05. tbl. 111. árg. 2025

Ritstjórnargrein

Líknarmeðferð, þekking og viðhorf meðal almennings á Íslandi. Jón Eyjólfur Jónsson

Jón Eyjólfsson öldrunarlæknir

Í þessu hefti Læknablaðsins er áhugaverð könnun á þekkingu almennings á líknarmeðferð og þrátt fyrir að hún hafi ekki náð þeim fjölda svarenda sem vonast var til, gefur hún mikilvægar vísbendingar1

Orð eru dýr. Í Einræðum Starkaðar segir Einar Benediktsson: „Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Orð og merking þeirra í hugum okkar eru því sá öxull sem kannanir af þessum toga snúast um.

Á Íslandi og víða í veröldinni umhverfis okkur er vaxandi þungi í umræðunni um það að einstaklingur eigi að geta ákveðið eigið dánardægur, að uppfylltum vissum skilyrðum og oftast er krafist aðkomu, eða að minnsta kosti ábyrgðar læknis. Hér er því margþætt siðferðis,- og siðfræðilegt viðfangsefni. Það er því fengur í könnun á þekkingu almennings á þeim hugtökum sem falla undir þessi mál.

Af könnuninni að dæma vantar talsvert upp á þekkingu og sameignlegan skilning okkar á líknarmeðferð. Fyrri hugsun í samfélaginu litaðist af orðum eins og líknardráp, sem var í hugum margra neikvætt og gildishlaðið og því var orðinu dánaraðstoð ýtt úr vör. Orð sem felur í sér jákvæða afstöðu, aðstoð er jú vingjarnlegt og meinlaust orð. Hvernig við skiljum síðan merkingu og inntak dánaraðstoðar er enn talsvert á huldu.

Umræðan hefur oft einkennst af umfjöllun um einstaklinga sem þurfa að velja á milli óbærilegrar þjáningar eða dauða og sjaldan kemur fram þekking á þeirri mikilvægu sérgrein líknarlækningum, sem getur í flestum tilfellum linað þjáningar banalegunnar. Margir spurningalistar sem hafa reynt að kanna afstöðu almennings til líknar--dráps/dánaraðstoðar, setja fram slíka tvíhyggju: hvort vilt þú heldur búa við óbærilega þjáningu eða fá aðstoð við að deyja án erfiðleika (oft bætt við með reisn). Sjaldan er boðið upp á þá valmöguleika sem líknarlækningar bjóða upp á.

Þessi munur á þekkingu og skilningi á þeim hugtökum sem notuð eru við umönnun deyjandi einstaklinga veldur síðan oft misskilningi. Í nýlegri skýrslu ráðuneytis má til dæmis skilja að dánaraðstoð sé hluti líknarlækninga, sem er dæmi um alvarlegan hugtakarugling.2 Það er líka umhugsunarvert að orðnotkun og orðskilningur mismunandi aldurshópa er ólíkur. Því er enn erfiðara að túlka niðurstöður úr könnunum þar sem sömu spurningar eru lagðar fyrir mismunandi aldurshópa.

Það er hins vegar ljóst að tíðarandinn lítur jákvæðar á dánaraðstoð nú og nýlega var mikil umræða um þessi mál á breska þinginu, sem í nóvember á síðasta ári fleytti þingmáli The Terminally Ill Adults (End of Life) Bill áfram upp úr annarri umræðu.

Það er þó ekki ólíklegt að það komi bakslag í umræðuna þegar sést að sú hætta á útvíkkun (slippery slope) hefur raungerst. En í Hollandi hefur orðið marktæk aukning, 10% milli ára, á dánaraðstoð 2024.3 Kanada hefur reglulega endurskoðað þær ástæður sem þurfa að vera fyrir hendi til að fá dánaraðstoð Medical Assistance in Dying (MAID)“ og þar hefur þeim sem óska eftir MAID sífellt fjölgað þó að hægt hafi á fjölguninni miðað við árin 2019-2022. Það er mjög áhugavert að fylgjast með reglulegum skýrslum þaðan, en 5. skýrslan 2023 sýndi að 4,7% allra dauðsfalla var með aðstoð MAID. Þar af 622 einstaklingar þar sem náttúrulegur dauðdagi var ekki fyrirsjáanlegur og er það sérstaklega umhugsunarvert.

Við þurfum því meiri og opnari umræðu um líknarmeðferð og dánaraðstoð og byggja þá umræðu á þekkingu og nákvæmri skilgreiningu á þeim orðum sem við notum og hvað stendur á bak við þau.

„Fótsár af ævinnar eyðimörk

einn unaðsblett fann ég – til þess að deyja.“

Einar Benediktsson, Einræður Starkaðar

Heimildir

1. Hálfdánardóttir SÍ, Sigurðardóttir V. Þekking á líknarmeðferð og viðhorf til lífsloka meðal almennings á Íslandi.

2. Skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð. Lögð fyrir Alþingi, 150. Löggjafarþing 2019-2020. Þingskjal 2028-486.mál, 2002 www.althingi.is/altext/pdf/150/s/2038.pdf - apríl 2025.

3. Regionale Toetsingscommissies Euthanasie www.euthanasiecommissie.nl/uitspraken-en-uitleg/p-2024 - apríl 2025.

4. Canada. Fifth annual report on medical assistance in dying in Canada, 2023. Dec 2024. www.canada.ca/en/health-canada/services/publications/health-system-services/annual-report-medical-assistance-dying-2023.html - apríl 2025.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica