04. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Sóknarfærin liggja víða - segir Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ

„Mennta-, heilbrigðis- og félagskerfið, sem eru þrjár grunnstoðir íslenska velferðarkerfisins, hafa fengið skilaboð um mikinn og marktækan niðurskurð, svo mikinn að þjónusta og gæði hennar hljóta að skerðast. Þar af hefur háskólum verið boðað að líklega þurfi að skera niður um 25-30% til ársins 2013 miðað við fjárlög ársins 2010. Háskóli Íslands mun ekki þola slíkan niðurskurð án þess að fara áratugi aftur í tímann og verða hreint út sagt slakur háskóli, sem íslenska þjóðin á ekki skilið,“ segir Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann telur að sú stjórnsýslubreyting, sem ákveðin var á góðæristíma og tók gildi um mitt ár 2008 í þeim tilgangi að einfalda stjórnskipulag og stytta boðleiðir innan HÍ, lofi góðu þó enn sé langt í land og sóknarfæri íslenskra heilbrigðisvísinda liggi mjög víða.

 u3-fig1
Sigurður Guðmundsson í anddyri Læknagarðs, sem einu sinni var kallaður
Tanngarður, þar sem skrifstofa hans er. Í baksýn er Landspítalalóðin og
minnir sumpart á litríkan tanngarð með fullt af karíus og baktus og
samsafni af gömlu og nýju.

„Ljóst er að það markmið sem Háskóli Íslands setti sér árið 2006 um að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi, mun ekki nást í náinni framtíð ef fram heldur sem horfir því ástand mála er hreint út sagt dapurlegt ef þetta gengur eftir. Gríðarleg gróska á sér stað innan Háskóla Íslands, sem verður 100 ára á næsta ári, en sparnaðarkröfur af hálfu hins opinbera eru þess eðlis að við missum mátt og sitjum uppi með slakan háskóla innan fárra ára. Í þessu samhengi lætur nærri að HÍ sé nú að nálgast það stig að verða einn af 500 bestu háskólum í heimi. Háskóla Íslands er gert að skera niður um 25-30% til ársins 2013 miðað við fjárlög ársins 2010. Háskóli Íslands mun ekki þola niðurskurð af slíkri stærðargráðu án þess að bíða hnekki og fara áratugi aftur í tímann,“ segir Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

„Í raun og veru hefur bæði heilbrigðis- og félagskerfið fengið sömu skilaboð og menntakerfið sem þýðir að okkar rómaða velferðarkerfi verður ekki viðhaldið í óbreyttri mynd á sama tíma og það berast fregnir af því að 11 milljarðar séu til reiðu til bjargar Byr og 15 milljarðar séu til reiðu til bjargar Sjóvá svo dæmi séu tekin. Ljóst er að peningar eru einhvers staðar til, en þeir fara ljóslega ekki í það verkefni að halda velferðarkerfi okkar við. Í þá málaflokka fara nú um 50% af útgjöldum ríkisins eða um 25% af vergri þjóðarframleiðslu og það virðist liggja beinast við að taka á þeim í sparnaðarskyni án þess þó að þeir hafi notið góðærisins þegar það var og hét. Á öllum þessum sviðum hafa verið stöðugar sparnaðarkröfur í mörg ár. Fólk hlýtur að spyrja sig hvar áherslur liggi hjá þeirri stjórn sem nú situr og hefur það að markmiði að eigin sögn að standa vörð um velferðarþjónustuna í landinu. Hún er vissulega ekki öfundsverð og fékk illvíg verkefni í fangið frá forverum sínum. Ég hef löngum verið hallur undir þá stefnu í stjórnmálum sem hlúir að velferð og jöfnuði, en ég held að stjórnmálin séu í dag á algjörum villigötum.

Stjórnmálamenn okkar, leiðtogarnir, fólkið sem við höfum kosið til að leiða okkur út úr ógöngum koma okkur venjulegum kjósendum fyrir sjónir sem hópur án samstöðu, sem sinnir því helst að fara sífellt í hár saman. Mörgum sýnist að traust til þeirra fari ört þverrandi. Helsta iðja þeirra um þessar mundir sé að hugsa um það hvernig við eigum að greiða upp skuldir, sem einhverjir prívatmenn steyptu sjálfum sér í, og okkur almúganum er tjáð að ágóði sé í einkaeign, en tap í þjóðareign. Þetta gildir um stjórnmálamenn alla, hvar í flokki sem þeir standa. Samfélagsumræðan kemst ekkert frá þessu og á meðan sígur enn á ógæfuhlið. Það er mjög miður.

Að auki virðist sem pólitíkin sé blind á sóknarfæri heilbrigðisþjónustunnar, sem við Íslendingar höfum alla burði til að nýta okkur sem útflutningsvöru. Heilbrigðistengd ferðaþjónusta er að verða vinsælt fyrirbrigði út um allan heim og mikil eftirspurn sem gengur út yfir öll landamæri. Við eigum mannafla, húsbúnað, skurðstofur og tækjabúnað til að taka þátt í þessari alþjóðavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, en ég er ekki sáttur við hvað pólitíkin virðist vinna sterkt gegn þessum tækifærum okkar til tekjuöflunar og faglegs ávinnings. Hvaða útgerðarmanni myndi líða vel með nýtt og öflugt skip bundið við bryggju mánuðum saman?“ spyr Sigurður.

Fimm ný svið

Miklar skipulagsbreytingar voru gerðar á stjórnskipulagi Háskóla Íslands á góðæristíma um mitt ár 2008 þegar búin voru til fimm stjórnsýslusvið með samtals 25 deildum í þeim tilgangi að einfalda stjórnskipulag og stytta boðleiðir. Sviðin fimm eru félagsvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, hugvísindasvið, menntavísindasvið og verk- og náttúruvísindasvið. Yfir hverju sviði eru forsetar og sérstakir rekstrarstjórar, fjármálastjórar og starfsmannastjórar. Áður störfuðu ellefu deildir innan skólans sem heyrðu beint undir rektor og miðlæga stjórnsýslu.

Undir heilbrigðisvísindasviðið, sem Sigurður kom að 1. nóvember 2008, heyra nú sex deildir: læknadeild, hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, tannlækningadeild, sálfræðideild og matvæla- og næringarfræðideild. Nokkrar námsbrautir heyra svo undir einstakar deildir. Þannig heyrir sjúkraþjálfun, geislafræði og lífeindafræði undir læknadeild. Ljósmóðurfræði heyrir undir hjúkrunarfræðideild og tannsmíði undir tannlæknadeild. Loks er lýðheilsufræði tiltölulega ný þverfagleg grein, sem býður upp á meistara- og doktorsnám í lýðheilsu og tengist öllum sex deildunum á heilbrigðisvísindasviði. Lýðheilsufræðinám nýtur mikilla vinsælda því af um 100 nemum, sem nú stunda doktorsnám á heilbrigðisvísindasviði, tengjast um 20% lýðheilsufræðum. Því er ljóst að mikil rann-sóknarvirkni er í lýðheilsufræðum í nýju fagi í fámennu landi, en Miðstöð í lýðheilsufræðum var stofnuð hér á landi fyrir þremur árum og er í fóstri hjá læknadeild. Sem dæmi um frekari sóknarfæri á vettvangi lýðheilsu má nefna umræðu um og öflun þekkingar á alþjóðaheilsu þar sem Háskóli Íslands getur látið til sín taka, að sögn Sigurðar.

Tæp 20 ár eru liðin síðan Háskóli Íslands hóf að skipuleggja doktorsnám og undanfarin tíu ár hefur verið stígandi fjölgun í doktorsnámi á heilbrigðissviði, að sögn Sigurðar, sem útskrifaði átta doktora í fyrra og það stefnir í útskrift fleiri í ár. Eins og málum er nú háttað sækir fólk sem tengist læknadeild, lyfjafræðideild og tannlækningadeild um að fá að innritast í doktorsnám til rannsóknanámsnefndar. Sett er upp námsnefnd eða umsýslunefnd í kringum hvert doktorsverkefni og doktorsnemanum fylgt eftir í gegnum sinn feril allt til loka námsins. Doktorsnám á vegum hinna deildanna þriggja, sálfræðideildar, hjúkrunarfræðideildar og matvæla- og næringarfræðideildar er í þeirra höndum, en stefnt er á meira samstarf, m.a. með nýrri doktorsnefnd á vegum sviðsins, og í fyllingu tímans á þjónusta við allt doktorsnám á sviðinu að verða sameiginleg.

 u3-fig2

Enn langt í land

En hefur tekist vel til með stjórnsýslubreytingarnar? „Bæði já og nei,“ segir Sigurður. „Við erum á miðri leið og alls ekki komin á leiðarenda. Við erum að búa til nýtt skipulag úr deildum, sem áður voru með tiltölulega litla samvinnu sín á milli, m.a. til að draga úr deildarmúrum og efla samvinnu. Gamli héraðslæknirinn, sem áður vann sem einyrki, er ekki lengur til. Nú vinnum við að málefnum sjúklinga í teymi og það skiptir máli að nemendur átti sig á því strax í upphafi náms. Vel hefur tekist til með flutning fjármála og starfsmannamála á sviðið svo og kynninga- og vefmál og umsýslu af ýmsu tagi. Verið er að vinna að umsýslu mikilla breytinga í kennslumálum sem snýr að samþáttun kennslu til að virkja samvinnu milli deilda og sviða auk þess sem við erum að þróa og efla þjónustu sviðsins, bæði gagnvart nemendum og kennurum. Við höfum heldur ekki náð að ljúka einföldun stjórnsýslunnar til að nýta það millilag, sem felst í sviðunum, til hlítar, en dæmi eru um að sum mál þurfi umfjöllun á þremur stigum innan skólans sem er fjarri því að vera nógu gott og einfalt verklag. Háskólaráð með rektor sem formann á auðvitað að mínu mati fyrst og fremst að vera stefnumótandi um meginverkefni. Á hinn bóginn ættu hin nýju svið að fjalla um mál sem snúa beint að faglegri og fjármálalegri umsýslu sviðanna og gætu eftir þörfum sótt sér styrk og upplýsingar í miðlægu stjórnsýsluna. Þegar skotið er inn millilagi í stjórnsýsluna þarf að gæta þess að það fari ekki að lifa sjálfstæðu lífi án þess að nýtast sem skyldi. Við þurfum að vera mjög meðvituð um ætlunarverkið því allar góðar breytingar taka tíma. Ljóst er að skipulagsbreytingarnar hafa haft aukinn kostnað í för með sér því sviðin eru ný með þeim mannskap, sem þar starfa, en ég trúi því að breytingarnar leiði af sér skilvirkari skóla þegar á heildina er litið,“ segir Sigurður.

Gríðarleg gróska

„Okkur hér á heilbrigðisvísindasviði langar til að búa til doktorsskóla eða rannsóknarskóla sem erlendis heitir gjarnan „graduate school“. Við lítum m.a. til Árósaháskóla sem fyrirmyndar. Hlutverk slíks skóla yrði að veita nemendum og kennurum nauðsynlega þjónustu í doktorsnáminu, passa upp á nauðsynleg námskeið í tölfræði og aðferðafræði og sjá um skrifstofu- og utanumhald allan doktorsferilinn, sem getur tekið allt frá þremur og upp í fimm ár. Eitt af markmiðum Háskóla Íslands er að 30% doktorsnema séu frá öðrum löndum. Því fer fjarri að því markmiði sé náð þó lyfjafræðin sé að nálgast markmiðið. Rannsóknir í lífvísindum á Íslandi standa mjög vel í dag og það er því raunhæft að ætla sér að stefna að því að komast á bekk með þeim bestu. Við eigum mikið af öflugum vísindamönnum og höfum heilmikið fram að færa. Sé horft til alþjóðlegra ritrýndra tímarita eru Íslendingar í 5. sæti OECD-landa varðandi fjölda birtra vísindagreina í ritrýndum tímaritum og erum í 2. sæti þegar vísindavægið er mælt og metið, það er hversu oft vitnað er í einstakar greinar frá einstökum löndum,“ segir Sigurður. „Langflestar íslenskar vísindagreinar, sem birtast í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, koma frá Háskóla Íslands eða stofnunum tengdum honum. Þennan styrk verðum við að varðveita.“

Að sögn Sigurðar ríkir gríðarleg gróska í ýmiss konar rannsóknarstarfsemi innan heilbrigðisvísindasviðs og því er ljóst að stóra verkefnið er að efla tengsl HÍ og Landspítala þannig að kennslan í HÍ og vinnan á Landspítala tengist órjúfanlega. „Sérstakt tilhlökkunarefni er bygging nýs háskólasjúkrahúss sem hefur mikla samþættingu í för með sér fyrir allar deildir heilbrigðissviðs HÍ sem nú eru dreifðar út um allt háskólasvæðið. Með nýju háskólasjúkrahúsi skapast svo jarðvegur fyrir Lífvísindastofnun HÍ sem legði línurnar um grunnrannsóknir, faraldsfræðirannsóknir og klínískar rannsóknir. Sóknarfærin liggja m.a. í sterkum rannsóknahópum, sem yrðu gjaldgengir í að sækja í öfluga alþjóðlega styrki.

Þegar nýja háskólasjúkrahúsið er risið sjáum við líka fyrir okkur Heilbrigðisvísindaskóla þar sem allir nemendur, sem hefja nám á einhverri þeirra sex deilda, sem heilbrigðisvísindasvið býður upp á, fari í gegnum ákveðna sameiginlega grunnkennslu áður en þeir hríslast í mismunandi áttir, m.a. til að kynnast, efla færni í samskiptum og átta sig á teymishlutverkinu. Það er nefnilega ekki nóg að heilbrigðisstarfsfólk kunni fræðin. Það þarf að kunna samskipti þegar kemur að því að vinna með öðru fagfólki og sinna sjúklingum,“ segir Sigurður.

Sjö háskóla þjóð

„Ef hins vegar verulegur niðurskurður verður bæði í HÍ og á Landspítala mun framtíð menntunar heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðismálum bíða hnekki og þjást mikið,“ segir Sigurður og bætir við að stöðugar kröfur um niðurskurð án þess að það sjái til lands hafi auðvitað slæm áhrif á allan starfsanda. „Við teljum okkur vera með góðan skóla í höndunum eins og er sem hafi verið í mikilli sókn, en óttumst að sitja uppi með lélegan skóla, ef fram heldur sem horfir. Við getum haft okkar „prívat“ skoðanir á því hvernig stjórnmálamenn hafa staðið sig. Mín skoðun er sú að stjórnmálamenn hafi brugðist sem stétt í hremmingum þjóðarinnar. Samfélagið þarf að koma að málum og m.a. svara því hvers konar háskólakerfi það vill sjá þar til sólin kemur upp á ný.

Staðreyndin er sú að það er líklega ekki til á byggðu bóli 320 þúsund manna þjóð sem á sér sjö háskóla. Lögfræði er kennd í fjórum háskólum og viðskiptafræði í þremur háskólum. Er það nauðsynlegt? Það eru ljóslega sóknarfæri í samvinnu og sameiningu íslenskra háskóla, en fyrir því er ekki sterkur pólitískur vilji. Er það raunverulegur vilji þjóðarinnar að keyra Háskóla Íslands sem fagnar aldarafmæli á næsta ári áratugi aftur í tímann? Ef við ekki náum hagræðingu með sameiningu háskóla blasir við að við sitjum uppi með sjö lélega háskóla. Þessu verðum við að snúa við. Mikið hefur áunnist í starfi Háskóla Íslands í heila öld. Ekki förum við að kasta því á glæ nú,“ segir forseti heilbrigðisvísindasviðs að lokum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica