10. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

„Vonumst eftir ásættanlegri niðurstöðu" - segir Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar LÍ

Samninganefnd LÍ hefur fundað nokkuð þétt með Samninganefnd ríkisins undanfarnar vikur hjá Sáttasemjara ríkisins og kveðst Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar LÍ vonast til þess að niðurstaða fáist áður en langt um líður.


„Við ætlum okkur að ná fram okkar helstu markmiðum og þrátt fyrir bjartsýni erum við jafnframt
tilbúin með plan B ef samningar nást ekki,“ segir Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar
Læknafélags Íslands.

„Þetta leit ekki gæfulega út í byrjun þar sem okkur var einfaldlega boðin 2,8% grunnlaunahækkun yfir línuna og samninganefnd ríkisins leit ekki einu sinni á kröfugerð okkar. Það var því ekki um annað að ræða en vísa deilunni til sáttasemjara og í framhaldinu hafa viðsemjendur ljáð máls á því að semja á raunhæfari nótum.“

Sigurveig segir samningaferlið á því stigi að ómögulegt sé að nefna einhverjar prósentur eða launatölur. „Grunnkröfur okkar snúa að grunnkaupshækkunum og ýmsum leiðréttingum þar að lútandi. Þar er annars vegar um að ræða hluti sem hafa verið utan við grunnlaun og við viljum fá þar inn. Einnig ýmis atriði sem ágreiningur hefur staðið um; ólík túlkun á ákvæðum samninganna sem skapað hefur núning á milli launþega og vinnuveitanda. Þessu öllu viljum við skerpa á svo hafið sé yfir mismunandi túlkun. Þarna er um að ræða hvíldartímaákvæði, vaktahámark  á spítölunum og hámarksfjölda sjúklinga lækna innan heilsugæslunnar.“

Sigurveig segir ljóst að nýr samningur verði gerður til lengri tíma. „Ef við náum samningi á annað borð,“ segir hún og kveðst hóflega bjartsýn. „Viðsemjendur okkar gera sér fulla grein fyrir því að við svo búið má ekki standa. Markmið okkar er tvíþætt. Annars vegar að ná þannig samningi að læknar geti sæmilega vel við unað. Hins vegar verður þessi samningur að vera þannig að íslenskir læknar búsettir erlendis geti hugsað sér að koma heim. Í dag er ítrekað verið að auglýsa sérfræðilæknastöður og enginn sækir um. Stundum sækir jú einn um. Hvorugt er ásættanlegt. Bjartsýni mín varðandi ásættanlega niðurstöðu byggir á því að stjórnvöld gera sér ágætlega grein fyrir stöðunni sem blasir við. Og henni verður ekki snúið við nema með því að bæta kjör lækna og reyndar líka að bæta starfsaðstöðuna en okkar hlutverk í samninganefndinni er ekki að byggja nýjan spítala svo við einbeitum okkur að laununum.“

Þó ekki sé hægt að nefna prósentutölur á þessu stigi er ljóst að verið er að ræða hækkanir umfram þau 2,8% sem boðin voru í byrjun. „Annars værum við einfaldlega ekki að tala saman,“ segir Sigurveig. Hún kveðst vongóð um að niðurstaða liggi fyrir áður en langt um líður þar sem samningar annarra aðila vinnumarkaðarins verði lausir um áramót og í byrjun næsta árs og samninganefnd ríkisins því talsvert í mun að ljúka samningum við lækna svo hún geti snúið sér að öðrum. „Skyldi maður ætla,“ segir hún og bætir því við af festu að ekki verði samið bara til að semja. „Við ætlum okkur að ná fram okkar helstu markmiðum og þrátt fyrir bjartsýni erum við jafnframt tilbúin með plan B ef samningar nást ekki. Verkfall er vopn sem við viljum ekki beita nema við séum þvinguð til þess. En verkfallsrétturinn er til staðar og verkfall lækna myndi hafa veruleg áhrif á heilbrigðiskerfið, öll sjúkrahús landsins og heilsugæsluna einnig. Langtímaáhrifin á heilbrigðiskerfið ef ekki næst samningur núna yrðu þó versta afleiðingin þar sem læknar myndu eflaust flytja af landi brott í meira mæli en þegar er. Ungu læknarnir geta horfið með stuttum fyrirvara þar sem uppsagnarfrestur þeirra er aðeins einn mánuður. Staðan er því mjög alvarleg og við vonum í lengstu lög að niðurstaðan verði þannig að sem flestir geti sætt sig við hana,“ segir Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar LÍ.Þetta vefsvæði byggir á Eplica