12. tbl. 100. árg. 2014

Fræðigrein

Læknablaðið 100 ára. Guðmundur Hannesson

Guðmundur Hannesson er nánast í guðatölu meðal íslenskra lækna en ekki fyrir stórkostleg læknisverk við erfiðar aðstæður. Hann var ættfaðir samtaka lækna, Læknablaðsins og var í framvarðasveit lækna við umbreytingu samfélagsins á fyrri hluta 20. aldar. Styrkur Guðmundar var fyrst og fremst skilningur hans á hlutverki læknisins við að byggja upp heilbrigt samfélag. Fyrstu áratugi 20. aldar var hlutverk læknis þríþætt: örlagavaldur sem hafði áhrif á hvort fólk lifði eða dó, aðstoðarmaður og hjálparhella fólks í mótlæti vegna farsótta, slysa eða hvers konar heilsuleysis og síðast en ekki síst velferðarvörður. Læknirinn átt að sjá til þess að þegnarnir væru heilbrigðir en það var æði misjafnt hvernig læknar skilgreindu hlutverk sitt. Sumir brugðust bara við þegar sjúklingar sóttu til þeirra með veikindi eða skaða en aðrir, þar á meðal Guðmundur Hannesson, töldu hlutverk sitt miklu víðtækara og að þeir væru læknar þjóðarlíkamans. Hann skilgreindi hlutverk læknisins þannig að þeir ættu að sjá til þess „að sem flestir fæðist hraustir og sem best gefnir, að þeir alist upp og lifi andlega og líkamlega hraustir og að þeir sem sýkjast séu læknaðir ef þess er nokkur kostur en hinum hjúkrað.“

Guðmundur var sveitamaður, alinn upp á góðu heimili sem hafði töluvert mikið umleikis og stóð fjárhagslega mjög vel. Margir ættingjar hans, kenndir við bæinn Guðlaugsstaði í Blöndudal og kallaðir Guðlaugsstaðakyn, bjuggu í næsta nágrenni og flest af því fólki komst vel af. Á uppvaxtarárum hans voru mikil umbrot í samfélaginu, nýjar atvinnugreinar litu dagsins ljós, þéttbýli fór vaxandi, möguleikar til menntunar jukust, meðal annars fyrir konur, og fjöldi manns flutti búferlum til Vesturheims. Guðmundur mótast í þessu umhverfi bjargálna bænda, húsbænda og hjúa, framþróunar verkmenningar og vísinda og þar sem trú manna á betra samfélag gat ekki beðið hnekki ef menn unnu af viti og bjuggu í haginn fyrir sig og sína.

Það var alls ekki sjálfgefið á þessum árum að synir vel búandi bænda færu til náms enda þurftu þeir þess ekki við, sér og sínum til lífsviðurværis. Þótt Guðmundur væri vel hagur eins og faðir hans hneigðist hugur hans snemma til bóka og hann var sendur í Lærða skólann. Til allra heilla fór Guðmundur utan til náms eftir stúdentspróf og í Kaupmannahöfn stækkaði sjóndeildarhring-urinn, hann kynntist nýjum hugmyndum og lifði í samfélagi sem var áratugum á undan Íslandi og þar gat hann skoðað íslenskt samfélag utanfrá.

Við heimkomu vorið 1894 varð Guðmundur héraðslæknir í Skagafirði og gat sér þar gott orð en reynsla hans af læknisstörfum í héraðinu varð til þess að hann fór aftur utan til frekari náms. Eftir vetrardvöl í Kaupmannahöfn varð hann læknir á Akureyri næstu 11 ár. Á Akureyrarárunum kom Guðmundur fram sem einn af máttarstólpum samfélagsins og þar steig hann mörg af sínum fyrstu skrefum í þeim málum sem hann varð þekkastur fyrir.

Guðmundur var bæði virkur og virtur læknir á meðan hann starfaði á Akureyri enda flutti hann með sér nýjungar sem báru góðan árangur þótt ytri aðstæður væru ef til vill ekki sem heppilegastar. Hann taldi mest um vert að læknirinn sinnti sínum læknisfræðilegu og samfélagslegu skyldum þótt yfirvöld stæðu sig ekki sem skyldi við að byggja sjúkrahús eða tryggja betri kjör. Guðmundur stofnaði félag lækna á Norður- og Austurlandi en sá félagsskapur var sennilega bara nafnið tómt þótt nafn þess væri tilgreint sem útgefandi á læknablaði sem Guðmundur gaf út á árunum 1902-1904. Læknablað Guðmundar kom út í þrjú ár, 8 blaðsíður og var allt handskrifað af honum sjálfum. Blaðið átti að efla samstöðu og fræðslu meðal lækna og verða upplýstum almenningi til gagns. Það kemur glöggt fram í skrifum Guðmundar í blaðinu að hann áleit vanþekkingu vera að hluta til heilbrigðisvanda-mál en með fræðslu og þekkingu undir forystu góðra manna væri hægt að bæta samfélagið til hagsbóta fyrir sem flesta. Haft er eftir Guðmundi að „góður læknir hafi ávallt tök á að skapa sér það umhverfi sem þarf til að gera það sem er nauðsynlegt til að bæta heilbrigði fólks.“ Hlutverk læknisins var ekki bara að skera upp sullaveika bændur og bregðast við slysum og áföllum heldur ekki síður að koma í veg fyrir slíkt með því að byggja upp heilbrigt samfélag. Margir læknar litu á það sem hlutskipti lækna og lækna-vísinda að gera samfélagið heilbrigt með félagslegum úrbótum enda ættu flestir sjúkdómar sér samfélagslegar orsakir.

Árið 1907 flutti Guðmundur til Reykjavíkur þegar hann varð héraðslæknir þar og kennari við Læknaskólann. Við stofnun Háskóla Íslands árið 1911 varð hann prófessor í líffærafræði og heilbrigðisfræði og sinnti nær eingöngu því starfi eftir það en hann hafði að mestu látið af skurðlækningum eftir að hann flutti suður. Lækningum Guðmundar var þó engan veginn lokið heldur voru þær bara með öðrum hætti en áður, í stað þess að beinast að tilteknum einstaklingi í hvert sinn snerust þær um að lækna þjóðina af þeim meinum sem hann taldi að stæðu henni einkum fyrir þrifum. Þær lækningar sem Guðmundur beitti til að lækna þjóðina voru stjórnmál, skipulagsmál og félagsmál lækna auk kennslu læknanema, og öll þessi atriði nálgaðist hann á grundvelli heilbrigðisfræðinnar, eins og hann skilgreindi hana.

Árið 1906 skrifaði Guðmundur greinaflokk um væntanlegt sjálfstæði Íslands og þar las hann mönnum pistilinn jafnframt því sem hann dásamaði land og þjóð. Hann taldi öll vandræði og eymd þjóðarinnar stafa af mönnunum sjálfum „Stefnufestan og kjarkurinn sigrar ætíð ef nokkur sigurvon er, bætir hag þjóða, breytir illum löndum í góð og gerir mennina frjálsa. Fátæklings-hugsunarhátturinn, stefnuleysið og kjarkleysi leiðir til vesaldóms og ósjálfstæðis. Þar sem hann ræður fellur allt í kaldakol, menntun, atvinnuvegir og frelsi. Hann skapar ánauð og ógæfu.“ Guðmundur var kosinn annar af tveimur alþingismönnum Húnvetn-inga árið 1914 en náði ekki kjöri í kosningunum 1916. Alþingi var honum ekki að skapi eftir það en hann taldi sig vita flestum betur hvernig stjórnkerfi ætti best við og skrifaði greinar um það fram á þriðja áratuginn. Guðmundur leit á þjóðarlíkamann eins og læknir sér sjúkan einstakling sem bara á eftir að hraka og deyja ef ekkert verður að gert.

Guðmundur var fyrstur manna til að stunda mannfræðirannsóknir 
og mannamælingar á Íslandi. Árið 1925 kom út, sem fylgirit með 
Árbók Háskóla Íslands, rit hans Körpermasze und körperproportionen 
des Isländer, og vakti það athygli víða um lönd. Hann mældi um 
1100 manns og tók allt að 35 málsetningum á hverjum einstaklingi. 
Með þessu vildi hann kanna helstu einkenni þjóðarinnar og rekja 
skyldleika við aðrar þjóðir.

Meginstefið í stjórnmálastefnu Guðmundar var nokkurs konar „goðastjórn“ og var þar vísað til goða sem réðu málum á fyrstu öldum Íslands en þeir voru „góðir menn“ sem stjórnuðu landinu í umboði fólksins. Hann var í sjálfu sér ekki á móti lýðræði og þingræði svo lengi sem almenningur veldi „góða menn“ sem hefðu vit á hlutunum þótt þeir væru ekki sammála um alla hluti. Guðmundur taldi að samfélagið væri spillt og illa stjórnað af misvitrum mönnum sem blekktu fólk með fagurgala og ranghugmyndum til þess eins að skara eld að eigin köku. „Góðir menn“ kæmust alltaf að réttri niðurstöðu sem flestum til hagsbóta eftir ítarlega skoðun og rökræður. Hann var að sjálfsögðu einn af þessum „góðu mönnum“ og í raun taldi hann samfélagið skipast í aðalatriðum í tvo hópa: hina vel vinnandi, upplýstu og heilbrigðu og hins vegar heimska og illa upplýsta letingja! Í framtíðardraumum hans um sjálfstæða þjóð voru eingöngu heilbrigðir og bjargálna einstaklingar en svipaðar hugmyndir voru uppi víða og þróuðust í sumum löndum í ómannleg samfélög. Viðhorf Guðmundar til hinnar heilbrigðu þjóðar koma einnig glögglega fram í mannfræðirannsóknum hans og afstöðu til ýmissa sjúkdóma en hann taldi að með réttri stjórn og góðu skipulagi væri hægt að lágmarka þann fjölda fólks sem væri til vansa fyrir heilbrigt samfélag.

Árið 1915 varð stórbruni í miðborg Reykjavíkur. Sama ár
kemur út rit Guðmundar um skipulagsmál þar sem heil-
brigði og fegurð eru sett á oddinn, sólarljós og gott loft 
og vatn: lágreist byggð, garðar í suður og hagkvæmt
skipulag íbúða.

Guðmundur var einn helsti frumkvöðull íslenskra skipulagsmála. Á meðan hann bjó á Akureyri stóð hann fyrir ýmsum framförum, þar á meðal byggingu nýs sjúkrahúss sem var þá eitt það fullkomnasta á landinu. Akureyri varð fyrir áhrif hans sem og fleiri góðra manna einn hreinlegasti bærinn í upphafi 20. aldar og hann sá til þess að skipulagsuppdráttur var gerður af bænum 1904, sem var sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi.

Þéttbýlismyndun hófst seint á Íslandi og flest þorp þróuðust hægt í bæi og einungis einn bær varð um síðir að borg. Þrátt fyrir að flestir gerðu sér grein fyrir mikilvægi bæja í þróun samfélagsins var einnig mikil andstaða við lífið í bæjunum. Talað var um „bæjarsollinn“ og í bæjum átti að þrífast fáviska, fátækt, heilsuleysi og siðspilling, svo fátt eitt sé nefnt. Ýmsir framámenn töldu að hinn sanni „þjóðarandi“ byggi í sveitinni þar sem hann væri ómengaður af erlendum áhrifum og læknar sýndu fram á með mælingum að börnin í sveitinni væru heilbrigðari en önnur börn. Þessi hugmyndafræði varð til þess að talið var æskilegt að senda börn í sveitina til að læra góða siði og rækta tengslin við þjóðarandann. Þá voru, og eru jafnvel enn, svokölluð meðferðarheimili höfð fjarri bæjarsollinum.

Í ritinu „Um skipulag bæja” sem kom út árið 1915 fjallaði hann fyrstur Íslendinga um skipulagsmál hér á landi með fræðilega og alþjóðlega yfirsýn. Guðmundur vakti athygli á samspili heilsu íbúana og umhverfis þeirra og lagði áherslu á loft og ljós í skipulagi byggða, hreinlæti, fagurfræði og aðgang íbúanna að landi og heilnæmum matvælum. Í lok 19. aldar og fram undir annan áratug 20. aldarinnar voru heilbrigðis- og skipulagsmál í mikilli gerjun víða um lönd til að leita úrbóta á slæmum aðbúnaði almennings í borgarsamfélaginu. Í byrjun voru heilbrigðismál sett á oddinn en skipulags- og byggingarmál urðu æ fyrirferðarmeiri enda nátengd lýðheilsu. Erlendar rannsóknir á heilsu, lífslíkum og dánartíðni við þröngar íbúðaraðstæður almennings bentu til þess að bætt borgarumhverfi leiddi til meiri lífsgæða. Læknar börðust víða fyrir úrbótum í umhverfismálum og áttu sér tvö kjörorð: loft og ljós. Þetta fól í sér hreinlæti, hreint vatn, öflugt skólpkerfi, rúm-
betri og bjartari íbúðir og ferskt loft. Í Reykjavík höfðu læknar bent á nauðsynlegar úrbætur varðandi vatnsveitu, húsnæði og úrgang en ekki sett þau mál í stærra samhengi.


Guðmundur var höfundur að skipulagi Þingholtanna milli Njarðargötu og Barónsstígs en 
það þykir einstaklega vel heppnað og standast tímans tönn. Skipulagið tekur mið 
af ríkjandi vindáttum, birtu, fagurfræði og heilbrigði.
Mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, ljósmyndari:  Sigurhans E. Vignir, tekin 1945-1947.

Guðmundur sat í skipulagsnefnd Reykjavíkur frá 1921 og vakti athygli á erlendum kenningum um lýðheilsu í borgum og ýmsa áhrifaþætti í hinu byggða umhverfi og tók mið af alþjóðlegum rannsóknum og staðfærði og aðlagaði niðurstöður að íslenskum aðstæðum og veruleika. Hann lagði áherslu á fagurfræði í fyrirkomulagi bæja og fyrirhyggju í skipulagi borgarhluta og mikilvægi garða. Hugmyndir Guðmundar voru á þann veg að byggðin skyldi vera þétt og samfelld en varaði við því að húsin væru of há, til þess að tryggja að allar vistarverur nytu sólar. Áherslan var lögð á samfellda, fremur lágreista íbúðabyggð, 2-3 hæða hús, gjarnan lítil raðhús með garðbletti til ræktunar og síðast en ekki síst aðskilnað íbúðar- og atvinnusvæða. Ein af nýjungunum sem hann setti fram var regla um skipan húsa á lóðir og legu gatna miðað við sólarátt og ríkjandi vindstefnu. Hann útskýrir hvers vegna sveigð gata sé fegurri en bein, þar sem húsaröðin lokar göturýminu og teikningar hans af gatnakerfi minna töluvert á æðakerfi. Guðmundur taldi að fagurfræði í mótun bæja væri jafn mikilvægur þáttur til þess að tryggja góða heilsu og vellíðan fólks og tæknileg atriði eins og veitukerfi og gatnagerð. Gott dæmi um skipulag frá hans hendi er hverfið milli Njarðargötu og Barónsstígs en það er að flestra mati vel heppnað og þykir standa sumum nýjustu hverfum á höfuðborgarsvæðinu framar um flesta þætti sem einkenna góða byggð. Áherslur hans sem frumkvöðuls borgar-skipulags á Íslandi fellur vel að þeim hugmyndum sem nú er haldið á lofti um áhrifaþætti heilbrigðis og lýðheilsu þjóða. Þar er lögð áhersla á samþættingu þjónustu, efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta til að styðja við heilsu íbúana.

Skrif Guðmundar voru grundvöllurinn að fyrstu löggjöf um skipulagsmál hér á landi sem sett var árið 1921 og árið 1927 var samþykkt skipulag fyrir Reykjavík sem Guðmundur átti drjúgan þátt í. Þannig hafði hann bein áhrif á allt skipulagsstarf í landinu auk þess sem áhrifa hans gætti við byggingu fjölmarga íbúðarhúsa út um allt land.

Af skrifum Guðmundar er ljóst að hann taldi nauðsynlegt að læknar ynnu saman til að miðla þekkingu og reynslu og vinna að hagsmunamálum sínum en ekki síður til að styrkja og bæta þjóðina. Landlæknir, Jónas Jónassen (1840-1919), boðaði til læknafundar árið 1896 með það að markmiði að stofna læknafélag og þar mætti Guðmundur með ýmsar hugmyndir í farteskinu sem ekki áttu upp á pallborðið hjá sumum öðrum fundarmönnum. Ekkert varð af félagsstofnun heildarsamtaka lækna. Læknar bjuggu vítt og breitt um landið, tilheyrðu yfirstétt samfélagsins, höfðu öruggar tekjur og gátu að mestu hagað vinnu sinni að vild. Það var í raun fátt sem kallaði á nauðsyn þess að stofna stéttarfélag fyrir lækna þar sem þeir höfðu greiðan aðgang að yfirvöldum. Það var ekki fyrr en utanaðkomandi aðstæður kröfðust þess að læknar stofna stéttarfélag.

Árið 1909 var Sjúkrasamlag Reykjavíkur stofnað að frumkvæði Oddfellowreglunnar en það var samlag „fullhraustra íbúa sem áttu skuldlausa eign og höfðu meðaltekjur“. Sjúkrasamlagið vildi  gera samninga við lækna fyrir hönd félagsmanna sinna í stað þess að semja við hvern og einn lækni og það kallaði á félagsstofnun lækna sem vildu vera í viðskiptum við samlagið. Stofnfundur Læknafélags Reykjavíkur gerði því lítið annað en að þeir læknar sem vildu stofna félagið, þeir voru alls níu, samþykktu gjaldskrá Sjúkrasamlagsins. Nær allir læknar voru í föstum störfum sem flest voru á vegum hins opinbera þannig að hér var verið að semja um aukavinnu þeirra. Guðmundur Magnússon (1863-1924) sem þá var kennari við Læknaskólann var fyrsti formaður félagsins en árið 1911 tók Guðmundur Hannesson við stjórnartaumunum og sat til ársins 1915 en var í stjórninni til ársins 1917. Fljótlega þróaðist starfsemi félagsins út frá þröngu hagsmunafélagi og á vegum félagsins voru haldnir ýmsir fræðslufundir um sjúkdóma og önnur læknisfræðileg efni. Líklegt má telja að hér hafi einkum gætt áhrifa Guðmundar Hannessonar sem jafnan taldi mikla þörf á að fræða og bæta samfélagið ekki síður en kollegana.

Árið 1915 hóf Læknafélag Reykjavíkur útgáfu Læknablaðsins sem komið hefur út óslitið síðan og tókst með því að halda úti fræðilegri umræðu og birta mikilvægan fróðleik um heilbrigðismál handa almenningi. Guðmundur hafði lengi haft hug á gefa út læknablað en það var Maggi J. Magnús (1886-1941) sem flutti erindi á fundi hjá læknafélaginu í febrúar 1914 „Um stofnun málgagns fyrir lækna og heilbrigðismál.“ Skipuð var undirbúningsnefnd og síðar kosin ritstjórn og í janúar 1915 kom fyrsta tölublað Læknablaðsins út. Menn voru samt ekki á eitt sáttir um það hvernig blaðið ætti að vera en voru hins vegar sannfærðir um að „alþýðlegt tímarit og læknarit fara ekki saman“. Ritstjórnarstefnan var ekki mótuð fyrirfram heldur mótaðist hún eftir því sem árin liðu og Læknablaðið varð blað fyrir lækna um læknisfræði, heilbrigðismál og stéttarmálefni en það þjónaði einnig upplýstum almenningi og stjórnvöldum. Fjárhagsgrundvöllur blaðsins var frá upphafi ótraustur og það reyndist ótrúlegur barningur að halda útgáfu þess gangandi. Eftir að Læknafélag Íslands var stofnað reyndi Guðmundur Hannesson að fá það til að annast útgáfu blaðsins en það tókst ekki þótt blaðið fengi nokkurn fjárstyrk frá félaginu.

Fullyrða má að útgáfa Læknablaðsins sem í upphafi var að stórum hluta verk Guðmundar Hannesson sem sat í ritstjórn á árunum 1915-1921, sé eitt mikilvægasta framlag til eflingar íslenskra heilbrigðismála á fyrri hluta 20. aldar. Blaðið hefur frá upphafi verið nær eini vettvangurinn fyrir fræðilegar greinar í læknisfræði og sem slíkt verið forsenda fræðilegrar umræðu og það gegndi veigamiklu félagslegu hlutverki þegar stéttarvitund lækna var í mótun. Þá skal ekki vanmeta þann mikilvæga þátt að miðla læknisfræðilegri þekkingu um heilbrigðismál, í víðasta skilningi þess orðs, meðal almennings. Með útgáfu Læknablaðsins urðu heilbrigðismálefni í samfélagsdeiglunni með faglegum hætti og með það að markmiði að efla samfélagið í heild.

Á fundi Læknafélags Reykjavíkur í nóvember 1916 var -kosin nefnd, Guðmundur Hannesson, Guðmundur Magnússon og Gunnlaugur Claessen (1881-1948), til að huga að stofnun heildar-samtaka lækna á Íslandi, en ekki þótti heppilegt að stækka Læknafélag Reykjavíkur enda var grunnur þess á öðrum forsendum. Í Reykjavík hafði vaxið upp stétt sjálfstætt starfandi lækna sem störfuðu á allt öðrum forsendum en embættislæknar víða um land. „Nú eru hér fleiri læknar en embætti eru til og eftir fáein ár verða sennilega embættislausir læknar víðsvegar um land. Við rekum okkur þá á samkeppnina, kosti hennar og lesti. Það verður vandlifaðra en áður …“ sagði Guðmundur Hannesson meðal annars í röksemdum fyrir stofnun heildarsamtaka lækna. Hagsmunir lækna sem stéttar voru grundvallarástæða fyrir stofnun félagsins en þau mál sem einkum brunnu á embættislæknum voru að sjálfsögðu kjaramálin, þar með talið endurmenntun, sumarfrí og læknisbústaðir, og ekki síður áreiti frá almenningi og yfirvöldum sem læknar töldu stundum að væru óþarflega afskiptamikil um þeirra störf.

Læknablaðið var hugarfóstur Guðmundar og fyrstu skrefin steig hann
norður á Akureyri með handskrifuðu blaði handa læknum. Í janúar
árið 1915 kom út fyrsta tölublað af Læknablaðinu og Guðmundur
var ritstjóri allt til ársins 1921. Hann lagði grunninn að blaðinu og kom því í
gegnum fyrstu árin með þrautseigju og atorku.
Blaðið hefur frá upphafi haft áhrif langt út fyrir raðir lækna.

Læknafélag Íslands var stofnað á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur 14. janúar 1918 og töldust stofnfélagar vera 39 þótt einungis hluti þeirra hafi getað verið viðstaddir fundinn. Læknafélag Reykjavíkur kaus fyrstu stjórnina en í henni voru Guðmundur Hannesson formaður en aðrir í stjórn voru Guðmundur Magnússon og Sæmundur Bjarnhéðinsson (1863-1936). Í lögum félagsins sagði að tilgangur þess væri að „efla hag og sóma íslenskrar læknastéttar, samvinnu meðal lækna í heilbrigðismálum þjóðarinnar og glæða áhuga lækna fyrir öllu er að starfi þeirra lýtur.“ Þá var einnig tekið fram, ef áhugi væri fyrir hendi meðal félagsmanna til þess að gefa út tímarit, ætti að kjósa ritstjórn til þess. Ekki skal á nokkurn hátt dregið úr þætti annarra nefndarmanna við gerð laga félagsins en hér eru áhugamál Guðmundar Hannessonar komin og ólíklegt annað en hann hafi komið þessu að.

Fyrsta aðgerð Læknafélags Íslands var að hóta fjöldauppsögnum lækna, eftir ítrekaðar málaleitanir, ef kjör þeirra yrðu ekki leiðrétt og var þetta í fyrsta sinn sem ýjað var að slíku sem baráttutæki í kjarabaráttu. Á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri geisaði óðaverðbólga en laun opinberra starfsmanna sátu eftir þannig að erfitt var með framfærslu hjá flestum opinberum starfsmönnum sem ekki höfðu búskap eða sjálfsaflafé. Stjórnvöld urðu við réttmætum kröfum lækna og fengu þeir í fyrstu svokallaða dýrtíðaruppbót en síðan voru launin hækkuð nokkuð. Áfram var þó gert ráð fyrir að heildarlaun þeirra væru að stórum hluta greidd af almenningi vegna læknisþjónustu og var af þeim sökum erfitt að manna læknishéruð víða um land. Kjaramálin voru lengi vel helsta baráttumál læknafélagsins en læknum var erfitt um vik þar sem þeir áttu yfirleitt ekki samleið með öðrum launþegafélögum. Annað mál sem læknafélagið tók föstum tökum voru embættisveitingar stjórnvalda en þar hefur löngum loðað við að önnur sjónarmið en hæfni ráði för. Læknafélagið hafði skýra stefnu í þessum málum og vildi alls ekki að almenningur fengi að kjósa lækni til starfa eins og stundum var gert með presta og það vildi að félagið fengi að tilnefna lækni í embætti og stjórnvöld ættu að fara að þeirri tilnefningu. Þegar til átti að taka voru embættisveitingar ekki eins auðveldar í meðförum og menn vildu vera láta og óljóst hverjir væru þess umkomnir að skera úr um hæfni manna. Guðmundur taldi það eitt af helstu markmiðum Læknafélags Íslands að koma í veg fyrir að almenningur og eða stjórnvöld færu að skipta sér af þeirra innri málum.

Guðmundur keypti lóð undir hús árið 1910 og stækkaði lóðina aðeins tveimur árum síðar en 
húsið var byggt á þeim árum. Húsið sem stendur nú á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu
er einlyft steinsteypuhúsmeð risi og byggt á kjallara úr grásteini. Að sjálfsögðu teiknaði
Guðmundur húsið og einnig viðbyggingu við Ingólfsstræti sem var byggð 1928. Þarna var
hugsað fyrir flestum atriðum sem þurfa að prýða gott einbýlishús. Í kjallara hússins var lengi
til húsa Röntgenstofa Gunnlaugs Claessen og í viðbyggingunni var um tíma læknastofa
Hannesar sonar Guðmundar. Í öllu húsinu eru nú veitingastaðir, pizzustaður sem heitir
ekki neitt og Dill.
Mynd: Hávar Sigurjónsson í nóvember 2014.

Þegar litið er yfir ævi og störf Guðmundar Hannessonar verður manni starsýnt á framsýni hans, fjölbreytta þekkingu og atorku. Hann lifði á miklum umbrotatímum í þjóðlífinu og uppgangstímum í vísindum og var fullgildur þátttakandi í hvoru tveggja. Guðmundur var framámaður og forgöngumaður um stofnun samtaka lækna og Læknablaðsins og kom hvoru tveggja til „nokkurs þroska“ þannig að sporgöngumenn áttu hægara um vik. Hann áleit að læknar hefðu skyldur langt út fyrir hefðbundið starf lækna. Læknirinn var að mati Guðmundar nokkurs konar velferðarvörður og læknir alls samfélagsins. Þessi viðhorf komu vel fram í kennslu hans í heilbrigðisfræði í Háskólanum en þar lét hann sér fátt mannlegt óviðkomandi og reyndi að virkja læknanema til þátttöku í því sem hann taldi skynsamlegast til að bæta samfélagið. Störf hans miðuðu öll að því að gera samfélagið betra og heilbrigðara þannig að sjálfstæði og velsæld þjóðarinnar yrði tryggt. Árangur af starfi hans er enn í fullu gildi.

Guðmundur (1866-1946) var sonur Hannesar Guðmundssonar bónda á Guðlaugsstöðum í Blöndudal og Halldóru Pálsdóttur. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum 1887, lauk læknisprófi frá Kaupmannahöfn í janúar 1894 og var skömmu síðar skipaður héraðslæknir í Skagafirði og sat á Sauðárkróki. Veturinn 1895-1896 var hann við nám í Kaupmannahöfn en fékk veitingu fyrir héraðslæknisembættinu í Eyjafirði 1896 og starfaði til ársins 1907. Hann varð héraðslæknir í Reykjavík 1907 og kennari við Læknaskólann í líffærafræði, yfirsetufræði og heilbrigðisfræði. Frá stofnun Háskóla Íslands 1911 var hann prófessor í heilbrigðisfræðum við læknadeild og gegndi því starfi fram í september 1936. Guðmundur var rektor HÍ 1914-1915 og 1924-1925 en á þessum tíma skiptust prófessorar skólans um að gegna embættinu. Hann gegndi embætti landlæknis veturinn 1921-1922. Guðmundur sat í stjórn Læknafélags Reykjavíkur nær samfleytt frá stofnun 1909 til ársins 1917, formaður 1911-1915, og í stjórn Læknafélags Íslands frá stofnun 1918 til ársins 1932, fyrsti formaður félagsins 1918-1924 og aftur 1927-1932. Hann var alþingismaður Húnvetninga árin 1914-1915 en náði ekki endurkjöri í kosningunum 1916.
Kona Guðmundar var Karólína Margrét Sigríður Ísleifsdóttir (1871-1927).



Þetta vefsvæði byggir á Eplica