0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Háls- nef og eyrnalækningar. Sérgreinin sem ég hafði engan áhuga á. Hannes Petersen

 Það var 30. nóvember 1987 og hálft ár frá útskrift úr læknadeild Háskóla Íslands. Ég sat í aðalbyggingu Háskólans, á rannsóknarstofu í líffærafræði og var að teikna mynd af örsæju útliti nýrnagaukuls. Á rás 2 var verið að spila Týndu kynslóðina með Bjartmari í að minnsta kosti fjórða sinn þann daginn, þegar síminn hringdi. Á línunni var Stefán Kristjánsson bekkjarbróðir minn úr læknadeild, nú röntgenlæknir en þá ráðningarstjórinn, virðingarstaða á við kaupfélagsstjóra í sveitarfélagi úti á landi. Hann kom sér fljótt að efninu og sagði að ég væri sá eini sem gæti hjálpað honum. Við hann hefði haft samband nafni hans, Stefán Skaftason yfirlæknir á háls-, nef- og eyrnadeild Borgarspítalans og sagt að ef unglæknar mönnuðu ekki einu kandidatsstöðuna á deildinni, yrði henni breytt í stöðu sérfræðings og þá liðið þar til í að lækniskandídatar gætu spreytt sig í háls-, nef- og eyrnalækningum. Þegar ég sagðist skyldu skoða málið var ráðningarstjórinn fljótur að bæta við að þetta erindi yrði að leysast fljótt því viðkomandi yrði að byrja morguninn eftir, það er 1. desember. Ég svaraði því til að á þessu væru tveir annmarkar, í fyrsta lagi að ég væri í vinnu og í annan stað að þá hefði ég alls engan áhuga á háls-, nef- og eyrnalækningum og þótt leysa mætti hið fyrra væru litlar líkur á að ég gæti hjálpað. Ráðningarstjórinn gaf sig ekki og eftir að hafa samið inn eftirsóttar framtíðar kandídatsstöður á lyflækningadeild Landakotsspítala og svæfinga- og gjörgæsludeild Borgarspítala, var ekkert annað eftir en að stilla vekjaraklukkuna á 06:45 daginn eftir. Þetta reyndist síðan verða hin skemmtilegasta og áhugaverðasta vist sem hægt og rólega opnaði augu mín fyrir fjölbreytileika sérgreinarinnar, öll kyn, allur aldur og gríðarlega vítt svið greininga, en sagt hefur verið að engin sérgrein innan læknisfræðinnar höndli með eins mörg greiningarnúmer og -háls-, nef- og eyrnasjúkdómafræðin. Ég hélt út til Svíþjóðar í sérnám 1990, byrjaði í Helsingborg í rúmt ár, áður en ég hélt til Lundar. Á fyrsta degi þar kallaði próf. CM Eneroth mig á sinn fund og sagði að ef ég hefði hug á að vera lengur en sex mánuði í starfi, yrði ég að hefja formlegt rannsóknartengt doktorsnám, en á deildinni væru fjórir mismunandi hópar sem fengjust við rannsóknir á mismunandi sviðum sérgreinarinnar, svo sem miðeyrnabólgum, ofnæmi í efri öndunarvegi, krabbameini í hálsi og svima og jafnvægisvandamálum. Eftir að hafa ráðfært mig við vin, varðandi það hvaða hópur væri virkastur hóf ég rannsóknir á svima og jafnvægi hjá próf-essor Måns Magnusson. Árin í Svíþjóð voru einstök, allan sérnámstímann var ráðningin einungis sex mánuðir í senn það er, ég var svokallaður „grå--blockare“ með nánast ekkert starfs-öryggi, en rannsóknarvirknin hjálpaði til. Sex birtar greinar á næstu þremur árum urðu hryggjarstykkið í doktorsritgerð minni sem fjallaði um innra eyrað og hlutverk þess í stöðustjórnun mannsins, sem ég varði í október 1995. Síðan eru 30 ár og þegar litið er yfir farinn veg hafa grunngildi sérgreinarinnar lítið breyst. Birtingarmyndir háls-, nef- og eyrnasjúkdóma sem Stefán Ólafsson kynnti fyrir okkur í kapellunni í Landakotsspítala, eru enn í gildi þótt meðferðarúrræðunum hafi fjölgað og tekið á sig nútímalegri blæ þar sem „high tech“ flóknum skurðaðgerðum, yfir í minni inngrip sem oft má framkvæma „í stólnum“ við greiningu, er beitt í bland við snúnar langtíma lyfjameðferðir. Það er of langt mál að nefna til sögunnar allt það einstaka samverkafólk sem mótað hefur mig sem háls-, nef- og eyrnalækni, en vel hefur tekist því ég er enn þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa við mína sérgrein og hlakka til hvers vinnudags hér norður á Akureyri, vinnudags þar sem ég reyni að leysa úr vanda minna sjúklinga, með frábært samstarfsfólk mér við hlið. Inn á milli og eftirá sinni ég mínum rannsóknum, sem núna snúast aðallega um sjóveiki og verður uppskeruhátíð í sumar á sjóveikiþingi sjá: www.motionsickness.is

Líf mitt hefur verið frekar tilviljanakennt og hef ég leyft því að líða án þess að skipuleggja of mikið, þannig var það hending ein, eins og komið hefur fram, að ég varð háls-, nef- og eyrnalæknir, þótt ómeðvituð örlög hafi þar blandast inn í. Tíu árum áður en ég fékk símtalið frá Stefáni, var ég skiptinemi í Sviss og skiptist þá á bréfum við góða vini heima á Íslandi. Einn þeirra var Hallgrímur Helgason og voru bréfasendingar örar okkar á milli og þá oft brugðið á leik með að titla hvor annan með einhverjum þeim starfstitlum sem okkur þóttu fyndnastir og fráleitastir. Í byrjun desember 1977, þá nákvæmlega tíu árum fyrir símtalið örlagaríka, fékk ég þetta bréf, sjá mynd:

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica