05. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargrein
Kjarasamningur lækna frá sjónarhóli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Nanna S. Kristinsdóttir
Kjarasamningur Læknafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra var undirritaður 28. nóvember 2024 eftir atkvæðagreiðslu félagsmanna þar sem samningurinn var samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. Samsetning launaforsendna breyttist nokkuð frá og með 1. apríl síðastliðnum, starfsaldursþrepum fækkaði úr sex í fimm, fullum starfsaldri eru náð 12 árum eftir lækninga-leyfi, viðbótarmenntun veitir að hámarki þrjú þrep og starfsbundnir þættir allt að þremur launaflokkum.
Þau verkefni sem stjórnendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa unnið á síðustu þremur mánuðum eru að bjóða læknum í hlutastarfi að hækka við sig starfshlutfall, meta vinnuskipulag lækna, launamyndunarþætti og launaforsendur eftir 1. apríl síðastliðinn.
Það reyndist tímafrekt verkefni að varpa launum lækna yfir í nýja launatöflu. Ungir sérfræðingar fá hlutfallslega mesta launahækkun og þar ræður mestu um hraðari ávinnslu starfsaldurs. Vörpun eldri lækna reyndist meiri áskorun og augljóst að starfsbundnir þættir stofnunarinnar þyrftu að hæfa flestum læknum. Var þar litið til þátta sem ráða miklu um aðgengi að heilsugæslustöðvum og samfellu í þjónustu við skjólstæðinga í anda heimilislækninga.
Margar heilbrigðisstéttir hafa þegar samið um styttingu vinnuvikunnar og í þessum samningum náðist sama markmið hjá læknum. Læknar heilsugæslustöðva hafa löngum kallað eftir betra jafnvægi vinnu og einkalífs. Í könnun Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) á líðan lækna árið 2023, kom í ljós að fjórðungur heimilislækna hafði íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi og þriðjungur íhugaði að minnka við sig starfshlutfall vegna álags.1 Það er mikil áskorun að útfæra betri vinnutími lækna í 36 klukkustunda vinnuviku fyrir fullt starf og samhliða að tryggja að starfsemin og þjónustan haldist sú sama. Um þriðjungur heimilislækna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vann fullt starf fyrir nýja kjarasamninginn, ef yfirlæknar hjá stofnuninni eru ekki teknir með. Þeim sem ekki voru í fullu starfi var boðið að auka starfshlutfall sitt þannig að þeir ynnu áfram jafn margar stundir og áður en fengju hærri laun fyrir sama fjölda vinnustunda. Aðeins um helmingur hópsins valdi að fara þá leið. Mönnunargat heilsugæslunnar, sem var stórt fyrir, mun því aukast og verður að mæta með umbótum. Heimilislæknar hafa lengi talið að skriffinnska taki of mikinn tíma frá móttöku sjúklinga. Til að mæta því að læknar vinni færri vinnustundir verður að draga úr öllum verkefnum sem ekki þurfa að vera á borði lækna, hvort sem er með verkaskiptingu eða með breyttu verklagi. Á síðastliðnum árum hefur FÍH vakið athygli á fjölmörgum leiðum að sama markmiði og hefur sú vinna þegar borið árangur. Áfram er unnið að fjölmörgum verkefnum í heilbrigðisráðuneytinu, Sjúkratryggingum Íslands og Tryggingastofnun varðandi vottorðamál, endurskoðun örorku- og endurhæfingargreiðslna og fleira.
Mikilvægt er að vinna að verkaskiptingu á heilsugæslustöðvum og nýta tíma hverrar starfsstéttar sem best. Starfsstéttum á heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fer fjölgandi og ekki er óvanalegt að auk lækna, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga séu félagsráðgjafar, klínískir lyfjafræðingar, sjúkraþjálfarar og sjúkraliðar við störf.
Þarna liggja mögulega verðmætustu þættirnir í kjarasamningi lækna hvað varðar heilsugæsluna, að endurmóta verklag og verkefni svo sem mestur tími lækna fari í að sinna sjúklingum og þeim verkefnum sem aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta ekki sinnt.
Þegar fram líða stundir verður vonandi raunin að kjarasamningurinn leiði til þess sem lagt var upp með í byrjun; að bæta starfsumhverfi, auka jafnvægi vinnu og einkalífs, stuðla að betri heilsu lækna, stuðla að betra skipulagi og síðast en ekki síst að heilbrigðisstofnanir á Íslandi verði eftirsóttir vinnustaðir fyrir lækna.
Heimild:
1. Rannsókn Félags íslenskra heimilislækna á starfsumhverfi og álagi í starfi, 2022.