09. tbl. 96.árg. 2010

Ritstjórnargrein

Rítalín til góðs eða ills

Matthías Halldórsson sérfræðingur í heimilislækningum embættislækningum og heilbrigðisstjórnun. Starfaði lengi sem aðstoðarlandlæknir og landlæknir um skeið en frá 1.september læknir á geðsviði Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2010.09.310

ADHD eða athyglisbrestur með ofvirkni er algengasta geðröskun barna á skólaaldri og sú sem mest hefur verið rannsökuð. Talið er að ADHD stafi að miklu leyti af  erfanlegri truflun á taugaþroska. Meðferð ADHD er bæði flókin og viðkvæm. Mikilvægur þáttur meðferðarinnar er lyfjameðferð, oftast með örvandi lyfjum, en í þeim skömmtum, sem notaðir eru virka lyfin hins vegar ekki örvandi á börn með þessa röskun, heldur stuðla þau að því að börnin nái betri tökum á tilverunni, falli betur inn í félagahópinn, námsárangur batnar gjarnan og það dregur úr slysatíðni.

Lyf við ADHD eru dýr og nú er svo komið að þau eru í toppsæti yfir útgjaldamestu lyf hins opinbera hér á landi, en á þessu ári stefnir kostnaður Sjúkratrygginga vegna lyfjanna í að vera yfir 760 milljónir króna. Kostnaðaraukningu má að hluta rekja til þess að ný og betri forðalyf (Rítalín Uno, Concerta) hafa smám saman rutt stuttverkandi metýlfenídati (rítalíni) úr vegi. Notendum hefur einnig fjölgað frá því sem áður var, væntanlega sumpart vegna þess að meðferðarárangur er talinn góður þegar rétt greining er til staðar, en fjölmargar rannsóknir  og reynsla meðferðaraðila styðja þá ályktun. 

Vitað er að börnum sem greinast með ADHD er mun hættara en öðrum við lyfjamisnotkun og andfélagslegri hegðun þegar fram líða stundir. Þá ber að hafa í huga að þeim börnum sem fengið hafa viðeigandi lyfjameðferð er ekki hættara en öðru fólki með ADHD að leiðast út í fíkniefnaneyslu. Rannsóknir benda til þess að þeim börnum með ADHD, sem fengið hafa lyfjameðferð, sé í raun síður hætt við lyfjamisnotkun en þeim sem ekki hafa fengið lyfjameðferð í æsku, að minnsta kosti til skamms tíma litið.

Einkenni ADHD sem greinist á barnsaldri halda áfram í einhverri mynd í um það bil helmingi tilvika. Meiri líkur eru á að fólk nái með aldrinum tökum á ofvirkni en athyglisbresti. Athyglisbrestur er meira áberandi þáttur í ADHD hjá stúlkum en drengjum. Þetta á vafalítið sinn þátt í því að kynjahlutfall þeirra sem fá lyfjameðferð jafnast út með aldrinum, en þrefalt til fjórfalt fleiri drengir en stúlkur fá lyfjameðferð á skólaaldri.

Á undanförnum árum hafa rannsóknir varpað æ betra ljósi á sjúkdómsmynd og algengi ADHD meðal fullorðinna. Greining og meðferð fullorðinna er vandasöm, en ákveðinn hópur þeirra getur haft mikið gagn af lyfjameðferð. Fullorðnir einstaklingar sem sækja  í metýlfenídat sem vímugjafa eru hins vegar vandamál út af fyrir sig. Þeir nota margfalda skammta í einu, taka lyfin ekki um munn, heldur sniffa þau eða sprauta í æð og kjósa fremur stuttverkandi lyf en forðalyfin nýju og dýru. Hér má engan afslátt veita og læknar verða að berjast gegn ríkisniðurgreiddri misnotkun. Liður í því er nýlegur samráðsfundur landlæknisembættisins með þeim  geðlæknum, sem samkvæmt lyfjagrunni embættisins skrifa út mest af lyfjum við ADHD, en á fundinum voru einnig læknar frá SÁÁ og geðsviði Landspítala. Áhersla var lögð á vandaða greiningarvinnu og staðfestu lækna gegn ásókn frá fíklum. Af öðrum aðgerðum landlæknis má nefna ítarlegar verklagsreglur um greiningu og meðferð ADHD sem settar voru fyrir fáum árum. Þá hefur verið mælst til þess að lyfið atomoxetín (Strattera) sem er ekki misnotað en er talsvert dýrara lyf, sé notað í fangelsum landsins. Samkvæmt reglum Lyfjagreiðslunefndar er greiðsluþátttaka ekki viðurkennd í lyfjum við ADHD nema rökstudd umsókn frá viðeigandi sérgreinalækni liggi fyrir eða greining frá sálfræðingi með sérþekkingu. Athugun landlæknisembættisins sýnir að í langflestum tilvikum eru það geðlæknar og barnageðlæknar eða barnalæknar með skyldar sérgreinar sem hefja þessa meðferð.

Fæstir þeirra sem tjá sig á opinberum vettvangi virðast hafa kynnt sér þær miklu rannsóknir sem liggja að baki greiningu og meðferð ADHD og foreldrar þurfa að sitja undir því að þeir haldi dópi að börnum sínum. Undirritaður þekkir dæmi þess að ungmenni hafi viljað hætta á vel heppnaðri lyfjameðferð eingöngu vegna umræðunnar. Svo rammt kvað að sleggjudómum um greiningu og meðferð ADHD að árið 2002 sendu rúmlega 80 af fremstu vísindamönnum heims á þessu sviði, austanhafs og vestan, frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir báðust undan ógrunduðum fullyrðingum í fjölmiðlum sem oft líkjast meira trúarbrögðum en vísindum.

Baráttuna gegn misnotkun verður að efla, en hún má ekki verða til þess að hindra aðgengi þeirra sem eru með staðfest ADHD og hafa gagn af meðhöndlun einkenna sinna. Það væri að kasta barninu út með baðvatninu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica