01. tbl. 96. árg. 2010
Umræða og fréttir
Tryggja verður gæðin og öryggið
"Við verðum að geta boðið okkar vel menntaða og sérhæfða starfsfólki samkeppnishæf laun, sambærilega vinnuaðstöðu og viðunandi félagslegar lausnir
í samfélaginu eins og tíðkast í löndunum í kringum okkur," segir Björn Zoëga forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss.
Það kemur varla nokkrum manni á óvart að skera þurfi niður kostnað og þjónustu á Landspítala á komandi ári. Niðurskurður hefur verið viðvarandi og að sögn forstjórans Björns Zoëga hefur gengið vel að ná settum markmiðum þó enn sé uppi krafa af hálfu stjórnvalda að lengra verði gengið í sparnaði og niðurskurði.
Lykilorð í umræðunni eru einmitt sparnaður og niðurskurður. Sumir kjósa að nota fyrra orðið, það er óneitanlegra jákvæðara en „niðurskurður“ sem hefur neikvæðan hljóm, felur í sér atvinnumissi og skerðingu á þjónustu. Með sparnaði er sýnd ráðdeild og hagsýni, ónauðsynleg útgjöld eru skorin niður og allir hafa það í rauninni jafngott þó dregið sé úr munaði og jafnvel bruðli. Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, segir að vissulega hafi spítalinn verið rekinn með ströngu aðhaldi undanfarin ár og mikill árangur náðst í að draga úr kostnaði. „Það hefur verið sparað.“ Spurningin er hvort lengra verði gengið í meintum sparnaði án þess að skerða þjónustu, lækka laun og fækka starfsfólki. Hefja niðurskurð. Svar Björns er einfaldlega nei. Það verður ekki gengið lengra án beins niðurskurðar og reyndar er spítalinn þegar kominn út á þá braut því dregið hefur úr þjónustu, laun hafa lækkað, rúmum verið fækkað og framundan eru uppsagnir starfsfólks.?
Hvort það kemur niður á gæðum þjónustunnar eða skertu öryggi sjúklinga er annað mál að mati Björns og hann leggur mesta áherslu að halda í þessa tvo þætti, gæðin og öryggið, þrátt fyrir að óhjákvæmilegt sé að draga úr umsvifum spítalans á flestum sviðum.?
Tölurnar sem Björn nefnir í þessu samhengi eru háar. Skyldi kannski engan undra þegar um stærsta einstaka vinnustað landsins er að ræða með um fimm þúsund starfsmenn. „Á þessu ári höfum við dregið úr kostnaði um 2600 milljónir. Á næsta ári eigum við að spara um 3200 milljónir til viðbótar. Rekstrarvandinn felst að töluverðu leyti í gengistapi á árinu upp á 900 milljónir og skuldahala frá fyrri árum upp á 1600 milljónir. Við munum því að óbreyttu hefja árið 2010 með neikvæðan höfuðstól upp á 2800 milljónir sem þýðir kostnað í dráttarvöxtum upp á að minnsta kosti 450 milljónir.“?
Spítalinn er að minnka?
Björn segir að ekki sé öll von úti um að ríkissjóður komi til aðstoðar með skuldahalann en hann virðist þó ekki nema hæfilega vongóður um lausn. Svo dráttarvaxtagreiðslurnar séu settar í raunverulegt samhengi er það nær sexföld sú upphæð sem þarf til að ljúka framkvæmdum við kvennadeild spítalans. Nýlega voru stofnuð samtökin Líf til stuðnings kvennadeildinni og fyrsta verkefni samtakanna verður að safna fé til að ljúka endurnýjun deildarinnar. „Það væri óneitanlega betra ef dráttarvaxtagreiðslur stofnunarinnar gætu nýst við slík verkefni,“ segir Björn. ?
Starfsmenn hafa fundið fyrir niðurskurðinum í launaumslaginu því markvisst hefur verið dregið úr yfirvinnu um kvöld og helgar, fækkað hefur verið á vöktum og reynt að beina meginstraumi sjúklinga inn á dagvinnutíma virkra daga. „Laun allra starfsmanna hafa lækkað nema þeirra allra lægst launuðu,“ segir Björn. ?
„Það hefur ekki enn komið til beinna uppsagna starfsfólks en við höfum nýtt starfsmannaveltuna til að fækka starfsmönnum. Engir nýir eru ráðnir í stað þeirra sem hætta. Starfsmenn eru jafnmargir nú og fyrir ári síðan. Nú er spítalinn fullmannaður en á næsta ári gerum við ráð fyrir að fækka enn frekar um 200 manns. Það hefur hægt á starfsmannaveltunni í kjölfar hrunsins svo búast má við að til að ná þessari fækkun verði að segja upp um 100 manns á næsta ári.“ ?
Björn dregur enga dul á að með þessum aðgerðum sé spítalinn að minnka. „Það segir sig sjálft. Rúmum er að fækka og starfsfólkinu líka. Þjónustan dregst saman.“?
Ekki er allt svo slæmt að hvergi sjái til sólar. Björn bendir á nýlega könnun Sigurðar Böðvarssonar krabbameinslæknis er hann gerði sem meistaraverkefni við háskólann á Bifröst, en þar kemur fram að 90% lækna á Landspítala sjá möguleika á sparnaði í sínu nánasta starfsum-hverfi. „Þetta eru mikilvægar upplýsingar og segja okkur að kostnaðarvitund lækna og þeirra sem ráðstafa fjármunum stofnunarinnar þurfi alltaf að vera vakandi. Með því er hægt að ná fram ítrustu hagkvæmni án þess að það bitni á gæðum eða þjónustu. Við verðum í lengstu lög að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinganna. Það er okkar hlutverk.“?
Á undanförnum árum hefur margt verið sagt og skrifað um yfirstjórn Landspítala. Margir læknar hafa gagnrýnt æðstu stjórnendur harkalega og meðal annars sagt þá hafa takmarkaða þekkingu á lækningum, enda með annars konar menntun. Björn Zoëga er bæklunarskurðlæknir og starfaði við sérgrein sín um tíu ára skeið við sjúkrahús erlendis áður en hann réðst til starfa á spítalann. Hann segist ennþá taka einn skurðdag í viku og sinna göngudeildarsjúklingum hálfan dag. „Þetta gerir vinnudaginn í forstjórastólnum vissulega lengri en ella en ég tel þetta algerlega nauðsynlegt til að halda tengslum við fagið og samstarfsmenn.“?
Leiðandi rannsóknarsjúkrahús?
Hann vitnar í rannsóknir í Bandaríkjunum þar sem sýnt hefur verið fram á að læknar treysti almennt betur stjórnendum sem komi úr hópi lækna og starfi áfram sem læknar meðfram stjórnarstarfinu. Aðspurður hvort hann telji að gerð hafi verið mistök við stjórnun spítalans á undanförnum árum svarar hann því til að sameining sjúkrahúsanna þriggja í Reykjavík hafi gert ákveðnar kröfur um stjórnun. „Nú er sá kafli að baki og Landspítalinn er ein stofnun og mikilvægt að sem best traust ríki um stjórnun hennar.” Síðastliðið vor voru gerðar gagngerar breytingar á stjórnkerfi stofnunarinnar, sviðstjóralagið tekið út og dregið úr yfirstjórn. Björn segir að um áramótin verði kynntar enn frekari breytingar þar sem yfirlæknum og deildarstjórum verið falin meiri rekstrarleg ábyrgð en áður. ?
Þrátt fyrir samdrátt og niðurskurð bendir Björn á að Landspítali sé öflug rannsóknarstofnun enda sé eitt meginhlutverk hennar að standa undir nafni sem háskólasjúkrahús. „Á Landspítala eru skrifaðar nær 40% af öllum birtum ritrýndum vísindagreinum. Ísland er í fararbroddi hvað varðar fjölda vísindarannsókna miðað við íbúatölu. Þetta er árangur sem ekki má gleyma en það má heldur ekki missa hann niður. Við verðum að viðhalda orðstír okkar sem leiðandi rannsóknarsjúkrahús.“?
Á undanförnum vikum hefur Björn verið ötull við að kynna rekstraráætlunina fyrir næsta ár og hverju starfsfólk megi eiga von á. „Það er mikilvægt að halda öllum upplýstum því fyrir starfsfólk er óvissan versti þátturinn í þessu ferli. Að vita ekki hvaða breytingar eiga að verða. Ég hef lagt mig fram um að halda fundi með starfsfólki og ræða við það, heyra hugmyndir þess um sparnað og aðhald, ásamt breytingum á rekstri einstakra deilda og þetta hefur verið mér mjög gagnlegt. Það er mikilvægt að gera allt sem hægt er til að halda uppi jákvæðu andrúmslofti og innanhúskannanir okkar hafa sýnt að starfsánægja er nokkuð góð og við viljum halda því við.“?
Björn segist vera vel meðvitaður um líkurnar á atgervisflótta sem kreppuástandið skapar. Vandinn er margþættur því auk sérfræðinga sem hverfa utan til starfa leita unglæknar fremur í sérnám erlendis og íslenskir sérfræðingar búsettir ytra koma ekki hingað til starfa við þessar aðstæður. Björn vill þó ekki kannast við að brostinn sé flótti í lið lækna þótt dæmi séu um að þeir hafi brugðið búi og flust erlendis. Eftirspurn eftir læknum á Norðurlöndunum er einnig mikil. „Eftirspurnin er vel meint því kollegar okkar á Norðurlöndunum telja sig vera að hjálpa upp á sakirnar með því að bjóða íslenskum læknum vinnu. Til lengri tíma skapar þetta ófyrirséðan vanda þegar kemur að eðlilegri endurnýjun í mörgum sérgreinum læknisfræðinnar.“?
Hvernig bregðast á við þessu er annað mál og í rauninni stjórnvalda að leysa það en Björn segir að samfélagið geti ekki brugðist við nema á einn hátt. ?
„Við verðum að geta boðið okkar vel menntaða og sérhæfða starfsfólki samkeppnishæf laun, sambærilega vinnuaðstöðu og viðunandi félagslegar lausnir í samfélaginu eins og tíðkast í löndunum í kringum okkur. Stjórnvöld hafa skilning á þessum vanda en ég get ekki sagt að ég heyri margar tillögur til lausnar.“?
Spítali allra landsmanna?
Björn hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að sparnaður í heilbrigðiskerfinu sé að mörgu leyti í skötulíki því samhliða því að sjúkrastofnunum sé gert að draga úr kostnaði sé haldið úti sólarhringsvöktum á fæðingar- og skurðdeildum á sjúkrahúsunum í kringum Reykjavík án sýnilegs tilgangs. „Það þarf að ræða sparnað í heilbrigðiskerfinu í heild og koma sér niður á verkaskiptingu innan þess. Það liggja fyrir mjög skýrar hagkvæmnisathuganir á rekstri sjúkrahúsanna á suðvesturhorninu og allir sem vilja geta kynnt sér hversu óhagkvæmt fyrirkomulagið er. Landspítalinn er í öllum tilfellum endastöð þegar koma upp alvarleg tilfelli og þrátt fyrir fæðingardeildir og skurðstofur með sólarhringsvakt allt í kringum Reykjavík dettur engum annað í hug en senda sjúklinginn hingað ef eitthvað bjátar á. Þessar sólarhringsvaktir veita falskt öryggi og var reyndar aldrei ætlað neitt öryggishlutverk heldur var þetta launauppbót til starfsmanna í formi stöðugra bakvakta. Sjúklingar í krísu enda hér og þetta vita allir. Þetta er sársaukafull umræða og snertir marga fleti, ekki síst sjálfsmynd þeirra stofnana sem um ræðir.“?
Í lok samtals ræðir Björn um áform um byggingu nýs sjúkrahúss við Hringbraut. „Eins og komið hefur fram hafa fyrri tillögur um byggingu verið endurskoðaðar og eru að mínu mati komnar niður á jörðina. Í stað þess að byggja algerlega nýtt sjúkrahús verða byggðir mun færri nýir fermetrar en eldra húsnæði verður nýtt til hins ítrasta. Þetta verður engu að síður nýr spítali og skiptir miklu máli í rekstri sjúkrahússins að ná bráðaþjónustunni á einn stað í stað tveggja eins og nú er. Það liggur fyrir viljayfirlýsing stærstu lífeyrissjóðanna í landinu um að koma að fjármögnun byggingarinnar og á næsta ári verður lokið við undirbúning og hönnun og vonast til að framkvæmdir geti hafist snemma árs 2011. Áætlun gerir ráð fyrir að spítalinn verði tilbúinn árið 2016.“ Aðspurður um Landsímapeningana og hvort þeir séu til staðar hristir Björn höfuðið. „Þeir peningar eru horfnir en hluti þeirra nýttist þó til undirbúnings þessa verkefnis.“?
Þegar fjálglegast var rætt um nýtt sjúkrahús fyrir nokkrum árum var hamrað á orðaleppnum „hátæknisjúkrahús“. Björn segir það orð ekki heyrast lengur í umræðunni heldur sé talað um háskólasjúkrahús. „Hér stendur til að byggja nýtt háskólasjúkrahús sem verður spítali allra landsmanna.“