03. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Þrífst vel undir álagi - segir Hlynur Þorsteinsson þyrlu- og rústabjörgunarsveitarlæknir

Hann segir að sér líki best að vera í ati og hraða í vinnunni og því kunni hann vel við sig á slysa- og bráðadeildinni þar sem hann hefur starfað frá árinu 1998. Þetta er læknirinn og tónlistarmaðurinn Hlynur Þorsteinsson sem um árabil hefur verið fastur maður í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og einnig í rústabjörgunarsveit Landsbjargar, sveitarinnar fræknu sem fór til Port au Prince á Haiti í kjölfar jarðskjálftans í byrjun janúar.


hlynur
„Ef valið stendur á milli þess að fara í gönguferð eða niður í kjallara og
spila á hljóðfæri þá vel ég alltaf hljóðfærið,” segir Hlynur Þorsteinsson
læknir og tónlistarmaður.


„Þetta var erfið ferð,“ segir Hlynur sem vill þó ekki gera meira úr sínum hlut en efni standa til.

„Mitt hlutverk innan sveitarinnar er fyrst og fremst að fylgjast með ástandi manna og sjá til þess að allir haldi heilsu í gegnum þau erfiðu verkefni sem sveitin þarf að vinna við svona aðstæður.“

Hlynur hlaut sérfræðiréttindi í heimilislækningum 1992 og starfaði sem heilsugæslulæknir á heilsugæslustöðvum í Reykjavík og nágrenni þar til hann réðst á Bráðamóttökuna. „Ég hafði áður verið súper-kandídat bæði á slysó eins og hún var áður og einnig á bráðamótttöku lyfjadeildar Landspítalans svo þetta er orðinn talsverður tími þegar allt er lagt saman. Nú er þetta að breytast aftur ef bráðamóttakan á Hringbraut færist til okkar í Fossvoginum að nokkru eða jafnvel öllu leyti.”

Á undanförnum árum hafa bráðalækningar rutt sér nokkuð til rúms sem sjálfstæð sérgrein og Hlynur segir vissulega nokkurn mun á þeim og heimilislækningum. „Bráðalækningar eru eins og nafnið bendir til með talsvert þrengra svið og vettvangur þeirra er bráðadeildirnar en heimilislæknar þurfa að kunna skil á fleiri greinum því þeir geta lent í alls kyns aðstæðum í starfi sínu, sem héraðslæknar og  heilsugæslulæknar. Ég kunni reyndar mjög vel við mig sem heilsugæslulæknir en hluti af mér þrífst vel á hraðanum og álaginu sem fylgir bráðamótttökunni.”

Aksjónmaður með afbrigðum

Hann segist vera svo heppinn að hafa alltaf haft eitthvað annað meðfram fastri vinnu sem læknir og nefnir að á árum áður hafi hann verið heimilislæknir nunnanna í Karmelítaklaustrinu í Hafnarfirði og einnig hafi hann sinnt læknisþjónustu um sjö ára skeið fyrir Krísuvíkursamtökin sem reka meðferðar- og dvalarheimilið í Krísuvík. „Svo skoppaði ég með Bifreiðaíþróttaklúbbi Reykjavíkur í ein ellefu sumur og var opinber læknir rallíkeppna á þeirra vegum. Rallíakstur hefur reyndar aldrei verið neitt sérstakt áhugamál en ég hef gaman af fjölbreyttum verkefnum og dróst einhvern veginn inn í þetta.“

Hann segist hafa byrjað með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar árið 2000 og svo hafi rústabjörgunarsveitin bæst við tveimur árum síðar.

Hverjir veljast til starfa úr hópi lækna í þyrlusveitina er engin tilviljun. „Menn eru nánast handvaldir því þetta á alls ekki við alla. Menn þurfa að ráða vel við mjög fjölbreytt verkefni og hafa mikla reynslu af læknisstörfum. Við erum sex læknar sem skiptum þessu með okkur og alltaf  er reynt að hafa einn unglækni í hópnum sem þó er kominn með góða reynslu. Unglæknirinn er valinn eftir að við höfum fengið augastað á honum fyrir dugnað og sjálfstæði í starfi. Þyrluþjálfunin sjálf felst í að læra að síga úr vélinni, læra umgengni við búnaðinn, þyrluna og áhöfnina. Reglulega eru haldnar æfingar í að síga, bæði á sjó og landi; svo eru þrjú námskeið á ári í öryggismálum en annað hvert ár er haldið námskeið í því hvernig maður á að bjarga sér út úr þyrlunni ef hún lendir í vatni eða sjó. Þau námskeið eru haldin í Aberdeen í þyrlulíkani í sérstökum tanki þar sem hægt er að líkja eftir raunverulegum aðstæðum. Fullþjálfaður þyrlulæknir er því búinn að ganga í gegnum talsverða þjálfun og menn verða ekki beinlínis gripnir upp af götunni í þetta.“

Það er varla hægt annað en spyrja Hlyn um minnistæðar björgunaraðgerðir með þyrlunni og hann segir þær margar sitja í minninu. Hann rifjar upp mikla og erfiða aðgerð við að sækja slasaða björgunarsveitarkonu sem hafði orðið fyrir því að slasast mjög illa á fæti innst í gilinu í Botnsdal í Hvalfirði, alveg inn við fossinn Glym.

„Aðstæður þarna reyndust mjög erfiðar því gilið er svo djúpt að útilokað var að síga niður til konunnar og þar að auki sér maður ekki ofan í botninn ofan frá brúninni. Það varð því úr að ég og stýrimaðurinn ösluðum inn allt gilið og skiptumst á að bera 15 kílóa lækningatækjatöskuna. Við höfðum haft þá fyrirhyggju að klæðast gúmmígöllunum sem við notum við sjóbjörgun og það kom sér vel því við þurftum að vaða Botnsána margsinnis á leiðinni inn gilið og stundum var það býsna djúpt, upp í háls þar sem dýpst var inn við fossinn. Aðstæður þarna eru þannig að stuttu áður en maður kemur inn að aðalfossinum kemur maður að öðrum fossi sem er miklu lægri reyndar, aðeins nokkrir metrar, en það var talsvert puð að klifra þar upp. Þyrlan varð síðan að hverfa af vettvangi þegar fór að dimma því þetta var áður en við fengum nætursjónaukana en þá var reyndar kominn til okkar fjöldi björgunarsveitarmanna. Við gerðum síðan að sárum stúlkunnar eftir föngum og bjuggum um hana á börum og svo hófst ferðin til baka út gilið. Stúlkan bar sig mjög vel og var einstaklega dugleg og jákvæð. Þetta situr í minningunni því kringumstæður voru svo sérstakar; það var komið niðamyrkur og tugir björgunarmanna með ljós á hausnum að bera stúlkuna eftir gilinu, koma henni niður litla fossinn og síðan yfir ána hvað eftir annað þar til komið var í sjúkrabílinn. Í allt tók þessi aðgerð nokkra klukkutíma enda gilið langt og seinfarið.“

Þegar þetta er tekið saman; rallí, þyrlusveit og rústabjörgunarsveit, virðist einboðið að álykta að Hlynur Þorsteinsson sé aksjónmaður með afbrigðum. Hann segir það fjarri öllum sanni.

„Nei, ég er það í rauninni ekki. Ég hef mikla ánægju af þessu öllu saman og þetta er sannarlega krydd í lífið en ég er ekki mikill útivistarmaður; ég geng ekki á fjöll eða fer í langar gönguferðir um hálendið, með tjald og svefnpoka á bakinu. Eiginlega veit ég fátt leiðinlegra en að fara í gönguferðir og ef valið stendur á milli þess að fara í gönguferð eða niður í kjallara og spila á hljóðfæri þá vel ég alltaf hljóðfærið.“

Áður ókönnuð leið

Tónlistaráhugi Hlyns nær langt aftur en hann hefur gefið út fjölda geisladiska, ýmist einn eða í samstarfi við aðra. Nöfnin sem hann og félagar hafa valið sér eru skringileg og má nefna Pósthúsið í Tuva, Sigurbogann og Dúska. Þau eru hins vegar teljandi á fingrum annarrar handar skiptin sem hann hefur komið fram og spilað fyrir áhorfendur. Hann segist kunna betur við sig í upptökuherbergi með hljóðfærin og hljóðupptökugræjurnar við höndina. „Diskaútgáfan hefur aldrei verið mjög áberandi en þeir eru nú orðnir ansi margir diskarnir sem ég hef gefið út. Líklega eitthvað á þriðja tuginn. Ég hef lítið gert af því að markaðssetja tónlistina, fyrir mér er hún búin að gegna hlutverki sínu þegar hún er komin á disk. Þá er ég hreinlega orðinn hundleiður á henni, búinn að semja hana, spila hana inn og hljóðblanda; hlusta á hvert lag svo oft að ég get varla hugsað mér að koma nálægt því meira. Þá vil ég bara fara að semja nýja texta og nýja tónlist en ekki eyða tímanum í sölumennsku.”

Tónlist Hlyns og félaga hefur þó notið þeirra náðar að vera vegin og metin af sérfræðingum stórblaða á borð við Morgunblaðið og þar hefur álitið sveiflast úr ökkla í eyra. Tónlistin er sérstök svo ekki sé meira sagt en hrifning Arnar Eggerts Thoroddsen var fölskvalaus þegar hann skrifaði:

„Undirritaður er kominn á þá skoðun að Hlynur þessi sé snillingur á tónlistarsviðinu - lög hans eru engu lík, einkar frumleg og skemmtileg og textagerðin lýtur þá svipuðum lögmálum. Líklega var það þó rétt hjá Hlyni að gerast læknir að fullu starfi og hafa tónlistina til hliðar. Tónlist Hlyns hefði líkast til aldrei brauðfætt hann betur en læknislistin, svo snúin og furðuleg sem hún er. Það er því mikil gæfa að Hlynur hafi ákveðið að leyfa fleirum að njóta þessa áhugamáls síns því að þetta er efni sem krefst þess að vera gefið út, slíkur er gæðastaðallinn.

Í Sigurboganum eru ásamt Hlyni guðfræðingurinn Gunnar Steingrímsson og sálfræðiprófessorinn Sigurður J. Grétarsson. Fulltrúar andans, sálar og líkama saman í tríói! Lög Hlyns eru í sama stíl og þau sem heyra má á plötum Pósthússins; óskilgreinanlegt popprokk með undarlegum takt- og hljómaskiptingum, leitt af sérstæðri rödd Hlyns sem eins og hljómagangurinn fer sína eigin áður ókönnuðu leið.“

Atli Bollason klóraði sér enn frekar í kollinum yfir tvöföldum diski Pósthússins í Tuva en um hann sagði Atli:

„Á báðum þeirra er að finna undarlega popptónlist með undarlegum textum í enn undarlegri flutningi. Það eru undarlegheitin sem gera diskinn áhugaverðan en þau hrinda hlustandanum að sama skapi nokkuð frá tónlistinni. Hlynur Þorsteinsson, sem leiðir sveitina, er afleitur söngvari en ef maður er í rétta skapinu (og afstaða reikistjarnanna er rétt) þá er söngröddin skemmtilega klikkuð. Sama gildir um lög og texta, þetta er allt saman skemmtilega klikkað.“

Einhvern veginn virðist Hlynur þeirrar gerðar að honum sé slétt sama á hvern veginn umsagnir um tónlist hans eru. „Ætli það væri ekki bara til bölvunar að verða vinsæll, byrja að seljast. Þá færi maður kannski að festast í sama farinu og endurtaka sig.“

Rústabjörgun á Haiti

Við víkjum talinu að starfi rústabjörgunarsveitarinnar sem komst í fréttir á dögunum fyrir snöfurmannleg viðbrögð eftir að jarðskjálftinn reið yfir á Haiti.

hITI-
„Þetta var miklu umfangsmeira en nokkur okkar hafði séð annars staðar.
Heil borg í rúst og manntjónið óskaplegt” segir Hlynur.


„Starf sveitarinnar hafði legið niðri um nokkra hríð, ég var kominn á fremsta hlunn með að draga mig út úr þessu þegar atburðurinn varð og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra brást svona röggsamlega við að kosta ferð sveitarinnar til Haiti. Þetta var enginn fyrirvari, hringt um nóttina og ég fékk yfirlækninn til að manna vaktirnar mínar á slysadeildinni og svo vorum við bara lagðir af stað nokkrum klukkutímum síðar. Allir í sveitinni eru bólusettir reglulega svo þeir eru tilbúnir fyrirvaralaust að fara hvert sem er.”

Hlynur segir að fyrir meðlimi sveitarinnar sé svona björgunarstarf bæði andlega og líkamlega mjög erfitt. „Það tók auðvitað á að sjá hauga af líkum og aðstæðurnar voru mjög slæmar. Líkamlega er þetta mjög erfitt því þarna var mjög heitt og menn vilja helst vinna sleitulaust meðan einhver von er um að finna fólk á lífi í rústunum. Mitt hlutverk er að fylgjast með þeim, sjá um að þeir þorni ekki upp og að þeir næri sig og einnig að sinna þeim slösuðu sem sveitin finnur eftir því sem hægt er. Þarna var unnið meðan nokkurrar dagsbirtu naut, 14 klukkutíma á sólarhring og jafnvel lengur. Dagurinn var því mjög langur og ekki bætti úr skák að við urðum að setja upp tjaldbúðir á flugvellinum og menn sofnuðu úrvinda þó flugvélarnar væru að lenda 30 metra frá tjaldinu og vöknuðu svo aftur 4-5 tímum seinna við fyrstu þotur að morgni.”

Örsnautt samfélag

Það sem vakti helst athygli þeirra að sögn Hlyns var hversu gríðarlega útbreitt tjónið var. „Þetta var miklu umfangsmeira en nokkur okkur hafði séð annars staðar. Heil borg í rúst og manntjónið óskaplegt. Húsin höfðu hrunið á annan hátt en við þekktum frá Alsír eða Marokkó, þar hafði yfirleitt jarðhæðin hrunið og efri hæðir dottið beint niður en þarna hafði kannski miðhæð gefið sig og aðrar hæðir fallið til hliðar og það gerði vinnuna við að komast inn í byggingarnar miklu erfiðari. Húsin er öðruvísi byggð en við eigum að venjast; steypustyrktarjárn eru veigaminni og tengingar á milli burðarsúlna og platna virtust veikar. Svo eru allir milliveggir hlaðnir úr holsteini og þeir hrynja auðvitað niður við svona hamfarir. Öll fjarskipti voru óvirk, ekkert rafmagn og samfélagið var algerlega í rúst.

HARITI-2
Íslensku björgunarsveitinni tókst að bjarga þremur  konum lifandi í
rústunum svo förin var sannarlega ekki til einskis farin.
Ljósmyndir: Slysavarnafélagið Landsbjörg.


Þrátt fyrir þetta var fólkið ótrúlega rólegt og yfirvegað. Það kom sér fyrir með teppi, potta og pönnur á opnum svæðum og var okkur mjög þakklátt en maður furðaði sig á þeirri stillingu sem var yfir fólkinu. Það var eins og það hefði bara tekið þessum örlögum sínum. Fyrir jarðskjálftann var þetta örsnautt samfélag og kannski ekki úr háum söðli að detta fyrir flesta hvað efnisleg gæði varðar. En manntjónið var skelfilegt og það tók á  að aka framhjá óteljandi líkhrúgum á hverjum degi.”

Íslensku björgunarsveitinni tókst að bjarga þremur  konum lifandi í rústunum svo förin var sannarlega ekki til einskis farin en verkefni hennar var lokið eftir nokkra daga þegar aðrar sveitir tóku við og búið var að koma upp lágmarksþjónustuaðstöðu. Sagt er að enginn geti lifað af í rústum án matar og vatns í meira en sex daga og Hlynur segir það vera rétt en meta þurfi aðstæður í hverju tilfelli. „Ef um er að ræða húsnæði þar sem möguleiki er á að fólk, sem hefur lokast inni, geti nálgast vatn eða eitthvað matarkyns þá aukast lífslíkurnar að sjálfsögðu. Þetta verður að hafa í huga en þeir sem liggja fastir eða slasaðir undir fargi lifa ekki lengi og það ríður á að finna þá sem fyrst.“

Bítlagítar í rústunum

Hann segir að vissulega séu margar minningar ljóslifandi eftir ferðina en vill þó enda frásögnina á jákvæðum nótum. „Þegar við vorum að fara yfir eitt íbúðarhús þar sem fólk hafði búið mjög þröngt; ein fjölskylda í hverju herbergi og sumstaðar bara tjald á milli, sá ég glytta í gítar af gerðinni Gibson Epiphone. Þetta er hljóðfæri sem margir tala um dreymandi röddu, Bítlarnir spiluðu á svona grip og hljómurinn er mjúkur og fallegur. Ég bað einn félagann að ná í hann fyrir mig og þurrkaði rykið af honum með aukanærskyrtunni, stillti hann vandlega og setti hann svo aftur á sinn stað. Ég hugsaði með mér að hann væri þá tilbúinn til notkunar þegar eigandinn myndi vitja hans.“

Látum svo fylgja í lokin eitt af ljóðum Hlyns frá því í byrjun árs 2007 er sýnir svo ekki verður um villst að menn voru að fást við ýmislegt annað á því herrans ári en eintómt brask.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica