10. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr fórum Læknablaðsins 1915-2014. Aðalfundir LÍ 1919 og 1968

Öllum aðalfundum Læknafélags Íslands hafa verið gerð skil á síðum Læknablaðsins enda annað óeðlilegt. Fyrir tíma ljósritunarvéla, wordskjala og netpósta voru fundargerðirnar birtar í heild sinni í blaðinu, allar ályktanir tíundaðar og birtur listi yfir þátttakendur, málshefjendur og þá sem lögðu orð í belg, og málalyktir almennt.


Í júlíblaðinu 1919 er rakinn fyrsti aðalfundur LÍ sem haldinn var á sal Menntaskólans í Reykjavík 1. júlí sama ár, - og voru mættir 32 læknar. Málefni fundarins voru sumpart ekki ólík þeim sem hæst bar á aðalfundi félagsins í síðustu viku: launamál, Landspítalinn og heilbrigðisstjórn landsins, - auk annarra framsöguerinda um efni sem tilheyrðu þessum tíma: Læknabústaðir og sjúkraskýli, Embættisveitingar og embættisframi, Berklaveiki og varnir gegn henni, Samræðissjúkdómar.  Strax á fyrsta fundi er útnefndur heiðursfélagi: Ásgeir Blöndal. „Hann hefði fyrstur stungið upp á því, að læknar hér á landi mynduðu félagsskap með sér. – Samþykt.“

„Að læknafundi loknum fóru 25 læknar í bifreiðum suður fyrir Hafnarfjörð. Lánaði Þórður Edilonsson þeim túnið á búgarði sínum til afnota. Skemtu menn sér seinni hluta dagsins við ræðuhöld, söng og góðar veitingar. Veður var hið besta, og var förin hin ánægjulegasta í alla staði.“

Í desemberblaðinu 1968 er birt fundargerð aðalfundar LÍ 1968 sem haldinn var á Bifröst í Borgarfirði 22.-23. júní. Eftir flutning ársskýrslu og yfirferð yfir reikninga er stærsta málið á dagskrá bygging Domus Medica og fyrirkomulag á rekstri þess. Í ársskýrslunni kemur fram að 1968 eru gjaldskyldir félagsmenn í LÍ 244 talsins, læknar með íslenskt lækningaleyfi eru 381, þar 267 á Íslandi og 114 búsettir erlendis. Einn liður fundarins er um Læknablaðið:

„Ritstjóri Læknablaðsins hefur skýrt frá því, að auglýsingaverð hafi verið hækkað til þess að bæta fjárhag blaðsins, sem hefur verið bágborinn. Þá hefur verið um það rætt á stjórnarfundum L.Í. að auka útgáfu blaðsins og senda það flestum aðildarfélögum W.M.A. og fá í staðinn tímarit viðkomandi félaga. Eftir upplýsingum ritstjórnar Læknablaðsins mundi þessi útgáfuaukning verða of kostnaðarsöm. Blaðið er nú þegar sent allmörgum bókasöfnum víða í Evrópu, og það er einnig skráð í Index Medicus.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica