10. tbl. 96.árg. 2010

Fræðigrein

Lækningar og saga: Svikið áfengi

Adulterated alcoholic beverages

doi: 10.17992/lbl.2010.10.322

Inngangur

Samkvæmt íslenskum lögum telst áfengi hver sá neysluhæfi vökvi, sem í er 2,25% v/v af etanóli (í lögunum nefnt „hreinn vínandi“) eða meira (2. gr. laga nr. 75/1998, með síðari breytingum). Af  7. grein er ljóst, að neysluhæfur vökvi er í skilningi laganna sama og drykkjarhæfur vökvi. Til þess að áfengi teljist löglegt þarf það enn fremur að uppfylla þau skilyrði sem í lögunum greinir. Við höfum áður skýrt frá rannsóknum á áfengi sem hér er framleitt án tilskilinna leyfa („landi“).1 Í þessum pistli er ætlunin að fjalla um rannsóknir á löglega framleiddu áfengi sem með ýmsum hætti hefur sviksamlega verið um vélað og nefna má svikið áfengi og rannsakað hefur verið í Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE).

Löglega framleitt áfengi telst svikið ef það er: a) sviksamlega þynnt með vatni fyrir sölu/neyslu; b) blandað ólögmætum efnum, þar á meðal eiturefnum eða hættulegum efnum; c) selt eða dreift í öðrum ílátum en rétt eru og þannig villt um heimildir á áfenginu; d) með farið með hverjum öðrum hætti, sem ólögmætur telst.

Áfengi þynnt með vatni

Etanól og önnur alkóhól voru ákvörðuð í þessum sýnum og öðrum sýnum með gasgreiningu á súlu.1, 2 Samanburðarsýni í órofnum ílátum af sömu tegundum áfengis voru fengin í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR). 

Á mynd 1 eru sýndar niðurstöður mælinga á etanóli í þremur íslenskum áfengistegundum, sem höfðu verið þynntar með vatni. Mismunur á þéttni rannsóknarsýnis og samanburðarsýnis var frá sex (Kláravín) og upp í átta (Aqua vitae) prósentustig. Annað áfengi sem sannanlega hafði verið þynnt með vatni voru fjórar tegundir af vodka, tvær af gini, tvær af sjenever og ein af rommi. Var þynningarhlutfallið 4-11%. Í alþjóðlegum staðli yfir ýmiss konar sterkt áfengi (vodka, gin, ákavíti og fleira) segir að einungis megi blanda vatni í áfengið í framleiðsluferlinu til þess að tryggja að þéttni etanóls sé innan þröngra, skilgreindra marka.3

Áfengi í röngum ílátum

Áfengisflöskur voru áður sérmerktar vínveitingahúsum (mynd 2). Á árinu 1987 vaknaði grunur um að smyglað vodka hefði verið sett í tómar flöskur undan vodka sem áður hafði verið selt veitingahúsum með lögmætum hætti. Flöskurnar voru merktar tilteknum vodkategundum og höfðu verið opnaðar. Til samanburðar fékk RLE órofnar flöskur með vodka af sömu tegundum frá ÁTVR.

Samkvæmt alþjóðlegum staðli skal þéttni etanóls í vodka vera á bilinu 36-54% v/v við 20°. Í staðlinum eru einnig ákvæði um hámarksþéttni málma (kopars, blýs) og fleiri efna.3 Breytilegt magn kopars í sýnum af sterku áfengi sömu gerðar vísar jafnan  á mismunandi framleiðendur eða að minnsta kosti á mismunandi framleiðslustaði (brugghús). 

Öll sýnin innihéldu 39 eða 40% v/v etanól, sem er algeng þéttni etanóls í vodka.  Fúsilalkóhól eða metanól voru ekki mælanleg í sýnunum, en svo er oftast í vodka (til aðskilnaðar frá öðru sterku áfengi á borð við koníak og viskí). Í fimm rannsóknarsýnum var þéttni kopars marktækt meiri en í samanburðarsýnum sömu tegundar (mynd 3). Í einu þeirra (merkt Stolichnaya vodka), var munurinn þó á mörkum þess að teljast marktækur. Í þessu sýni reyndist rafleiðni aftur á móti vera miklu lægri en í samanburðarsýninu. Rannsóknarsýnin hefðu því réttilega getað verið vodka, þótt þau hefðu að öllum líkindum verið frá öðrum framleiðanda eða að minnsta kosti frá öðrum framleiðslustað en samanburðarsýnin. Kopar var ákvarðaður með anóðustrípun.4

Áfengi íblandað ólögmætum efnum

Við víngerjun myndast etanól úr þrúgusykri. Gerjun annarra efna í þrúgum en sykurs leiðir til myndunar metanóls og hærri alkóhóla (fúsilalkóhóla) og um það bil 10 lífrænna sýra. Hér við bætist sútunarsýra, sem að jafnaði er í vínþrúgum. Þessi efni eru ásamt etanóli afgerandi fyrir mat á gæðum hlutaðeigandi vína. Í vissum tilvikum leyfist  að blanda einhverju þessara efna í vín eða gerjandi vín, ekki síst sykri.5 Íblöndun í vín er þó ætíð háð ströngum reglum. Því kom það höfundum í opna skjöldu að vínframleiðendur skyldu hætta á að blanda eiturefnum á borð við metanól eða etýlenglýkól í vín til þess að villa fyrir um gæði vínanna.

Metanól (metýlalkóhól; „tréspíritus”)

Vorið 1986 bárust RLE á fjórða tug ítalskra vína í órofnum ílátum, með beiðni um rannsókn á því hvort í þeim fyndist metanól. Rannsóknarbeiðandi var Hollustuvernd ríkisins (nú niðurlögð), en upplýsingar með beiðninni voru fremur óljósar. Sem betur fer var metanól ekki í mælanlegu magni í neinu vínanna. 

Um blöndun metanóls í vín var fjallað á síðum Morgunblaðsins 9. og 17. apríl 1986.6 Önnur heimild staðfestir frásögn Morgunblaðsins á þann veg að nokkrir vínframleiðendur á Ítalíu hefðu á þessum tíma: „ ... added methanol – a cheap alcohol used in anti-freeze and for fuel  –  to boost the bite of their wines, killing at least 20 people“.7 Í þessari heimild kemur réttilega fram, að metanól sé ódýrt efni. Metanól er jafnframt að mörgu leyti mjög líkt etanóli, sem jafnan er mjög skattlagt, og það blandast etanóli og vatni í öllum hlutföllum. Hvatinn til þess að blanda  metanóli í vín er því greinilega til staðar. 

Etanól umbrotnar, aðallega í lifur, fyrir tilstilli alkóhóldehýdrógenasa (ADH) í asetaldehýð og edikssýru (asetat), sem eru líkamanum eiginleg efni og hvarfast að jafnaði auðveldlega án teljandi eiturhrifa. Öfugt við etanól umbrotnar metanól fyrir tilstilli ADH í maurasýru, sem ekki gengur inn í efnaskiptakeðjur líkamans og veldur sjóntaugaskemmdum (blindu), sýringu (pH <7,4) og oft dauða af þeim sökum.8

Etýlenglýkól

Etýlenglýkól er litlaus og lyktarlaus vökvi með tiltölulega hátt suðumark og sætt bragð. Það blandast vel bæði vatni og etanóli. Etýlenglýkól hefur verið mikið notað sem leysiefni og í frostlög og hemlavökva. Vegna hins sæta bragðs, án litar eða lyktar, hafa óhlutvandir menn notað etýlenglýkól til þess að hressa við löglega framleitt vín með of lágt sætustig. Etýlenglýkól er ámóta eitrað efni og metanól og eiturhrifin eru um margt svipuð, en það veldur þó ekki blindu.8

Frá fyrri árum eru gögn í RLE um rannsóknir á austurrískum hvítvínum og frá síðari árum eru rannsóknir á tveimur rauðvínum. Í engu tilfelli var etýlenglýkól í mælanlegu magni í vínunum.

Umræða

Vatn er vissulega í öllu áfengi, hverju nafni sem það nefnist. Það telst hins vegar ólögmætt athæfi að blanda vatni í áfengi, umfram það sem þarf og leyfilegt er til þess að stilla þéttni etanóls í hlutaðeigandi áfengistegund rétt. Um 4-11% munur á rannsóknarsýnum og samanburðarsýnum af sterku áfengi
(mynd 1) bendir því sterklega til saknæms athæfis. 

Miklu alvarlegra mál er samt að blanda eiturefnum á borð við metanól í löglega framleitt áfengi til þess að auka „bit“ (e. bite) þess eða etýlenglýkól til þess að hækka sætustig. Eftir að hafa snúið sér til eins vínfróðasta manns í læknastétt er nokkuð ljóst, að vín með mikið „bit“ eru að jafnaði hvöss og dálítið hörð í munni, en þó ekki til vansa í samanburði við vín, sem teljast „mjúk“ (Einar Thoroddsen, persónulegar upplýsingar október 2009). Svo virðist sem metanól þyki henta vel til að auka „bit“ í vínum, en jafnframt er eindregið reynt að koma í veg fyrir slíka notkun með ströngu eftirliti. 

Metanól er eitthvert ódýrasta efnið sem nútímaefnaiðnaður getur skilað af sér og auðvelt er að framleiða það hreint.9 Af þessum sökum hefur hugur manna í vaxandi mæli staðið til þess að nota metanól til eldsneytis. Raunar hefur verið rætt um að koma á fót metanólframleiðslu hér á landi, ef trúa má nýlegum fréttum (frétt í Ríkisútvarpinu í október 2009 og síðar). Eftir því sem metanól verður aðgengilegra eða auðfengnara, því meiri líkur eru á alvarlegum eitrunum af völdum þess. Að þessu skyldi því hyggja í tíma.

Margar áfengistegundir eru merktar sínum upphafsstað ef svo má að orði komast. Þetta er einkum auðvelt að greina ef í hlut á áfengi á borð við vodka, sem er mjög „hreint“ áfengi (laust við fúsilalkóhól og metanól). Einfaldar leiðnimælingar gefa til kynna magn jóna og jónanlegra efna í sýnum af vodka og geta gefið góðar vísbendingar um mismunandi uppruna sýnanna.10 Í stað þessa, eða til frekari staðfestingar, má ákvarða kopar í sýnunum eins og hér hefur verið gert (mynd 3). Þetta er einungis lítið dæmi þess, hversu réttarefnafræðilegar rannsóknir geta verið öflugar til rannsókna og lausnar á svikamálum.

Heimildir

  1. Magnúsdóttir K, Jóhannesson Þ. Samanburður á fúsilum í löglegu og ólöglegu áfengi. Tímarit um lyfjafræði 1996; 31: 24-6.
  2. Skaftason J, Jóhannesson Þ. Ákvarðanir á alkóhóli (etanóli) í blóði. Tímarit lögfræðinga 1975; 25: 1-13.
  3. members.wto.org/crnattachments/2008/tbt/bra/08_1577_00_et.pdf: Technical regulations for the setting of identity and quality standards for aquavit (AnnexI), corn (Annex II), jenever (Annex III), gin (Annex IV), Steinhaeger (Annex V) and vodka (Annex VI). Júní 2009.
  4. Sólbergsdóttir E, Jóhannesson Þ. Ákvörðun á kadmíum í nýrnaberki með anóðustrípun. Læknablaðið 1992; 78: 125-30.
  5. Johnson H. Hugh Johnson´s How to Enjoy Your Wine. Í danskri þýðingu Leif Jørgensens. Vinglæde. Lindhardt og Ringhof 1985.
  6. Ítalir stöðva vínútflutning. Morgunblaðið 9.4.1986. Ítölsku vínin tekin úr sölu. Morgunblaðið 17.4.1986.
  7. Italian Wine Under Investigation for Adulteration. Dalje.com. English edition. 4.4.2008.
  8. Ellenhorn MJ, Schonwald S, Ordog G, et al. Ellenhorn´s Medical Toxicology: Diagnosis and Treatment of Human Poisoning, 2. útg. Williams & Wilkins, Baltimore 1997: 1149-56.
  9. Baggesgaard Rasmussen H. Lærebog i Organisk Kemi. Dansk Farmaceut-forenings Forlag, København 1955: 191.
  10. Lachenmeier DW, Schmidt B, Bretschneider T. Rapid and mobile brand authentication of vodka using conductivity measurement. Microchim Acta 2008; 160: 283-9.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica