12. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Laun lækna - bergmál fortíðar. Orri Þór Ormarsson

Þegar höfundur fór að skoða eldri skrif um laun lækna gerði hann sér grein fyrir því að sagan endurtekur sig. Það sem kom á óvart er hversu lítið orðræðan hefur í raun breyst í tímans rás.

Greinaskrif þessi og önnur sem höfundur las en ekki gafst rými til að birta hér, eru áhugaverð vitni um þá sífelldu baráttu sem þarf til að halda viðunandi kjörum einnar stéttar. Ekki gafst  færi á að gera heilsteypta úttekt á þessu áhugaverða efni og ekki er reynt að draga ályktanir eða komast að niðurstöðu.

Vonandi gefur þessi samantekt smá innsýn í umræðu fyrri tíma og samhengi hennar við umræðuna að undanförnu. 

Jón Sigurðsson. Um læknaskipun á Íslandi. Ný félagsrit 1844; 4: 1. janúar.

... og þó hafa læknar þar lángtum minni laun enn annarstaðar, bæði frá stjórninni og sjúklingum . . . og auk þess hafa íslendingar komizt uppá það frá öndverðu, að meta læknishjálpina sem nokkurskonar skylduverk af lækna hendi . . . Af því sem nú er mælt þá er ekki furða þó Íslendingum hafi þótt ískyggilegt að læra læknisfræði, því það liggur öllum í augum uppi, að bágt er að þjóna þeirri stétt, er ekki fylgja svo mikil laun, að menn geti keypt þá hluti sem ómissandi eru . . . en allir sjá samt að þetta eru engin laun handa mönnum, er verða að standa í jafnörðugri stétt sem þeir, og þurfa að kosta svo miklu til bóka, fata og læknisverkfæra . . .

Fjallkonan 1893; 10/ 9 (28. febrúar): 33.

Einu embættismennirnir hér á landi sem fjölga þarf eru læknarnir. . . . Það er lítt skiljanlegt, að sú andlega fæða, sem prestar mata söfnuðina á, sé svo miklu meira verð og nauðsynlegri enn heilsa líkamans, að þörf sé á hér um bil sex prestum þar sem einn læknir þykir nægja. . . .  Ef vel væri, þyrfti að fjölga læknum um helming, og yrðu þeir þó naumast svo margir sem þörf væri á, til þess að jafnan yrði auðvelt að ná í lækni, þegar slys bera að höndum. . . . Aukalæknar hafa líka svo lág laun, að naumast er viðunandi, og væri sanngjarnt, að laun lækna væri gerð jafnari og aukin, ef landsjóðr væri þess megnugr. Það dugar ekki ætíð að horfa í aurana, þegar um laun er að ræða. Af því að hin nýstofnuðu aukalæknaembætti eru svo launalág, getr auðveldlega leitt, að vér fáum ekki í þau þá menn, sem skara fram úr öðrum og geta átt kost á að leita sér atvinnu í öðrum löndum með betri kjörum.

Tryggvi Gunnarsson. Stjórnarfrumvörpin, 2. grein. Lögrétta 1907; 2 /18 (1. maí): 69-70.

Þjóðin heimtar í sífellu fleiri lækna. Þess verður ekki vart, að hún heimti fleiri presta eða sýslumenn - þeim vill hún fremur fækka en fjölga. Það er augljóst, að þjóðin telur læknana þarfasta allra embættismanna. Engu að síðu hafa læknaembættin verið gerð svo óaðgengileg, að læknar hafa ekki fengist í þau öll. Reynslan sýnir, að til þess verður að bæta kjör læknanna frá því sem nú er. Og það er ekki nóg að skapa læknum þau kjör, að einhver maður með læknapróf fáist í hvert embætti. Læknastarfið er svo mikilsvert og svo afarvandasamt, að þar er þörf á nýtustu mönnum . . . Ef þjóðin vill eiga sjer nóg af nýtum læknum, þá verður hún að gera læknastarfið girnilegt í augum ungra efnismanna: Það verður að vera arðvænlegt. 

Dr. Friðrik Einarsson: Vettvangur. Morgunblaðið 25. febrúar 1961: 9.

Fyrir nokkru var glaðzt yfir því í dagblöðum, að 16 nýir læknar hafi útskrifazt úr læknadeild Háskólans. Það er líka gleðilegt fyrir Svía, Dani og Bandaríkjamenn. . . . Eftir því sem árin líða verður erfiðara og erfiðara að snúa heim aftur til lélegra kjara og verri starfsskilyrða, en þeir eru orðnir vanir við. . . .  Nú er það svo, að vel menntuðum og góðum læknum er tekið opnum örmum nærri hvar sem er annars staðar í heiminum. Sú hætta vofir því yfir, að á næstu árum verði það ekki þeir beztu, sem hverfa heim að framhaldsnámi loknu. Er það heillavænleg þróun fyrir landsmenn? Hversu mun þá fara um íslenzka læknisfræði?. . . er naumast um aðra leið að ræða, en freista læknanna með góðum launum, góðum híbýlakosti, farartækjum o.s.frv.

Nú er brotið blað með því að læknar fara í fyrsta sinn í verkfall. Það mun koma í ljós á næstu misserum hversu áhrifamikið það er. Samstaða lækna er mikilsverð.

Magnús Pétursson: Launanefndin og læknarnir. Læknablaðið 1917; 3: 69-77.

Það væri því lítt sæmandi, ef við ekki sýndum það allir, að við fylgjum honum [innsk. höfundar: landlækni] allir í hóp, þegar við allir erum sannfærðir um það, að hann berst fyrir tilverurétti okkar sem lækna og lífsskilyrðum. Látum þjóðina vita þetta. Látum hana vita hvað við liggur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica