07/08. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Frá Landspítala. Nýjar klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð

Í desember árið 2009 voru gefnar út á Landspítala nýjar klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð. Aðdragandi þess var sá að vorið 2008 fólu hjúkrunarráð og læknaráð á Landspítala líknarráðgjafateyminu að endurskoða Leiðbeiningar um meðferð við lok lífs frá árinu 2002. Líknarráðgjafateymið lagði sem grunn að endurskoðuninni nýja skilgreiningu WHO frá 2002, en þar hefur líknarmeðferð fengið meira vægi og víðtækara hlutverk og getur átt við strax frá greiningu sjúkdóms sem er lífshættulegur. Líknarmeðferð er ekki lengur meðferðarstig heldur meðferð sem getur átt við á öllum stigum. Áhersla er á lífsgæði, einkennameðferð og heildræna nálgun sem krefst þverfaglegrar þjónustu.

u08-fig1
Líknarráðgjafateymi Landspítala, frá vinstri Nanna Friðriksdóttir, sérfræðingur í hjúkrun,
Bragi Skúlason, sjúkrahúsprestur, Valgerður Sigurðardóttir, yfirlæknir, Jón Eyjólfur Jónsson,
yfirlæknir, Sigurlaug Eyjólfsdóttir, félagsráðgjafi, Kristín Lára Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur
og Arndís Jónsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun. Myndina tók Sigríður Zoega.

Þó að líknarmeðferð fái aukið vægi eftir því sem lífshorfur versna er mælt með að aðferðum og hugmyndafræði líknarmeðferðar sé beitt strax frá greiningu þegar það á við. Endurskoðaðar leiðbeiningar á Landspítala taka mið af þessari breyttu skilgreiningu líkt og nýrri erlendar leiðbeiningar sem fjalla um þetta efni. Líknarmeðferð er þýðing á hugtakinu palliative care og vísar til meðferðar í víðum skilningi þess orðs. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vef Landspítalans og landlæknisembættisins.

Við endurskoðun og gerð þessara leiðbeininga var stuðst við leiðbeiningar Institute for Clinical Systems Improvement (ICSI).

Leiðbeiningunum er ætlað að endurspegla heildræna nálgun við gerð meðferðaráætlunar hjá sjúklingum með lífshættulega og/eða versnandi langvinna sjúkdóma. Leiðbeiningarnar eru í 13 köflum og meginmarkmiðin þeirra eru að:

  • greina fyrr í ferlinu sjúklinga með ólæknandi og/eða versnandi langvinna sjúkdóma sem gæti gagnast líknarmeðferð
  • bæta þekkingu og árangur heilbrigðisstarfsmanna í samskiptum við sjúklinga með lífshættulega/versnandi langvinna sjúkdóma og aðstandendur þeirra um markmið meðferðar
  • efla heildrænt mat á þörfum sjúklinga sem tekur mið af sex skilgreindum sviðum líknarmeðferðar
  • fjölga sjúklingum sem hafa skráð meðferðarmarkmið og þar sem líknarmeðferð er hluti af meðferðaráætlun.Þetta vefsvæði byggir á Eplica