01. tbl. 96. árg. 2010

Ritstjórnargrein

Vísindagreinar á ensku í netútgáfu Læknablaðsins

Tómas Guðbjartsson


doi: 10.17992/lbl.2010.01.01


Á síðustu árum hafa verið gerðar ýmsar breytingar á Læknablaðinu með það að markmiði að gera það aðgengilegra og læsilegra fyrir lesendur. Auk þess hefur netútgáfan verið efld, en notkun hennar fer vaxandi. Blaðið er nú skráð í alla 
helstu gagnagrunna heilbrigðis- og lífvísinda, þar á meðal gagnagrunna Medline, Web of Science (ISI) og Scopus.1 Kjölfesta í útgáfu blaðsins eru ritrýndar vísindagreinar, tvær til fjórar greinar í hverju tölublaði. Í nýlegri úttekt kom fram að fjöldi ritrýndra vísindagreina í Læknablaðinu hefur haldist tiltölulega óbreyttur síðustu fimm ár.2 Á sama tíma hefur sést mikil aukning í birtingu fræðigreina íslenskra vísindamanna í erlendum vísindaritum. Því er ljóst að vaxtarbroddur í 
vísindastarfi hér á landi hefur ekki skilað sér sem skyldi á síður blaðsins.2 Einnig er umhugsunarefni að sumar sérgreinar birta sjaldan eða aldrei 
vísindagreinar í blaðinu, jafnvel þótt rannsóknavirkni sé mikil og birtingar í erlendum vísindaritum tíðar. Höfundar leitast í staðinn við að birta rannsóknir sínar í erlendum vísindaritum, sem oftar er vitnað til og hafa stærri lesendahóp. Þetta er skiljanlegt, ekki síst í ljósi þess hve lítið málsvæði íslenskunnar er. Á þessari þróun er þó önnur hlið. Oft er um að ræða rannsóknir á íslensk
um sjúklingum, jafnvel gerðar við séríslenskar aðstæður. Einn helsti markhópur slíkra rannsókna eru íslenskir læknar og heilbrigðisstarfsfólk. Því er mikilvægt að niðurstöður þessara rannsókna komi þeim fyrir sjónir. Læknablaðið er slíkur vettvangur. Blaðið er gefið út í 1700 eintökum og berst öllum læknum á Íslandi. Því er auðvelt að ná til lækna úr mismunandi sérgreinum. Auk þess hentar blaðið ágætlega fyrir kennsluefni, enda fá flestir læknanemar blaðið sent heim til sín. Loks er netútgáfa blaðsins öllum opin og auðvelt að nálgast efni sem áður hefur birst í blaðinu.


Í ritstjórn Læknablaðsins hafa verið ræddar leiðir til að koma betur til móts við íslenska höfunda og um leið auka lestur blaðsins og streymi á innsendum greinum. Í allmörg ár hefur verið boðið upp á tvíbirtingu greina. Erlendar greinar eru þá birtar á íslensku í Læknablaðinu með því skilyrði að erlenda blaðið hafi gefið til þess leyfi sitt. Fáir hafa þó nýtt sér þennan valkost, enda erlend tímarit sum ekki jákvæð fyrir tvíbirtingu niðurstaðna. Nýlega ákvað ritstjórn að bjóða höfundum upp á að birta greinar á ensku í netútgáfu blaðsins. Skilyrði fyrir slíkri birtingu er að greinin birtist jafnhliða á íslensku í prentútgáfu blaðsins. Því er í engu hvikað frá þeirri yfirlýstu stefnu blaðsins að hafa prentútgáfuna á vandaðri íslensku. Fyrsta greinin með þessu sniði birtist í október síðastliðnum3 og fleiri greinar með enskri þýðingu eru væntanlegar. Í völdum tilvikum getur ritstjórn ákveðið að borga slíka þýðingu, en annars fellur kostnaður við þýðingu á höfunda kjósi þeir að fá greinina birta á ensku. Um leið ætti áhugi erlendra vísindamanna að senda inn greinar í blaðið að aukast.


Sumum gæti virst að hér sé um stórt skref að ræða og vegið að íslensku útgáfunni. Sú er þó ekki raunin. Ensk útgáfa vísindagreina í prentútgáfu Læknablaðsins hefur áður verið til umræðu4 og vakti töluverð viðbrögð.5 Önnur íslensk vísindarit hafa valið þá leið, til dæmis hið virta vísindarit Jöklarannsóknarfélags Íslands, Jökull, sem hefur verið gefið út frá árinu 1951. Í dag held ég að flestir séu þeirrar skoðunar að Læknablaðið eigi að vera á góðri íslensku og standa beri vörð um notkun íðorða. Vönduð íslensk útgáfa þarf þó ekki að standa í vegi fyrir netútgáfu á ensku. Vísir að enskri útgáfu í Læknablaðinu hefur verið til staðar í fjölmörg ár. Frá árinu 1950 hefur birst enskt ágrip með íslensku prentútgáfunni og frá árinu 2007 hafa myndir og töflur á ensku birst í netútgáfunni. Þetta reyndust mikilvæg skref í því ferli að Læknablaðið fékkst skráð á Medline árið 2005 og í lok þessa árs í gagnagrunna Web of Science (ISI) og Scopus. Að mínu mati er því eðlilegt að stíga frekara skref og birta greinar í heild sinni á ensku á netinu. Um leið er mikilvægt að tryggja að enska netútgáfan sé aðgengileg í erlendu gagnagrunnunum og er slík vinna í gangi.


Heimildir

  1. Björnsson J. Drög að áfangaskýrslu. Læknablaðið 2008; 94: 443.

  2. Guðbjartsson T, Sigurðsson E. Hverjir skrifa í Læknablaðið? – Yfirlit yfir fræðigreinar síðustu fimm ára. Læknablaðið 2009: 95: 683-6.


  3. Gunnarsson SI, Torfason B, Sigfússon G, Helgason H, Guðbjartsson T. Árangur skurðaðgerða við meðfæddri ósæðarþrengingu hjá börnum á Íslandi 1990-2006. Læknablaðið 2009; 95: 647-53.


  4. Guðbjartsson T. Vangaveltur um framtíð Læknablaðsins sem vísindarits. Læknablaðið 2002; 88: 471.

  5. Sveinsson S. Um skurðlækna og gengi Læknablaðsins. Læknablaðið 2002; 88: 578-9.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica