05. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Barnahjartalækningar. Börnin eru besta fólk með hjartað á réttum stað. Gunnlaugur Sigfússon

Það lá svo sem ekkert fyrir að fara í læknisfræði þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla enda var andinn í vinahópnum í MH sá að maður ætti ekki að fara í praktískt nám þar sem húmanisminn var allsráðandi og allt um kring. Í þeim anda lá leið mín í sagnfræði við HÍ sem mér þótti mjög skemmtilegt nám og ekki síður voru stundirnar á kaffistofunni í Árnagarði góðar og gefandi ungum og leitandi manni. Það var síðan sumarvinna á Vífilsstöðum, umgengni við áhugaverða foreldra vina minna og tengdaföður minn Einar Lövdahl barnalækni, sem aðstoðuðu unga manninn við að finna fjölina og síðar starfið sem hefur verið mér svo gefandi gegnum lífið.

Á þeim árum sem ég var í læknadeild hafði ég eignast tvö börn og hafði það örugglega áhrif á áhuga minn á barnalæknisfræði sem varð til mjög fljótlega og óx eftir því sem leið á námið. Andinn á barnadeildinni var góður og hentaði einhvern veginn mínum persónuleika, sjúklingarnir skemmtilegir og læknarnir þar samheldinn og góður hópur. Á síðasta ári í læknadeildinni og sem kandidat á Akureyri sveigði ég aðeins af braut, því mér þóttu hjartalækningar afskaplega spennandi. Þar var skemmtileg klíník, mikil lífeðlisfræði sem alltaf hafði heillað mig og svo myndgreining sem mér þótti mjög spennandi.

Eftir kandidatsár á Akureyri, réð ég mig á Barnaspítala Hringsins og þar small áhugi minn á barnalækningum og hjartalækningum saman í sérgreinina mína – barnahjartalækningar. Þá var einungis einn starfandi hjartalæknir á Barnaspítalanum, Hróðmar Helgason. Áður hafði menntað sig í þeirri sérgrein og starfað á Íslandi Ólafur Stephensen sem lést langt um aldur fram. Það var fyrir hvatningu og tilstilli Hróðmars og Harðar Bergsteinssonar nýburalæknis að ég fór í framhaldsnám í barnalækningum og barnahjartalækningum til Ameríku. Þar var ég í sjö ár, fyrst í Hartford í Connecticut og síðar í Pittsburgh í Pennsylvaníu og líkaði mér og minni fjölskyldu það mjög vel, fyrst í töluverðri Íslendingabyggð í Connecticut og síðar í Pittsburgh þar sem góður kollegi og vinur, Lúther Sigurðsson, og hans fjölskylda bjuggu á sama tíma. Lífið og námið í Bandaríkjunum var gefandi og gott á þessum árum, sem ég er þakklátur fyrir og ekki hafði það verri áhrif á fjölskylduna en svo að sonur minn, Sigfús Kristinn, fór sjálfur í framhaldsnám þangað, í barnalækningar en síðar lungnalækningar barna og svefnlækningar.

Ég hef starfað á Barnaspítala Hringsins frá heimkomu 1997 og samhliða sjálfstætt starfandi barnahjartalæknir á stofu. Á árunum 2011-2020 vann ég í hlutavinnu á hjartadeildinni á Astrid Lindgren barnaspítalanum við Karolinska í Stokkhólmi og var það einstaklega gefandi tími og góð reynsla.

Sjúklingahópur lækna sem stunda barnahjartalækningar er mjög fjölbreyttur, frá fóstrum með hjartavandamál í fullorðið fólk með hjartagalla en aðallega börn á ýmsum aldri með hjartatengd vandamál, hjartagalla, hjartavöðvasjúkdóma og hjartsláttartruflanir. Börn eru skemmtileg, þau eru einlæg, heiðarleg og lifandi og þegar þau eru veik eru þau veik, en mjög fljót að ná sér og afskaplega frísk og fjörug þegar vel gengur.

Starfið er mjög fjölbreytt þar sem barnahjartalæknar eru oft þar sem veik-ustu börnin eru á gjörgæslum og bráðamóttöku en einnig er mikil vinna við eftirlit og að fá að fylgja börnunum uppá fullorðinsár er gefandi. Starfið er þannig afskaplega skemmtilegt og fjölbreytt, getur sannarlega verið krefjandi og erfitt á köflum en líka gefandi og það eru í raun forréttindi að fá að vinna þessa vinnu. Ég mundi sannarlega velja þessa sérgreina aftur og mæla með við unga lækna.

Mín skilaboð til þeirra sem standa frammi fyrir vali á sérgrein innan læknisfræðinnar eru að þetta er mjög mikilvæg og stór ákvörðun þar sem hún hefur umtalsverð áhrif á líf manns og fjölskyldu í framtíðinni en á sama tíma má ekki gleyma þeirri staðreynd að maður verður bestur í því sem hjartað brennur fyrir. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica