12. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Ávallt sagt skoðun sína umbúðalaust – Viðtal við Guðmund Bjarnason

Hann er svipmikill og kvikur í hreyfingum, sannarlega unglegur því uppúr dúrnum kemur að maðurinn er nýlega orðinn áttræður, en ber það sannarlega ekki utan á sér. Þetta er Guðmundur Bjarnason, einn fremsti sérfræðingur okkar á sviði barnaskurðlækninga um áratuga skeið og lengi vel sá eini í íslenskri læknastétt með þessa sérgrein.

u02-fig1
Eitt af áhugamálum Guðmundar er málaralist og hér stendur hann framan við nokkrar af myndum sínum.

Guðmundur og eiginkona hans, Bergdís Helga Kristjánsdóttir, búa í Grafarvoginum rétt við golfvöllinn og hann segir að þau hjónin hafi einmitt valið staðinn vegna vallarins. „Það er þægilegt að geta labbað út um dyrnar og verið kominn á fyrsta teig eftir tvær mínútur.“ Mörg ár eru síðan hann hóf golfiðkun en tók sér svo hlé um nokkurra ára skeið. „Ég byrjaði á þessu austur á Neskaupstað þegar ég var að leysa þar af í sumarfríi á sjúkrahúsinu. Ég náði bærilegum árangri og var kominn með 15 í forgjöf þegar ég tók mér hlé, en þetta blundaði alltaf í mér og við hjónin tókum þetta upp aftur þegar um hægðist og maður fór á eftirlaunin.“

Guðmundur er fæddur á Brekku í Fljótsdal, sonur Bjarna Guðmundssonar héraðslæknis og Ástu Magnúsdóttur hjúkrunarkonu. Faðir hans gegndi næstu árin héraðslæknisstöðu á Ólafsfirði, svo á Flateyri, en fjölskyldan flutti til Patreksfjarðar þegar Guðmundur var 12 ára gamall og þar bjuggu foreldrar hans til ársins 1954 er faðir hans gerðist héraðslæknir á Selfossi. „Ég lít á mig sem Patreksfirðing, því þar tók ég út minn þroska og stundaði almenna verkamannavinnu og sjómennsku, var á togurunum Verði, Gylfa og seinast á Ólafi Jóhannessyni, en einnig á mótorbátum og í tvö sumur gerði ég út trillu sem ég svo seldi árið 1955 manni á Eyrarbakka. Ég sigldi henni einn suður, frá Patró til Reykjavíkur, og lenti í miklum vandræðum á leiðinni en það hafðist. Trillan eyðilagðist svo stuttu síðar, en nýi eigandinn hafði flutt hana upp að Ljósafossvirkjun til að dytta að henni en henni sópaði burt í flóðinu fræga sem varð í Soginu og hefur ekki frést af henni síðan.“

Guðmundur segir að sjómennskan hafi sett sitt mark á sig. „Eftir stúdentsprófið var ég að velta fyrir mér tveimur kostum. Að fara í Stýrimannaskólann eða læknisfræðina. Ég kunni alltaf vel við mig á sjónum og gat vel hugsað mér skipstjórn sem framtíðarstarf. Af því varð þó ekki en uppeldið sem ég fékk á sjónum mótaði mig og varð til þess að ég hef ávallt sagt skoðanir mínar á mönnum og málefnum umbúðalaust. Eflaust hefur einhvern sviðið undan og ég líklega stundum verið óþarflega hvass. Maður lærði að svara fyrir sig á dekkinu á gamla Gylfanum.“

Nám og störf í Svíþjóð

Guðmundur lauk læknisfræðinni við HÍ 1958 og eftir tveggja ára störf á ýmsum deildum Landspítalans og Borgarspítalans, ásamt afleysingum í héraði á Selfossi og Grundarfirði, hlaut hann almennt lækningaleyfi á Íslandi 1960. „Þá stóð hugur minn til framhaldsnáms í skurðlækningum og Svíþjóð varð fyrir valinu. Ég byrjaði sem aðstoðarlæknir á almennu sjúkrahúsi í Flen í Sörmland og við Gauti Arnþórsson vorum þarna saman. Þarna voru tveir þýskir herlæknar, Kund og Schröder, mjög skemmtilegir náungar sem kunnu margar sögur. Schröder sagði mér frá því að á stríðsárunum var hann í herflokki sem hafði aðsetur í litlu þorpi í Hollandi. Þar varð hann vitni að því er hús varð fyrir sprengju úr flugvél og hrundi gersamlega niður við sprenginguna en þegar rykinu svifaði frá kom í ljós að upp á annarri hæð hafði maður setið á klósetti og þarna sat hann enn og hélt sér dauðahaldi í klósettið sem trónaði í nokkurra metra hæð efst á niðurfallsrörinu. Svo var þarna einn sænskur læknir sem hóf alla morgna með því að fá sér fullt glas af spritti sem ætlað var til handþvotta. Hann var nú fljótlega rekinn sem vonlegt var. Við sáum þó fljótt að lítil framtíð væri í veru okkar þarna og fórum að hugsa okkur til hreyfings. Eftir að hafa kannað rétt okkar hjá SYLF (Sveriges yngre läkares förening) komumst við að því að við hefðum tveggja vikna uppsagnarfrest og fórum þá að líta í kringum okkur eftir vænlegri stöðum. Gauti fékk fljótt stöðu á handlækningadeild sjúkrahússins í Huddingsvall og fer á fund yfirlæknisins Harald Lundberg til að segja upp. Harald maldar í móinn og segir hann ekki geta stokkið fyrirvaralaust í burtu en Gauti segir að samkvæmt SYLF eigi hann rétt til að segja upp með tveggja vikna fyrirvara. Þá rýkur Harald upp, lemur í borðið og hrópar: Andskotans útlendingar sem komið hingað og haldið að þið hafið einhvern rétt! Gauti kemur svo fram heldur niðurdreginn og segir mér að Harald hafi orðið alveg vitlaus og ég kveið talsvert fyrir því að fara á fund hans og tilkynna honum uppsögn. Þá brá svo við að hann var hinn ljúfasti, kvaðst skilja þetta afskaplega vel og auðvitað ættum við enga framtíð á svona litlum stað. Þetta endaði því allt vel. Ég hafði fengið stöðu á bæklunarskurðdeild sjúkrahússins í Västerås, við fluttum þangað og mér líkaði vel.

Aðstoðaryfirlæknirinn hét Skobovic, Hvítrússi sem setið hafði í fangabúðum nasista á stríðsárunum. Mikill ágætismaður. Eftir eitt ár á bæklunardeildinni flutti ég mig yfir á almenna handlækningadeild og þar var yfirlæknir Axel Bruselius og aðstoðaryfirlæknir Arne Olson sem síðar varð yfirlæknir handlæknisdeildar sjúkrahússins í Sala. Þetta voru miklir prýðismenn. Arne var reyndar skapmaður og gat tekið rispur en það var fljótt úr honum. Þarna var ég í fimm ár og líkaði mjög vel, mér var trúað fyrir ýmsum verkefnum sem ekki var sjálfsagt að fela ungum lækni.“

Það er greinilegt að Guðmundur hefur kunnað vel við sig í Svíþjóð og velti því lítið fyrir sér að flytja heim til Íslands. „Ég fór sjaldan heim til Íslands á þessum árum, en sumarið 1965 var ég á Íslandi og fór upp á Landspítala og hitti þar Snorra Hallgrímsson prófessor sem segir við mig: þú verður að fara að koma heim. Ég sagðist lítið hafa hugsað um það en hann bætir því við að hér heima vanti sérfræðing í barnaskurðlækningum. Farðu og lærðu barnaskurðlækningar og komdu svo heim, segir Snorri. Það sem togaði mig heim var að við áttum þrjá stráka sem við vildum að væru íslenskir. Sá elsti var að komast á unglingsárin og því varð þetta að gerast fljótlega.

Ég tók Snorra eiginlega á orðinu og fékk stuttu síðar stöðu á barnasjúkrahúsinu í Gautaborg og var þar við barnaskurðlækningar í tvö ár. Ég var náttúrulega þegar þarna var komið sögu kominn með sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum og hafði sinnt barnaskurðlækningum með öðru í Västerås og vissi hreinlega ekki að barnaskurðlækningar væru til sem sjálfstæð sérgrein þegar Snorri minntist á þetta. Þegar ég kom til Gautaborgar voru þar fyrir fjórir aðstoðarlæknar og tveir sérfræðingar. Aðstoðarlæknarnir höfðu komið beint úr námi og fengu fátt annað að gera en að lagfæra kviðslit og aðrar minni aðgerðir. Ég fann mig ekki alveg í þessu og talaði við yfirlækninn Gustav Petterson og sagðist ekki geta staðið í þessu. Ég væri búinn að stunda skurðlækningar í fimm ár og væri með viðurkennd sérfræðiréttindi. Hann sagði bara einfaldlega: þú mátt gera hvað sem þú vilt. Petterson var einn fremsti hjartaskurðlæknir í heimi á þeim tíma og ég aðstoðaði hann við flestar hjartaaðgerðir meðan ég var þarna.“

Guðmundur rekur sögu barnaskurðlækninga í stuttu máli og rifjar upp að flestar aðgerðir á börnum hafi í upphafi verið bæklunaraðgerðir af ýmsu tagi og barnaskurðdeildir hafi orðið til við ýmsa spítala um aldamótin 1900. „Þarna voru menn aðallega að fást við útlimaaðgerðir en lítið um að farið væri inn í kviðarhol eða brjósthol. Barnaskurðlækningar eru frábrugðnar almennum skurðlækningum á fullorðnu fólki að ýmsu leyti;  í fyrsta lagi er barnslíkaminn svo miklu smærri en fyrst og fremst er um að ræða alls kyns meðfædda sjúkdóma og kvilla sem einkenna barnsaldurinn, sérstaklega nýbura, og margt af því er meðfætt og getur – ef ekki er læknað eða lagfært – leitt barnið til dauða. Um er að ræða fjölmarga meðfædda galla í útlimum, höfði, meltingarfærum, taugakerfi, lungum og hjarta, einnig meðfædd lýti ýmiss konar. Ýmsir aðrir sjúkdómar sem ekki krefjast aðgerðar en tilheyra þó handlæknisfræðinni fylgja nýburum. Það sem skiptir þó ekki minna máli er meðferð hinna smáu sjúklinga eftir aðgerð, sem er mjög sérstök og frábrugðin meðferð fullorðinna sjúklinga.“

Úrelt fyrirkomulag

Guðmundur kveðst hafa vanist því fyrirkomulagi frá upphafi á barnasjúkrahúsinu í Gautaborg að barnaskurðlæknarnir fylgdu sjúklingum sínum eftir allt til útskriftar. „Börnin lágu áfram á handlækningadeildinni eftir aðgerð og voru undir eftirliti okkar skurðlæknanna. Ef við þurftum á lyflæknum að halda voru þeir til staðar. Þá var þarna líka mjög góð gjörgæsludeild og henni stjórnaði yfirlæknir svæfinganna hjá okkur. Þetta var eiginlega fyrsta gjörgæsludeildin fyrir börn sem stofnuð var í Svíþjóð. Þetta fyrirkomulag gaf mjög góða raun og varð aldrei tilefni til neinna árekstra. Þarna var ég í tvö ár og undi hag mínum vel, en sumarið 1967 flutti ég heim til Íslands ásamt fyrri konu minni Erlu Jónsdóttur og sonum. Eftir það kom ég ekki til Svíþjóðar nema til skemmri dvalar, en ég leysti oft af í sumarleyfum mínum á handlækningadeildum sjúkrahúsa í Svíþjóð.“

Ekki var um fasta stöðu að ræða fyrir Guðmund í upphafi, heldur var hann ráðinn í afleysingastöðu, en fljótlega var hann ráðinn í fasta stöðu sérfræðings á handlækningadeild Landspítalans. „Þeirri stöðu gegndi ég til ársins 1975 er ég var skipaður yfirlæknir á barnadeild Landspítalans. Ég var síðan í þeirri stöðu í 25 ár, allt þar til ég hætti vegna aldurs árið 2000.“

Það voru viðbrigði fyrir Guðmund að hefja störf á Landspítalanum eftir sjö ár í Svíþjóð og hann nefnir sérstaklega hversu aðskilin barnadeildin var frá handlækningadeildinni. „Fyrirkomulagið var þannig að eftir aðgerð á handlækningadeildinni var barnið flutt yfir á barnadeild og þá var meðferðin algerlega úr mínum höndum. Þetta hafði þróast svona frá því barnadeildin var stofnuð 1957 og var kannski besta niðurstaðan miðað við aðstæður þá, en þróunin í meðferð barna eftir aðgerð hafði orðið hröð og þetta var í rauninni orðið mjög úrelt fyrirkomulag. Ég hafði nú í byrjun góðar vonir um að þessu mætti breyta en mætti mikilli andstöðu yfirmanna barnadeildarinnar og satt að segja var þetta stöðugt basl næstu árin; ég vildi fá að skoða börnin sjálfur fyrir aðgerð, tala við foreldrana og ákveða hvort gera ætti aðgerð eða ekki. Þetta mátti ég ekki. Börnin voru kölluð inn til aðgerða af lyflæknum barnadeildarinnar og send til mín. Ég átti síðan að gera aðgerðina og ekki skipta mér meira af því. Þetta líkaði mér illa og sérstaklega þótti mér slæmt að fá ekki að hafa hönd í bagga um meðferð barnanna eftir aðgerð. Ég vildi einnig að börn sem höfðu verið í aðgerð yrðu lögð inn á sérstakar stofur, en ekki sett á stofur með börnum sem voru veik af alls kyns sýkingum. En þessu var öllu blandað saman og barnadeildin var í raun rekin eins og smitsjúkdómadeild og það kom þráfaldlega fyrir að frísk börn sem komu inn til aðgerðar sýktust í kjölfarið við að liggja á barnadeildinni. Þetta fékkst ekki í gegn. Þá bað ég um að fá að merkja skýrslur barnanna sem ég hafði gert aðgerð á til að ég væri fljótari að finna þau á deildinni. Það mátti ekki heldur. Satt best að segja þá var eiginlega alveg sama hvað ég lagði til eða bað um, það var allt saman slegið útaf borðinu. Og þetta fór í taugarnar á mér og stundum var ég óvæginn við þessa pilta, kjaftfor og leiðinlegur, enda var ekki boðið upp á neinn vinskap, og samskiptin urðu að sama skapi stirð. Þetta voru mikil viðbrigði frá Svíþjóð og oft hvarflaði að mér að flytja út aftur. Líklega hefði ég gert það ef ég hefði haft efni á því.“

u02-fig2
„Maður lærði að svara fyrir sig á dekkinu á gamla Gylfanum,“ segir Guðmundur.

Sóttur upp á hálendið

Í sautján ár var Guðmundur eini sérfræðingurinn í barnaskurðlækningum og sannarlega var mikið að gera hjá honum. „Ég var eiginlega á stöðugri vakt fyrir barnadeildina í öll þessi ár, auk þess að vera á vakt fyrir handlækningadeildina. Það kom fyrir að ég var sóttur út á land – upp á hálendið jafnvel – ef gera þurfti bráðaaðgerð á barni. Þetta hafði auðvitað líka þau áhrif að þolinmæði mín gagnvart alls kyns vitleysu sem fékk að viðgangast var minni en ella. Ég var alltaf með langan biðlista af börnum sem þurftu að komast í aðgerð og það var óþolandi að geta ekki stjórnað því sjálfur hvernig börnin voru tekin inn af biðlistanum. Oft myndaðist flöskuhálsinn á barnadeildinni þar sem ég fékk ekki pláss fyrir aðgerðabörnin og varð því að fresta aðgerð af þeim sökum. Þessir erfiðleikar urðu til þess að ég fór að velta því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegast að skipta barnadeildinni í handlækningadeild og lyflækningadeild. Rétt eins og með fullorðna sjúklinga. Ég lagði mikla vinnu í þetta og læknaráð, stjórn spítalans og ráðuneytið voru sammála því að þetta væri rétt, en þetta strandaði á yfirlæknum barnadeildarinnar og komst ekki lengra. Þeir höfnuðu þessu algerlega. Þá voru einnig uppi hugmyndir um að færa handlækningar barna alfarið yfir á handlækningadeildina og um þetta voru samin mörg bréf og margar yfirlýsingar og allir  nema yfirlæknar barnadeildarinnar voru í rauninni sammála um að þessu þyrfti að breyta. Loks fékkst sú niðurstaða að ég fékk 14 rúm til umráða á barnadeildinni og það var heilmikil framför en þó vildi verða misbrestur á að þau væru aðskilin frá öðrum sjúklingum deildarinnar. Eftir mörg ár (1983) fékkst svo leyfi fyrir tveimur stöðum barnaskurðlækna og það létti talsvert á mér.“

Eflaust þykir mörgum fróðlegt að lesa þessi orð Guðmundar en þau lýsa baráttu frumkvöðuls fyrir viðurkenningu og starfsaðstöðu sérgreinar sinnar. „Þetta átti sér að nokkru leyti sögulegar skýringar, einnig var sumpart um faglegan ágreining að ræða, en fyrst og síðast var þetta persónulegt stríð þar sem menn vörðu stöðu sína og hagsmuni með öllum tiltækum ráðum. Eftir að ég fékk skipun sem yfirlæknir á barnadeildinni hefði mátt ætla að ég væri kominn í betri aðstöðu til að hafa áhrif á þróun mála en það var eftir sem áður þungur róður þar sem ég var eini skurðlæknirinn á móti 11 lyflæknum barnadeildarinnar, og þannig var það næstu átta árin. Ég skrifaði stjórnarnefnd spítalans bréf og lagði til að yfirlæknisstaðan í handlækningum barna á barnadeildinni yrði lögð niður, því hún væri hégóminn einn. Þetta voru helv . . . leiðindi allt saman. Andrúmsloftið var slíkt að ég var yfirleitt ekki boðaður á neina fundi þar sem málefni deildarinnar voru til umræðu. Mér var heldur ekki falið að kenna barnaskurðlækningar á vegum barnadeildarinnar heldur sá lyflækningaprófessorinn um þá kennslu. Ég kenndi hins vegar barnaskurðlækningar á vegum handlækningadeildarinnar og þannig var fyrirkomulagið allt til þess að ég hætti störfum. Ekki má samt skilja orð mín þannig að þetta hafi allt verið eintómt stríð. Ég átti marga ágæta vini í hópi kolleganna og mjög gott samstarf við flesta þeirra í þau 33 ár sem ég starfaði við spítalann.“

Nýjungar og nýmæli

Með komu Guðmundar til landsins urðu ýmis nýmæli í aðgerðum á börnum og einnig í meðferð þeirra eftir aðgerð. „Meðal þess sem ég gerði og ekki hafði verið gert hér áður voru aðgerðir vegna vatnshöfuðs og breyttar aðferðir við aðgerð vegna klofins hryggs. Ég gerði ýmsar nýjar aðgerðir vegna meðfæddra galla í þvagfærum, nýrum og meltingarfærum. Þá hóf ég aðgerðir í brjóstholi á fyrirburum. Einnig aðgerðir vegna samvaxinna hausamóta sem hafði ekki verið viðurkenndur sjúkdómur hér. Einu tilfelli man ég eftir þar sem heimilislæknir úti í bæ hafði lagt inn barn vegna samvaxinna hausamóta og yfirlæknir á barnadeildinni sendi barnið heim aftur með þeim orðum að það væri ekkert að krakkanum. Ég frétti svo af þessu og lét leggja krakkann inn aftur og gerði aðgerðina. Það var svo sem ýmislegt fleira sem ég fékkst við og hafði ekki verið gert  hér áður. Sumt flokkaðist nú undir lyflækningar fremur en handlækningar. Wilms tumor er meðfæddur illkynja æxlissjúkdómur í nýrum sem krefst aðgerðar og lyfjameðferðar. Lyfið til að meðhöndla þetta var ekki til í landinu þegar ég fékk fyrsta tilfellið og það varð að panta það frá útlöndum.

Ég kynnti líka nýjungar í eftirmeðferð og lagði mikla áherslu á gjörgæslu fyrir aðgerðabörnin og að hjúkrunarfólkið yrði þjálfað í gjörgæslumeðferð barna. Nýburar eftir aðgerðir þurfa mjög sérstaka og nákvæma meðferð sem ekki var til staðar þegar ég kom á Landspítalann. Í dag er þetta í mjög góðu horfi og allir vita hvað þeir eru að gera en því miður var það ekki þannig þegar ég kom til starfa á Landspítalann árið 1967.“

Þegar ég bið Guðmund að lokum að segja mér hvað það sé við barnaskurðlækningarnar sem hafi heillað hann í upphafi, þá svarar hann einfaldlega. „Börnin eru einstaklingar sem eiga framtíðina fyrir sér. Það er útaf fyrir sig ágætt að gera við áttræðan karl eins og mig en maður lengir ekki líf hans um mörg ár. Hann hefur lokið sínu ævistarfi. Það er annað mál að skera upp nýbura með banvænt mein og fleyta honum með því fram til þess að verða áttræður. Það er ánægjulegt. Ein stúlka sem ekki var hugað líf á sínum tíma var að útskrifast sem lögfræðingur í haust með hæstu einkunn. Það er árangur sem yljar manni.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica