05. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Heimaspítali: Nýjung í þjónustu við einstaklinga í krabbameinsmeðferðum á Landspítala
Ný þjónusta er nú í þróun á Landspítala sem miðar að því að hægt verði að gefa ákveðnar krabbameinsmeðferðir úr sjúkrahúsaðstæðum og inn á heimili sjúklinga. Nú hefur verið stigið skref í átt til þess að gera einstaklingum kleift að fá krabbameinslyfjameðferð heima þar sem það á við. Þetta mun auka lífsgæði þeirra sem glíma við alvarlega sjúkdóma, en auk þess vonandi fækka innlögnum og efla þjónustu utan spítala. Læknablaðið ræddi við yfirlækna tveggja sérsviða sem hafa unnið að þessari nýjung – Agnesi Smáradóttur, yfirlækni lyflækninga krabbameina, og Signýju Völu Sveinsdóttur, yfirlækni blóðlækninga
Á árunum 2018-2022 greindust að meðaltali um 1.850 einstaklingar með krabbamein á Íslandi. Nýleg spá greinir að fjöldi nýrra krabbameinstilfella aukist um 53-57% til ársins 2040. Við blasir þörf fyrir nýja nálgun í þjónustu við hópinn þar sem sjúkrahúsin ná ekki að anna eftirspurninni.
Hugmyndin um heimaspítala, þar sem sjúklingar fá sérhæfða meðferð á heimilum sínum, hefur verið í þróun í mörgum löndum undanfarin ár. Þetta er nýtt skref í langri þróun krabbameinsmeðferða, en áður fyrr þurftu einstaklingar að leggjast inn á legudeild til að fá slíkar meðferðir. Síðan hefur þetta þróast að langflestar krabbameinsmeðferðir eru gefnar á dag- eða göngudeild.
Á Norðurlöndunum hefur þessi þjónusta vaxið hratt og reynslan af henni hefur verið góð. „Þetta er eitthvað sem er að þróast í löndunum í kringum okkur, sérstaklega þegar við horfum til hinna Norðurlandanna,“ útskýrir Signý. „Við í blóðlækningunum erum í miklu samstarfi við háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð, þar sem fyrir þó nokkru var byrjað að veita ákveðnar meðferðir í heimahúsum. Þar er um að ræða krabbameinslyfjameðferðir, bæði í dælum og undir húð, sýklalyfjagjafir og fleira. Við fengum þessa hugmynd að hluta til þaðan, en þetta er í raun það sem er að gerast víðar í heiminum.“
Marglaga ávinningur
Sífellt fleiri sjúkrahús í Evrópu eru að prófa sig áfram með slíka þjónustu og rannsóknir hafa sýnt fram á kostnaðarlækkun auk fækkun á ófyrirséðum sjúkrahúsinnlögnum, styttri legutíma á sjúkrahúsi og færri heimsóknir á bráðamóttöku samanborið við hefðbundna sjúkrahússþjónustu.
Á Landspítala hefur verið unnið að því að aðlaga þessa hugmynd að íslenskum aðstæðum. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við bæði krabbameinslækningar og blóðlækningar, með það að markmiði að veita sjúklingum betri þjónustu. „Markmiðið er að auka þægindi fyrir sjúklinginn og gera honum kleift að taka meiri þátt í eigin bataferli,“ segir Signý. „Við vitum að mörgum líður betur heima en á spítala, og að vera í kunnuglegu umhverfi getur haft jákvæð áhrif á andlega líðan og bata.“
Hvað felst í þjónustunni og hver munu geta nýtt sér hana?
Markmið þjónustunnar fyrir spítalann er að fækka innlögnum, stytta legutíma og fækka komum á bráðamóttöku. Ekki er sjálfgefið að allir krabba-meinssjúklingar geti nýtt sér heimaspítalaþjónustuna. „Það eru ákveðin skilyrði sem þurfa að vera til staðar,“ útskýrir Agnes. „Sjúk--
l-ingurinn þarf að eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu og búa við aðstæður sem gera meðferðina mögulega. Einnig þarf hann að hafa að minnsta kosti einn aðstandanda sem getur veitt stuðning.“
Signý tekur undir þetta og bendir á mikilvægi öryggis sjúklinga. „Við verðum að tryggja að ef eitthvað gerist sé hægt að bregðast skjótt við. Þess vegna er mikilvægt að sjúklingurinn hafi aðgang að sjúkrahúsplássi ef þörf krefur. Ef einstaklingurinn veikist skyndilega eða ef meðferðin gengur ekki eins og til var ætlast, þá þarf hann að komast strax aftur inn á sjúkrahúsið.“
Þjálfað og sérhæft starfsfólk
Að veita krabbameinsmeðferð í heimahúsi krefst sérfræðikunnáttu og mikillar reynslu. „Þetta eru sérhæfðir krabbameinshjúkrunarfræðingar sem sinna þessari þjónustu,“ segir Agnes. „Þau hafa mikla reynslu, margra ára þjálfun og sérþekkingu á gjöf krabbameinslyfja. Þetta er ekki eitthvað sem hver sem er getur gert.“ Signý bendir einnig á að í Danmörku hafi þessi þjónusta verið til staðar í nokkuð langan tíma og langflestar krabbameinslyfjagjafir gegn t.d. eitilfrumukrabbameinum og hvítblæði gefnar í heimahúsi. Hjúkrunarfræðingar koma heim til sjúklinganna og sjá til þess að allt gangi vel. “
Bætir þjónustu við sjúklinga og léttir á spítalanum
Þjónustan er ekki aðeins mikilvæg fyrir sjúklingana sjálfa, heldur mun hún minnkað þörf á sjúkrahúsplássi fyrir einstaklinga sem eru að fá krabbameinsmeðferð. „Við erum stöðugt að glíma við skort á plássi á spítalanum,“ segir Signý. „Ef sjúklingar geta fengið meðferð heima, frekar en að liggja inni í marga daga, þá hjálpar það til við að halda flæðinu gangandi og tryggja að þeir sem mest þurfa á innlögn að halda komist inn á deildirnar.“
Aðspurðar um framtíð heimaspítalaþjónustunnar eru bæði Agnes og Signý sammála um að hún eigi eftir að stækka á næstu árum. „Við byrjum smátt, en þetta er hluti af þróun sem við sjáum fyrir okkur að muni halda áfram,“ segir Agnes. „Við höfum séð þessa þróun í öðrum löndum og þetta er bara næsta skref fyrir okkur hér á landi.“ Signý bætir við. Ef við getum þróað þessa þjónustu áfram, gæti það haft mikil áhrif á líðan og lífsgæði sjúklinga.“
Að lokum: Er þetta örugg þjónusta?
Öryggi sjúklinga verður alltaf í forgangi í heimaspítalaþjónustunni. „Við ákváðum ekki að fara í þessa vegferð nema hafa sannanir fyrir að þetta væri öruggt,“ segir Agnes. „Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar hafa betri líðan og eru meira á fótum þegar þeir fá að vera í sínu eigin umhverfi, frekar en að vera fastir á stofu með ókunnugu fólki.“ Signý bætir við: „Þetta er ekki eitthvað sem kemur í staðinn fyrir aðra þjónustu eins og Heru eða almenna heimahjúkrun, heldur er þetta sérhæfð viðbót við sjúkrahúsþjónustuna sem veitir sjúklingum betri lífsgæði og bætir nýtingu á heilbrigðiskerfinu okkar.“