11. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Minningar úr héraði 1962. Páll Ásmundsson

Síðan okkar býður upp á ýmsa möguleika. Í síðasta blaði var frásögn af ferð okkar í Skagafjörð á vit Sturlungu og annarra sagna.

En margt fleira kemur til greina. Þeirri frásögn sem hér er birt er ætlað að vera hvatning til félaga sem hafa í fórum sínum frásagnir eða annað efni sem þeir gjarnan vilja deila með félögum sínum.

Þá vil ég ekki síður minna á að bundið mál hvers konar er vel þegið.

Málefni félagsins þurfa að

eiga hér sinn sess en mörg tækifæri munu gefast til að skjóta inn efni frá félögum. Muna þarf þó að pláss er að minnsta kosti um sinn bundið við síðuna sem okkur hefur verið úthlutað.

P.Á.


Ég útskrifaðist úr læknadeild vorið 1962. Í ágúst þá um sumarið leysti ég af Kristján Sigurðsson héraðslækni á Patreksfirði og afplánaði með því hluta héraðsskyldunnar. Ég á góðar minningar frá þessum tíma.

Við hjónin fórum vestur með rúmlega ársgamla dóttur okkar. Tengdaforeldrar mínir óku okkur í Flókalund en þangað kom Kristján læknir og sótti okkur. Var okkur vel tekið af honum og Valgerði konu hans.

Strax fyrsta kvöldið varð atvik sem mér fannst svolítið skondið eftir á. Sýslumaðurinn, Ari Kristinsson, leitaði til Kristjáns læknis vegna beins sem hrökk ofan í hann og honum fannst standa fast í hálsinum. Kristján kallaði til „svæfingalækni” héraðsins til fulltingis en hann var enginn annar en sóknarpresturinn, séra Tómas Guðmundsson! Betur fór en á horfðist því að óþægindi Ara hurfu af sjálfu sér. Tilhugsunin um að kynnast þannig þremur æðstu embættismönnum svæðisins: lækninum, sýslumanninum (sjúklingnum) og prestinum (svæfaranum) hefur oft síðan vakið mér bros.

Séra Tómas var reyndar líka bílstjóri minn í vitjanir utan þorpsins. Fórum við nokkrar slíkar ferðir á jeppanum hans, meðal annars til Tálknafjarðar, sem var í minni umsjá hluta mánaðarins, og út í Örlygshöfn. Tómas var skemmtilegur ferðafélagi og tókst góð vinátta með fjölskyldum okkar.

Báðum þótti okkur Tómasi gaman að silungsveiðum og ræddum oft um að skreppa í veiðitúr ef færi gæfist. Einn sunnudag í blíðskaparveðri var ég að koma frá stofugangi á spítalanum og mætti séra Tómasi að koma frá messu. Mér sýndist viðra vel til veiða en kunni ekki við að spyrja hempuklæddan guðsmanninn. Hann hugsaði víst eitthvað líkt því eftir smáspjall um veðrið kvaddi hann mig með þessum orðum: „Já, það er fallegt veður í dag. Ég hringi í þig á eftir”. Og það gerði hann og við ókum í jeppanum yfir á Rauðasand. Mörgum finnst nú hrikalegur vegurinn niður á Rauðasand en hvílík hátíð hjá því sem þá var: Snarbrattir sneiðingar með ótal beygjum. Tómas ók þetta af snilld og nú fórum við að leita veiðistaða. Þarna liðuðust smálækir  um mýrlent flatlendi. Engan sáum við silunginn en þarna var mikið um ál. Endirinn varð sá að við „húkkuðum” hvor sinn álinn og héldum heimleiðis. Við Sigrún snæddum okkar um kvöldið og smakkaðist vel. Ég hitti Tómas daginn eftir og spurði hvernig hans áll hefði smakkast. „Já, állinn,” svaraði hann. „Við vorum með annan mat tilbúinn svo ég setti álinn í bala niðri í kjallara. Um nóttina sváfum við ekki dúr því kvikindið var ekki dautt og hamaðist í balanum. Ég gafst upp undir morgun fór niður, náði í balann, fór með hann niður í fjöru og sleppti álnum.”

Fá stórafrek voru unnin í lækningum þennan mánuð. Ég sinnti spítalanum og læknisstofunni og fór í allnokkrar vitjanir. Sigrún, kona mín, afgreiddi í apótekinu og Áslaug litla undi sér við að dreifa eiturmiðum sem hún fann í einni skúffunni.

Seinasta daginn dró þó til tíðinda. Kona kom á sjúkrahúsið til að fæða og gekk fæðingin mjög seint. Ljósmóðir staðarins óskaði míns fulltingis. Litlu betur sýndist ganga þótt ég kæmi til leiks. Ég leitaði loks ráða símleiðis hjá sjálfum prófessor Pétri H. Jakobsson og það nokkrum sinnum. Loks kom þar að hann sagði að ég yrði að nota tengur. Hófst nú mikið puð við að leggja þær en hvernig sem ég reyndi kom ég aldrei að nema öðru blaðinu. Á endanum fór eitthvað að ganga og ég reyndi að hjálpa til með hálfri töng. Barnið fæddist loks og kom þá í ljós að annar handleggurinn lá fram með vanga þess. Þar var komin skýring á brasinu. Mér hefur alltaf þótt hálfklént að hátindur ferils míns í fæðingarhjálp var að leggja hálfa töng. Barnið var blátt og slappt og fór langur tími í að koma lífi í það en tókst þó um síðir. Á meðan beið móðirin mikið klippt og nokkuð rifin. Loks settist ég við að sauma hana og var að taka síðasta sporið þegar ljósmóðurinni var litið út um gluggann. „Nei sko! Þarna kemur þá Kristján læknir keyrandi!”

Páll Ásmundsson

 

Aðventufagnaður

Búið er að bóka sal á Hótel Sögu (Yale)

miðvikudaginn 8. desember.

Verð kr. 6400 á mann.

Félögum er bent á að hafa kvöldið frátekið

og fjölmenna að sjálfsögðu.

Bókanir eru í síma 5644100 á skrifstofu LÍ.

Stjórnin

Þá birgði hann Eitil upp af heyi að eta og snjó til að svala þorstanum þangað til hann gæti boðið honum betri drukk, þreif til malpokans, tók upp nesti sitt, setti ekki Leó hjá. Kjötið var frosið og jafnvel brauðið olli tannkuli, en hvað um það. Bráðum gæti hann hellt upp á. Þeir skiptu freðna matnum milli sín eins og góðvinum bar, hann og Leó, skiptu bróðurlega. Benedikt þætti gaman að sjá framan í þann sem lifði við konunglegri kjör í höll sinni og meira öryggi í þrengingum veraldar

Úr Aðventu Gunnars Gunnarsson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica