02. tbl. 96. árg. 2010

Umræða og fréttir

Læknir og spilamaður - segir Haukur Heiðar Hauksson

Hann segist ekki hafa verið nema 4-5 ára gamall þegar hann lýsti því yfir að hann ætlaði að verða „læknir og spilamaður” eins og pabbi. Það er ekki oft sem svo snemmborin fyrirheit rætast en Haukur Heiðar Hauksson stóð við sitt; hann útskrifaðist úr læknadeild HÍ vorið 2008 og hafði þá verið aðalsöngvari, gítarleikari og píanóleikari hljómsveitarinnar Diktu í 9 ár. Pabbinn er Haukur Heiðar Ingólfsson, heimilislæknir og píanóleikari, kannski þekktastur fyrir að spila um áratugaskeið með Ómari Ragnarssyni á skemmtunum um land allt og á fjölda hljómplatna.

u03-fig1

„Mörgum kollegum mínum þykir ekkert að þessu, finnst það jafnvel flott,“
segir Haukur Heiðar Hauksson læknir og söngvari hljómsveitarinnar Diktu.


Dikta er ein af vinsælustu popphljómsveitum landsins og hefur gefið út þrjár plötur á ferlinum. Hin fyrsta kom út 2002 og var að sögn Hauks Heiðars, „andvana fædd”; hún þótti dæmigert byrjendaverk en hljómsveitarmeðlimir létu dræmar mótttökur lítið á sig fá og héldu áfram sínu striki með æfingum, tónsmíðum og tónleikahaldi.

„Við þekktumst allir úr grunnskóla en þeir voru þrír úr Garðabænum sem stofnuðu hljómsveitina og fengu mig síðan til að koma í bandið sem söngvara árið 1999. Ég hafði verið í annarri hljómsveit sem kallaði sig Plug svo þeir vissu að ég gæti eitthvað sungið. Við komumst svo í úrslit í Músíktilraunum árið 2000 en vorum næstum því reknir úr keppninni því það kom í ljós að eitt lagið okkar hafði verið hljóðritað á tónleikum í Keflavík og gefið út á diski. Reglur keppninnar eru að ekkert laganna má hafa komið út opinberlega. Við sluppum þó með skrekkinn en vorum í hálfgerðum vandræðum því við höfðum bara samið þrjú lög og það var bagalegt að mega ekki spila eitt þeirra. Þessi árangur jók sjálfstraustið svo við fórum að huga að plötuútgáfu. Fyrsta platan kom út korter í jól 2002 og það er eitt hrikalegasta haust sem ég hef upplifað. Ég var að taka klásusprófin inn í læknadeildina á sama tíma og við vorum að taka upp plötuna og þó ég hefði sagt við strákana að þeir yrðu að klára þetta án mín þá gat ég ekki látið vera að hafa puttana í þessu. En þetta gekk allt saman upp, ég komst inn í læknisfræðina og platan kom út.”


Slógu í gegn

Eins og áður sagði fékk fyrsta platan dræmar móttökur en þótti þó lofa góðu á ýmsan hátt. „Við tókum þetta ekkert sérstaklega nærri okkur. Við höfðum svo gaman af því að spila saman að okkur datt ekki í hug að láta þetta hafa áhrif. Við gáfum okkur reyndar góðan tíma fyrir næstu plötu enda vorum við allir í námi og urðum að skipuleggja tímann eftir því. Okkur fór reyndar gríðarlega mikið fram sem tónsmiðum og hljóðfæraleikurum og söngurinn hjá mér gerbreyttist. Ég veit reyndar ekki hvað gerðist nákvæmlega en einhvern veginn náði ég betri tökum á röddinni og fann mig betur í söngnum.”

Önnur platan, sem var á ensku, hét Hunting for Happiness og vakti gríðarlega hrifningu. Hauki Heiðari var hrósað í hástert fyrir frábæran söng og lögin þóttu hvert öðru betra. Hann segir að þeir hafi líka fengið einn af þekktari upptökustjórum poppheimsins til að taka upp plötuna og það hafi skipt sköpum.

Hljómsveitin hafði einfaldlega slegið í gegn. Platan seldist í nokkrum þúsundum eintaka hér heima og fékk einnig ágæta dreifingu erlendis. Í kjölfarið fylgdu tónleikaferðir til Evrópu en þó var það minna en búast mátti við þar sem tími hljómsveitarinnar var takmarkaður og ýmislegt annað sem kallaði á.

„Við höfum í rauninni farið okkur mjög hægt og gert þetta á okkar hraða frekar en farið að kröfum markaðarins. Eflaust hefðu hlutirnir gerst hraðar ef við hefðum bara verið í spilamennskunni en þetta hentaði okkur ágætlega.”

Ágætt dæmi um hvernig hlutir æxluðust var að þegar búið var að skipuleggja tónleikaferð til Bandaríkjanna í apríl 2009 með ærnum tilfæringum var ferðinni aflýst vegna þess að enginn meðlimur bandsins átti heimangengt. „Það voru barneignir og próf hjá strákunum en ég var búinn að hafa fyrir því að fá mánaðarfrí frá kandídatsárinu mínu svo ég ákvað að fara bara einn, gera úr þessu sólótúr. Það var mjög gaman og mikil reynsla að sitja einn með gítarinn á tólf tónleikum. Á tónleikum í New York var kona sem hafði keyrt alla leið frá Boston til að heyra mig spila. Hún keypti alla diskana sem ég var með og sagðist ætla að gefa þá til að vekja athygli á okkur. Það er svolítið gaman að því að margir sem hafa heyrt tónlistina okkar á netinu og koma á tónleikana finnst þeir eiga svolítið í okkur; hafa uppgötvað okkur og vilja endilega breiða út boðskapinn. Þetta skapar ákveðna stemmningu.“

Það er rétt að segja frá því að á MySpace síðu Diktu eru skráðir nær 37 þúsund aðdáendur, frá öllum heimshornum, svo vinsældir hljómsveitarinnar eru engar ýkjur.


Klásus betri en inntökuprófin

Haukur Heiðar var í síðasta hópnum sem fór í gegnum klásus í læknadeildinni og hann segist upphaflega hafa ætlað sér að taka sér eitt ár í frí áður en hann réðist í læknisfræðina. „En svo fréttist að þetta yrði síðasta haustið með klásus svo ég ákvað að skella mér. Þó klásusinn hafi verið miskunnarlaust fyrirkomulag þá fannst mér það sanngjarnara en inntökupróf. Klásusprófin voru tekin eftir þriggja mánaða nám en inntökuprófin eru tekin að sumri til án kennslu. Þar ræður undirbúningur úr menntaskólanum mestu en allir lærðu sama námsefnið fyrir klásus. Allir sátu við sama borð.”

Læknisfræðin tók sín hefðbundnu sex ár og Haukur Heiðar útskrifaðist vorið 2008. „Kandídatsárið teygði dálítið úr sér því ég fékk nokkur frí útaf hljómsveitinni. Í sumar byrjuðum við að vinna að nýju plötunni sem heitir Get it Together og gerðum við eiginlega allt sjálfir. Okkur langaði að stjórna ferðinni algerlega sjálfir í þetta sinn en við höfðum lært gríðarlega mikið af vinnslu annarrar plötunnar og smátt og smátt breyttist æfingahúsnæðið okkar í lítið upptökustúdíó. Við höfum verið duglegir við að bæta við okkur tækjum og eigum núna talsvert af upptökugræjum þó ýmislegt höfum við fengið að láni. Þetta kostar allt sitt. Svo datt okkur í hug að fá Jens Bogren, sænskan upptökustjóra sem vakið hafði athygli okkar fyrir frábærar upptökur með hljómsveitinni Opeth, til að hljóðblanda fyrir okkur upptökurnar. Við sendum honum tölvupóst og spurðum hvort hann væri til í mixa fyrir okkur og það var alveg sjálfsagt. Svo sendum við honum upptökurnar og fengum lögin snilldarlega mixuð til baka. Við hittum hann aldrei. Þetta fór allt fram á netinu. Planið var að fara og vera viðstaddir þegar hann mixaði en okkur seinkaði svo með upptökurnar að  það var enginn tími til þess. En þetta gekk allt upp og platan kom út fyrir jólin.“

Aðdáendur biðu í ofvæni eftir plötunni og hún varð söluhæsta platan í síðustu vikunni fyrir jól. Upplagið seldist upp og margir urðu frá að hverfa án þess að ná í eintak fyrir jólin. „Útgefandinn misreiknaði eftirspurnina og upplagið var of lítið. Eflaust hefði verið hægt að selja fleiri diska fyrir jólin en það er ekkert við því að gera. Nýtt upplag var að koma í búðirnar í janúarbyrjun og vonandi heldur eftirspurnin áfram.“

Framundan hjá Diktu er tónleikaferð um Evrópu undir vorið og nýja platan er væntanleg út víðar þegar kemur fram á árið 2010. Haukur Heiðar kveðst ætla að hvíla sig nokkuð eftir annasamt haust þar sem saman fóru vaktir á Landspítalanum og vinnsla plötunnar. „Þetta er búið að vera ansi sturlað og starfshlutfallið var ca. 250% ef einhver var á annað borð að reikna. Ég hefði ekki haldið þetta út mikið lengur. Ég ákvað að festa mig ekki í vinnu eftir að platan kom út til að hvíla mig og hafa betri tíma til að fylgja plötunni eftir.“

 

Gæti hugsað sér heimilislækningar

Hann segist ekki hafa ákveðið hvaða sérgrein hann ætli að leggja fyrir sig en heimilislækningar höfði til hans. „Ég hef unnið talsvert í heilsugæslu, bæði á Sólvangi í Hafnarfirði og í Árbæ og hef haft mikla ánægju af því og get vel hugsað mér heimilislækningarnar.“

Aðspurður hvort hann geti samræmt ímyndina sem læknir og poppari brosir hann og segist hafa velt þessu talsvert fyrir sér. „Það er nauðsynlegt í starfi sínu sem læknir að koma vel fyrir og vekja traust sjúklingsins. Það hefur gerst að ég hafi hitt sjúkling sem kvöldið áður var að horfa á mig á tónleikum. Það er kannski svolítið skrýtið. En ég held að þetta sé þó ekki eins skrýtið og það hljómar. Ég er líka vanur þessu heiman frá mér því pabbi var alltaf að spila samhliða því að vera læknir. Ég skal reyndar viðurkenna að það er dálítið annað að vera meðleikari grínista en að sleppa sér sem aðalsöngvari rokksveitar. Ég finn reyndar að mörgum kollegum mínum þykir ekkert að þessu, finnst það jafnvel flott og sannleikurinn er sá að margir í poppbransanum verða skrýtnari á svipinn þegar þeir heyra að ég er læknir. „Ertu líka læknir?“ spyrja þeir algjörlega gáttaðir.“

Hvernig líst honum svo á sig þessi fyrstu skref í læknisstarfinu?

„Það er auðvitað frábært að vera læknir og ég vil ekki vera neitt annað. En aðstæðurnar sem mæta manni eru ekki alveg eins og maður bjóst við. Grunnlaun unglækna eru skammarlega lág sem þýðir að til að ná viðunandi tekjum verður að vinna mjög mikið, taka alla aukavinnu og vaktir sem bjóðast. Þetta fer ekki vel saman við fjölskyldulíf og margir eiga erfitt með að ná utan um þetta. Ástandið í þjóðfélaginu bætir ekki úr skák og í fyrsta sinn standa unglæknar frammi fyrir því að fá jafnvel ekki vinnu því ráðningastopp á Landspítalanum setur strik í reikninginn. Maður er því ekki alveg heiðskír í bjartsýninni og kannski er bara eins gott að hafa músíkina með. Vera bæði spilamaður og læknir.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica