0708. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargrein
Þökkum frumkvöðlum í heimilislækningum. Margrét Ólafía Tómasdóttir
doi 10.17992/lbl.2025.0708.847
Á undanförnum árum hefur fjöldi lækna sem stunda sérnám hér á landi stóraukist. Oft má heyra skoðanaskipti milli lækna um þessa breytingu. Þá hefur verið rætt að mikilvæg ný þekking muni síður berast til okkar þegar fólk sæki hana ekki út fyrir landsteinana, en nú hafa möguleikar til þekkingaröflunar snarbreyst að sama skapi og síður þörf á flutningi milli landa til að afla sér hennar. Það er hinsvegar til ótvíræðra umbóta í íslensku heilbrigðiskerfi að hér á landi starfi fleiri ungir læknar á mismunandi stigum sérnáms. Með því breytist menning innan læknastéttarinnar, bæði utan vinnustaða þar sem Félag almennra lækna er orðið eitt stærsta aðildarfélag Læknafélags Íslands en sérstaklega innan vinnustaða þar sem breyting verður á flæði verkefna og eldri sérfræðingar fá stærra hlutverk við handleiðslu og kennslu. Þar skapast tækifæri til að breyta venjum og verkaskiptingu lækna inni á starfsstöðum þeirra, svipað og sjá má erlendis.
Sérnám í heimilislækningum er elsta sérnám á Íslandi og það stærsta. Í ár á námið 30 ára afmæli en fyrsta marklýsing námsins var gefin út 1995. Á 30 ára ferli hefur gríðarvinna verið lögð í þróun námsins, gæði og stöðlun. Árið 2008 var gefin út endurbætt marklýsing sem hefur nú verið endurskoðuð í þrígang. Marklýsingin frá 2008 ber vott um það frumkvöðlastarf sem stétt heimilislækna hefur lagt í sérnámið en marklýsingin var fjögur ár í smíðum og var gerð að fullu í sjálfboðavinnu. Sjö heimilislæknar unnu að gerð marklýsingarinnar en 32 heimilislæknar til viðbótar komu að smíðum einstakra kafla hennar. Í fararbroddi við þá vinnu var Alma Eir Svavarsdóttir, kennslustjóri sérnámsins frá 1998-2015.
Frá upphafi hefur mikið verið lagt í gæði kennslu og handleiðslu og þar má aftur þakka sjálfboðastarfi lækna því að á ári hverju kemur hátt á fjórða tug sérfræðinga að vikulegri kennslu sérnámslækna auk þess sem virkir handleiðarar eru yfir 70. Það má því með sanni segja að stór hluti starfandi sérfræðinga í heimilislækningum komi með einhverjum hætti að sérnáminu enda hefur Félag íslenskra heimilislækna litið á námið sem fjöregg stéttarinnar og unnið statt og stöðugt að uppbyggingu þess undanfarna áratugi.
Uppbygging sérnáms verður þó ekki til í tómarúmi einnar stéttar. Frá upphafi hefur heilbrigðisráðuneytið stutt við námið að hluta og gott samstarf hefur verið við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri varðandi þann hluta sérnáms sem fram fer á spítala. Þá hafa reglugerðarbreytingar stuðlað að bættri umgjörð um sérnám, skýrt faglega ferla og aukið gæði náms hér á landi til muna.
Á þessum 30 árum hefur sér-námið vaxið úr tveimur sérnámslæknum í rúmlega hundrað sem stunda námið í dag. Þá hafa á annað hundrað heimilislæknar útskrifast í náminu, stór hluti þeirra heimilislækna sem nú eru starfandi. Samfara stækkun sérnáms hefur staða kennslustjóra verið aukin lítillega en ekki til jafns við umfang og því þarf enn mikla aðkomu stéttarinnar í sjálfboðavinnu. Það eru ýmsar áskoranir sem fylgja því að halda úti stóru sérnámi. Stærsta áskorunin er að viðhalda gæðum og vinsældum sérnámsins í umhverfi þar sem keppst er um starfskraft lækna.
Af 30 ára reynslu sérnáms í heimilislækningum á Íslandi má sjá að í henni hefur falist mikil uppbygging í faglegu umhverfi heimilislækna auk þess sem samstaða stéttarinnar hefur aukist. Þá er mikilvægt að skapa stöðugleika um námið, tryggja fjármagn bæði til umgjarðar námsins og fyrir sérnámslæknana sjálfa og styðja við sjálfstæði námsins og þann sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að mæta sérnámslæknum á starfsstöðvum víða um landið.