03. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Hjartalækningar. Framhaldsnám í lyf-og hjartalækningum í Bandaríkjunum. Gestur Þorgeirsson
Ég hef oft hitt kollega, sem frá barnæsku vildu verða læknar og voru jafnvel með sérgreinina á hreinu. Í mínu tilviki rataði ég eftir ýmsum vörðum á veginum áður en ákvörðun var tekin. Ég var í stærðfræðideild í MR en mér hugnaðist ekki að fara í verkfræði eða eðlisfræði en efnafræði fannst mér skemmtileg og ég vissi að hún vóg þungt fyrstu árin í læknisfræðinni. Þá höfðaði mannlegi þátturinn í læknisstarfinu mjög til mín. Ég skráði mig í læknadeildina sumarið 1968 og útskrifaðist árið 1975. Sem aðstoðarlæknir á mörgum deildum spítalanna fannst mér áhugavert og gaman að vinna, allt frá geðdeild til skurðdeilda. Ég réði mig í eitt ár sem deildarlækni á hjartadeild Landspítalans. Þar tengdist maður sjúklingum mjög náið en auk þess voru þar framkvæmdar ýmsar aðgerðir og rannsóknir, sem áhugavert var að taka þátt í. Á þessum árum æddi kransæðasjúkdómurinn yfir lönd eins og faraldur. Ég ákvað að fara í hjartalækningar.
Ég tók mitt sérnám á háskólaspítalanum, Case Western Reserve University, (CWRU) og tengdum spítala í Cleveland, Ohio. Ég var búinn að starfa hér heima í þrjú ár, þegar loksins fékkst leyfi til að fara þangað. Síðasta hindrunin af mörgum var próf, svonefnt „visa quali-fying examination“ sem var haldið í London. Ég ræddi við ýmsa lækna um framhaldsnám en margir hjartalæknar höfðu stundað framhaldsnám Bandaríkjunum og mæltu með námi þar. Skipulag framhaldsnámsins þar var mjög gott. Fyrst voru þrjú ár í almennum lyflækningum og því lauk með prófi (American Board of Internal Medicine) síðan voru tvö ár í hjartalækningum og þá var tekið sérfræðingspróf (American Board of Cardiovascular Disease). Fyrstu árin var mikil vaktabyrði, einkum fyrsta árið, sem var með þrískiptum vöktum. Launin voru tiltölulega lág en fóru hækkandi með hverju ári. Þegar leið á námstímann gafst oft tækifæri til að taka aukavinnu, sem bætti hag umtalsvert. Fyrir tilstuðlan prófessors Robert Botti, yfirlæknis hjartadeildarinnar, stundaði ég síðasta árið grunnrannsóknir á viðtækjum hjartans við háskólann (CWRU) og fékk auk launa frá spítalanum styrk frá amerísku hjartasamtökunum (American Heart Association). Hann sá til þess að ég hefði strax titilinn „assistant professor“ og reiknað var með mér sem sérfræðingi í fullt starf að þessu ári liðnu. En þá bárust þau tíðindi að Borgarspítalinn vildi bæta við sig hjartalækni. Botti var velgjörðarmaður minn og sporin voru þung þegar ég tjáði honum að fjölskyldan vildi fara heim og að ég yrði að segja upp samningnum við hann. Römm er sú taug.
Á nokkrum árum upp úr síðustu aldamótum bætti ég við mig gráðu (DSc) í klínískri faraldsfræði við Erasmus háskólann í Rotterdam. Það var gaman að geta gert það og gagnlegt. Um það leyti varð ég einnig yfirlæknir hjartadeildar Landspítalans.
Bandaríkin með sína frábæru háskóla og spítala eru mjög spennandi kostur fyrir íslenska lækna, sem eru að íhuga framhaldsnám. Þangað hafa læknar sótt dýrmæta þekkingu og færni. Í framhaldsnáminu reynir oft mikið á makann og því er styrkur að því að fleiri íslenskar fölskyldur séu búsettar í grenndinni. Í Cleveland voru þess mörg dæmi að makar lækna gátu sótt nám í háskóla og lokið því með háskólagráðu. Vert er að hafa í huga að menning og loftslag er mjög breytilegt eftir fylkjum. Sumir kunna betur við sig í Minnesota en Florida og öfugt. Svo má geta þess að Cleveland er á sömu breiddargráðu og Madrid!
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég og mín fjöskylda bjuggum í Bandaríkjunum. Í endurminningunni voru þetta mjög góð ár. Ég vil ráðleggja þeim, sem eru að íhuga framhaldsnám þar, að leita til lækna, sem eru nýlega komnir þaðan eða þekkja vel til.