11. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Við viljum öll starfa á Íslandi - segir Íris Ösp Vésteinsdóttir formaður FAL

Íris stendur í ströngu á þessu hausti þegar fyrsta verkfall lækna er skollið á. Hún segir áhuga hennar á réttindum sínum og kjörum hafi orðið til þess að hún bauð sig fram til ritara í stjórn FAL haustið 2012 og tók svo við embætti formanns nú í haust.


„Krafan sem ég heyri alls staðar í kringum mig er að grunnlaunin verði hækkuð, starfsaðstæður
bættar og vaktaálag minnkað,“ segir Íris Ösp Vésteinsdóttir formaður FAL.

„Ómar (Sigurvin Gunnarsson, fráfarandi formaður) lagði hart að mér að taka við formennskunni en hann hafði verið formaður í þrjú ár. Félagar innan FAL eru mjög breiður og ólíkur hópur, allt frá 5. og 6. árs læknanemum til reyndra deildarlækna. Það er himinn og haf á milli reynslu þessara einstaklinga og ég tel mikilvægt að formaður sitji ekki of lengi þess vegna,“ segir Íris.

Hún gegnir nú hálfri stöðu deildarlæknis á bráðadeildinni í Fossvogi og segir að það sé einn af fáum stöðum þar sem deildarlæknum bjóðist að gegna hlutastarfi. „Það hentaði mér reyndar ágætlega þar sem ég hef áhuga á vinnunni sem þar fer fram en þar sem ég er með innan við ársgamalt barn langaði mig ekki að taka að mér meiri vinnu tímabundið.“

Og þar með erum við komin að kjarna málsins sem er kjarabarátta lækna en Íris Ösp segir að hálf staða deildarlæknis í dagvinnu skili henni innan við 150.000 krónum eftir skatta svo það sé einmitt þess vegna sem hægt sé að vera í hálfu starfi á bráðamóttöku þar sem treyst er á að menn taki vaktir. „Og ég er svo heppin að maki minn er með ágætar tekjur svo þetta gengur upp hjá okkur. En þetta er ekki ástand sem maður vill lifa við til frambúðar og það breytist ekki nema kjör lækna verði bætt verulega.“

Hún dregur upp einfalda en skýra mynd af stöðunni sem blasir við hennar félögum í FAL á þessu hausti. „Við erum flest á aldrinum 27-35 ára. Við erum öll í þeirri stöðu að velta fyrir okkur sérnámi erlendis og viljum í rauninni flest starfa hér á landi í framhaldi af því. Okkar hlutverk sem leiðum þessa kjarabaráttu er að tryggja hag lækna þannig að þeir geti komið aftur heim að loknu sérnámi. Eins og staðan er í dag er það ekki hægt. Ef við skoðum hlutfall starfandi sérfræðinga hér á landi sem útskrifuðust frá læknadeild HÍ árin 2000-2004 eru það 37%. Hin 63 prósentin eru búsett erlendis þó allur þessi hópur hafi lokið sérnámi sínu. Við höfum í rauninni misst af þessum hópi því staðreyndin er sú að því lengur sem fólk býr erlendis, því minni líkur eru á að það flytji heim aftur. Ef farið er 20 ár eða lengra aftur í tímann er hlutfallið 70-80% Íslandi í vil. Kjör lækna hafa versnað til muna á undanförnum árum og þessar tölur staðfesta það. Á sama tíma bjóðast læknum mjög góð kjör og mun betri starfsaðstæður á hinum Norðurlöndunum.“

Í huga Írisar eru starfsaðstæður meira en bara steinsteypa, tæki og tól. „Það er líka mannaflinn, samstarfið og samráðið sem starfið verður að bjóða og að vera ekki endalaust á vakt. Við viljum öll að til staðar séu nægilega margir sérfræðingar í hverri sérgrein svo vaktabyrðin verði ekki óbærileg. Læknar á mínum aldri gera einfaldlega þá kröfu að fá tækifæri til að gera ýmislegt annað en vera læknir. Með því á ég við að við viljum vera foreldrar, makar, eiga tómstundir, stunda áhugamál, sinna félagslífi. Okkur finnst það vera mannréttindi að geta lifað af dagvinnu okkar. Læknar eru skilgreindir í kjarasamingum sem dagvinnufólk sem tekur vaktir og því bætast vaktirnar ofan á 40 stunda vinnuviku, en án vaktanna geta deildarlæknar ekki framfleytt sér. Laun okkar fyrir dagvinnu eru langt undir viðmiðunarmörkum velferðarráðuneytisins um framfærslu. Krafan sem ég heyri alls staðar í kringum mig er að grunnlaunin verði hækkuð, starfsaðstæður bættar og vaktaálag minnkað. Þetta helst sannarlega í hendur,  því með hækkun grunnlaunanna tel ég að fleiri læknar fáist til starfa og þar með minnki vaktaálag og starfsandinn batnar.“

Hún segir að lokum að í haust sé tækifæri stjórnvalda til að snúa þessari óheillaþróun við. „Ég vil ekki svara þeirri spurningu hvað við gerum ef ekki nást samningar. Ég vil einfaldlega ekki hugsa þá hugsun til enda. Hver læknir verður þá að taka afstöðu til sinnar framtíðar og ég tel líklegt að flestir muni greiða þeirri niðurstöðu atkvæði með fótunum. Það yrði líklega það versta sem hægt væri að gera íslensku heilbrigðiskerfi.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica