04. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Ísland gæti orðið leiðandi í notkun gervigreindar í heilbrigðisþjónustu
Nýlega hóf apótekið Lyfja, augnbotnamyndatökur í samstarfi við RetinaRisk, sem Einar Stefánsson augnlæknir og einn af höfundum
RetinaRisk-reiknilíkansins, ásamt Thor Aspelund, Örnu Guðmundsdóttur og fleirum, segir vera viðbót við heilbrigðisþjónustu, en koma ekki í stað hennar
Notkun gervigreindar í heilbrigðisþjónustu gæti leitt til 40-70% hagræðingar og bætt gæði þjónustunnar, segir Einar. Reiknilíkanið, sem hefur verið í þróun í 15 ár, nýtir gervigreind til að greina áhættu sykursjúkra á sjónskerðingu og blindu. Aðferðin byggir á greiningu á bæði myndgögnum og klínískum upplýsingum og gerir kleift að sérsníða eftirlit og meðferðir að þörfum hvers sjúklings.
„Það hefur sýnt sig í rannsóknum á tugþúsundum sjúklinga í mismunandi löndum að við getum veitt markvissari heilbrigðisþjónustu með gervigreind. Við eyðum of miklum tíma og fjármunum í að skoða fólk sem er tiltölulega heilbrigt, á meðan þeir sem eru í mestri hættu fá ekki næga athygli. Þetta er grundvallarvandamál heilbrigðiskerfa víða um heim, en með gervigreind getum við snúið því við.“
Einstaklingsmiðuð nálgun í stað hefðbundins eftirlits
Hingað til hefur eftirlit með sykursýki byggst á reglubundnum skoðunum á öllum sjúklingum, óháð áhættu þeirra á fylgikvillum. Einar útskýrir að með gervigreind sé hægt að greina hverjir eru í mestri hættu og veita þeim þéttara eftirlit, á meðan þeir sem eru í lítilli áhættu gætu þurft sjaldnar skoðanir. „Ef einstaklingur er með aðeins 0,1% áhættu á sjónskerðingu, þá er óþarfi að kalla hann árlega í skoðun. Hins vegar þarf sjúklingur með 20% áhættu að koma oftar en einu sinni á ári. Með því að forgangsraða með þessum hætti getum við nýtt heilbrigðisauðlindir mun skynsamlegar,“ segir hann.
RetinaRisk hefur þegar verið innleitt í heilbrigðiskerfið að hluta, meðal annars á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og í takmörkuðu mæli á Landspítalanum. Að auki hefur þessi þjónusta nýlega verið boðin í apótekum. „Það er sambærilegt við mælingar á blóðþrýstingi og blóðsykri í apótekum – tæki sem hjálpar okkur að greina vandamál snemma og beina sjúklingum í rétta farvegi.“
Nýsköpun nauðsynleg til að bjarga heilbrigðiskerfinu
Að mati Einars er íslenska heilbrigðiskerfið í miklum vanda og mun á næstu árum standa frammi fyrir enn stærri áskorunum, meðal annars vegna öldrunar þjóðarinnar. „Á næstu 20-25 árum mun fjöldi einstaklinga yfir 80 ára tvöfaldast. Það er engin leið að mæta þessari þróun með núverandi kerfi án þess að auka fjármagn, mannafla og aðstöðu gríðarlega – nema með nýsköpun. Gervigreindarlausnir eins og RetinaRisk eru eina raunhæfa leiðin til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu og bæta þjónustu án þess að kostnaður aukist í sama hlutfalli.“
Þrátt fyrir að RetinaRisk hafi verið í þróun í 15 ár hefur innleiðing þess í íslenska heilbrigðiskerfið gengið hægt og erfitt að sannfæra rétta aðila um nauðsyn þess. Einar telur þó að Ísland eigi enn möguleika á að vera í fararbroddi þegar kemur að nýtingu gervigreindar í heilbrigðisþjónustu. „Við þurfum heimamarkað til að þróa lausnir áfram og útvíkka notkunina á fleiri svið, eins og hjarta- og æðasjúkdóma. Ef íslenskar heilbrigðisstofnanir og yfirvöld taka höndum saman getum við verið leiðandi á þessu sviði – en ef við gerum ekkert, mun tækifærið tapast,“ segir hann að lokum.