05. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Barnahjartalækningar. Smellur þetta allt saman? Harpa Viðarsdóttir
Ég hef alltaf verið forvitin og viljað vita hvernig hlutirnir virka og hvernig við virkum. Það dró mig inn í læknisfræðina, en valið stóð á milli læknisfræði og leiklistar. Og þegar ég var byrjuð í læknisfræðinni varð ekki aftur snúið.
Í byrjun læknanámsins var ég ekki á leið í barnalækningar. Mér fannst ég þurfa meiri hasar og alvöru en einhyrninga og regnboga. Ég reyndi þó alltaf að hafa hugann opinn fyrir hverri staðsetningu. Sjá hvort hún hentaði mér. Útilokunaraðferðin var notuð fram að barnakúrsinum á seinni hluta fimmta árs en þar fann ég mig! Ég uppgötvaði að einhyrningar og regnbogar áttu bara ágætlega við mig, vinnufélagarnir voru skemmtilegir og ekki vantaði hasarinn á barna! Þegar ég kláraði kandidatsárið lá leiðin því á Barnaspítala Hringsins en þá var ég einnig farin að plana að hefja doktorsnám. Rúmum tveimur árum síðar lá leiðin í sérnám í barnalækningum á Karolinska og var eiginmanni, tveimur börnum og búslóð pakkað fyrir flutninga til Stokkhólms.
Ein af þeim sérgreinum sem ég hafði kynnst hvað mest á Íslandi voru nýburalækningar. Ég fann að það átti vel við mig. Það var þó alltaf eitthvað við hjartað sem mér þótti spennandi en taldi það óskynsamlegt val, af ýmsum ástæðum. Mér voru minnisstæðir þeir tveir mánuðir af kandidatsárinu mínu sem ég lenti á „bláa teyminu“ á hjartadeildinni sem sinnti þá að mestu takttruflunum. Ég hugsa að ef ég hefði orðið fullorðinslæknir hefði ég líklega endað í hjartalækningum. Árin liðu og áfram gekk sérnámið samhliða doktorsnáminu, ásamt því að það bættist við einn í barnahópinn minn, en alltaf blundaði þó í mér þessi áhugi. Það var svo Gunnlaugur Sigfússon, barnahjartalæknir (sem þá var að vinna að hluta við Karolinska) sem sannfærði mig um að velja bara það sem mér sjálfri þótti áhugaverðast, það væri alltaf rétt val. Ég náði að troða inn valstaðsetningu á barnahjartasviðinu (einn af fáum kostum þess að vera „skemaleggjari“) en þegar þarna var komið var ég í blálokin á sérnámi mínu í barnalækningum og var komin með sérnámsstöðu í nýburalækningum. En þessi valstaðsetning lofaði svo góðu að eftir átta mánuði í nýburalækningum skipti ég yfir í barnahjartalækningar. Ég hafði reyndar notað mest af þeim tíma til að skrifa doktorsritgerðina mína sem ég varði svo í miðju covidinu.
Það sem heillar mig mest við barnahjartalækningar er púsluspilið. Passar klíníkin við rannsóknarniðurstöðurnar (hjartaómunina sem þú ert að gera, ekg, CT, MR)? Passar lífeðlisfræðin? Smellur þetta allt saman? Það í bland við fjölbreyttan sjúklingahóp, hvað vinnudagurinn getur verið fjölbreyttur (allt frá endurlífgun, greiningavinnu á veiku, nýfæddu barni upp í hefðbundna stofuvinnu), svo ekki sé minnst á frábæra starfsfélaga, gerir þetta þunga starf vel þess virði. Nú, einu og hálfu ári eftir að hafa klárað undirsérgreinina, er ég mjög sátt með val mitt. Ég hef kynnst mörgum frábærum fyrirmyndum í starfinu en þar vil ég helst nefna Gylfa Óskarsson og Gunnlaug Sigfússon, þeir hafa reynst mér vel á margan hátt og þar sem ég kynntist þeim í byrjun starfsferilsins hef ég því lært lengst af þeim. Og ég er enn að læra! Það er margt ókannað innan barnahjartalækninga sem hentar rannsóknaráhuga mínum vel. Framfarir í greiningu og meðhöndlun sjúkdóma gera starfið bara meira spennandi.
Ég get því mælt með barnahjarta-lækningum af heilum hug og af öllu hjarta!