04. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Æðaskurðlækningar. Lét hjartað ráða för. Karl Logason

Valið á framtíðarstarfsvettvangi gerðist hjá undirrituðum eins og líklega flestum, í mörgum skrefum. Sem unglingur vann ég mikið á Landakotsspítala þar sem faðir minn var framkvæmdastjóri og eftir stúdentspróf af náttúrufræðibraut lá nokkuð beint við að reyna sig við læknisfræði. Að loknu kandidatsári var mér orðið ljóst að einhver af greinum skurðlæknisfræðinnar ætti best við mig af þeirri einföldu ástæðu að mér fannst vinna á skurðstofum langskemmtilegasti hluti starfsins. Má segja að sérnámið hafi hafist sem deildarlæknir á skurðdeild Borgarspítalans árið 1990. Á þeim tíma var mikið rætt um yfirvofandi atvinnuleysi lækna. Ef menn vildu eiga afturkvæmt til Íslands að loknu sérnámi, yrði að velja sérgrein þar sem skortur væri yfirvofandi. Slíkt virtist ekki gilda um skurðlækningar. Ég ákvað þó að láta hjartað ráða för og hélt til sérnáms í almennum skurðlækningum til Gävle í Svíþjóð og fékk sérfæðiréttindi 1995. Í Gävle var starfandi pólskur æðaskurðlæknir, Vlado Brodechi, sem var klárlega besti skurðlæknir sem ég hef unnið með. Að hans undirlagi og líklega af því að mig langaði að ná sömu færni og hann, hóf ég störf á æðaskurðdeild Akademíska sjúkrahússins í Uppsölum. Upphaflega var hugmyndin að vera þar í sex mánuði en mér líkaði svo vel að það urðu sex ár sem enduðu með sérfræðiréttindum í æðaskurðlækningum 2000 og doktorsprófi 2001 með ritgerðinni „The role of duplex scanning in the management of carotid artery disease.“ Sama ár fluttum við fjölskyldan aftur til Íslands þar sem ég hef, þar til fyrir tæpu ári, starfað sem sérfræðingur á æðaskurðdeild Landspítalans og sinnt kennslu við HÍ. Meðfram því, hef ég starfað sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur á lækningastofu.

Þegar ég hóf störf í Uppsölum 1995 var mikil umræða um að hefðbundnar opnar æðaskurðlækningar ættu ekki mikla framtíð, að fljótlega myndu allflestar æðaaðgerðir vera innæðaaðgerðir framkvæmdar með æðaþræðingu og vissulega hefur innæðaaðgerðum fjölgað á minni starfsævi en opnum aðgerðum hefur þó, sem betur fer fyrir mig, lítið sem ekkert fækkað. Eins og útlitið er nú, virðast opnar æðaaðgerðir verða nauðsynlegar um ófyrirséða framtíð.

Hvað það var sem heillaði við æðaskurðlækningar? Um er að ræða fjölbreyttar aðgerðir, allt frá tengingum smáæða upp í grófari aðgerðir eins og við rof á ósæðagúlum. Oft er verið að reyna að laga undirliggjandi vandamál en ekki bara verið að fjarlægja sjúkan vef, er gagnrýni sem stundum heyrist um skurðlækningar.

Helsti ókostur sérgreinarinnar að mínu viti er hversu vaktaþung hún er. Æðaskurðlæknar eru á flestum stöðum fáliðaðir og verulegur hluti aðgerða þola litla sem enga bið og verða að framkvæmast á vaktatíma.

Einn er sá kostur greinarinnar sem ég verð að nefna. Hún býður sig vel til vinnu á lækningastofu. Nú, þegar styttast fer í enda ferilsins, er gott að geta dregið úr vinnu á eigin forsendum án þess að vera algerlega háður einum vinnuveitenda.

Nú eru um 30 ár síðan ég valdi æðaskurðlækningar, vegna þess að mér fannst greinin áhugaverð og skemmtileg að vinna við. Þetta, þrátt fyrir óvissu um atvinnuhorfur og endurkomu til Íslands. Enn hefur ekki verið ástæða til að iðrast valsins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica