07/08. tbl. 96.árg. 2010
Umræða og fréttir
Norrænn ritstjórnarfundur
Ritstjórnir norrænu læknablaðanna héldu fund sinn að Hótel Hamri í Borgarfirði dagana 10. og 11. júní. Fundurinn er haldinn annað hvert ár og þar bera ritstjórnirnar saman bækur sínar, skiptast á skoðunum og deila með sér reynslu af rekstri undangenginna tveggja ára.
Hópurinn á góðri stund með Borgarfjörð í baksýn.
Læknafélög allra Norðurlandanna fimm halda úti öflugri útgáfu, sænska, danska og finnska læknablaðið koma út vikulega árið um kring, hið norska kemur út hálfsmánaðarlega og hið íslenska mánaðarlega. Öll birta þau ritrýndar vísindagreinar og leggja mikla áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð samkvæmt alþjóðlegum vísindalegum stöðlum, enda hafa þau öll nema finnska blaðið fengið inni á Medline með vísindagreinar sínar.
Öll blöðin utan hið norska sinna félagsmálum með greinaskrifum og viðtölum og hafa fastráðna sérhæfða blaðamenn í vinnu á ritstjórnum sínum. Til að gefa hugmynd um umfangið þá starfa um 30 manns á ritstjórn sænska læknablaðsins, um 20 manns starfa við danska og finnska blaðið og 15 manns eru ráðnir á ritstjórn norska blaðsins. Á því íslenska eru 4 starfsmenn í tveimur og hálfri stöðu.
Våra kära nordiska vänner urðu himinlifandi yfir frásögn Kjartans Ragnarssonar af útrásar- og
innrásarhvöt Snorra Sturlusonar. Mynd: Sævar Guðbjörnsson.
Á fundinum hélt Michael Bretthauer læknisfræðilegur ritstjóri norska blaðsins erindi um reynslu sína af því að starfa á ritstjórn hins virta New England Journal of Medicine um 18 mánaða skeið. Bretthauer er menntaður í læknisfræði í heimalandi sínu Þýskalandi en fluttist fyrir nokkrum árum til Noregs. Reynsla hans af NEJM hefur orðið til þess að norska blaðið hefur tekið upp starfsaðferðir þess með góðum árangri, hvað varðar meðhöndlun vísindagreina og samskipti við höfunda og ritrýna. Í máli Bretthauers kom fram að allt að 97% greina sem berast NEJM er hafnað, ekki vegna þess að þær séu allar svo slæmar heldur berst slíkur fjöldi til blaðsins að ekki eru tök á að birta nema 3% þeirra. Hann kvaðst hafa nýtt tíma sinn á blaðinu til að kanna afdrif greina sem NEJM hafnaði og komist að því að um 80% þeirra fengju birtingu í öðrum læknaritum innan sex mánaða.
Bretthauer lýsti ferlinum sem hver grein gengur í gegnum og sannarlega eru nálaraugun fleiri en eitt og allir þurfa að vera sammála um ágæti greinarinnar til að hún hljóti náð fyrir augum ritstjórnarinnar. Eftir að grein hefur verið samþykkt til birtingar tekur við annað og ekki síður strangt ferli þar sem höfundur endurskrifar greinina í samstarfi við ritstjóra og sagði Bretthauer að yfirleitt væri greinin gerbreytt, bæði hvað texta og efnistök varðaði þegar hún loks kæmi fyrir augu lesenda í blaðinu.
Charlotte Haug ritstjóri norska læknablaðsins sagði frá COPE, sem eru
samtök útgefanda um siðfræði.
Charlotte Haug ritstjóri norska læknablaðsins sagði að reynsla Bretthauers af ritstjórn NEJM hefði nýst þeim geysilega vel. „Þetta var fjárfesting af okkar hálfu sem hefur sannarlega skilað sér. Við höfum tekið upp aðferðir þeirra við að meta greinar og ritrýna þær með þeim árangri að greinarnar ganga í gegnum strangara ferli, þeim er fylgt betur eftir og þær verða betri.“ Hún sagði einnig að þessi vinnubrögð veittu þeim styrkari stöðu gagnvart „erfiðum“ höfundum sem tækju athugasemdir eða höfnun óstinnt upp. „Það er betra fyrir báða aðila að vita að vinnubrögðin eru þau sömu og tíðkast á svo virtu blaði og NEJM,“ sagði Haug.
Engilbert Sigurðsson flutti erindi um kosti þess fyrir Læknablaðið að vera aðili að Medline. Það skipti gríðarlegu máli fyrir blað með jafn litla dreifingu og lítið málsvæði að hafa þessa viðurkenningu því það gerði birtingar vísindagreina í blaðinu eftirsóknarverðari fyrir íslenska heilbrigðisvísindamenn. Aukinn fjöldi vísindagreina sem bærist blaðinu eftir að það var skráð á Medline bæri því ótvírætt vitni.
Michael Bretthauer sagði frá starfstíma sínum á New England Journal of
Medicine í Boston.
Charlotte Haug flutti erindi um COPE samtökin sem stofnuð voru á Englandi 1997. COPE er skammstöfun fyrir Commitee on Publication Ethics og tilgangur samtakanna er að gæta að heiðarleika og heilindum vísindarita sem birta ritrýndar greinar. Aðild að samtökunum er opin ritstjórum vísindarita en einstaklingar sem hafa áhuga á útgáfusiðfræði geta orðið aukafélagar.
Í máli Haug kom fram að COPE veitir ritstjórum ritrýndra vísindarita tækifæri til að bera saman bækur sínum um efni er tengjast hagsmunaárekstrum, fölsunum og tilbúnum tölfræðilegum niðurstöðum, ritstuldi, siðlausum tilraunum, úreltum birtingum og ágreiningi um höfundarrétt. COPE hvetur meðlimi sína til að fylgja eftir og rannsaka ef grunur leikur á um misferli af hálfu háskóla, sjúkrahúsa eða annarra stuðningsaðila.
Sigríður Thorlacius og Högni Egilsson úr hljómsveitinni Hjaltalín sungu nokkur lög á Hamri, og stigu
svo nokkrum dögum síðar á svið í Háskólabíói með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Mynd: Sævar Guðbjörnsson.
Norrænu ritstjórnirnar slógu einnig á létta strengi og að loknum fundi síðdegis á fimmtudag var ekið um sveitir Borgarfjarðar undir leiðsögn Kjartans Ragnarssonar og lauk ferðinni í Landnámsetrinu í Borgarnesi þar sem snæddur var kvöldverður. Voru norrænu gestirnir hæstánægðir með fundinn og ferðina til Íslands.