0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Bakþankar og bróderingar. Karl Erlingur Oddason

Helstu skrif mín síðustu tvo áratugina hafa verið læknabréf, nótur, beiðnir, vottorð, skrifleg samskipti við skjólstæðinga, innkaupalistar, stutt skilaboð til vina og vandamanna, tölvupóstar til samstarfsaðila eða fyrirtækja við skipulagningu ráðstefna og námskeiða, sem og í samskiptum við kennara eða þjálfara barnanna. Þegar ég var beðinn um að skrifa grein í Læknablaðið fyrir lipra penna hugsaði ég fyrst: úff nei, ég bara hef ekki tíma. Svo gerjaðist þetta aðeins í mér og gamall draumur um skrif til skemmtunar og sköpunar vaknaði.

Mér var bent á að gaman væri að heyra um það starf sem ég hef sinnt innan Nordisk Urologisk Förening (NUF) síðastliðinn áratug. Þessi samtök eru einskonar regnhlíf yfir öll norrænu þvag-færaskurðlæknafélögin. Ég byrjaði mitt starf innan NUF 2015 þegar ég settist í tvo samstarfshópa sem skipuleggja dagskrá NUF-ráðstefnunar og regluleg endurmenntunarnámskeið. Árið 2023 tók ég einnig sæti í stjórn NUF. Haldið er NUF-ráðstefnuþing annað hvert ár með öflugum fræðsluerindum fyrir þvagfæraskurðlækna og hjúkrunarfræðinga. Síðasta ráðstefna var núna í byrjun júní í Gautaborg. Ráðstefnurnar eru þannig haldnar á 10 ára fresti í hverju norrænu landi fyrir sig. Næsta ráðstefna á Íslandi er 2029. Samhliða fyrirlestrum eru oft stíf fundahöld nefnda og stjórna til að fara yfir hvað væri hægt að gera betur og hver séu næstu skref. Samhliða fræðslu og fundum fylgir líka skemmtilegur tími með kollegum frá Íslandi og öllum hinum Norðurlöndunum. Ég náði til dæmis gamla yfirmanni mínum frá Helsingborg á trúnó í góðan klukkutíma þar sem við fórum yfir það liðna og hvernig allt væri á deildinni eftir að ég hætti þar. Er mín ekki örugglega saknað?

Þetta er oftast nær mjög gefandi starf, góð leið til að viðhalda endurmenntun og norrænu tengslaneti. Stundum verður þetta mikil vinna, fjarfundir, ferðlög erlendis og samskipti við hina ýmsu aðila. Það kemur fyrir að kollegar svari seint eða ekki póstum og mæti ekki á fundi þegar spýta þarf í lófana til að koma hlutunum í framkvæmd. Fellur vinnan oft á fáar hendur og getur þannig valdið vissri kergju hjá manni sjálfum. Þetta kannast líklega flestir kollegar við þegar „pro bono“ starfi er sinnt. Þrátt fyrir þetta læt ég deigan ekki síga og tók að mér starf ritara (General Secretary) NUF á síðustu ráðstefnu okkar sem var haldin í Gautaborg í byrjun júní. Þessa starfs hlakka ég til að sinna, umvafinn skemmtilegum, duglegum og áhugasömum kollegum með skýra sýn á hvernig hlutirnir eiga að vera og virka.

Ég hef engu að síður verið með bakþanka sem banka reglulega upp á. Eftir að ég kom til Íslands fyrir einu og hálfu ári má staðfesta að álag og keyrsla hefur aukist samanborið við mín 10 ár í Svíþjóð. Það er talsvert meira álag hér þegar kemur að skipulagningu hversdagsleikans með börn, heimili, áhugamál, endurbætur á húsnæði, hreyfingu, vini og fjölskyldu á kantinum. Það fer talsvert meiri orka í vinnuna hér á Íslandi þar sem skipulagningu getur verið ábótavant og oft finnst mér ég vera minn eigin ritari, ræðismaður og ráðgjafi. Það er rosaleg keyrsla í íslensku samfélagi og stundum sakna ég rólyndisins, skipulagningarinnar og kurteisa Svíans sem vill helst ekki trufla of mikið.

Hvar þessi „work-life balance“ er, hef ég ekki enn alveg komist að en er á sæmilegri leið með að finna hann. Nú er komið eitt og hálft ár síðan ég flutti heim og kominn tími fyrir mig sjálfan að spýta í lófana og framkvæma hluti sem hafa setið á hakanum. Eitt af því sem ég hef byrjað að gera er að taka upp bróderingu þar sem ég kaupi gömul verk á nytjamörkuðum og fylli í. Það hefur gefið mér gott jafnvægi fyrir sálartetrið. Ég hef enn ekki komist í veiði og fyrst núna er ég að kveikja aftur á útivistinni sem Ísland hefur upp á að bjóða. Starf mitt innan NUF held ég að gefi mér áfram lóð réttum megin á þessa mikilvægu lífsvigt.

Ef þú, kæri kollegi, ert með lausa stöng í veiði í sumar sem þig bráðvantar að fylla, sendu mér erindi gegnum heilsugáttina og ég svara um hæl.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica