09. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Konur, víkingar, munkar og berserkir

léku stór hlutverk á 20. þingi norrænna áhugamanna um sögu læknisfræðinnar

Íslensk lækningasaga var mikið í sviðsljósinu á 20. þingi norrænna áhugamanna um sögu læknisfræðinnar sem fram fór í Reykjavík dagana 10.-13. ágúst. Nesstofa var mál málanna við opnunina í Þjóðmenningarhúsinu, daginn eftir voru það konur í íslenskri læknastétt sem áttu sviðið, þriðja daginn var farið á vit íslenskra lækna fyrri alda við Breiðafjörð og lokadaginn var röðin komin að víkingunum og öðru miðaldafólki.

Blaðamaður Læknablaðsins fylgdist með þinginu eins og hægt var en vitaskuld fór margt framhjá honum. Ekki við öðru að búast því tæpast getur einn maður sótt fyrirlestra samtímis í þremur sölum. Hér á eftir verður stiklað á stóru um þá fyrirlestra sem ég rakst inn á en við munum gera ýmsu efni betri skil í næstu blöðum.

Opnunarathöfnin var haldin á miðvikudagskvöldi í hinu fagra og sögufræga húsi sem löngum hýsti bækur þjóðarinnar. Þar var leikin tónlist en það var Nesstofa sem fór með aðalhlutverkið. Atli Þór Ólason formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar setti þingið og kallaði síðan til sín tvo danska velgjörðarmenn íslenskrar lækningasögu. Það voru þeir Aksel Kirkegård formaður Augustiner sjóðsins og Povl Riis læknir og Íslandsvinur (kominn til landsins í 50. sinn!). Að öðrum ólöstuðum áttu þeir tveir stærstan þátt í því að sjóðurinn styrkti endurbyggingu Nesstofu um tvær danskar milljónir í vor. Var þeim báðum afhent heiðursmerki félagsins af þessu tilefni.

Formaður Læknafélags Íslands eyddi einnig lunganum úr sínu ávarpi í umfjöllun um Nesstofu og þýðingu hennar fyrir íslenska lækningasögu. Að ávarpi hans loknu sté Sverrir Tómasson í pontu og fræddi ráðstefnugesti um íslensk handrit þar sem fjallað er um læknisfræði. Um það var svo fjallað meira síðasta dag þingsins.

Læknisfræði víikinga og munka

Gestirnir á þessu norræna þingi voru um 200 talsins og þeir hlustuðu á yfir 50 fyrirlestra um breitt svið. Yfirskrift þingsins var Sjúklingurinn og samfélagið sem vissulega er rúmt hugtak enda var fjallað um farsóttir á norðurslóðum, konur í læknisstörfum, sögu tannlækninga og lyfjafræði og stöðu heimilislæknisins fyrr á öldum, svo fátt eitt sé talið.

En það sem helst vakti áhuga undirritaðs (og reyndar fleiri) var málstofa um læknisfræði víkinga og miðalda með sérstaka áherslu á Ísland. Aðalfyrirlesturinn flutti þýsk kona, Charlotte Kaiser, og má segja að hún hafi tekið upp þráðinn þar sem Sverrir Tómasson sleppti honum. Hún hefur meðal annars verið að rannsaka fjögur íslensk skinnhandrit frá miðöldum þar sem gefin er glögg mynd af læknisfræðilegri þekkingu Íslendinga á 13. öld. Þar er lýst fjórum meðferðarkerfum sem beitt var en þau voru töfralækningar, alþýðulækningar, hefðbundnar lækningar og munkalækningar. Charlotte fór víða í fyrirlestri sínum en hún greindi ítarlega frá rannsóknum sínum í viðtali við Lesbók Morgunblaðsins í byrjun ágúst.

Næst kom í pontu ung vísindakona, Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur, sem lesendur Læknablaðsins kannast við því hún skrifaði grein um mergæxli sem fannst í beinagrind á Hofstöðum í Mývatnssveit. Í erindi sínu ræddi Hildur um uppgröft sem fram hefur farið í Haffjarðarey á Mýrum, Viðey og á Bessastöðum en kirkjugarðar þessara staða geyma mikinn fróðleik um liðagigt, sýkingar, beinbrot, vanskapanir og berkla.

Óttar Guðmundsson ræddi um berserki í Íslendingasögunum og kallaði þá ?nowhere men? með tilvísun í Bítlana. Enginn veit hvaðan þeir koma (ef frá eru taldir tveir Svíar í Eyrbyggju) og þeim svipar að mörgu leyti til sérsveitar­manna nútímans. Þeir eiga það þó sameiginlegt að falla yfirleitt fyrir hendi hetjunnar. Að sögn Óttars voru þetta greinilega ungir menn haldnir persónu­leikaröskunum sem voru notaðir í skít­verkin. Bókmenntalegt hlutverk þeirra var að vera andstæða hetjunnar og undirstrika þar með þau kristnu gildi sem höfundar sagnanna vildu að prýddu söguhetjur sínar.

Islendingasögur í forgrunni

Eftir þetta var kærkomið að fá kaffi og kleinur áður en næsti skammtur var innbyrtur. Þar var á ferð bandarískur læknir á eftirlaunum, Charles Poser að nafni, en hann hafði tekið sér það hlutverk að kenna norrænum víkingum um útbreiðslu MS-sjúkdómsins um heiminn. Hann vísaði til faraldsfræðilegra rannsókna sem sýna að þessi sjúkdómur er hvergi útbreiddari en í þeim löndum sem norrænir víkingar og afkomendur víkinga lögðu undir sig. Það á bæði við lönd og eyjar við Norður-Atlantshaf en einnig um fylkið Minnesota í Bandaríkjunum þar sem hlutfall norrænna innflytjenda er óvenjuhátt, sem og útbreiðsla MS.

Poser fylgdi víkingum víða um heim og allt austur til Kína en næst var röðin komin að fornleifauppgreftri í bænum Ribe á Jótlandi þar sem fjöldi lækningatækja frá miðöldum hefur fundist. Síðustu fyrirlestrarnir í þessari málstofu fjölluðu um heitar laugar til forna á Íslandi en um það efni ritaði Jón Þorsteinsson í júlíhefti Læknablaðsins. Og svo sagði Örn Hrafnkelsson handritafræðingur frá íslenskum handritum frá 1600-1800 í eigu Landsbókasafns þar sem fjallað er um læknisfræði.

Reyndar komu Íslendingasögurnar víðar við í fyrirlestrum á þessu þingi því margir vitnuðu til þeirra og einn ágætur Norðmaður, Jon Geir Høyersten, hefur skrifað bók um mannlýsingar Íslendingasagna, með sérstakri áherslu á Njálu. Það var skemmtilegur fyrirlestur sem ég mun gera frekari skil hér í blaðinu.

Meðferð úr fortíðinni

Það á reyndar einnig við um fleiri fyrirlestra sem haldnir voru á þinginu. Til dæmis hlýddi ég á þýskan geðlækni, Thomas Müller, sem greindi frá athyglisverðu meðferðarformi geðsjúkra sem enn tíðkast í nokkrum Evrópulöndum þótt það eigi sér rætur aftur á 12. öld þegar geðsjúkir voru taldir haldnir illum öndum. Thomas taldi þessa meðferð eiga fullt erindi við nútímann og lesendur Læknablaðsins geta dæmt um það sjálfir.

Ég verð að gera þá játningu að ég mætti ekki á málstofuna um konur í læknavísindum en lesendur geta hins vegar huggað sig við það að Margrét Georgsdóttir ætlar að birta hér í blaðinu erindi sitt sem fjallaði um þrjár fyrstu konurnar í íslenskri læknastétt sem að vísu störfuðu allar utan landsteinanna.

Það blasti líka við þeim sem sóttu þetta þing að viðfangsefnið höfðaði ekki bara til lækna. Þarna mátti sjá fólk úr ýmsum stéttum, ekki síst sagnfræðinga og áhugamenn um fyrri tíma af mörgum gerðum. Með þeim orðum lýkur þessari samantekt en hér á síðunum birtum við myndir sem teknar voru meðan ráðstefnan stóð yfir.

Atli Þór Ólason setur þingið en að ofan má sjá dönsku heiðursmennina tvo, Povl Riis (í miðið á stærri myndinni) og Aksel Kirkegård. Til hægri eru Vilhelmína Haraldsdóttir og Óttar Guðmundsson sem bæði voru í skipulagsnefnd þingsins.

Í lok fyrsta ráðstefnudags var gestum boðið að skoða Nesstofu og Lyfjafræðisafnið þar sem Kristín Einarsdóttir úr skipulagsnefnd þingsins er öllum hnútum kunnug. Efst til vinstri ræðir Charlotte Kaiser við íslenskan fræðimann en efst til hægri rýna gestir í norrænt bókfell sem var til sýnis í Þjóðmenningarhúsi meðan opnunarhátíðin fór fram.

Hér bíða ráðstefnugestir eftir að næsti fyrirlesari hefji upp raust sína í hátíðarsal Háskólans. Og hér er hann kominn, bandaríski læknirinn Charles Poser sem eltir víkinga um heiminn. Hann virðist vera kominn til landsins helga ef dæma má af glærunni.

Í anddyri Háskóla Íslands var búið að koma fyrir nokkr­um veggspjöldum með ýmsum fróðleik. Meðal þeirra sem þar sýndu var sænski læknirinn Bengt W. Johansson sem var með hugann við sögu hjartagangráðsins.Þetta vefsvæði byggir á Eplica