01. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Læknablaðið 1975-1984

Um berklaveiki á Íslandi

Grein sú sem valin er til að einkenna áratuginn 1975-1984 er grein Sigurðar Sigurðssonar, berklayfirlæknis og landlæknis, um berklaveikina á Íslandi. Margar aðrar greinar er lýstu rannsóknum frá þessum tíma voru þessa fyllilega verðugar og má nefna greinaflokka um gláku á Íslandi og fæðingar á Íslandi, auk ýmissa annarra, sem bættu við þekkingu okkar á þessum tíma. Grein Sigurðar um berklaveikina er hins vegar sú eina sem ef til vill má flokka undir magnum opus. Hún rekur sögu hvíta dauðans á Íslandi, lýsir einbeitni og þrautseigju þeirra sem börðust gegn honum, gengu nokkra þrautagöngu en höfðu að lokum sigur.

Berklar hafa fylgt manninum frá örófi alda og hafa fundist í beinagrindum frá tímum faraóa í Egyptalandi og indjána í Ameríku löngu fyrir daga Kólumbusar. Berklaveikin varð þó ekki verulegur heilsufarsvandi í Evrópu fyrr en iðnbyltingin hófst og fólk fluttist úr sveitum í bæi. Á 17. og 18. öld ollu berklar um fjórðungi allra dauðsfalla í Evrópu. Hér á landi hafa fundist berklar í beinagrindum frá landnámsöld en ekki bar meira á þeim fram á síðari hluta 19. aldar að Schierbeck landlæknir taldi berkla ekki til á Íslandi þar til hann fann berklasýkil í hráka í janúar 1890. Á þessum tíma var sýkingin þó farin að skjóta djúpum rótum á landinu og fór það saman við flutning Íslendinga úr sveitum og í kauptún og kaupstaði við sjávarsíðuna þar sem húsakostur var yfirleitt þröngur og kjörin kröpp. Sigurður rekur ýmsa þætti þessarar stórmerkilegu sögu. Hann kemst að því að tíðni sjúkdómsins í kauptúnum var alla jafna meiri en í kaupstöðum, vitnar til rannsókna er leiddu í ljós gríðarlega útbreiðslu sjúkdómsins, og ber þar e.t.v. hæst rannsóknir Árna Árnasonar, héraðslæknis í Dalahéraði 1922 og Berufjarðarhéraði 1930. Hann sýndi fram á gríðarlegan mun á tíðni berkla og nefndi m.a. að tæplega 30% barna í Saurbæjarhreppi í Dölum voru smituð vorið 1922. Berkladauðinn jókst hröðum skrefum og náði hámarki á árunum á milli 1920-1930 er 20% dauðsfalla á Íslandi voru af völdum berkla. Sigurður lýsir einnig ungbarna­dauðanum af völdum berkla en á árunum 1926-1930 dóu 400 börn á ári á hverja 100 þús. íbúa landsins.

Þrátt fyrir þessar athyglisverðu og í reynd ótrúlegu faraldsfræðilegu upplýsingar sem eru okkur svo framandi nú, lýtur meginþungi vinnu Sigurðar að baráttu gegn berklunum, sem hann leiddi þau ár sem hún var viðamest. Hann lýsir ferðum með röntgentæki um landið, þau voru ferjuð á bátum yfir Jökulsá á Breiðamerkur­sandi, borin á hestum yfir Skeiðarárjökul til að krækja fyrir upptök Skeiðarár, flutt með strand­ferðaskipum og á bílum þar sem fært var. Ótrúlegur árangur náðist við berklaleit, t.d. voru um 40% þjóðarinnar skoðuð árið 1945 og nokkrum árum síðar voru nærfellt 100% Akureyringa og Vestmannaeyinga skoðuð. Slíkt þætti mikilfengleg þekjun forvarnaaðgerða nú á dögum. Athyglisverð er ákvörðun Sigurðar um að hætta berklabólusetningum árið 1949 nema til valinna hópa. Á þeim tíma hafði berkla­tilfellum fækkað mjög og ályktaði hann að berklarannsóknir á Íslandi og aðrir þættir berklavarna hefðu borið þennan árangur. Sig­urður taldi réttilega að mikilvægi húðprófa til greininga vægi mun þyngra en bólusetning, en þau eru gagnslítil hjá bólusettum eins og kunnugt er. Þótt Sigurður láti lítið yfir þessari ákvörðun er ljóst að hún hefur ekki verið auð­veld og lýsti miklu faglegu hugrekki, ekki síst í ljósi tíðaranda í nálægum löndum á þess­um tíma. Athyglisverð er einnig lýsing hans á söfnun Oddfellow-manna í Reykjavík með Guðmund Björnsson, landlækni, í broddi fylkingar til byggingar Vífilsstaðaspítala ár­ið 1906. Það ár stofnuðu þeir félag um söfn­un­ina og einungis fjórum árum síðar var Vífils­staðaheilsuhæli risið, en þar voru í fyrstu rúm fyrir 80 sjúklinga. Mætti vinnulag og hraði við sjúkrahúsbyggingar nútímans draga dám af þessu.

Í greininni kemur mjög skýrt fram hve tíðni berkla og dánartala féll hratt hér á landi, ekki liðu nema rúmlega 30 ár frá því að berklatíðni var einna hæst þar til tíðnin var komin niður undir það sem hún er nú, en grein Sigurðar lýkur um 1970. Hann telur ljóslega að megin­ástæður þessa mikla árangurs megi rekja til klassískra faraldsfræðilegra aðgerða, leit að hinum sýktu, einangrun, eftirliti og meðferð eftir að berklalyfin komu til. Ljóst er að hann gerir sér mjög vel grein fyrir orsökum eða þætti ytri ástæðna, svo sem húsnæðis og tekna, búsetu og annarra samfélagslegra þátta í útbreiðslu berklanna. Hann gerir hins vegar ekki mikið úr hlut þeirra miklu þjóðfélagsbreytinga sem urðu á Íslandi eftir seinni heimsstyrjöld. Nú vitum við hvernig þær skiptu sköpum fyrir fjölmarga þætti heilsufars Íslendinga, þ.á.m. berklana.

Sigurður lýkur greininni á varnaðarorðum í þá veru að enn skuli hafa það hugfast að berklaveikinni hefur ekki verið að fullu útrýmt meðan einstaklingar eru til í landinu sem smitast hafa af berklaveiki. Hann bendir einnig réttilega á mikla tíðni sjúkdómsins í ýmsum löndum Evrópu og spáir réttilega mikilvægi aukinna samgangna í útbreiðslu smitsjúkdóma. Hann á kollgátuna þar, innfluttum berklatilfellum hefur fjölgað hér á landi undanfarin ár og áratugi og bera þar hátt ónæmir og fjölónæmir berklar. Sjúkdómurinn er vaxandi í ýmsum löndum Evrópu, t.d. hefur berklatilfellum meðal rúmenskra barna fjölgað um 50% á undanförnum árum.

Grein Sigurðar hefur því enn mikið gildi árið 2005. Hún lýsir merkilegri sögu, ósérhlífni, hugrekki og stefnufestu, sem við, sem störfum í heilbrigðisþjónustunni nú, getum lært mikið af. Hún lýsir einnig gildi klassískra faraldsfræði­legra aðferða til að stemma stigu við smitsjúkdómum og geta aðrar þjóðir dregið nokkurn lærdóm af þeirri reynslu sem Sigurður lýsir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica