11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Norðurevrópskt þing kvenna í læknastétt

Kynjamunur í heilsu helsta umræðuefnið

Í síðustu viku september héldu konur í læknastétt mikla ráðstefnu á Grand Hóteli. Það var 15. þing Norður-Evrópuhluta Alþjóðasamtaka kvenna í læknastétt (Medical Women's International As­sociation eða MWIA) sem nú var haldið í fyrsta sinn hér á landi. Forseti þingsins var Ólöf Sig­urðardóttir meinefnafræðingur en Læknablaðið hitti hana að máli eftir að þinginu lauk.

"Þessi þing eru haldin á þriggja ára fresti en það síðasta var í Lundúnum og þar tóku fulltrúar Félags kvenna í læknastétt á Íslandi þátt í fyrsta sinn. Við urðum fyrir góðum áhrifum af þessum konum og buðumst til að halda næsta þing. Félagið okkar er stofnað árið 1999 en mörg þessara félaga í Evrópu eru stofnuð snemma á síðustu öld svo þau eru miklu rótgrónari en hér. Alþjóðasamtökin voru stofnuð 1919, þau eru með elstu samtökum lækna í heiminum og eiga formlega aðild að alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum.

Það ríkti almenn ánægja með þingið og fyrirlesararnir voru sérstaklega góðir. Þingið sátu hátt í 150 manns frá 14 löndum, flestar frá Norð­urlöndunum og öðrum nágrannalöndum okkar en einnig frá Rússlandi, Tékklandi og Tyrklandi svo eitthvað sé nefnt. Auk þess voru konur frá Alþjóðasamtökunum, þeirra á meðal fráfarandi formaður sem er frá Kanada og aðalframkvæmda­stjórinn frá Þýskalandi auk þess sem fyrrverandi formaður bandarísku landssamtakanna tók einnig þátt."

Staða læknastéttar með þátttöku kvenna

Fyrsti dagurinn fór að mestu í að skoða stöðu kvenna í læknastétt.

"Þar töluðu konur úr ýmsum áttum, lækningum, stjórnsýslu og stjórnmálum," segir Ólöf. "Við fengum líka unglækna og fólk sem hefur rannsakað, stjórnað eða starfað með kvenlæknum, Þorgerði Einarsdóttur félagsfræðing og nokkra karl­kollega, Pálma V. Jónsson öldrunarlækni, Ein­ar Guðmundsson geðlækni og prófessorana Olaf Aasland frá Osló og Lars von Knorring frá Upp­sölum. Erindi Vilhelmínu Haraldsdóttur vakti athygli þar sem hún kynnti kynskipta tölfræði um Landspítala sem vinnustað. Þar eru 80% starfsmanna konur en 28% lækna. Skipting lækna eftir kyni á sviðin er svipuð og víða erlendis, með lægra hlutfall kvenna á skurðdeildum og bráðadeildum en hærra á kvennadeild. Hins vegar vakti það athygli erlendra gesta okkar hve lágt hlutfall kvenlækna starfar á Barnaspítala Hringsins, eða rétt tæp 7%. Þorgerður Einarsdóttir kom inn á þögla kennslu í læknisfræði þar sem hefðbundnum hlutverkum er viðhaldið með kynjaðri þögulli kennslu á hefðum og nefndi erlend dæmi um móttökur sem kvenlæknar sem sóttu í skurðlækningar hafi fengið hér áður fyrr. Í anda "new professionalism" eða endurnýjaðrar fagvitundar sé breytt hlutverk lækna þar sem markmiðið sé að styðja sjúklinga í að stýra eigin meðferð með breyttum lífsstíl, til dæmis í langvinnum sjúkdómum eins og sykursýki. Þessum markmiðum megi ná með aukinni næmi á kynjamun meðal annars.

Olaf Aasland kynnti fyrri rannsóknir um hvernig heilsa lækna hefur batnað með bættri afkomu þeirra og hvernig sjá megi breytt val kvenna þar sem þær völdu áður ýmist að vera ógiftar og/eða barnlausar til að gefa sig að starfinu en væru núorðið oftar giftar og ættu börn. Konur í lækna­stétt séu ánægðari í starfi en karlar þó enn megi bæta aðbúnað þeirra og auðvelda þeim að samhæfa kröfur starfs og heimilis.

Lars von Knorring hefur velt fyrir sér muninum á að vera með karla og konur í handleiðslu og lýsti upplifun sinni þannig að karlinn sjái doktorsnámið sem leið til að safna vopnum til að beita gegn keppinautunum og koma sjálfum sér áfram í vísindaheiminum. En við upphaf doktorsnáms nálgist konan verkið á ólíkan hátt og hafi tilhneigingu til að vera viðkvæmari fyrir gagnrýni á verk sín. Knorring líkti ritgerðarsmíðum konunnar við meðgöngu, persónulegu skapandi ferli. Hann sagði líka að konur krefðust meiri nándar við handleiðarann en karlar og það gæti leitt til misskilnings.

Mæður og strákar

Seinni dagurinn var helgaður heilsu kvenna og þar vorum við meðal annars að koma á framfæri því sem vel hefur verið gert hér á landi. Til dæmis var sagt frá þátttöku kvenna í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar en þar hafa þær verið með frá 1968 sem þykir sérstakt. Einnig var sagt frá starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, lágum barna­dauða og virku ungbarna- og mæðraeftirliti. Við fengum líka í heimsókn læknanema sem sögðu frá verkefni sem þau hafa skipulagt og heitir Ástráður (www.astradur.is) en það snýst um kynfræðslu fyrir ungt fólk. Kynning þeirra vakti mikla hrifningu og lófaklappinu ætlaði aldrei að linna. Einnig voru hádegisverðarfundir um geðheilsu kvenna fyrri daginn og hjarta- og lungnasjúkdóma kvenna seinni daginn.

Við ræddum stjórnunarhlutverk kvenna í lækna­stétt. Við vitum að konur og karlar hafa mjög ólíkan stjórnunarstíl og að konur sem herma eftir körlum ná ekki langt. Meðal fyrirlesara um þetta var Barbro Dahlbom-Hall, sænskur stjórnunarráðgjafi sem hefur skrifað fjölmargar bækur um stjórnun lækna og hvernig eigi að kenna læknum að stjórna. Þar kom glöggt í ljós hversu mismunandi upplifun kvenna og karla er á stjórnun og samvinnu. Meðal þess sem hún ræddi var að á stórum stofnunum eins og sjúkrahús eru flest þyrfti fólk að vinna saman og það væri sérstaklega nauðsynlegt að kenna ungum körlum samvinnu, þeim hættir til að gogga dálítið hver í annan og verja sín svæði á meðan konurnar bregða sér þá í móðurhlutverkið og hjálpa þeim þannig óbeint við að viðhalda "strákamynstrinu"."

Ólík heilsa kynjanna

Á síðustu árum hafa rannsóknir leitt í ljós mikinn mun á heilsu kvenna og karla og það var til umræðu á þinginu. Hvað fannst Ólöfu athyglisverðast sem þar kom fram?

"Ætli það sé ekki sá mikli kynjamunur sem birtist í klíníkinni í hjartasjúkdómum. Til dæmis sagði sænski læknirinn Karen Schenck-Gustafsson frá því að hjartalyf hafi í mörgum tilvikum ekki alltaf verið prófuð á tilraunadýrum af báðum kynjum, en þar hefur orðið mikil bót á. Einnig talaði hún um það að flestöll lyf sem tekin hafa verið af markaði vegna aukaverkana sé vegna kvartana um aukaverkanir hjá konum.

Andrés Magnússon hélt erindi þar sem hann skýrði frá mismunandi viðbrögðum kynjanna við lækkun á serótóníni í heila. Svo virðist sem konur verði frekar þunglyndar en karlar árásargjarnir. Dóra Lúðvíksdóttir sagði frá rannsóknum á lungna­sjúkdómum sem sýna að konur þola tóbaksreyk miklu verr en karlar. Krónískir lungnasjúkdómar eru oft vangreindir hjá konum eins og aðrir sjúkdómar sem tengjast tóbaksnotkun. Þetta tengist langlífi sem er mismikið eftir kynjum en íslenskar konur sem lifðu lengst allra kvenna fyrir nokkrum árum eru komnar niður í sjöunda sæti meðan karlar eru komnir í fyrsta sæti. Ein af ástæðum þess eru reykingar kvenna sem hafa aukist á sama tíma og karlar hafa dregið úr þeim.

En það er ekki nóg að lengja lífið heldur þarf að bæta líðan fólks og þar er stórt verkefni sem lýtur að vefjagigt. Hana þarf að rannsaka miklu betur en gert er enda hefur skilningur okkar á þessum sjúkdómi verið að breytast. Þetta er fyrst og fremst kvennasjúkdómur."

Íslenskur varaforseti

Á þinginu var prófessor Margrét Guðnadóttir heiðruð og sagði Ólöf að erlendu gestirnir hefðu sýnilega haft mikla ánægju af að hlusta á erindi hennar um störf sín sem eini kvenprófessorinn í læknastétt á Íslandi í 30 ár.

"Í tengslum við þingið var opnuð sýning vestur á Ísafirði þar sem minnst er Kristínar Ólafsdóttur, fyrstu konunnar sem útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands. Sú sýning verður sett upp á Læknadögum eftir áramótin og jafnvel víðar. Við ræddum líka að það væri alveg tímabært að láta mála af henni mynd og hengja hana upp innan um alla karlkollegana í Hlíðasmáranum.

Forystukonur Alþjóðasamtakanna voru mjög ánægðar með hvernig staðið var að þinginu. Þær sögðu að við hefðum hækkað gæðastuðul þessara þinga og stungu upp á því að íslensk kona verði skipuð varaforseti Norður-Evrópudeildarinnar árið 2007. Þetta var afskaplega skemmtilegt, ekki síst vegna breiddarinnar sem þarna kom fram. Við heyrðum margar og skemmtilegar sögur, bæði frá eldri konum sem sögðu frá fyrri tíð og einnig frá yngra fólki, læknanemum og unglæknum," sagði Ólöf Sigurðardóttir.

Ólöf Sigurðardóttir formaður ráðstefnunefndar og fyrrverandi formaður Félags kvenna í læknastétt á Íslandi setur ráðstefnuna.

Ráðstefnunefndin. Talið frá vinstri: Lilja Sig­rún Jónsdóttir, Ingi­björg Georgsdóttir, Ína Marteinsdóttir, Ólöf Sig­urðardóttir, Mar­grét Árnadóttir, Ósk Ingvars­dóttir og Helga Hannes­dóttir (á myndina vantar Ellen Mooney og Katrínu Fjeldsted).

Barbro Dahlbom-Hall stjórnunarráðgjafi ræðir framtíðarstöðu lækna.

Kristín Jónsdóttir kynnti Margréti Guðnadóttur sem var heiðruð á fundinum sem fyrsti kvenprófessor í Læknadeild Háskóla Íslands. Á myndinni eru einnig Ólöf Sigurðardóttir og Margrét Georgsdóttir fyrrverandi og núverandi formenn Félags kvenna í læknastétt á Íslandi.

Ráðstefnugestir fylgjast með fyrirlestri á Grand Hótel.

Þessi voru í sviðsljósinu á síðdegisfundi fimmtu­dagsins, talið frá vinstri: Ingibjörg Georgsdóttir fundarstjóri og fyrirlesararnir Olav Aasland, Einar Guðmundsson og Þorgerður Einarsdóttir. Auk þeirra töluðu Pálmi V. Jónsson og Lars von Knorring.

Fyrirlesarar á morgun­fundi fimmtudagsins, talið frá vinstri: Katrín Fjeldsted, Astrid Seeberger fundarstjóri, Guðrún Agnarsdóttir, Unnur Pétursdóttir, Dögg Hauksdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir og Sigurdís Haraldsdóttir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica