04. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Háskóla Íslands – Steindór Oddur Ellertsson

Steindór Oddur Ellertsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands 27. febrúar síðastliðinn . Ritgerðin ber heitið: Notkun gervigreindar til greiningar og forspár fyrir horfur sjúklinga í heilsugæslu (The Use of Artificial Intelligence for Diagnosis and Outcome Prediction in Primary Care).

Andmælendur voru Dr. Ronny Gunnarsson, prófessor við Gautaborgarháskóla, og Dr. Hercules Dalianis, prófessor við Karolinska Institutet.

Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að rannsaka hvort nota mætti textagögn úr samantektar nótum lækna til að þjálfa gervigreindarlíkön til að spá fyrir um greiningar og horfur sjúklinga í heilsugæslu. Verkefnið fólst einnig í að greina innri virkni líkananna og meta frammistöðu þeirra í klínískum aðstæðum. Helstu niðurstöður voru að líkön þjálfuð á gögnum úr samantektarnótum lækna virðast sýna svipaða eða ívið betri frammistöðu en læknar við greiningar. Við mat á horfum sjúklinga með öndunarfæraeinkenni, út frá einkennasögu þeirra eingöngu, náðu líkönin að greina vel á milli einstaklinga með alvarleg veikindi og væg einkenni sem ekki þurfa inngrip.

Steindór lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá HÍ árið 2012. Samhliða klínísku starfi var hann í rannsóknum sem leiddu til doktorsnáms í læknavísindum við HÍ 2022. Samhliða doktorsnámi hefur Steindór starfað sem sérnámslæknir í heimilislækningum í Noregi og á Íslandi.

 

Hvað segir nýdoktorinn

 

Afhverju vildir þú verða læknir?

Góð spurning. Ég var með allt aðrar hugmyndir um hvað ég ætlaði að verða þegar ég var yngri en fór svo að vinna á Landspítalanum sumarvinnu á hverju ári frá 10. bekk. Mamma var að vinna þar sem lyfjafræðingur og kom því til leiðar að ég fékk sumarvinnu þar og sinnti ég ýmsum hlutverkum. Ég var að þrífa, var sendill og vaktmaður hvert sumar í menntaskóla. Mér fannst mjög gott og gaman að vinna á Landspítalanum. Þá fór að kvikna meira með mér þessi hugmynd um að starfa í heilbrigðisgeiranum og verða læknir en ég var líka að hugsa um aðra hluti eftir menntaskóla eins og tölvunarfræði og verkfræði. En ég sé ekki eftir valinu í dag.

 

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Ég á erfitt með að setja tölu á það en það tók mikinn tíma, skipulagningu og gott net af fólki. Álagið verður meira eftir því sem að nær líður vörn og þá fara kvöld og helgar að fara í doktorsnámið í auknu magni og þá er nauðsynlegt að hafa gott og þolinmótt fólk í kringum sig, sérstaklega ef maður er með fjölskyldu. Það er líka mikilvægt að hafa mikinn áhuga á efninu sem verið er að rannsaka og fjalla um, þar sem að maður þarf að eyða gríðarlegum tíma í fræði og umfjöllun um efnið. Þetta var samt mjög gaman og mér finnast rannsóknir passa mjög vel saman við klíníska vinnu en það er mikilvægt að hafa tíma til að sinna verkefninu svo maður missi ekki vitið.

 

Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Eins og allir lesendur Læknablaðsins vita er mikill skortur á starfsfólki í öllum heilbrigðisstéttum og mun aukast á komandi árum. Ég myndi fjölga náms plássum heilbrigðisstarfsfólks eins og peningar og aðstæður leyfa. Það þarf að byggja upp grunn heilbrigðisþjónustuna í landinu svo allir landsmenn geti fengið heimilislækni. Nýleg skýrsla um mönnun í heilsugæslunni sýndi að við þurfum að þrefalda fjölda heimilislækna til að vera á pari við Norðmenn og því talsvert verk fyrir höndum. Sérnám í heimilislækningum á Íslandi er afskaplega flott og vel skipulagt en fleiri þurfa að komast að árlega svo fjölgun heimilislækna næsta áratuginn verði nægjanleg. Ég starfaði sem sérnámslæknir í Noregi þaðan sem ég er að klára sérnám í heimilislækningum á næsta ári og hugnast norska kerfið mjög vel. Þar eru einkareknar heilsugæslur og sérfræðistofur með öflugu eftirlitskerfi ásamt vel aðgengilegri göngudeildarþjónustu á spítölunum. Til að slíkt kerfi virki vel þarf grunnþjónustan að vera vel mönnuð.

 

 

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Gæðastund með fjölskyldunni er númer eitt en annars er ég mikið fyrir útiveru og ferðalög. Ég er mikið á gönguskíðum á veturna og hleyp á sumrin. Ég reyni einnig að lesa mikið þess á milli.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica