0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Háls-, nef- og eyrnalækningar „Þetta er kannski eitthvað“. Arnar Tulinius

Þegar ég fékk fyrirspurnina hvort ég gæti tekið að mér að skrifa um sérgreinina mína tyllti ég mér við tölvuna og las í gegnum fyrri pistla. Glæsilegir kollegar með skemmtilegar og áhugaverðar frásagnir. Mér varð þá hugsað til þess hvern-ig ég endaði í þessari sérgrein. Ég er nefnilega ekkert alveg viss. Það bara varð. Það er kannski ansi oft þannig.

Ég hálf álpaðist inní læknisfræði. Þegar menntaskóla lauk hafði annað hvort foreldrið einhvern tímann sagt „ég hugsa þú yrðir ágætur læknir.“

„Já það er kannski eitthvað“ hugsaði ég.

Á þriðja ári valdi ég rannsóknarverk-efni innan háls-, nef- og eyrnalækninga (HNE) með Hannesi Petersen, prófessor. Það snéri að jafnvægiskerfi og heyrn fyrirbura seinna í lífinu. Nú skil ég vel að það hljómar kannski ekki mjög spennandi en það var það! Hannesi tókst að minnsta kosti að selja mér það mjög vel.

„Þetta er kannski eitthvað“ hugsaði ég þá. 

Nokkrum árum síðar fékk ég sem læknanemi sumarstöðu sem aðstoðarlæknir á HNE-deild Landspítalans. Þar fékk maður að hitta nýfædda sem og -níræða með vandamál af öllum stærðum og gerðum. Vandamál sem gjarnan voru fljótleyst og þakklætið mikið. Stuðningurinn og kennslan voru frábær og andinn á deildinni til fyrirmyndar, sem á líklega stóran þátt í að ég laðaðist að sérgreininni. Ég átti margar góðar fyrir-myndir á deildinni heima sem skilaði sér þegar að sérnámi var komið.

„Jú, þetta er sennilega eitthvað“ hugsaði ég.

Að kandidatsárinu loknu var ég samt óviss. Ég heillaðist líka af svæfingum- og gjörgæslu eins og margir, sem og bráðadeildinni, fann mig ágætlega í hasarnum en dróst alltaf tilbaka til HNE. Fjölbreytileikinn er mikil og sjúklingahópurinn breiður. Flókin og krefjandi anatómía. Ungir sem aldraðir. Allt frá hversdagsvandamálum í stórar krabbameinsaðgerðir. Nefstíflur eða flóknir loftvegir. Hið opinbera eða það einkarekna. Möguleikarnir voru margir. Sérgreinin fann mig frekar en ég sérgreinina. Það er kannski bara oft þannig. Ég víxlaði á milli svæfinga og HNE nokkrum sinnum en fann sífellt að áhuginn lá meira með hnífnum, hinum megin við græna tjaldið.

Við enduðum að lokum í Svíþjóð eins og margir aðrir. Fjölskylduvænt. Umhverfið svipað og heima. Ég fékk stöðu á stærstu HNE-deild Svíþjóðar, Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Við fjölskyldan erum ekki mikið stórborgarfólk og það er ákveðin smábæjartilfinning í Gautaborg þótt upptökusvæðið sé stórt. Hér er mikið um Íslendinga og um tíma kölluðum við hverfið okkar Litla-Ísland þar sem við vorum margar fjölskyldurnar. Við vorum meðal annars fjögur bekkjarsystkinin í sömu götu, sem var algjörlega ómetanlegt og ég er afar þakklátur fyrir þau árin sem krakkarnir gátu bara gengið á milli húsa og stutt var í kaffibolla (rauðvínsglas) með vinum.

Veganestið að heiman var gott í stífu og hröðu sérnámi. Það er nógu erfitt að byrja í nýju landi á nýju tungumáli í afleitum tölvukerfum. Ég man enn eftir svipnum frá hjúkrunarfræðingnum sem var með mér á fyrstu sænsku móttöku minni. Hrein skelfing. Vísindastarfið á Sahlgrenska er sterkt og gjarnan -ætlast til þess að það sé stundað samferða klínískri vinnu en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hef ég náð að komast undan því, mér líður best í sjúklingavinnu. Ég er einfaldur vinnuhestur.

Áhuginn lá snemma í höfuð og háls-krabbameini og voru þar að baki góðar fyrirmyndir að heiman: nafni minn, Arnar Þór Guðjónsson, Hannes Hjartar-son og Geir Tryggvason sem kenndu mér mikið að öðrum ólöstuðum. Þann áhuga tjáði ég snemma í sérnáminu og það varð til þess að beint eftir sérnám varð ég hluti af krabbameinsteyminu hér á Sahlgrenska þar sem ég hef unnið síðustu fjögur árin. Og hér er ég enn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica