01. tbl. 100. árg. 2014

Fræðigrein

Áhrif meðferðarinnar „Njóttu þess að borða“ á heilsu og líðan kvenna sem flokkast með offitu

The effectiveness of the treatment program „Enjoy eating“ on health and mood in obese women

doi: 10.17992/lbl.2014.01.528

Ágrip

Inngangur: Offita er eitt stærsta lýðheilsuvandamál heimsins og tíðnin hefur aukist síðustu 20-30 árin. Offita hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu og eykur dánartíðni. Fá gagnreynd meðferðarúrræði fyrir of feita einstaklinga bjóðast hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Rannsakendur skipulögðu 15 vikna hópmeðferð, „Njóttu þess að borða“, og var tilgangur rannsóknarinnar að forprófa það fyrir konur sem flokkast með offitu. Meðferðin byggir á hugrænni atferlismeðferð og beinir sjónum sérstaklega að þjálfun svengdarvitundar. Þægindaúrtaki 20 kvenna á aldrinum 19-44 ára með líkamsþyngdarstuðul 30-39,9 kg/m², var skipt af handahófi í hóp A og B. Hópur A hlaut meðferð meðan hópur B var til samanburðar. Víxlrannsóknarsniði var beitt og hópur B varð íhlutunarhópur. Áhrif meðferðar á heilsu þátttakenda voru metin fyrir, á meðan og eftir meðferð og í 6 og 12 mánaða eftirfylgd. Mæld var þyngd, líkamsþyngdarstuðull, fituhlutfall og fitumagn, blóðþrýstingur, serum kólesteról, þríglýseríð, háþéttni fituprótein og serum 25-hydroxy D-vítamín (25(OH)D). Einnig voru lagðir fyrir kvarðar sem meta lífsgæði (SF-36 og OP), þunglyndi (BDI-II) og kvíða (BAI) auk spurningalista um bakgrunn þátttakenda og mat á meðferðinni.

Niðurstöður: Marktæk lækkun varð hjá hópunum á þyngd (p=0,001),
líkamsþyngdarstuðli (p=0,001), fituhlutfalli (p=0,010), fitumagni (p=0,002), neðri mörkum blóðþrýstings (p=0,005) og hækkun á gildi 25-OHD-vítamíns í sermi (p=0,008) eftir meðferð. Einkenni þunglyndis og kvíða lækkuðu (p<0,001 og p<0,004). Lífsgæði jukust samkvæmt OP-kvarða (p=0,006) og andleg heilsa batnaði (MCS) (p=0,012) á SF-36. Meðalþyngdartap var 3,7 kg eftir meðferð og hélst árangur við eftirfylgd.

Ályktun: Meðferðin „Njóttu þess að borða“ lofar góðu sem valkostur innan grunnheilbrigðisþjónustu, til að bæta andlega heilsu og lífsgæði kvenna sem eru of feitar, auk þess að hjálpa þeim að grennast.

Inngangur

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint offitu sem heimsfaraldur og einn mesta lýðheilsuvanda 21. aldar, vegna algengis hennar, heilsufarsáhrifa og kostnaðar.1 Algengi offitu fullorðinna í heiminum hefur nær tvöfaldast frá árinu 1980. Þá voru 4,8% karla og 7,9% kvenna talin hafa líkamsþyngdarstuðul hærri en 30 kg/m² en árið 2008 voru 9,8% karla og 13,8% kvenna yfir þeim mörkum. Meðal hátekjuþjóða er líkamsþyngdarstuðull hæstur í Bandaríkjunum, á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu.2

Á Íslandi hefur svipuð þróun átt sér stað. Í könnun Lýðheilsustöðvar árið 2007 á heilsu og líðan Íslendinga á aldrinum 18-79 ára, reyndist hlutfall kvenna yfir kjörþyngd (>25 kg/m²) vera 53,5% en karla 66,6%. Niðurstöður benda til að meira en helmingur íslensku þjóðarinnar sé yfir kjörþyngd og um 21% of feitir (>30 kg/m²).3,4

Orsakir offitu eru margslungnar en oftast er um samspil atferlis, umhverfis, félagslegra, efnahagslegra og erfðaþátta að ræða.1,5 Daglegtlíf hefur breyst mikið síðustu áratugi og munar talsvert um tækniframfarir í hvers kyns störfum, svo sem í heimilishaldi, ferðamáta og athöfnum daglegs lífs sem krefjast minni orku en áður.6 Umhverfisþættir hafa áhrif á matarvenjur og hreyfingu fólks, svo sem aðgengi og framboð fæðu og tækifæri til hreyfingar svo og félagslega þátttöku og virkni.7

Streita og kvíði eru talin geta haft áhrif á matarvenjur og holdafar. Þeir sem borða þegar þeim líður illa eru oft yfir kjörþyngd.8 

Offita hefur áhrif á flest líffærakerfi og lífsgæði. Hún er talin einn aðaláhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og áunninnar sykursýki.1 Einnig er hún talin áhættuþáttur vissra krabbameina, slitgigtar, kæfisvefns, verkja í stoðkerfi og margvíslegra andlegra, félagslegra og tilfinningalegra vandamála.1,9

Rannsóknir hafa leitt í ljós marktækt lægri styrk
25-hydroxy D-vítamíns 25(OH)D í sermi þeirra sem eru yfir kjörþyngd.10

Á Íslandi hafa ekki verið gefnar út klínískar leiðbeiningar fyrir fullorðna með offitu en ýmis úrræði eru í boði. Á Reykjalundi er boðið upp á meðferð fyrir fólk með annars stigs offitu (>35 kg/m²) með eftirtektarverðum árangri.11 Heilsustofnun NLF í Hveragerði, Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og endurhæfingardeildin í Kristnesi bjóða einnig upp á meðferð við offitu. Einnig má nefna ráðgjöf hjúkrunarfræðinga og lækna á heilsugæslustöðvum, Heilsuborg, sjálfstætt starfandi sálfræðinga, íslensku vigtarráðgjafana, OA-samtökin og margskonar átaksnámskeið líkamsræktarstöðva.

Undanfarin ár hefur færst í vöxt að beita hugrænni atferlismeðferð samhliða annarri meðferð við þyngdarstjórnun og sýna rannsóknir að árangursríkt sé að bæta henni við meðferð til að breyta lífsstíl sem beinist að mataræði og hreyfingu.12 Hugræn atferlismeðferð er súsálfræðimeðferð sem er í hvað örustum vexti og mest rannsökuð í dag.13 Hún var upphaflega þróuð sem þunglyndismeðferð en komið hefur í ljós að hún er einnig árangursrík tilað takast á við kvíða, átröskun og fleira.14 Helsti kostur hennar er talinn felast í langtímaárangri og fallvörn.13 Vísbendingar eru umað samtvinnun meðferðarforma skili góðum árangri.5

Þjálfun svengdarvitundar (Appertite Awareness Training) er þróuð af Lindu W. Craighead og samstarfsaðilum sem gáfu út meðferðarhandbók árið 2006, sem var íslenskuð árið 2012.15 Þjálfun svengdarvitundar byggir á hugrænni atferlismeðferð og leggur áherslu á að fylgja merkjum líkamans um svengd og seddu. Meðferðin var upphaflega þróuð til að takast á við lotuát og hefur sýnt góðan árangur við því16 en einnig reynst gagnleg sem forvörn gegn þróun átraskana hjá háskólanemum.15,17 Rannsakendum þótti áhugavert að rannsaka hve vel þjálfun svengdarvitundar nýttist hópi of feitra kvenna án tillits til lotuáts. Í þjálfun svengdarvitundar er lögð áhersla á að gera greinarmun á svengd og löngun í mat og á hvern hátt tilfinningar og umhverfisáhrif hafa áhrif á matarlöngun. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að sættast við líkamann og reynt að rjúfa tengsl sjálfsmyndar og líkamsþyngdar.15 Konur sem eru of feitar eru líklegri til að bæta heilsutengda áhættuþætti þegar þær sættast við þyngd og læra að þekkja magamál sitt.18

Slökun hefur verið beitt samhliða hugrænni atferlismeðferð með góðum árangri.14 Reglubundin slökun lækkar blóðþrýsting, dregur úr súrefnisþörf líkamans, vöðvaspennu og kvíða og hægir á öndun og hjartslætti.19 Bandarísk rannsókn leiddi í ljós að í 5 vikna meðferð of feitra kvenna dró þriggja vikna þjálfun í reglubundinni slökun marktækt úr áti af tilfinningalegum toga í samanburði við hóp sem ekki lærði slökun.20 Hreyfing hefur löngum verið notuð til að hafa stjórn á þyngd vegna þess hve mikilvæg hún er talin til að viðhalda árangri. Hreyfing er ekki síður mikilvæg vegnajákvæðra áhrifa á andlega og líkamlega heilsu.21

Að framansögðu má vera ljóst að offita er flókinn vandi sem ógnar lýðheilsu Íslendinga. Rannsakendur telja fá úrræði bjóðast í grunnheilbrigðisþjónustu og því var meðferðin „Njóttu þess að borða“ þróuð. Ákveðið var að hún yrði hópmeðferð þar sem hún er talin hagkvæmari og álitin skila jafnvel betri árangri en einstaklingsmeðferð, og hópur veitiraðhald og stuðning.22 Við skipulagningu meðferðar var haft í huga hve erfitt reynist að viðhalda þyngdartapi eftir meðferð23 og að léttast er ekki eina forsenda jákvæðra áhrifa á heilsu.15,24 Meðferðin er 15 vikna hópmeðferð fyrir konur með líkamsþyngdarstuðul 30-39,9 kg/m². Í meðferðinni er fléttað saman hugrænni atferlismeðferð, þjálfun svengdarvitundar, hreyfingu, slökun og ráðleggingum um mataræði. Tilgangur rannsóknar var að rannsaka áhrif framangreindrar meðferðar hjá konum með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 30-39,9 kg/m2 og var tilgáta rannsakenda að meðferðin hefði jákvæð mælanleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra.

Efniviður og aðferðir

Þægindaúrtaki 20 kvenna var skipt af handahófi í tvo hópa, A (n=10) og B (n=10). Starfsmenn heilsugæslu í Árbæ, Mjódd og Mosfellsumdæmi öfluðu þátttakenda sem voru konur á aldrinum 19-44 ára, með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 30-39,9 kg/m². Frábendingar voru þungun, brjóstagjöf, þátttaka í öðrum úrræðum til að stjórna þyngd, nýgreind sykursýki og alvarleg líkamleg fötlun. 

Áhrif meðferðar á hóp A voru rannsökuð (ágúst-desember 2010) en hópur B var til samanburðar, síðan var víxlrannsóknarsniði beitt og hópur B fékk meðferð (janúar-apríl 2011). Eftirfylgd var 6 og 12 mánuðum eftir meðferð hjá hvorum hópi fyrir sig (mynd 1).

Markmið meðferðar þar sem hugrænni atferlismeðferð, þjálfun svengdarvitundar, hreyfingu, slökun og ráðleggingum um mataræði er fléttað saman var að þátttakendur breyttulífsstíl varanlega til að draga úr afleiðingum offitu. Þátttakendum var kennt að skynja betur tilfinningu um svengd og seddu, takast á við niðurrifshugsanir, setja sér markmið, takast á við ytra áreiti og tilfinningalegt át. Einnig að bæta stjórn á mataræði, auka þekkingu á áhrifum næringar, hreyfingar og slökunar auk þess að stuðla að breyttum lífsstíl til frambúðar. Þyngdartap var kynnt sem árangur af að breyta lífsstíl og borða eftir „venjulegu leiðinni“ sem þjálfun svengdarvitundar leggur áherslu á. Hvorki voru þátttakendur beðnir að telja hitaeiningar né settar strangar reglur um mat heldur var áhersla á að skrá svengd og seddu.  

Meðferðin fór fram í 14 hóptímum og þremur einstaklingstímum. Hverjum hóptíma var skipt upp í hópefli/spjall, fræðslu, fyrirlögn heimavinnu og hreyfingu (mynd 2) en í einstaklingstímum voru framkvæmdar mælingar og markmið sett.

Eftirfarandi mælingar voru framkvæmdar fyrir, eftir meðferð og við eftirfylgd:hæð, þyngd, blóðþrýstingur, fituhlutfall og fitumagn. Einnig voru tekin blóðsýni ogkólesteról, þríglýseríð, HDL og 25(OH)D mælt í sermi. Einkenni kvíða, þunglyndis og lífsgæði voru mæld og tvær síðarnefndu mælingarnar ásamt þyngd mældar reglulega á meðferðartímanum.

Rannsakendur bjuggu til spurningalista með lýðfræðilegum upplýsingum sem þátttakendur svöruðu í upphafi og í lok rannsóknar voru þeir beðnir að meta meðferðina „Njóttu þess að borða“ með 9 atriða kvarða.

Líkamlegar mælingar

Við hæðarmælingu var notuð veggföst mælistika (Ka-We) með stöðluðum kvarða. Þátttakendur sneru baki í vegg, hælar, sitjandi og herðar snertu vegg og handleggir hafðir slakir. Hæð var skráð með 0,1 smnákvæmni. Þátttakendur voru vigtaðir í léttum fatnaði á  tölvuvog (Seca). Líkamsþyngdarstuðull (kg/m²) var reiknaður út frá hæð og þyngd.

Við blóðþrýstingsmælingu var notaður kvikasilfursblóðþrýstingsmælir (Standby®). Notuð var viðeigandi armbandsstærð eftir mælingu á upphandlegg þátttakenda. Lesið var af mælinum með 5 mm nákvæmni en mældur var þrýstingur á báðum handleggjum og hærra gildi skráð.

Fituhlutfall og fitumagn vorumæld með rafleiðnitæki (Biodynamics) en tækið mælir viðnám gegn leiðni rafstraums í líkama og út frá því er reiknað vatns- og fitumagn líkamans. Lífeindafræðingar frá rannsóknastofu Landspítala tóku og mældu blóðsýni.

Sálfræðilegar mælingar

Þunglyndis- og kvíðaeinkenni voru metin með þunglyndis- og kvíðakvörðum Becks (BDI-II,  BAI). Báðir eru 21 atriða sjálfsmatskvarðar og heildarstig hvors geta verið á bilinu 0-63, þeir hafa verið þýddir og staðlaðir hér á landi og teljast áreiðanlegir og réttmætir.25,26

Almenn lífsgæði voru metin með margreyndum stöðluðum sjálfsmatskvarða fyrir almenna heilsu og byrði langvinnra sjúkdóma og nefnist „Könnun á heilsufari“ SF-36v1®. Reiknuð eru meðalstig fyrir andlega (mental component summary; MCS) og líkamlega (physical component summary; PCS) heilsu28 á bilinu 0-100 þar sem 50 stig eru talin endurspegla eðlilegt ástand, en fleiri stig vísbending um meiri lífsgæði. Innri áreiðanleiki spurningalistans mældist góður í samanburðarrannsókn í 11 löndum.27 Upplýsingar um lífsgæði tengd offituvanda fengust með OP-kvarða, sem er sænskur sjálfsmatskvarði með 8 spurningum um daglegar athafnir metnar á fjögurra punkta kvarða.28 Stig eru á bilinu 0-100 og há einkunn bendir til minni lífsgæða. OP er stuttur og áreiðanlegur kvarði og talinn gagnlegur í klínískri vinnu til að skima fyrirsálfélagslegu ójafnvægi.28

Leyfi

Vísindasiðanefnd veitti leyfi (VSN 10-019-S1) fyrir rannsókninni og Persónuvernd var tilkynnt um hana. Leyfi fékkst hjá framkvæmdastjóra lækninga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis og yfirlæknum heilsugæslustöðvanna þriggja.

Tölfræði

Gögn voru greind með tölfræðiforritunum Excel 2010 og SPSS 19.0 (SPSS, Chicago, IL. USA). Lýsandi tölfræði var beitt og meðaltöl og staðalfrávik fundin. Dreifing var skoðuð með Kolmogorov-Smirnov prófi. Þar sem úrtak var ekki normaldreift var notast við stikalaust próf (non-parametric) (Wilcoxon) til að meta árangur námskeiðs. Til að bera saman íhlutunarhóp og samanburðarhóp voru hópmeðaltöl borin saman með stikalausu prófi (Mann-Whitney). Miðað var við 5% marktektarkröfu (p≤0,05).

Niðurstöður

Greint er frá niðurstöðum fyrir og eftir meðferð hjá hópunum A (n=9) og B (n=9), þeir eru síðan sameinaðir (A+B) og breytingar skoðaðar hjá öllum þátttakendum (N=18). Breytingar hjá hópunum bentu í sömu átt en með sameiningu þeirra náðist meiri styrkur við tölfræðilega úrvinnslu. Átján af 20 konum luku námskeiðinu og komu í 6 mánaða eftirfylgd. Sautján mættu í 12mánaða eftirfylgd. Að lokinni eftirfylgd þurfti að útiloka barnshafandi konu og aðra sem fór í magaminnkun. Eftir stóðu 15 í lokaútreikningum ogmættu 11 í loka blóðsýnatöku en 9 í blóðsýnatöku í fyrri eftirfylgd.

Hóparnir voru svipaðir með tilliti til bakgrunnsbreyta (tafla I). Í hópi B voru fleiri með háskólamenntun (78%) samanborið við hóp A (33%) og færri með læknisfræðilega greiningu eða tóku lyf (37%) miðað við hóp A (67%). Ekki reyndist marktækur munur á neinum breytum hópanna í upphafi, fyrir utan einkenni þunglyndis sem voru marktækt fleiri (p=0,04) í hópi A.

Líkamlegar mælingar

Meðalþyngdartap þátttakenda (N=18) var 3,7 kg (p=0,001) (tafla II) og spönn -10,4 til +2 kg. Hópur A (n=9) léttist að meðaltali um 3,0 kg við meðferð (p=0,03) en samanburðarhópur um 0,5 kg (p=0,42). Hópur B (áður samanburðarhópur) léttist að meðaltali um 4,4 kg (p=0,01) við meðferð.

Við eftirfylgd breyttist meðalþyngd þátttakenda (N=15) lítið (tafla III), sjö héldu áfram að léttast, tveir stóðu í stað og sex þyngdust.

Fituhlutfall þátttakenda (N=18)lækkaði að meðaltali um 1,2% (p=0,01) og meira hjá hópi A, 1,6% (p=0,04), en hjá hópi B 0,7% (p=0,37). Fitumagnið minnkaði að meðaltali um 2,6 kg (p=0,002) (tafla II). Árangur hélst við eftirfylgd (tafla III). Að meðaltali lækkuðu efri mörk blóðþrýstings um 2mmHg (p=0,37) og neðri mörk um 3mmHg (p=0,01) hjá báðum hópum. Eftir námskeið varð marktæk hækkun á meðalgildi 25(OH)D um 7,4 nmól/L (p=0,01). Í 6 mánaða eftirfylgd hafði gildi 25(OH)D hækkað marktækt um 18,9 nmól/L (p=0,01) (tafla III). Engar marktækar breytingar urðu á gildum kólesteróls, þríglýseríðs eða HDL (tafla II).

Sálfræðilegar mælingar

Marktækt dró úr einkennum þunglyndis hjá  hópunum meðan á námskeiðunum stóð (mynd 3 og4) og í hópi A+B minnkuðu þau um 13,1 stig að meðaltali (p≤0,001) en jukust um 2,5 stig í 12 mánaða eftirfylgd (tafla II og III). Einkenni þunglyndis minnkuðu marktækt um 14,1 stig (p=0,01) í hópi A en breyting hjá samanburðarhópi nam einu stigi (p=0,57). Við samanburð á íhlutunar- og samanburðarhópi dró marktækt úr einkennum þunglyndis (p=0,004) hjá íhlutunarhópi.

Kvíðaeinkennum fækkaði hjá báðum hópum á námskeiðum og tölfræðilega marktækt í hópi B og hópi A+B. Árangur hélst við eftirfylgd (tafla III). Á OP-lífsgæðakvarðafækkaði stigum beggja hópa eftir námskeiðið, en lækkunin reyndist einungis tölfræðilega marktæk hjá hópi B og A+B. Við eftirfylgd varð ekki marktæk breyting.

Á SF-36v1® varð hækkun á meðalgildi fyrir andlega (MCS) og líkamlega heilsu (PCS) hjá báðum hópum og var hækkunin marktæk á MCS í hópi A+B (p= 0,01) (tafla II).

Þátttakendur gáfu námskeiðinu meðaltalseinkunnina 9,3 á kvarðanum 1-10. Öllum þátttakendum bar saman um að skipulag námskeiðs hefði verið mjög gott eða gott og hefði uppfyllt væntingar að miklu eða öllu leyti.

Umræður

Markmið rannsóknar var að rannsaka áhrif námskeiðsins „Njóttu þess að borða“ á heilsu kvenna sem eru of feitar.Tölfræðilega marktækur bati náðist hjá meðferðarhópunum á holdafarsmæl-ingum, neðri mörkum blóðþrýstings, sermisgildi 25(OH)D, þunglyndis- og kvíðaeinkennum, lífsgæðum á OP- kvarða og MCS (SF36). Þegar hópur A (n=9) var borinn saman við samanburðarhóp (n=10) kom í ljós marktæk fækkun einkenna þunglyndis og hélst árangur í 6 og 12 mánaða eftirfylgd. Niðurstöður styðja tilgátu rannsakenda um að meðferðin hafi jákvæð mælanleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu þátttakenda.

Um 83% þátttakenda léttust á meðferðartíma, að meðaltali um 4,7 kg, spönn þyngdarbreytinga var -10,4 til +2 kg og allt að 12% af upphafsþyngd. Samanborið við aðrar rannsóknir12,18,29 telst árangur ásættanlegur og áhugaverður því ekki var lögð áhersla á þyngdartap heldur breyttan lífsstíl og bætta heilsu. Það er talið bæta heilsu of feitra kvenna að hvetja þær til að breyta matarvenjum, hlusta á líkamann og sættast við sjálfar sig hvort sem þær léttast eða ekki.15,18,24 Við mat þátttakenda á meðferðinni voru þeir sem ekki léttust ánægðir með námskeiðið vegna jákvæðra breytinga á lífsstíl og töldu að meðferðin hefði hjálpað þeim að hætta að þyngjast. Tengsl líkamsþyngdar og sjúkdóma eru ekki aðeins tilkomin vegna beinna áhrifa aukinnar líkamsfitu á þróun ákveðinna sjúkdóma heldur eru lítil hreyfing og lélegt mataræði talin hafa áhrif á holdafar og sjúkdóma.3  Neðri mörk blóðþrýstings lækkuðu marktækt,að meðaltali um 3mmHg,að lokinni meðferð sem er jákvætt þar sem hár blóðþrýstingur eykur líkur á dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma.1 Lækkunin var þó mun minni en hjá Rapoport og félögum en þeir sáu 8mmHg lækkun á neðri mörkum blóðþrýstings eftir 12 vikna meðferð.29

Í upphafi rannsóknar voru 89% þátttakenda með gildi 25(OH)D í sermi undir viðmiðunarmörkum (>45 nmól/L) en talið er að offita auki líkur á lágu gildi 25(OH)D.30 Þátttakendur með lægsta gildi 25(OH)D í þessari rannsókn reyndust vera með hæsta líkamsþyngdarstuðul. Rannsóknir hafa sýnt að það að léttast tengist hækkuðu gildi 25(OH)D31 en einnig var þátttakendum ráðlagt að taka D-vítamín. Við árs eftirfylgd voru meðalgildi 25(OH)D innan eðlilegra marka hjá öllum þátttakendum nema þremur. Það sáust ekki marktækar breytingar á blóðfitugildum eftir meðferð enda voru þau gildi innan eðlilegra marka í upphafi rannsóknar (tafla I). Athygli vekur hve háa einkunn þátttakendur fengu á þunglyndiskvarða við upphaf rannsóknar og eftirtektarverðlækkun á meðferðartíma sem hélst við árs eftirfylgd (tafla III). Stigafjöldi í upphafi var hærri að meðaltali en hjá Rapaport30 þar sem þátttakendur voru eingöngu konur. Þunglyndi er talið algengara meðal kvenna en karla með offitu, óháð aldri, kynþætti, hjúskaparstöðu, menntun, tóbaksnotkun og notkun þunglyndislyfja.32 Í upphafi voru 78% þátttakenda með einkenni þunglyndis (BDI-II ≥14) en í lokin voru allir þátttakendur að einum undanskildum með „væg eða engin einkenni“ þunglyndis (BDI-II ≤13). Lækkun á BDI-II kvarða er í samræmi við niðurstöður hliðstæðra rannsókna.5,11,29

Niðurstöður OP-kvarða benda til að meðferðin hafi dregið úr sálfélagslegu álagi, aukið lífsgæði og styrkt sjálfsmynd og eru niðurstöðurnar í samræmi við aðrar rannsóknarniðurstöður.11 Niðurstöðurnar benda til að fleiri þættir en þyngd hafi áhrif á sálfélagslegt álag og lífsgæði hinna of feitu, en rannsóknir hafa sýnt að aukinlífsgæði haldist eftir meðferð þó þátttakendur þyngist.33

Niðurstöður á SF-36 benda til bættra almennra lífsgæða. MCS batnaði marktækt hjá hópi A+B. Þessar niðurstöður eru ekki að öllu leyti í samræmi við fyrri rannsóknir. Áhrif offitu hafa verið talin meiri á líkamlega heilsu34 og tengd undirþáttum PCS.35 Bætt lífsgæði mæld með MCS eftir meðferð gætu skýrst að hluta af slakari andlegri heilsu þátttakenda í upphafi sem batnaði á meðferðartímanum. Við eftirfylgd 6 og 12 mánuðum eftir að meðferð lauk hélst árangur sem náðst hafði á meðferðartímanum en talið er mikilvægt að meta langtímaáhrif til að meta hvort meðferð skili raunverulegum árangri.24 Rannsóknir sýna að hætt er við að meirihluti þátttakenda þyngist á ný eftir að meðferð lýkur24 og því er helsta áskorun þeirra sem skipuleggja meðferð fyrir fólk sem flokkast með offitu að árangur meðferðar haldist. Niðurstöður rannsóknar eru jákvæð vísbending um árangur meðferðar og í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna.11, 12, 29

Það styrkir rannsóknina að nota samanburðarhóp, beita víxlrannsóknarsniði og að hafa árs eftirfylgd.

Helsti veikleiki rannsóknarinnar er lítið úrtak og því erfitt að sýna fram á tölfræðilega marktækni eða yfirfæra niðurstöður á stærra þýði. Meðferðaraðilar voru þeir sömu og lögðu fyrir kvarða og því ekki hægt að útiloka þóknunaráhrif. Meðferðartíminn var einnig stuttur og erfitt að meta áhrif annarra þátta í umhverfi þátttakenda sem hugsanlega geta haft áhrif á árangur þeirra.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur ákjósanlegt og hagkvæmt að bjóða meðferð við offitu í heilsugæslu.1 Rannsóknir benda til þess að of þungar konur hafi áhuga á að mæta í lífsstílsmeðferð á heilsugæslustöð36 og að heilsugæslan sé góður vettvangur fyrir meðferð við offitu og ofþyngd.12 Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja það. Hér er í fyrsta sinn lögð áhersla á þjálfun svengdarvitundar í offitumeðferð hér á landi. Það er ýmislegt fleira en þyngdartap sem hefur áhrif á bætta heilsu og líðan þátttakenda í offitumeðferð. Það að bæði þyngdartap og bætt andleg líðan héldust í 12 mánaða eftirfylgd er sérstaklega þýðingarmikið. 

 Með því að bjóða meðferðina „Njóttu þess að borða“ í heilsugæslunni má leggja lóð á vogaskálarnar til að draga úr offitu og afleiðingum hennar. Meðferðin leiddi til marktækra breytinga á þyngd, líkamsþyngdarstuðli, fituhlutfalli, fitumagni, neðri mörkum blóðþrýstings, gildi D-vítamíns, þunglyndis- og kvíðaeinkennum, lífsgæðum mældum með OP og einstökum þáttum lífsgæða mældum með SF-36. Árangur hélst við 6 og 12 mánaða eftirfylgd. Meðferðin lofar góðu sem úrræði fyrir konur sem flokkast með offitu og hún virðist vera þátttakendum að skapi og það dregur úr líkum á brottfalli. Mikilvægt er að fylgja rannsókninni eftir með fleiri rannsóknum á árangri meðferðar fyrir stærra og fjölbreyttara þýði.

Þakkir

Við þökkum Heilsugæsluhöfuðborgarsvæðisins sem lánaði okkur húsnæði ogtækjabúnað og greiddi kostnað við greiningu blóðsýna. Einnig þökkum við Reykjalundi semlánaði okkur rafleiðnitæki til fitumælinga. B-hluti Vísindasjóðs íslenskra hjúkrunarfræðinga og Forvarnarsjóður Lýðheilsustöðvar styrktu rannsóknina.

Heimildir

  1. Alwan A. Global status report on noncommunicable diseases 2010. World Health Organization. Italy 2011.
  2. Finucane MM, Stevens GA, Cowan MJ, Danaei G, Lin JK, Paciorek CJ, et al. National, regional, and global trends in body-mass index since 1980: systematic analysis of health examination surveys and epidemiological studies with 960 country-years and 9.1 million participants. Lancet 2011; 377: 557-67.
  3. Valdimarsdóttir M, Jónsson SH, Þorgeirsdóttir H, Gísladóttir E, Guðlaugsson JÓ, Þórlindsson Þ. Líkams-þyngd og holdafar fullorðinna Íslendinga 1990-2007. Lýðheilsustöð, Reykjavík 2009.
  4. Þorgeirsdóttir H, Valgeirsdóttir H, Gunnarsdóttir I, Gísladóttir E, Gunnarsdóttir BE, Þórsdóttir I, et al. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Helstu niðurstöður. Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði 2011.
  5. Lang A, Froelicher ES. Management of overweight and obesity in adults: behavioral intervention for long-term weight loss and maintenance. Eur J Cardiovasc Nurs 2006; 5: 102-14.
  6. Lanningham-Foster L, Nysse LJ, Levine JA. Labor saved, calories lost: The energetic impact of domestic labor-saving devices. Obes Res 2003; 11: 1178-81.
  7. Gibney MJ. Public health nutrition. Blackwell Science, Oxford 2004.
  8. Ozier AD, Kendrick OW, Leeper JD, Knol LL, Perko M, Burnham J. Overweight and obesity are associated with emotion- and stress-related eating as measured by the eating and appraisal due to emotions and stress questionnaire. J Am Diet Assoc 2008; 108: 49-56.
  9. Birgisson G, Guðmundsson L. Offitumeðferð á Reykja-lundi. Sjúkraþjálfarinn 2005; 32: 22-4.
  10. Wortsman J, Matsuoka LY, Chen TC, Lu ZR, Holick MF. Decreased bioavailability of vitamin D in obesity. Am J Clin Nutr 2000; 72: 690-93.
  11. Hannesdóttir S, Guðmundsson L, Jóhannson E. Heilsu-farslegar breytingar sjúklinga í atferlismiðaðri offitumeðferð. Læknablaðið 2011; 97: 597-602.
  12. Eichler K, Zoller M, Steurer J, Bachmann LM. Cognitive-behavioural treatment for weight loss in primary care: a prospective study. Swiss Med Wkly 2007; 137: 489-95.
  13. Beck AT, Dozois DJ. Cognitive therapy: current status and future directions. Ann Rev Med 2011; 62: 397-409. 
  14. Westbrook D, Kennerley H, Kirk J. An Introduction to Cognitive Behaviour Therapy, Skills and Applications (Vol. 3).: SAGE Publications Ltd, London 2008.
  15. Craighead LW. The Appetite awareness workbook, how to listen to your body & overcome bingeing, overeating & obsession with food. New Harbinger Publication Inc, Oakland 2006. [Einarsdóttir HR, Björgvinsdóttir L. þýddu. Þekktu þitt magamál. Skrudda ehf, Reykjavík 2012.]
  16. Allen HN, Craighead LW. Appetite monitoring in the treatment of Binge Eating Disorder. Behav Therapy 1999; 30: 253-72.
  17. Brown AJ, Smith LT, Craighead LW. Appetite Awareness as a mediator in eating disorders prevention program. Eat Disord 2010; 18: 286-301.
  18. Bacon L, Stern JS, Van Loan MD, Keim NL. Size acceptance and intuitive eating improve health for obese, female chronic dieters. J Am Diet Assoc 2005; 105: 929-36.
  19. Arnarson EÖ. Slökun - til að vinna gegn spennu. Heilbrigðismál 2007; 1: 25-27.
  20. Manzoni GM, Pagnini F, Gorini A, Preziosa A, Castelnuovo G, Molinari E, et al. Can relaxation training reduce emotional eating in women with obesity? An exploratory study with 3 months of follow-up. J Am Diet Assoc 2009; 109: 1427-32.
  21. Christiansen T, Bruun JM, Madsen EL, Richelsen B. Weight loss maintenance in severely obese adults after an intensive lifestyle intervention: 2- to 4-year follow-up. Obesity 2007; 15: 413-20.
  22. Paul-EbhohimhenV, Avenell A. A Systematic Review of the Effectiveness of Group versus Induvidual Treatments for Adult Obesity. Obes Facts 2009; 2: 17-24.
  23. Cooper Z, Doll HA, Hawker DM, Byrne S, Bonner G, Eeley E, et al. Testing a new cognitive behavioural treatment for obesity: A randomized controlled trial with three-year follow-up. Behav Res Ther 2010; 48: 706-13.
  24. Crerand CE, Wadden TA, Foster GD, Sarwer DB, Paster LM, Berkowitz RI. Changes in obesity-related attitudes in women seeking weight reduction. Obesity (Silver Spring) 2007; 15: 740-7.
  25. Sæmundsson BR. Próffræðilegir eiginleikar íslenskrar þýðingar Becks Anxiety Inventory 2009. (MS-ritgerð, Háskóla Íslands); Reykjavík 2009.
  26. Arnarson TO, Olafsson DT, Smari J, Sigurdsson JF. The Beck Depression Inventory Second Edition (BDI-II): psychometric properties in Icelandic student and patient populations. Nord J Psychiatry 2008; 62: 360-5.
  27. Ware JE, Jr. SF-36 health survey update. Spine 2000; 25: 3130-9.
  28. Karlsson J, Taft C, Sjostrom L, Torgerson JS, Sullivan M. Psychosocial functioning in the obese before and after weight reduction: construct validity and responsiveness of the Obesity-related Problems scale. Int J Obes Relat Metab Disord 2003; 27: 617-30.
  29. Rapoport L, Clark M, Wardle J. Evaluation of a modified cognitive-behavioural programme for weight management. Int J Obes Relat Metab Disord 2000; 24: 1726-37.
  30. Lagunova Z, Porojnicu AC, Lindberg F, Hexeberg S, Moan J. The Dependency of Vitamin D Status on Body Mass Index, Gender, Age and Season. Anticancer Res 2009; 29: 3713-20.
  31. Mason C, Xiao LR, Imayama I, Duggan CR, Bain C, Foster-Schubert KE, et al. Effects of weight loss on serum vitamin D in postmenopausal women. Am J Clin Nutr 2011; 94: 95-103.
  32. de Wit L, Luppino F, van Straten A, Penninx B, Zitman F, Cuijpers P. Depression and obesity: A meta-analysis of community-based studies. Psychiatry Res 2010; 178: 230-5.
  33. Kaukua J, Pekkarinen T, Sane T, Mustajoki P. Health-related quality of life in obese outpatients losing weight with very-low-energy diet and behaviour modification: a 2-y follow-up study. Int J Obes Relat Metab Disord 2003; 27: 1072-80.
  34. Huang IC, Frangakis C, Wu AW. The relationship of excess body weight and health-related quality of life: evidence from a population study in Taiwan. Int J Obesity 2006; 30: 1250-9.
  35. Fabricatore AN, Wadden TA, Sarwer DB, Faith MS. Health-related quality of life and symptoms of depression in extremely obese persons seeking bariatric surgery. Obes Surg 2005; 15: 304-9.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica