11. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Lögfræði 11. pistill. Verkfall lækna
Miðað við stöðu mála þegar þessar línur eru ritaðar (22. október 2014), bendir fátt til annars en að boðuð verkföll lækna hefjist hinn 27. október. Eins og fram hefur komið eru verkföllin í þremur lotum, vikurnar 27. október til 6. nóvember, 10. til 20. nóvember og 8. til 11. desember. Ekki er um allsherjarverkfall að ræða heldur fara læknar á hverjum stað sem verkfall nær til hverju sinni í verkfall í tvo daga.
Í skilningi laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eru bæði Læknafélag Íslands (LÍ) og Skurðlæknafélag Íslands (SKÍ) stéttarfélög og sem slíkum er þeim heimilt að efna til verkfalla í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem lögin setja.
Í fyrsta sinn í sögunni hafa þessi félög boðað til verkfalla og voru þau samþykkt í báðum félögum með yfir 90% greiddra atkvæða. Samstaðan er því sterk meðal lækna þegar kemur að boðuðum verkfallsaðgerðum, enda telja þeir að þeir séu með þeim ekki eingöngu að stuðla að framgangni krafna sinna í kjaradeilu við ríkisvaldið heldur einnig að berjast fyrir framtíð heilbrigðisþjónustunnar.
En verkfallsréttur lækna er takmarkaður lögum samkvæmt. Þessi takmarkaði verkfallsréttur birtist í 5. tölulið 1. mgr. 19. gr. laganna þar sem segir að almenna verkfallsheimildin nái ekki til þeirra sem starfa við nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu. Takmörkunin birtist í því að fyrir 1. febrúar ár hvert skulu fjármála- og efnahagsráðherra og sveitarfélög, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár um þau störf sem falla undir takmarkanirnar á verkfallsréttinum. Nýjasta auglýsingin um slíka skrá er nr. 101/2014 og eftir henni verður starfað í komandi verkföllum.
LÍ og SKÍ hafa á síðustu árum lagt mikla vinnu í að fara yfir þessar skrár um störf sem falla undir takmarkanirnar á verkfallsréttinum. Þegar þessi vinna hófst að ráði fyrir réttum fjórum árum síðan var mönnun í verkfalli skv. eldri skrám víða svo mikil að hún var jafnvel meiri en á venjulegum vinnudögum. Svo mikil hefur fækkun lækna orðið frá hruni. Þá voru skrárnar ófullkomnar að því leyti að það vantaði víða að gera greinarmun á dagvinnu, vinnu á bundnum vöktum og gæsluvöktum. Þessi vinna hefur skilað því að skráin nr. 101/2014 er að meginstefnu til með mönnun sem samrýmist því sem tíðkast með mönnun á sjúkrahúsum um helgar og á öðrum frídögum. Í heilsugæslu er fyrirkomulagið með þeim hætti að einungis yfirlæknar eru í dagvinnu víðast hvar.
Áðurnefnd lög gera ráð fyrir því að í verkfalli starfi sérstök undanþágunefnd. Í nefndinni eiga sæti tveir einstaklingar, einn tilnefndur af stéttarfélagi og einn tilnefndur af ríkinu. Nefndin tekur afstöðu til undanþágubeiðna og eru ákvarðanir nefndarinnar endanlegar. Um starf nefndarinnar er fjallað í 20. gr. laganna, sem heimilar að kalla starfsmenn í verkfalli tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi.
LÍ hefur litið svo á að nefndinni sé einnig heimilt að veita undanþágur til að tryggja „nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu“. Sem dæmi má nefna að frá því að auglýsingin var birt í byrjun þessa árs hafa ýmsar breytingar orðið á heilbrigðisstofnunum landsins. Þannig sameinuðust allnokkrar heilbrigðisstofnanir hinn 1. október síðastliðinn. Mögulega hafa þær skipulagsbreytingar haft í för með sér að skráin tekur ekki mið af því skipulagi sem gildir verkfallsdagana. Í þeim tilvikum þarf að leiðrétta skrána og lítur LÍ svo á að það sé undanþágunefndinni heimilt, fallist hún á rök viðkomandi stofnunar fyrir breytingu frá skránni. Í þessum tilvikum þurfa stjórnendur viðkomandi stofnunar því að sækja um undanþáguna með rökstuðningi.
Það er mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að í verkfalli á eingöngu að sinna „nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu“. Í því felst að þeir læknar sem starfa, eiga þrátt fyrir verkfall ekki að ganga til daglegra starfa heldur einvörðungu sinna bráðatilvikum. Mikilvægt er þó í vafatilvikum að láta sjúklinga njóta vafans í þessu efni.
Það gefur auga leið að það verður talsverð röskun á heilbrigðisþjónustu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana meðan á verkfalli lækna stendur. Sem dæmi má nefna að bókuð viðtöl á heilsugæslustöðvum og göngudeildum sjúkrahúsa falla niður. Bókaðar valkvæðar aðgerðir falla niður. Fjölmargar spurningar um framkvæmd verkfallsins hafa vaknað í aðdraganda þess. LÍ hefur leitast við að svara þeim eins ítarlega og mögulegt er og birt afstöðu sína til þeirra á innri vef heimasíðu félagsins og vísast til hennar varðandi nánari upplýsingar.