03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Snemmmiðaldra kona með stofnana blæti. Stella Rún Guðmundsdóttir

Í leit að innblæstri fyrir þessa grein, skoðaði ég fyrri birtingar í dálknum Liprir pennar. Margar hugljúfar greinar sem gaman var að lesa, sumar skrifaðar af söknuði þar sem fjarlægðarljómi lýsti upp minningar af Íslandi. Ég skrifa hins vegar frá íslenskum febrúarmánuði og það sem er mér efst í huga er minnkandi traust ríkisstofnana. Í Bandaríkjunum settist nýlega á valdastól maður með ólík gildi þeim sem hafa viðgengist á Vesturlöndum. Forsetinn talar gegn vísindum, ráðleggingum sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Til að mynda dró forsetinn Bandaríkin út úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, í miðjum kórónuveirufaraldri. Nýjasta útspilið er val hans á heilbrigðisráðherra, Robert F. Kennedy Jr. sem er maður samsæriskenninga í heilbrigðismálum. Kennedy hefur afneitað að HIV valdi AIDS og hann er á móti bólusetningum, svo eitthvað sé nefnt. Traust á stofnunum er forsenda farsæls samfélags. Í bókinni Sapiens lýsir Yuval Harari því hvernig mannkynið þróaðist frá því að vinna saman í litlum hópum yfir í samstarf milljóna manna. Einn einstaklingur getur einungis treyst um 100 manns svo hvernig geta milljónir unnið saman þegar forsenda samvinnu er traust? Samkvæmt Harari náðum við þessu með því að treysta á stofnanir og ímynduð kerfi. Svo ég vitni í orð hans, þá eru stofnanir kannski ekki kynþokkafullar en þær eru vagga samfélagsins. Traust á heilbrigðisstofnunum hefur minnkað og ástæður þess eru margar. Ein ástæða er aukin skautun í samfélaginu og upplýsingaóreiða.1 Í ringulreið kórónuveirunnar minnkaði traust fólks á heilbrigðisstofnunum og ríkisvaldi í flestum löndum í Evrópu2, þó undantekning sé sænsk rannsókn sem bendir til að traust hafi aukist þar.3 Traustið færist til óhefðbundinna afla í staðinn. Fólk sækir sér þekkingu á annan hátt en áður, mikið til samfélagsmiðla og annarra óritrýndra miðla. Hefðbundar stofnanir eiga hættu á að verða andlitslausar risaeðlur sem dreifa bæklingum á meðan áhrifavaldar ýmissa strauma með ofurtrú á eigin vísindalæsi horfa í myndavélina og segja „treystu mér, ég hef engra hagsmuni að gæta – þetta er það sem rannsóknir sýna“. Allir geta fundið sinn bergmálshelli og dvalið þar í góðu yfirlæti. Sannleikurinn er auðvitað sá að innan þessara lýðheilsustofnana, vinna sérfræðingar af heilindum að sínum málaflokki og vilja bæta heilsu þjóðar með því að beita bestu þekkingu hverju sinni. Þegar forseti Bandaríkjanna dregur landið sem hann er í forsvari fyrir úr alþjóðlegum samtökum sem hafa það að markmiði að auka lífsgæði jarðarbúa á grunni vísinda, hljótum við sem byggjum vinnu okkar á vísindum að staldra við.3 Hvaða merkingu hefur þetta hérlendis? Eru teikn á lofti um að skoðanir áhrifamikilla einstaklinga verði lagðar að jöfnu við helstu niðurstöður vísindanna? Traust á heilbrigðisstofnunum er gífurlega mikilvægt. Þar sem traustið er lítið er fólk síður líklegt til að bólusetja sig, leita læknisaðstoðar og fylgja þeim ráðleggingum sem það fær frá fagaðilum. Vaxandi vantraust má því líta á sem alvarlega heilbrigðisógn. Hvað geta læknar gert til að auka traust á lýðheilsustofnunum? Hugsanlega þurfum við, sem störfum á grunni gagnreyndra vísinda, að taka enn virkari þátt í opinberri umræðu og gerast áhrifavaldar lýðheilsustofnana og vísindanna. Einnig tel ég mikilvægt að við stígum varlega til jarðar þegar við gagnrýnum lýðheilsustofnanir opinberlega svo sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Embætti landlæknis eða gefum í skyn að þær þjóni hagsmunum peningaafla. Að því sögðu er engin stofnun, rannsóknir eða opinberar leiðbeiningar hafnar yfir gagnrýni og væri gaman að hafa regluleg málþing þar sem sérfræðingar og áhugamenn takast á um umdeild mál innan læknisfræðinnar. Ég legg til að hittast á góðum bar, fyrsta fimmtudag hvers mánaðar, þar sem við fáum okkur bjór og nachos og tökumst á um lýðheilsu.

Heimildir

1. Esaiasson P, Sohlberg J, Ghersetti M, et al. How the coronavirus crisis affects citizen trust in institutions and in unknown others: Evidence from ‘the Swedish experiment'. Eur J Polit Res 2021; 60: 748-760.

2. J Hahn, M Ladikas, Decreasing trust in health institutions in EU during COVID-19: A Spatio-temporal analysis, Eur J Public Health 2023;33(Suppl. 2): ckad160.594.

3. Van Bavel, JJ, Gadarian, SK., Knowles, E, et al. Political polarization and health. Nat Med 2024; 30:85–3093. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica