýnt hefur verið fram á að skimun fyrir ristilkrabbameinum bjargar mörgum mannslífum og í rauninni er til skammar að skipulögð skimun hafi ekki verið tekin upp á Íslandi.
Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar veltir fyrir sér spurningunni Var Jón Sigurðsson með sýfilis? og einnig mun Óttar Guðmundsson skoða geðhöfn stjórnmálamanna, húmor Ólafs Thors og geðhvörf Churchills.
Erlendir fyrirlesarar eru á annan tuginn og segir Gunnar Bjarni að á vegum Fræðslustofnunar komi 11 erlendir fyrirlesarar og þrír íslenskir læknar sem búsettir eru erlendis verða einnig með fyrirlestra. „Til viðbótar eru nokkrir erlendir fyrirlesarar á morgunverðar-, hádegis- og síðdegisfyrirlestrum í boði lyfjafyrirtækja. Í þessu samhengi má einnig nefna að á fimmtudeginum og föstudeginum verða vinnubúðir sem breski heimilislæknirinn Iona Heath tekur þátt í að skipuleggja ásamt Stefáni Hjörleifssyni. Hún verður einnig með hádegisfyrirlestur á föstudeginum undir yfirskriftinni Divided we fail.“
Gunnar Bjarni bendir á að fjallað sé um stöðu lækna, kjaramál og vinnuaðstæður frá ýmsum hliðum á nokkrum málþingum. „Við beinum athyglinni að læknunum sjálfum, en ekki bara viðfangsefnum þeirra. Það er þarft og gagnlegt að líta í eigin barm og taka stöðuna, ekki síst núna í ljósi umræðna um stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins.“
Samstarf við lyfjafyrirtæki er í mótuðum farvegi að sögn Gunnars Bjarna. „Lyfjafyrirtæki geta sótt um að halda fundi utan hefðbundinnar dagskrár, snemma á morgnana, í hádeginu og eftir klukkan 16 á daginn. Þetta er eftirsótt og er fullskipað alla dagana. Þá geta lyfjafyrirtækin sótt um sýningarpláss á Læknadögum og verið með kynningar á vörum sínum og starfsemi. Framlag lyfjafyrirtækjanna er mjög mikilvægur þáttur í kostun Læknadaga en taka verður skýrt fram að þetta hefur ekki áhrif á dagskrána sjálfa og almennt er vilji læknastéttarinnar og lyfjafyrirtækjanna að kynningin sé meira í formi ráðgjafar en í beinni sölumennsku. Það er einnig í samræmi við nýlegan samning Læknafélags Íslands og Frumtaka um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja.
Í ár er Vistor aðalstyrktaraðili Læknadaga og það ríkir gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þess stuðnings og hvernig honum skuli háttað. Það er alveg ljóst að án stuðnings lyfjafyrirtækja væru Læknadagar ekki í því formi sem þeir eru, þó við reynum að sjálfsögðu að gæta aðhalds í kostnaði á öllum póstum.“
Fræðslukvöld fyrir almenning
Ein nýjung er að á miðvikudagskvöldi verða Læknadagar opnaðir almenningi. Haldið verður málþing um lífsstílssjúkdóma. Þarna gefst almenningi kostur á að fræðast af læknum og öðrum fagmönnum og vonandi mun þetta festa sig í sessi sem jákvæð kynning á störfum heilbrigðisstétta.
Á Læknadögum að þessu sinni verður einnig tekin upp skráning á hádegisverðarfundi á vegum Fræðslustofnunar. „Síðustu ár hefur Fræðslustofnun boðið upp á hádegismat sem allir gátu fengið sér. Kostnaðurinn við það var orðinn mjög mikill og því nauðsynlegt að takmarka hann bara við þá sem hafa skráð sig á hádegisfundi. Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga til að skrá sig tímanlega svo öruggt sé að þeir komist að.“
Spekingaglíma á sínum stað
Meðal þess sem Gunnar Bjarni segir að lögð verði aukin áhersla á er að fleiri málþing og fyrirlestrar verða tekin upp á myndbönd þannig að þeir sem ekki eiga kost á því að sækja Læknadaga geti kynnt sér efnið á netinu síðar. „Þetta nýtist að sjálfsögðu öllum, líka þeim sem vilja rifja upp tiltekið efni og geta sótt það á netið. Þá erum við einnig með þann möguleika opinn að halda fjarfundi þar sem fyrirlesarar sem okkur þykir fengur í að hafa með okkur en eiga ekki heimangengt á þessum tíma halda fyrirlestur sinn í gegnum fjarfundabúnað. Þetta var gert í fyrra með góðum árangri en reyndist ekki þörf á í ár. Þá má einnig nefna að sótt hefur verið um að Læknadagar 2014 veiti endurmenntunarpunkta (CME-punkta). Við erum einnig að vinna þeirri hugmynd brautargengi að innan Læknadaganna verði styttra fræðsluþing fyrir almenna lækna á ensku. Þetta er hugmynd Örnu Guðmundsdóttur forvera míns, og gæti orðið valkostur fyrir erlenda lækna sem eru að leita sér endurmenntunar og vilja heimsækja Ísland í leiðinni. Ég býst helst við að það væri áhugi fyrir þessu á Norðurlöndum og það væri til dæmis mjög gaman ef læknar sem starfa á Grænlandi og í Færeyjum gætu komið. En þetta er allt í mótun og verður að kynna vel. Þetta ræðst að miklu leyti af fjárhagslegum forsendum og áhuga erlendra kollega okkar.“
Gunnar Bjarni segir að ekki verði skilið við dagskrá Læknadaga án þess að nefna lokahófið með sinni hefðbundnu spekingaglímu sem margir bíða eftir í ofvæni. „Gunnar Guðmundsson lungnalæknir tilkynnti í fyrra að hann myndi ekki stýra glímunni lengur, en maður kemur í manns stað og Kristján Guðmundsson háls-, nef- og eyrnalæknir tekur við stjórninni. Við leggjum mikla áherslu á vel sé haldið utan um þetta atriði.“ Að lokinni glímu verður svo kokdillir í boði Fræðslustofnunar.
Árshátíð Læknafélags Reykjavíkur fer fram í Hörpu á laugardagskvöldið undir veislustjórn Benedikts Sveinssonar. Þar kemur sonur hans, Bergur Ebbi, einnig við sögu og ætla þeir feðgar að halda uppi fjörinu ásamt hljómsveitinni Buffi. Góða skemmtun.