02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Barnageðlækningar. Vegvísir til framtíðar. Helga Hannesdóttir

Þegar ég var á fyrsta ári í menntaskóla lést faðir minn, sem var læknir, vegna hjartabilunar, eftir stutta sjúkrahúsdvöl.

Andlát hans var mikið áfall fyrir mig og fjölskyldu mína enda var faðir minn á besta aldri þegar hann dó. Skömmu síðar tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði eftir stúdentspróf að fara í læknisfræði og verða læknir.

Ég útskrifaðist frá læknadeild H.Í. árið 1969. Vann í 6 mánuði á kandídatsári á fæðinga- og kvensjúkdómadeild Landspítala.

Maðurinn minn fór um vorið til Bandaríkjanna í sérnám í geðlækningum til Rochester í New York ríki. Þegar leið á haustið ákvað ég að fylgja honum eftir og fara í sérnám á háskólasjúkrahúsinu Strong Memorial Hospital í Rochester, en þar var sérnám í geðlækningum hátt metið, enda var það talið eitt af tíu bestu háskólasjúkrahúsum Bandaríkjanna.

Sérnámið á geðdeild S.M.H. var vel skipulagt. Hvert ár fór fram ríkuleg fræðsla, fyrirlestrar og sjúklingahandleiðsla. Vel var fylgst með fjölda sjúklinga hjá sérnámslæknum, bæði inni-liggjandi og í göngudeild.

Vegna þessa ákvað ég að sækja um sérnámsstöðu í geðlækningum á S.M.H. og var svo lánsöm að fá hana.

Á þessum tíma var mikill skortur á geðlæknum og barna- og unglingageðlæknum á Íslandi á sama tíma og verið var að byggja nýja geðdeild við Landspítala á Hringbraut.

Þegar ég hóf sérnám í geðlækningum var Lyman Wynne forstöðulæknir og prófessor á geðdeildinni. Hann var áður forstöðulæknir á geðsviði við National Institute of Mental Health í Bethesta í Washington.

Okkur sérnámslæknum á fyrsta ári var, við innlögn sjúklinga á geðdeild, skylt að boða í viðtal nánustu ættingja sjúklinga innan 24 klukkustunda frá innlögn.

Tilgangur með þessari ákvörðun var að sérnámslæknar gætu fengið nákvæmar upplýsingar frá foreldrum, systkinum eða maka um fjölskyldutengsl/vandamál og samskipti, áföll, skilnað, andlát, veikindi og fleira sem gæti hafa leitt til veikinda sjúklings og innlagnar á geðdeild.

Þetta fyrirkomulag stuðlaði að því að við sem vorum í sérnáminu fengum öll mikinn áhuga á fjölskyldugeðlækningum og héldum flest áfram að vinna við þær eftir lok sérnáms.

Þegar ég kom heim frá Rochester eftir 5 ára dvöl, bauðst mér vinna á BUGL sem hentaði vel vegna áhuga míns og reynslu af fjölskyldumeðferð og forvörnum á geðdeild S.M.H. í Rochester.

Á BUGL starfaði ég næstu 18 árin og lauk sérnámi í barna og unglingageðlækningum. Ég var svo lánsöm að vera valin til samstarfs við norræna barna- og unglinga geðlækna sem voru að gera faraldsfræðirannsókn á geðheilsu barna og unglinga á Norðurlöndum. Það leiddi til doktorsnáms sem ég lagði stund á í Turku í Finnlandi og lauk árið 2002. Ritgerð mín fjallaði um geðheilsu íslenskra barna og unglinga og yfir 4000 börn og unglingar af öllu landinu tóku þátt í rannsókn þessari.

Eftir á að hyggja var það sérgreinin sem valdi mig. Enn þann dag í dag eru þúsundir barna á biðlista hjá geðheilsumiðstöð Reykjavíkur. Það er óviðunandi ástand að mati umboðsmanns barna og undirritaðrar.

Varðandi ráð til handa ungum læknum um val á sérgrein er mikilvægt að kynna sér í hvaða sérgrein er mestur skortur á sérfræðingum og leita sér upplýsinga hjá landlækni áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Hugsanlega hefur ótímabært andlát föður míns og áhrif og afleiðingar sem það hafði á mig vakið hjá mér áhuga á geðheilsu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica