02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Sérgreinin Mín. Geðlækningar. Heilinn er áhugaverður. Erik Eriksson
Ég fór með tiltölulega autt blað í læknisfræði. Hafði hvorki geðlækningar né aðra sérgrein í huga þegar ég skráði mig í námið. Sá mig fyrir mér í hvítum slopp þrammandi um ganga Landspítalans, lengra náði það ekki. Almennt þegar ég lít til baka í lífinu finnst mér iðulega sem ég hafi ekki beint tekið neinar ákvarðanir, heldur hafi hlutirnir æxlast á einhvern hátt. Þó að það sé án efa enn ein sönnunin fyrir mínu lélega minni.
Hálfgerð tilviljun varð til þess að ég fór fyrst út í geðlækningar. Þrátt fyrir að ég væri neðarlega í ráðningakerfi læknanema eftir 4. árið mitt, og fáar stöður í boði, bauðst mér að taka stöðu aðstoðarlæknis á Kleppi.
Hafandi enga reynslu af geðlækningum tóku á móti mér áhugaverð og krefjandi verkefni. Ég man enn eftir fyrsta viðtalinu mínu, sem var við mann í örlyndi. Ekki síður áhugaverðir voru geðlæknarnir, ólíkir þeim læknum sem ég hafði kynnst í hugsun og fasi. Sömuleiðis var annað tempó í vinnunni og ólík sýn á sömu vandamálin; líffræðileg, sálræn og félagsleg. Þessir kollegar spiluðu mikið inn í val mitt á geðlæknisfræði. Öflugir geðlæknar eins og Halldóra Ólafsdóttir, Engilbert Sigurðsson og Tómas Zoega voru mér miklar fyrirmyndir og eru enn.
Eftir menntaskóla stóð valið á milli sögu og læknisfræði. Eftir á að hyggja er áhuga mínum á sögu fólks einna best svalað í geðlæknisfræði. Forvitni (eða kannski frekar hnýsni) er kostur í geðlæknisfræði, því fátt er manni óviðkomandi þegar tekin er geðsaga. Við höfum fáar ef nokkrar mælingar eða rannsóknir sem aðstoða okkur í greiningu og meðferð. Sögutaka og geðskoðun er því lykillinn ásamt hæfileikanum til að mynda gott meðferðarsamband. Þó að lesturinn sé mikill er þetta afar mikið -„learning---by--doing“, sem hentar mér, og að þróa með sér nef fyrir hlutunum.
Allt frá taugalíffærafræðinni á fyrsta árinu hefur mér fundist heilinn áhugaverður. Verandi okkar flóknasta líffæri og það sem við vitum hlutfallslega minnst um. Ákaflega mörgum spurningum um meinafræði geðsjúkdóma er enn ósvarað. Fyrir vikið verður maður að geta þolað óvissuna. Lítið er um prótókolla eða klínískar leiðbeiningar, afar mikið kemur með reynslunni og töluvert er farið út fyrir ábendingar.
Eftir kandídatsárið fór ég í sérnámið á Landspítala. Eftir 2 ár hér heima flutti ég ásamt eiginkonu minni og tæplega 2ja ára syni okkar til London. Þar fór ég í sérnámsprógramm við Maudsley spítalann í suður hluta London. Námið var mjög krefjandi en sérlega gott (ekki það að ég hafi reynslu af mörgum öðrum). Vel var haldið utan um námslæknana og skipulag gott. Þar fyrir utan var London frábær staður að búa á. Stórborg með mikla fjölmenningu, endalaust af tónleikum, góðum mat og áhugaverðu fólki. Upplifunin að búa þar, var eftir á að hyggja, það sem ég græddi einna mest á.
Við fluttum svo aftur heim sumarið 2013, eftir þrjú ár í London. Við mér tók starf á fíknigeðdeild Landspítala og hlutastarf í tilraunaverkefni á vegum Landspítala og Reykjavíkurborgar. Verkefnið var þróun og uppbygging á fyrsta geðheilsuteyminu. Fyrstu árin heima var einhver njálgur í mér og ég var með ýmsa hatta. Í ein þrjú ár, var ég á stofu að hluta, vann í matsteymi Laugarássins og á göngudeild fíknigeðdeildar. En alltaf var ég þó einn til tvo daga í geðheilsuteyminu. Eftir því sem það stækkaði jókst starfshlutfall mitt þar og hef ég verið þar í fullri vinnu síðastliðin fimm ár.
Mér finnst vinnan mín í dag áfram krefjandi og maður hættir víst aldrei að safna í reynslubankann. Þó er lærdóms-kúrvan ekki alveg eins brött og hún var áður. Sumir dagar eru erfiðari en aðrir, en áfram er þetta gefandi starf.