01. tbl. 96. árg. 2010
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Um vitsmunaflótta íslenskra lækna. Valentínus Þór Valdimarsson
Valentínus Þór Valdimarsson
Brain drain er ellefta plata pönksveitarinnar Ramones. Á þeirri plötu má finna lagið: „all screwed up“. Það má segja að þeir Ramones-menn hafi hitt naglann á höfuðið með þessu lagi því þegar svokallaður vitsmunaflótti (e. brain drain) á sér stað stefnir í óefni.
Hvar ætla læknar í sérnámi að starfa? Í nýlegri könnun á vegum Læknafélags Íslands kom í ljós að einungis þriðjungur af þeim sem eru í sérnámi erlendis eru ákveðnir í því að snúa aftur til Íslands að loknu námi. Erfiðlega gengur að ráða í stöður lækna sem auglýstar eru hér á landi. Á síðum Læknablaðsins streyma inn auglýsingar um atvinnutilboð að utan og fréttir berast um æ fleiri lækna sem eru á leið til útlanda í vinnu. Vitsmunaflótti er því orðinn staðreynd á meðal stéttarinnar.
Af hverju á vitsmunaflótti sér stað? Það er athyglisvert að vera að stíga sín fyrstu skref sem læknir á þessum tímum. Okkur yngri læknum finnst eins og mörg spjót standi á okkur. Ráðningartímar eru styttri en áður og engin vissa um hvað nánasta framtíð ber í skauti sér. Sparnaðaráform eiga sér stað í læstum bakherbergjum innan heilbrigðisráðuneytis og í stjórnum heilbrigðisstofnana. Vilji til þess að ræða um sparnaðarákvarðanir er lítill af hálfu stjórnenda. Laun nýútskrifaðra lækna eru orðin lægri en sambærilegra starfsstétta. Þrátt fyrir þetta ætla forsvarsmenn Landspítala að umbylta vaktakerfi yngri lækna og krefja okkur um talsvert fleiri unna tíma í hverjum mánuði á sömu launum. Þannig er ætlun forsvarsmanna Landspítala að rýra starfsskilyrði okkar, félagsleg gæði og kjör. Tilraunir okkar til þess að koma til móts við Landspítala hafa reynst vonlitlar og erfitt hefur verið að ná eyrum forsvarsmanna. Þessi glíma okkar við spítalann hefur því verið erfið.
Hvernig getum við reynt að hindra vitsmunaflótta á Íslandi? Sú speki að mannauður fyrirtækis sé það sem heldur því uppi er ekki ný af nálinni. Í heilbrigðisþjónustu á þetta jafnvel betur við en á flestum öðrum sviðum. Því er það mjög mikilvægt í allri stjórnun að laða að hæft starfsfólk og halda því ánægðu svo starfsmenn hverfi ekki jafnskjótt á brott. Ríkissjóði Íslands ber að spara umtalsverðar fjárhæðir á næstu misserum – á því leikur enginn vafi. Sparnaður í heilbrigðiskerfinu er óhjákvæmilegur. Í þessum sparnaði er eina leið Landspítala og íslenska ríkisins til þess að forðast vitsmunaflótta að fá vel menntað starfsfólk með sér í lið. Hvernig er best að spara? Hvar má spara og hvar skyldi síst spara? Ef stjórnendur stærstu heilbrigðisstofnananna á Íslandi og stjórnendur heilbrigðismála halda áfram starfi sínu óbreyttu þá verðum við „all screwed up“.
valentva@gmail.com