11. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Læknalögin felld úr gildi með nýju frumvarpi

Í umsögnum virðist það almennt vera talinn ótvíræður kostur að með nýja frumvarpinu verði ofantöldum lagabálkum steypt saman í einn, til einföldunar og hagræðis. Í frumvarpinu eru taldar upp 33 heilbrigðisstéttir og í texta frumvarpsins er ávallt notað orðið „heilbrigðisstarfsmaður“ í stað þeirra fjölmörgu starfsheita sem lögin ná yfir. Þannig er hvergi í frumvarpinu notað starfsheitið læknir heldur er vísað til „heilbrigðisstarfsmanns með lækningaleyfi“ þegar einfaldlega er átt við lækni. Mörgum þykir eflaust missir að þessu ágæta orði úr þeim eina lagatexta sem verður í gildi um lækna og starfssvið þeirra þegar og ef frumvarpið verður að lögum óbreytt.

Umsagnir um frumvarpið eru fjölmargar og eiga það flestar sammerkt að fagna tilkomu þess án frekari athugasemda. Þess ber þó að geta að mörg félaganna og stofnananna hafa gert athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins á fyrri stigum þess. Með frumvarpinu fá ýmsar starfsstéttir innan heilbrigðisgeirans í fyrsta sinn viðurkenningu á grein sinni, þó ekki sé um löggildingu að ræða og er gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu. Viðurkenningin er þó mörgum starfsstéttum greinilega mikils virði, enda í fyrsta sinn sem þeim er sumum hverjum skipað opinberlega á bás með öðrum heilbrigðisstéttum.

Telja frumvarpið afturför

Það vekur óneitanlega athygli að sterkustu andmælin við frumvarpið koma frá Læknafélagi Íslands, Læknaráði Landspítalans og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, en samnefnari þeirra athugasemda felst í því að telja það afturför að sértæk lög um lækna og hjúkrunarfræðinga verði felld úr gildi.

Allar götur frá 1998 hefur Læknafélagið ítrekað sömu grundvallarathugasemdir og má rifja upp að í athugasemdum frá 1998 segir: „Í gildandi læknalögum kemur sérstaða læknis, skyldur hans, ábyrgð og réttindi greinilega fram. Stjórn Læknafélags Íslands telur þetta ekki koma nægjanlega fram í frumvarpi til laga um skyldur heilbrigðisstarfsmanna og frumvarpið í núverandi mynd sé því afturför frá því sem verið hefur … Frumvarpið rýrir möguleika lækna til að mæla fyrir um og skipuleggja bestu meðferð fyrir sjúklinga. Samkvæmt frumvarpinu dreifist ábyrgð á meðferð sjúklinga á allar heilbrigðisstéttir og verður óskýr. Stjórn LÍ telur því að ekki beri að leggja það fram.“

Í athugasemdum frá árinu 2002 þegar frumvarpið kom fram að nýju segir LÍ: „Stjórn LÍ tekur undir þessi sjónarmið sem fram komu 1998. Læknalög hafa sannað gagn sitt frá því þau voru sett fyrir rúmri hálfri öld. Þau hafa markað læknum sérstöðu, sem er nauðsynleg þeim til að hafa forystu um greiningu og meðferð sjúkdómanna eins og til er ætlast. Þau hafa kveðið skýrt á um ábyrgð þeirra og skyldur og um takmarkanir annarra og ólærðra til að gefa sig að lækningum.“

Og í umsögn dagsettri 13. ágúst 2009 segir: „Læknafélag Íslands lýsir sig andvígt því að læknalög verði úr gildi felld. LÍ vill ekki fetta fingur út í það, ef lagabætur vegna annarra heilbrigðisstétta teljast nauðsynlegar. Engin brýn nauðsyn sýnist hins vegar til þess að endurskoða eða fella niður læknalög í því skyni.”

Síðar segir: „Sýnist ráðuneytinu stefna í óefni með fjölda löggiltra heilbrigðisstétta, má benda á, að einn lagabálkur fyrir alla heilbrigðisstarfsmenn er ólíklegur til að draga úr vanda ráðuneytisins í þeim efnum.“

Hjúkrunarfræðingar mótfallnir

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er sama sinnis, en í umsögn þess frá 27. nóvember 2009 segir: „Stjórn Fíh tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn Læknafélags Íslands dagsettri 13. ágúst 2009 að ef fjöldi heilbrigðisstétta er kveikjan að hugmynd um setningu einna sameiginlegra laga um heilbrigðistarfsmenn, þá sé nær að hafa fækkun löggildra heilbrigðisstétta að leiðarljósi við setningu laga um heilbrigðisstarfsmenn fremur en að fella brott sérlög sem setja heilbrigðisstéttum skýran ramma.“

Í umsögn Fíh segir ennfremur: „Á það skal bent að í umræddu frumvarpi er enginn greinarmunur gerður á fagstéttum með langt háskólanám að baki og starfsstéttum sem lokið hafa námi á framhaldsskólastigi. Slík aðgreining er nauðsynleg með tilliti til eðlis starfa og ábyrgðar.“

Í umsögn sinni leggst stjórn Fíh ennfremur alfarið gegn því að hjúkrunarlög nr 8/1974 verið felld brott.

Hvergi minnst á skottulækningar

Læknaráð Landspítala tekur í sama streng í umsögn sinni frá 26. nóvember 2009. Þar segir: „Læknaráð Landspítala telur það bæði óheppilegt og ónauðsynlegt að afnema læknalög en í þeim er ágæt grein gerð fyrir ábyrgð, skyldum og réttindum. Læknar gegna lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu þar sem þeir bera ábyrgð á greiningu, meðferð og eftirliti sjúklinga og langstærstur hluti heilbrigðisútgjalda fellur til vegna ákvarðana sem læknar taka. Læknalög frá árinu 1988 eru mun afdráttarlausari hvað varðar skyldur lækna við sjúklinga sína, en hið nýja frumvarp. Þannig telur læknaráðið að hagsmunum sjúklinga sé betur borgið með sértækum lögum um lækna heldur en með rammalöggjöf sem tekur til 33 ólíkra starfsstétta, sem sumar hverjar hafa litla aðkomu að hefðbundinni læknisfræðilegri greiningu og meðferð.“

Þá bendir læknaráð á að í læknalögunum er kafli um skottulækningar þar sem þær eru afdráttarlaust bannaðar. „Þetta verður að teljast afar mikilvægt vegna sívaxandi framboðs af efnum og „meðferðum“ sem ýmsir ófaglærðir aðilar bjóða fram.“

Undir þetta tekur stjórn LÍ í síðustu umsögn sinni af mörgum í gegnum árin, dagsettri 27. ágúst 2010 og gerir þar efnislegar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins en ítrekar þó fyrra sjónarmið um læknalögin með þeim orðum að „fyrsta ósk Læknafélagsins er því sú að núverandi læknalögum verði bætt inn í lagafrumvarpið sem sérstökum kafla. Sé ekki meirihluti nefndarmanna fylgjandi því þá leggur Læknafélagið fram tillögur um breytingar á sjö greinum núverandi frumvarps.”

Tónninn í þessari síðustu athugasemd ber með sér að stjórn Læknafélagsins er orðin nær úrkula vonar um að læknalögin öðlist framhaldslíf og því sé illskást að bjarga því sem bjargað verður og vonast eftir lagfæringum á frumvarpinu sem fyrir liggur.

Samræming og einföldun

Höfundar frumvarpsins telja það framför og einföldun frá því lagaumhverfi sem nú ríkir. Í skýringum með frumvarpinu segir: „Megintilgangurinn með rammalöggjöf um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn, tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur til heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn eru gerð markvissari og hnitmiðaðri en áður, felldar brott ónauðsynlegar takmarkanir á starfssviði heilbrigðisstétta og þau færð til nútímahorfs þannig að heilbrigðisþjónustan og störf og starfssvið heilbrigðisstétta geti þróast með eðlilegum hætti innan ramma löggjafar. Verði frumvarpið að lögum verða nýjar heilbrigðisstéttir framvegis ekki löggiltar nema með breytingu á lögunum.“

Ennfremur segir: „Frumvarp þetta byggist að stofni til á ákvæðum læknalaga, nr. 53/1988, eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar, enda er tilvísun til læknalaga í flestum lögum og reglugerðum um heilbrigðisstéttir. Ýmis ákvæði læknalaga gilda því almennt um heilbrigðisstarfsmenn og má því segja að þau séu að vissu marki grundvallarlög um heilbrigðisstéttir. Við undirbúning frumvarps þessa hefur einnig verið höfð hliðsjón af sambærilegum norskum lögum.“

Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að tvær stærstu heilbrigðisstéttirnar í landinu, læknar og hjúkrunarfræðingar, eru mótfallnar frumvarpinu og mjög ósáttar við að sérstök lög um lækna og hjúkrunarfræðinga verði felld úr gildi. Jafnframt er ljóst að flestar aðrar heilbrigðisstéttir sem nefndar eru í frumvarpinu taka því vel og flestar heilbrigðisstofnanir landsins gera ekki efnislegar athugasemdir við það. Á vef Alþingis má lesa allar umsagnir sem heilbrigðisnefnd Alþingis hafa borist vegna frumvarpsins og er full ástæða til að hvetja lækna til að kynna sér frumvarpið til hlítar og hvaða breytingar það mun hafa í för með sér fyrir starfsskyldur þeirra og ábyrgð.

 

 

Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi 15 eldri lög:

Læknalög, nr. 53/1988
Lög um tannlækningar, nr. 38/1985
Hjúkrunarlög, nr. 8/1974
Lög um félagsráðgjöf, nr. 95/1990
Lög um iðjuþjálfun, nr. 75/1977
Ljósmæðralög, nr. 67/1984
Lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978
Lög um lífeindafræðinga, nr. 99/1980
Lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984
Lög um sjúkraliða, nr. 58/1984
Lög um sjúkraþjálfun, nr. 58/1976
Lög um þroskaþjálfa, nr. 18/1978
Lög um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985,
Lög um sálfræðinga, nr. 40/1976
Lög um starfsréttindi tannsmiða, nr. 109/2000
Þetta vefsvæði byggir á Eplica